20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

1. mál, fjárlög 1964

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 3. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf. nokkrar brtt., og ég ætla í örstuttu máli að gera grein fyrir þeim brtt., þar sem ég er 1. flm.

Þessar brtt. eru allar á þskj. 185 og hin fyrsta þeirra er undir II. tölul. Þar er lagt til, að framlag til Drangsness hækki úr 100 þús. kr. í 700 þús. Á Drangsnesi er bryggja alllöng, en þó ekki lengri en svo, að strandferðaskipin neita að leggjast að henni, vegna þess að aðstæður eru þar svo erfiðar, að þau telja það hættulegt, og hefur raunar komið fyrir slys út af því, að það hefur verið gert. Það þarf að lengja þessa bryggju um 12 m, en hún er 10 m breið, en kostnaður við það er 1.2–1.5 millj. eftir síðustu áætlun. Við leggjum til, að þessi fjárveiting, eins og ég sagði áðan, verði hækkuð úr 100 þús. í 700 þús. Svo mikið eiga Drangnesingar undir því, að þetta verði gert, að þannig er háttað málum þeirra nú, að þeir verða að aka öllum frystum fiski til geymslu í frystihúsið á Hólmavík, annars klukkutíma keyrslu, og geyma fiskinn þar nokkra daga, áður en skip koma til að taka hann, því að það er ekki hægt að skipa honum fram nema á bátum, og þeir eru ekki til lengur, og nú er yfirvofandi, að frystihúsinu verði lokað, því að á því er geysilegur rekstrarhalli, um 300 þús., og hallinn stafar að verulegu leyti af þessum flutningi á fiskinum inn til Hólmavíkur og mundi leiðréttast að verulegu leyti, ef hægt væri að skipa fiskinum út í skip, eins og á venjulegum stöðum, þar sem frystihús eru rekin.

Undir lið IV eru tvær brtt. Það er nýr liður, sem komi þar inn, Kaldrananes. Bryggjan á Kaldrananesi var byggð fyrir nokkrum árum, aldrei fullgerð. Fjárveiting hefur ekki fengizt í hana síðan, og þannig er málum háttað á þessum stað, að smæstu strandferðaskip fást ekki til þess að leggjast upp að bryggju, vegna þess að það vantar bryggjuhausinn, sem átti að byggja, en aldrei hefur fengizt fjárveiting í. Af þessum ástæðum, að bryggjan hefur ekki verið fullgerð, hefur hún tekið að liðast í sundur og skemmast, og viðgerð á því, sem búið er að byggja, kostar um 200 þús., en bryggjuhausinn um 300 þús. Meiri er nú ekki kostnaðurinn við það að gera þessa bryggju, sem er svo mjög mikið notuð og þarf að notast.

Undir sama lið, 2, er gert ráð fyrir bryggju á Norðurfirði. Gegnum Norðurfjörð er ein helzta samgönguæð Arneshrepps, sem er algerlega skilinn frá öðrum landshlutum vegna vegleysis, þó að þar sé flugvöllur, sem oft er ekki hægt að nota vegna snjóa, og þá er sjóleiðin einasta leiðin frá og að við flutninga og mannaferðir. Það er óhætt að segja það, að íbúar Arneshrepps hafa staðið sig betur í því að halda hreppnum í byggð heldur en flestir aðrir landsmenn, því að þar er næstum enginn bær í eyði. Og til marks um það, að það sé þeirra ákveðinn vilji, er það, að það var sendur ráðunautur einu sinni norður til þess að gera landmælingar og með honum var skáld eitt hér úr Reykjavík, sem er ónefnt, og skáldið lastaði svo mikið hreppinn, — að þeir hringdu suður til Búnaðarfélagsins og heimtuðu, að þessi maður væri kallaður þegar í stað burt, ráðunauturinn með þennan mann, sem væri að rægja hreppinn og telja mönnum trú um, að þeir ættu að flytja úr honum, og það var gert. Þeir eru ákveðnir í því að halda þarna byggð. Það var byggt upp myndarlegt kaupfélag á Norðurfirði, og næsta átakið, sem þeir ætluðu sér að gera, var að byggja þarna bryggju, ef fjárveiting yrði veitt til þess. Það er aðgrunnt þarna og bryggjan er um 80 m og kostar um 2 millj, eftir síðustu áætlun, og ég treysti þeim vel til þess að sjá fyrir fjármunum á móti þeim framlögum, sem ríkið kynni að vilja leggja af mörkum í þetta mannvirki. Þeir hafa byggt verzlunarhús, þeir hafa byggt frystihús núna nýlega og þetta er næsta átakið, sem þeir ætla sér að gera til þess að gera aðstæður betri og lífvænlegri í hreppnum. Við leggjum til, að í þetta verði lagðar 300 þús. kr.

