22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í D-deild Alþingistíðinda. (2900)

47. mál, afurða- og rekstrarlán landbúnaðarins

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Mér fannst nú hæstv. landbrh. setja sig í einhvers konar varnarstöðu hér, Þegar hann var að svara ræðu minni. Ég hafði ekki deilt neitt á hann og ekki heldur á ríkisstj., heldur hef ég lagt málið hlutlaust fyrir og rakið ástandið, eins og það hefur verið á undanförnum árum. Mér er vel kunnugt um það, og það vita allir, að þetta hefur svo gengið um langan tíma, að bændur hafa ekki talið sig fá afurðir sínar greiddar nógu fljótt. En það er hins vegar staðreynd, að þeir fengu meiri afurðalán, áður en þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þrátt fyrir það. Þótt í mörgum tilfellum hafi tekizt að kría út víxla í bönkum til þess að hjálpa upp á sakirnar í mörgum tilfellum.

Hann segir, hæstv. ráðh., að heildarafurðalánin hafi hækkað, og það mun rétt vera. en á þessu tímabili hefur bara framleiðsluaukningin orðið gífurlega mikil. Vegna þeirrar miklu vélvæðingar, sem orðið hefur í landbúnaðinum á undanförnum árum, hefur heildarframleiðsluaukningin orðið gífurlega mikil.

Hann minntist á tekjur bænda og skýrði frá nokkru um Það og nefndi nokkra flokka, það mætti skipa bændum í nokkra flokka um laun þeirra, þrjá eða jafnvel fjóra flokka. Ég ætla að segja honum frá ástandinu í einni sveit, þar sem ég er vel kunnugur, hvernig það var árið 1962, hvernig tekjur bænda voru þar það ár. Það var sveit ein á Suðurlandi, þar sem ég hef góðan aðgang að skjölum öllum, er varða framtöl manna. Í þeirri sveit voru það ár 38 bændur samtals. Það ár gerði verðlagsgrundvöllurinn ráð fyrir því, að meðalbrúttótekjur bænda væru 211 þús., og þá var þeim ætlað að hafa afgangs 86 þús. kr. í sitt kaup. En í þessari sveit, þar sem ég ætla nú að skýra frá tölum um þetta, var ástandið þannig, að þetta ár, 1962, höfðu bændurnir 290 þús. kr. tekjur að meðaltali. Þeir voru sem sagt 80 þús. kr. ofan við þetta meðaltal, sem verðlagsgrundvöllurinn gerir ráð fyrir. En í gjöldin fóru 211 þús., þar með talin vaxtagjöld og fyrningar af húsum. Eftir voru 80 þús., sem bóndinn átti að hafa í framfærslueyri fyrir sig að meðaltali í þessari sveit. Ég hygg, að þessi hreppur, sem ég er hér að segja frá, sé með meiri framleiðslusveitum, það sé einhver mesta meðalframleiðsla þar, sem um getur, a.m.k. á Suðurlandi, og útkoman varð þessi, að þrátt fyrir það, að þessir bændur höfðu haft um 104 þús. kr. meiri brúttótekjur en gert var ráð fyrir í verðlagsgrundvelli að meðaltali, að þeir hefðu, þá höfðu þeir ekkert haft upp úr því að hafa þessar 104 þús. fram yfir, því að þeir voru fyrir neðan verðlagsgrundvöllinn í kaupgjaldi þrátt fyrir þetta. Þannig er nú þetta ástand. Og sannleikurinn er sá, að þessi viðskiptabúskapur, eins og hann er í dag, krefst alveg gífurlega mikils fjármagns, daglegs fjármagns, má segja, því að eftir því sem tæknin eykst og þægindin aukast, þá krefst þetta því meiri útgjalda daglega, og þess vegna er enn þá meiri nauðsyn nú en áður var, að bændur geti fengið sem mest af afurðaverði sínu greitt strax.

Ég sagði það í minni frumræðu hér áðan, að ég byggist við því, að þessu marki, að hægt væri að greiða bændum allt sitt vöruverð strax við afhendingu vörunnar, yrði ekki náð nú þegar. Ég geri ekki ráð fyrir því, þótt till. geri ráð fyrir, að stefnt skuli að slíku, heldur gerði ég ráð fyrir því, að þetta yrði að taka í nokkrum áföngum, það mundi ekki nást í einu. Og ég fyrir mitt leyti geri mig fyllilega ánægðan með það, ef tekst að ná þessu marki nú á nokkrum næstu árum.

Ráðh. taldi míg ekki mundu hafa réttar upplýsingar um það, að danskir og norskir bændur fengju sínar afurðir greiddar þegar við móttöku. En ég get náttúrulega sagt það, sem satt er, að ég hef ekki sjálfur kannað það mál, heldur fer ég þar eftir upplýsingum frá stofnun, sem ég tel mjög merka og sé fært að hafa eftir. En þar var mér tjáð þetta og það með, að þetta gerðist vitanlega á þann hátt. að það væru lánastofnanir þar í landi, sem lánuðu stofnunum bændanna, svo að þær gætu fengið sínar vörur greiddar þegar við afhendingu.

Ég efa það ekki, eins og ég sagði í minni frumræðu, að hæstv. landbrh. hefur vitanlega áhuga á að leysa málið. Ég læt mér ekki detta annað í hug, og hefur aldrei dottið annað t hug. En ég veit, að það eitt dugir ekki til. Það þarf að vera almennur áhugi fyrir því hjá þeim valdhöfum, sem nú sitja að völdum í landinu, og þeir þurfa allir að leggjast á eitt með það og margir aðilar að koma til samstarfs um það, að þetta takmark náist. Og ég vil alls ekki draga í efa, að það sé almennur vilji til að gera þetta, en það þarf að beita sér með dugnaði í þessu máli. Og þessi till. okkar er fram borin til þess að herða á valdhöfunum í því að beita sér fyrir þessu.