22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (2901)

47. mál, afurða- og rekstrarlán landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er mjög litið vit í þessari till., eins og hún er orðuð frá fyrstu hendi, því að það er talað um að skora á ríkisstj. að láta ríkisbankana lána landbúnaðinum fé móts við aðra atvinnuvegi þjóðarinnar. En það er vitað, að sjávarútvegurinn líður jafnmikið fyrir rekstrarfjárskort og landbúnaðurinn, og iðnaðurinn fær ekki lán út á sínar afurðir, svo að í sjálfu sér er þessi till., eins og hún liggur hér fyrir, algerlega einskis virði og til engra úrbóta fyrir landbúnaðinn, þótt eftir henni væri farið. Og ég skil ekkert í Gísla mínum Guðmundssyni að athuga þetta ekki. En það er allt annað atriði og kemur þessu máli út af fyrir sig ekki við, ef ætti að ræða um skort á rekstrarfé til atvinnuveganna án tillits til þess, hvernig þessi till. er orðuð.

Sannleikurinn er sá, að það er furðulegt, hvað ríkisstj. hefur haft lítinn skilning á rekstrarfjárþörf atvinnuveganna. Það væri sannarlega gaman að láta þessa herra reka frystihús og vita, hvernig þeir færu að því, hvort þeir væru ekki í einhverjum smárekstrarfjárskorti. Ég hef talað við stærri frystihúsin hér í bænum, og þau segja mér, að rekstrarlánin, séu þau fáanleg úr Seðlabankanum, nægi aðeins fyrir hráefni. Þá eru eftir öll vinnulaun og allur rekstrarkostnaður við frystihúsin, viðhald þeirra og annað. Hvernig eiga aumingja mennirnir að fara að? Það getur skeð, að sumir þeirra geti farið í banka og fengið aukalán, og aðrir geta haft það eins og mér er sagt, að einstaka útgerðarmenn geri, að þeir segi: Ef þið lánið mér ekki, getið þið tekið við öllu saman. — þeir fá peninga þannig. En það er staðreynd að fjöldi af þessum frystihúsum fær enga hjálp og getur þess vegna alls ekki staðið í skilum við þá, sem þau kaupa síldina og fiskinn af.

Það er einkennilegt með þessa hæstv. stjórn, að þó að krónan lækki og verðlag allt hækki, þá hafa þeir aldrei skilið, að það þurfi fleiri krónur, til þess að hægt sé að reka atvinnuvegina. Og þeir spyrja: Hvar á Seðlabankinn að taka þetta? Ég vil bara benda á, að þeir eiga að stöðva innkaup á skipum og á bílum, sem við getum komizt af án, og takmarka vörukaupalán og skuldir. Það eru 7—8 hundruð millj., sem við skuldum fyrir slíka hluti erlendis. Og ef þessar skuldir lækka eða væru engar til, mættu innstæðurnar líka lækka. Ég lýsti því um daginn, að þetta er eins og að ausa vatni í botnlausa tunnu, það rennur jafnóðum úr henni. Þótt Seðlabankinn píni inn peninga og eigi innstæður ytra, ef þeim er jafnóðum eytt fyrir hluti, sem við getum sparað, þá er það einskis virði. Það er eins og þegar einn bóndi í minni sýslu fór og tók víxil, borgaði svo lausaskuldir sínar og sagði kunningja sínum, að hann væri orðinn skuldlaus. Það er ámóta blekking í þessari innstæðu og hann blekkti sjálfan sig á því, að hann væri hættur að skulda, þó að hann væri búinn að hefja nýtt lán og borga einhverjar lausaskuldir, sem hann var í. Þessar innstæður eru i raun og veru blekking. Við skuldum fyrir þær. Við skuldum fyrir skip, við skuldum fyrir bíla, við skuldum vörukaupalán, við skuldum fyrir mikið af innstæðunum. Ég hef alltaf álitið, að við þurfum að eiga innstæður, en það er að blekkja sig að þykjast eiga miklar innstæður og skulda álíka upphæðir í tiltölulega stuttum lánum. Enginn veit, hvernig á stendur, þegar þarf að fara að borga.

En svo get ég bent á annað. Það er verið að tala um, að bændum sé lánað mikið út á afurðir. Það er staðreynd, að kaupfélögin fá seint og illa rúmlega 50% út á afurðirnar, eins og þær eru um áramótin, — þau fá það. En í minni sýslu er kjötkg borgað á 30 kr., en endanlegt verð er áætlað 36. M.ö.o.: það eru borgaðir þarna 5/6 hlutar af kjötverðinu. Og hvar haldið þið, að kaupfélagið taki peningana? Það tekur þá af sínu eigin rekstrarfé. Um síðustu áramót, — það er lítið félag, sem ég verzla við, tiltölulega lítið, — um þau áramót var kaupfélagið búið að lána af sínu eigin rekstrarfé 8 millj. til að jafna muninn á milli lánsins: sem var tekið í bankanum, og þess, sem framleiðendunum var greitt. Þetta veldur því, að fyrirtækið er í vandræðum. Þetta leysir engan vanda. Einhvers staðar verða kaupfélögin að fá þetta. Annaðhvort bindur þetta lánsfé við viðskiptamenn þeirra eða þá skuldirnar vaxa,lausaskuldirnar í bönkunum. Það er nefnilega það, sem hæstv. ríkisstj. verður að skilja, það leysir engan vanda að reka öll innanlandsviðskipti í hnút, en hafa aftur algerlega eftirlitslaus innkaup utanlands frá, eins og nú er að mestu. Það eru engin vandræði leyst með því.