Þá eru það ferjubryggjur undir VI. lið. Við leggjum til, að aftan við liðinn bætist: Þar af Óspakseyri 300 þús. kr. og Borðeyri 300 þús. kr. — Eins og nöfnin á þessum stöðum bera með sér, eru þessir verzlunarstaðir á eyrum, annar við Bitru- og hinn við Hrútafjörð. Hafnarskilyrði eru þar ágæt og hafnir á báðum þessum stöðum ágætar, enda Borðeyri einn þekktasti verzlunarstaður á landinu um langt skeið. En þar er engin bryggja á hvorugum staðnum. Verður að skipa öllum þungavörum, sem fluttar eru að, í land á bátum og því, sem flutt er út, á bátum að sjálfsögðu. En það eru engar líkur til þess, að þarna sé hægt að byggja bryggjur með venjulegu framlagi heiman að, því að það er of strjálbýlt og gjaldgeta of lítil til þess, að hægt sé að gera sér vonir um það, og þess vegna verða þessar bryggjur varla byggðar nema sem ferjubryggjur, enda er það réttlátt, að slíkt verði gert, þar sem komizt hefur venja á um hliðstæða hluti, hliðstæðar bryggjur, bæði við Breiðafjörð og við Djúp. Það hefur ekki verið gerð áætlun um bryggjuna á Óspakseyri. Hún er nokkru ódýrari en bryggjan á Borðeyri því að það er aðdýpra á Óspakseyri, en á Borðeyri er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn sé um 1 millj., svo að af því má sjá, að aðstæðurnar eru mjög hentugar. Við leggjum því til, eins og ég sagði áðan, að það verði veittar 300 þús. í ferjubryggju á hvorum stað.

Þá er brtt., sem ég flyt ásamt fyrrnefndum þm. við 22. gr. Það er XI. liður á þskj. 185, og þar er gert ráð fyrir, að ríkisstj. verði heimilað að taka 10 millj. kr. lán til vegagerðar á Vestfjörðum. Þetta kann nú að virðast svo, að það sé að bera í bakkafullan lækinn, þegar von er á svo miklum fjármunum í vegi, að bera fram þessa till. En ég vil, að alþm. geri sér það ljóst, að þessi till. er á allan hátt ekki aðeins réttlætanleg, heldur réttlát og nauðsynleg. Ef vegafénu verður skipt, eins og því hefur verið skipt á undanförnum áratugum, nokkurn veginn jafnt milli sýslna og kjördæma, þá leiðir það af sjálfu sér, að Vestfirðirnir verða ásamt Austfjörðum fyrir ranglæti, vegna þess að vegalengdir eru miklu meiri í þessum kjördæmum og vegna þess að vegastæði vegna brattra fjallgarða eru miklu verri en á öðrum stöðum. Af þessum tveimur ástæðum vinnst miklu minna af nauðsynlegum vegum í þessum kjördæmum heldur en í öðrum kjördæmum landsins, eins og skýrslur sýna og sanna, sem um þetta hafa verið gerðar. Það verður þess vegna að gera eitt eða tvö heildarátök til þess að jafna metin, og það verður ekki gert með fjárveitingu á fjárl. Ég þekki svo ósköp vel metinginn milli kjördæma. Það fæst aldrei í gegn vegna annarra kjördæma, að mismunur verði mjög mikill á fjárl. Þetta verður ekki gert nema með lántöku í eitt skipti eða oftar. Þess vegna leggjum við til, að ríkisstj. verði heimilað allt að 10 millj. kr. lán til vegabóta á Vestfjörðum.

