22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í D-deild Alþingistíðinda. (2897)

47. mál, afurða- og rekstrarlán landbúnaðarins

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þáltill. sú á þskj. 48, sem hér er á dagskrá, er flutt af mér og átta öðrum hv. þm. Framsfl. Samhljóða till. til þál. var einnig flutt á síðasta þingi, en var þá ekki tekin á dagskrá, enda var þá mjög liðið nærri þingslitum, þegar till. kom fram. Á þessu þingt var hún hins vegar lögð fram 29. okt. í haust. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að ríkisbankarnir láti landbúnaðinum í té nauðsynleg lán móts við aðra atvinnuvegi þjóðarinnar, m.a. með því að kanna afurðalánavíxla vegna landbúnaðarafurða frá þeim fyrirtækjum, sem annast sölu þessara afurða, að því marki, að bessi fyrirtæki geti greitt bændum þegar við móttöku afurðanna það verð sem gert er ráð fyrir í verðlagsgrundvelli á hverjum tíma.“

Á nokkrum undanförnum árum hafa aðalfundir Stéttarsambands bænda rætt það vandamál, sem þessi till. til þál. gerir ráð fyrir að ríkisstj. beitt sér fyrir að leysa. Á stéttarsambandsfundi árið 1960 var samþykkt með shlj. atkv. svo hljóðandi till., með leyfi forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1960 telur nauðsyn á, að breytt verði um fyrirkomulag við útborgun á verði framleiðsluvara landbúnaðarins, þannig að bændur geti fengið mikinn hluta verðsins, ekki minna en 90%, útborgaðan við afhendingu vörunnar. Til þess að þessu marki verði náð, telur fundurinn nauðsynlegt, að verzlunarfélögum og mjólkurbúum verði tryggt rekstrarfé til þessara hluta og að kostnaður við það og áhættu við sölu vörunnar verði tekinn i dreifingarkostnaðinn við ákvörðun hans.“

Stéttarsambandsfundur 1962 ræddi þetta mál enn og gerði um það till., er samþ. var með shlj. atkv.till. gekk þó nokkru skemmra en sú, sem fundurinn gerði 1960. Till. frá 1962 er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Þar sem sölu og framleiðslu landbúnaðarvara er þannig háttað, að löng bið hlýtur ávallt að vera frá því að varan er afhent til sölumeðferðar og þar til endanlegt uppgjör fer fram, skorar fundurinn á stjórn Stéttarsambandsins að beita sér fyrir því við hlutaðeigendur, að tryggt sé, að veitt verði 70% lán út á verðmæti allra landbúnaðarvara.“

Á s.l. sumri var þetta mál enn til umræðu á aðalfundi Stéttarsambands bænda og var enn gerð um það till., er samþ. var með shlj. atkv.till. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Þar sem sívaxandi fjármagnsþörf í búrekstrinum gerir það stöðugt brýnna, að bændur fái hagstæðari rekstrarlán til þeirrar framleiðslu, sem aðeins skilar afurðum einu sinni á ári, og búvörurnar að mestu greiddar strax við afhendingu þeirra, þá telur aðalfundur Stéttarsambands bænda 1963 þá stefnu, sem fylgt hefur verið í þessum lánamálum síðustu árin, mjög rangláta og algerlega óviðunandi. Felur hann því stjórn Stéttarsambandsins að vinna ötullega að því, að Seðlabankinn tryggi fyrirtækjum þeim, sem búvöru kaupa af bændum, nægjanleg afurðalán til þess að gera þeim kleift að greiða 90% af verði þeirra við móttöku, og enn fremur, að rekstrarlánin verði á ný hækkuð upp í 67% af væntanlegu útborgunarverði til bænda. Vill fundurinn leggja sérstaka áherzlu á hina brýnu þörf, sem á því er, að leiðrétting þessara mála fáist.“

Þá vil ég einnig geta þess, að á aðalfundi Sláturfélags Suðurlands á s.l. vori flutti formaður félagsins, Pétur Ottesen fyrrv. alþm., till. um, að bankarnir veiti svo rífleg afurðalán, að bændur geti við afhendingu framleiðsluvara sinna fengið útborguð 90% af væntanlegu verði þeirra. Sú till. Péturs Ottesens var auðvitað samþykkt á fundinum.