Hæstv. landbrh. var að tala um, hvað afurðalánin væru hærri nú en í fyrra um áramót. En hæstv. ráðh. gleymir alveg vörubirgðunum. Það er t.d. stórkostleg aukning á smjörbirgðum, og það er meira en lítið fjármagn, sem liggur í því. Ég hygg, að það liggi eins mikið fjármagn í auknum smjörbirgðum og í allri aukningunni, þannig að kaupfélögin eða sláturfélögin hafa ekkert fengið meira út á þessar birgðir. Hitt er svo annað mál, að við þurfum að reka okkar búskap af meiri hagsýni en gert hefur verið. Það er ekkert nema vitleysa að framleiða miklu meira af mjólkurafurðum en við þurfum að nota innanlands. Við eigum vitanlega að framleiða sauðfjárafurðir, því að þær eru verðhærri miðað við framleiðslukostnað, og í öðru lagi eigum við að reyna að gera þær verðmeiri en þær eru, og það getum við með auknum iðnaði, alveg tvímælalaust. Ástæðan fyrir því, að framleitt er of mikið af mjólk og of lítið af sauðfjárafurðum, er alveg tvímælalaust sú, að undanfarin ár hefur verðið á sauðfjárafurðum ekki verið hlutfallslega eins hagstætt og á mjólkurafurðum. Þennan verðjöfnuð þarf að laga. Við þurfum að reka búskapinn á sem hagkvæmastan hátt fyrir þjóðfélagið. En þegar verið er að halda ræður hér um landbúnaðinn eins og hæstv. viðskmrh. gerði um daginn og skrifa greinar eins og bændakennarinn á Hvanneyri gerir, þá geta bændur afar lítið lært af slíkum prédikunum og hætta að hlusta á þær. Það er staðreynd, að við þurfum að leggja höfuðáherzlu á framleiðslugreinar þeirra búgreina, sem er hagkvæmast að framleiða fyrir þjóðarheildina, og það eru sauðfjárafurðir, en ekki mjólkurafurðir, hvað útflutning snertir. Ég er alveg víss um, að það má reka sauðfjárbúskapinn á hagkvæmari hátt en gert er. Við getum dregið úr mjólkurframleiðslunni með því að draga úr fóðurbætisgjöfinni, og ég hef oft bent bændum á það og reynt það sjálfur, að þessi mikla fóðurbætisgjöf handa mjólkurkúnum er bara barnaháttur, Það er bara stritið, sem bóndinn hefur upp úr því. Þegar hann fær svipað fyrir mjólkurlítrann og kg af fóðurblöndu, þá borgar þetta sig ekki og dýrustu lítrarnir eru síðustu lítrarnir, sem kýrin mjólkar, það er staðreynd. Bændur hafa yfirleitt miðað of mikið við brúttótekjur, en lagt of lítið upp úr nettótekjum.

Hvað sem þessu öllu líður, þó að við þurfum að reka okkar atvinnuvegi á margan hátt hagkvæmar en gert hefur verið og við eigum mikið eftir að læra í því efni, þá er það staðreynd, að rekstrarfjárskorturinn þrengir svo að atvinnulífinu í dag, að það horfir til stórra vandræða, og má mikið vera, ef margir af nýtustu mönnunum hrökklast ekki beinlínis frá því að sýsla við þá hluti, af því að þeir geta aldrei um frjálst höfuð strokið vegna rekstrarfjárskorts. Það er ómögulegt fyrir menn að leggja sig í það að vera sífellt í peningavandræðum fyrir aðra.

Það gladdi mig að heyra það hjá landbrh. í lok ræðu hans, að hann sagði, að það væri á dagskrá að auka lán til atvinnuveganna. Hann sagði, að það væri á dagskrá hjá stjórninni. Það er mjög ánægjulegt að heyra það, og ég vona, að ríkisstj. fari nú að skilja það betur héðan af en hingað til, að það er ekki hægt að reka atvinnuvegi, án Þess að þeir hafi fjármagn, og það verður að taka tillit til þess, þegar verðlagið er sífellt að hækka. Ríkisstj. hlýtur að skilja það, að þá þurfa atvinnuvegirnir að hafa fleiri krónur í veltunni.