Þá er það síðasta till., að ríkisstj. verði heimilað að verja úr ríkissjóði allt að 10 millj. kr. til þess að koma í veg fyrir fólksflótta og eyðingu byggða á Vestfjörðum. Þessi. till. er m.a. flutt af því tilefni, að á síðasta þingi fluttu tveir af þm. Vestf. þáltill. um það, að gerð yrði 5 ára framkvæmdaáætlun um stöðvun fólksflótta á Vestfjörðum. Og þessi till., sem þeir báru fram, var samþykkt. Það er gert ráð fyrir því, að áætlun, sem gerð er til þess að koma í veg fyrir fólksfækkun og fólksflótta frá Vestfjörðum, eins og það er orðað, skuli vera fullgerð fyrir áramót 1963. Eins og stendur hér, skal áætluninni lokið fyrir lok þessa árs og hún þá lögð fyrir Alþingi ásamt till. um fjáröflun. Ég veit, að Vestfirðingar gera sér töluverðar vonir um það, að árangur verði af þessari samþykkt. Það sýna samþykktir, sem þeir hafa gert, og þeir hafa þakkað þm. fyrir flutning þessarar till. En nú er áætlunin ekki til. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að áætlunin hljóti að verða til nú stuttu eftir áramótin, en þá þarf fé til þess að framkvæma þá áætlun, sem gerð verður. Og þess vegna er þessi till. flutt, þar sem hún kemur því til vegar, að ríkisstj., um leið og áætlunin um framkvæmdir til þess að koma í veg fyrir eyðingu byggða á Vestfjörðum verður tilbúin, eru heimilir fjármunir til þess að framkvæma það, sem áætlunin felur í sér, og má telja framhald af þessari þál, og alveg nauðsynleg tillaga.

Það er nú mikið talað um jafnvægi í byggð landsins, og ég skal ekki eyða tíma í að ræða það, þó að það væri nægt tilefni til að ræða, og ekki aðeins tilefni, heldur nauðsynlegt að ræða það. Menn kunna nú að segja sem svo, að það liggi ekki á að gera þessar ráðstafanir. En ég get fullvissað hv. þm. um, að það liggur á að gera þessar ráðstafanir, og ef þær eru ekki gerðar strax, verður það um seinan. Það er þegar verulegur hluti af Vestfjörðum kominn í auðn, og það verður langt þangað til það land verður aftur byggt. Ef menn vilja gera sér ljóst á einni svipstundu, hvernig ástandið er, þá geta menn séð það af hagskýrslum, að samkv. útreikningi Hagstofu Íslands um fólksfjölgun og raunar fólksfækkun um leið víðs vegar um landið er fækkun á Vestfjörðum á 30 seinustu árum 2756 eða 21%, en fjölgun í landinu á sama tíma er 71921. Meðan fækkar á Vestfjörðum um 21%, fjölgar í landinu um 64.5%. Og það er alveg bersýnilegt og vitað, að þegar svæði nálgast það að fara í eyði, verður alltaf erfiðara og erfiðara að halda þeim í byggð. Því meira sem byggðin grisjast, því erfiðara verður að halda landinu á þeim stað í byggð. Sést þetta greinilega á þeim stöðum, sem farið hafa í eyði í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það eyddist fyrst smátt og smátt, síðan skyndilega og svo eftir örstuttan tíma að fullu. Og þetta er það, sem er að ske á Vestfjörðum. Þó þarf ekki undan því að kvarta, að Vestfirðingar leggi ekki sinn skerf í þjóðarbúið, því að þar er meira framleitt af verðmætum á hvern einstakling heldur en nokkurs staðar annars staðar í landinu. Það stafar ekki af því, að náttúran sé sérstaklega gjöful þar, en það stafar meira af því, að þar vinnur fólkið meira við framleiðslu heldur en víða annars staðar.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að þessi till., sem ég hef nú mælt fyrir síðast, verði samþykkt ásamt þeim, sem ég hef minnzt á áður.