Af því, sem ég hef hér stuttlega rakið, verður það ljóst, að bændur og þeirra fulltrúar telja afurðalánamálið eitt af þeim málum landbúnaðarins og bændastéttarinnar, sem nú beri mjög brýna nauðsyn til að leysa. Hér á Íslandi er litið á bændur sem launþega. Afurðaverð þeirra eða sá grundvöllur, sem það byggist á, er ákveðinn með lögum. Bóndanum eru í lögum ákveðin viss laun, sem eiga að vera, eins og í l. segir, í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Hvernig er það nú með þessar aðrar vinnandi stéttir og launþega yfirleitt? Bíða þessar stéttir lengi eftir því að fá laun sín greidd? Nei, laun eru yfirleitt greidd annaðhvort viku- eða mánaðarlega. Slíkt er ákveðið í öllum kaup- og kjarasamningum. Ekki er annað talið fært en að hafa þennan hátt á, því að fólk verður auðvitað að nota vinnulaun sín til þess að kaupa fyrir þau lífsnauðsynjar sínar. Í nágrannalöndum okkar, t.d. í Danmörku og Noregi, er mér tjáð, að bændur fái þegar í stað við afhendingu afurða sinna greitt Það verð, sem þeir eiga að fá t.d. ef bóndi kemur að morgni með sláturgripi í sláturhús sitt eða það sláturhús, sem hann hefur viðskipti við, þá fær hann, þegar varan hefur verið vegin og metin, það verð, sem honum ber. Mér er einnig tjáð af kunnugum mönnum, að í þessum löndum sækist peningastofnanir eftir því að hafa viðskipti við þær stofnanir bændanna, sem annast móttöku og sölu á afurðum þeirra, og þess vegna eru peningagreiðslur til bænda fyrir afurðir þeirra svona greiðar, eins og ég hef hér drepið á. Það mun vera reynsla peningastofnana yfirleitt víðast í heiminum, að viðskipti við bændur séu einna affallaminnst og öruggust og ættu þess vegna að vera æskileg frá sjónarmiði þeirra, sem hafa það starf að lána fé.

Búskapur bænda; svo að segja hvar sem er á landinu nú orðið, er háður daglegum viðskiptum. Mjólkin er send daglega til vinnslu- og dreifingarstöðva. Alls konar rekstrarvörur eru fengnar næstum daglega til búanna, svo sem kjarnfóður, eldsneyti, olíur, benzín, rafmagn, varahlutir í vélar, viðgerðir, efni til viðhalds húsum, lyf í skepnur og margt, margt, sem ekki er hér hægt upp að telja. Allt þetta þurfa bændurnir að greiða jafnharðan. Hinn nýi viðskiptabúskapur krefst þannig síaukinnar peningaveltu í stað þess, að áður fyrr, þegar ég og mínir jafnaldrar vorum að alast upp, voru svo að segja engar rekstrarvörur keyptar til búanna. Þá bjó hver að sínu að mestu leyti. Nú er sá tími liðinn og kemur væntanlega ekki aftur.

Hið nýja búskaparlag og framleiðsluhættir landbúnaðarins krefjast sífellt meira fjármagns í hinum daglega rekstri. Íslenzka bóndanum er það því alveg sama nauðsyn og stéttarbróður hans í öðrum löndum að fá jafnharðan og framleiðslan er afhent til vinnslu og sölumeðferðar það verð, sem honum ber að fá, svo að hann geti staðið í skilum, og að hann einnig fái notið sams konar réttinda í þjóðfélagi sínu eins og aðrir þegnar, að fá vinnu sína greidda jafnharðan. Þetta eru sjálfsögð mannréttindi, sem viðurkennd eru í verki gagnvart öllum nema bændunum.

Ég vil nú ekki efa, að það sé almennur vilji til að leysa þetta mál. Það kemur að sjálfsögðu á þeirra herðar, sem með völdin fara í þjóðfélaginu, að hjálpa til við lausn þessa máls, enda miðast þáltill. sú, sem hér er til meðferðar, við það, að ríkisstj. beiti sér fyrir því við peningastofnanir þjóðarinnar, ríkisbankana fyrst og fremst, að þeir taki höndum saman um að hjálpa til við, að bændurnir nái sama rétti til að fá laun sín jafnharðan greidd eins og aðrar stéttir hafa. Það getur vel verið, að einhverjum þyki of langt gengið með þessari till., þar sem það mark er sett, að bændur geti fengið allt verð framleiðslu sinnar greitt við afhendingu, en fundir bænda hafa ekki sett óskir sínar um þetta alveg svo hátt. Þeir hafa ekki farið hærra með sinar óskir en i 90% af vöruverði. Ég tel þó, að krafan hljóti að vera fullt verð við afhendingu. Hins vegar get ég búizt við því, að þessu marki yrði ekki í einu náð og kynni að verða að taka það í áföngum. Og vitanlega munum við flm. þessarar þáltill. fagna hverju því skrefi í átt að því rétta og nauðsynlega marki, sem náð verður.

Við flm. álitum, að það takmark, sem stefnt er að með flutningi þessarar þáltill., .sé einna mest aðkallandi og eitt af stærstu málum bændanna, bæði sem hagsmunamál og réttindamál, og ég er víss um, að allir réttsýnir menn viðurkenna, að svo sé. Ef tekst að koma greiðslum til bænda á afurðaverði þeirra í það horf, að þeir fái það að mestu eða öllu leyti svo að segja strax við afhendingu afurðanna, er stigið skref til jafnréttis bændanna við aðrar stéttir, en bændur geta ekki til lengdar öðru unað og búskaparhættir nútímans gera slíkt óumflýjanlegt.

Herra forseti. Ég tel, að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, og leyfi mér því að leggja til, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til athugunar í nefnd. Ég tel, að það væri eðlilegt, að það yrði í allshn. Og vildi ég óska eftir því, þar sem málið hefur nú legið alllengi hér fyrir Alþingi, að n. hraðaði afgreiðslu þess og það mætti fá afgreiðslu hér á þessu þingi.