20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

1. mál, fjárlög 1964

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. gaf okkur þm. hér áðan nokkra kennslustund í þjóðfélagsfræði og hvernig ætti að stjórna þjóðfélagi, og hljótum við að sjálfsögðu að vera honum mjög þakklátir fyrir. Hann benti okkur á, að það yrði að hafa stjórn á öllu þjóðfélaginu og þjóðarbúinu og sérstaklega hafa fasta og sterka stjórn á fjárfestingunni í landinu.

Vitanlega er það ljóst, að til þess að vel gangi í þjóðfélaginu og jafnvægi haldist í efnahagsmálum, sem að sjálfsögðu er skilyrði fyrir eðlilegri og stöðugri þróun í þjóðfélaginu, eru það fyrst og fremst að mínu áliti þrír liðir, sem þarf að hafa vakandi auga á og allir þurfa að verka saman. Það er fjármálastefna ríkisins, það er stefnan í banka- eða peningamálum, eins og það er kallað, og það er stefnan í launamálum. Ef öll þessi atriði eru samræmd á skynsamlegan hátt, eins og sums staðar hefur tekizt, er þess að vænta, að þjóðarbúinu vegni vel og stöðugar og eðlilegar framfarir eigi sér stað og lífskjör fari batnandi. En ef einhver af þessum þrem þáttum mistekst eða gengur úr skorðum, er viðbúið, að jafnvægið gangi úr skorðum og margs konar truflanir verði á framfarasókn þjóðarinnar.

Varðandi fyrsta atriðið, fjármálastefnuna, er það að sjálfsögðu Alþingi og ríkisstj., sem hana verða að marka, bæði um tekjur ríkisins og gjöld þess. Það verður að sjálfsögðu að hafa þá í huga, hvernig atvinnuástandið er í landinu. Skynsöm ríkisstj. og þing gætir þess auðvitað, að þegar mikil er atvinna í landinu, þá forðast ríkið að auka stórum um leið sínar framkvæmdir og reynir þá heldur að leggja til hliðar til þess að geyma til mögru áranna, þegar óáran, atvinnubrestur, verðhrun eða markaðstap veldur því, að atvinna á hinum almenna markaði dregst saman. Þetta er eðlilegt og sjálfsagt lögmál, og í þessu sambandi má geta þess, að núv. ríkisstj. hefur sýnt lit á þessu með því nú á þessu ári að leggja til hliðar 100 millj. kr. í jöfnunarsjóð ríkisins, sem einmitt er ætlaður til þess að geymast, þangað til kann að harðna í ári, og verja þessu fé þá til þess að auka atvinnu. Ekkert er því fjær lagi og fjær sanni heldur en þegar hv. 3. þm. Reykv. kallar þessa ráðstöfun ekki aðeins frystingu og geymslu á peningum borgaranna inni í Seðlabankanum, heldur hefur nú yfir vísupart eftir Bólu-Hjálmar um, að

„fémunir þá fátæks manns,

fúna í ríkra sjóði“,

og hann virtist eiga við m.a. þessi framlög í jöfnunarsjóð ríkisins, þessar 100 millj., þar séu nú þessir auðkýfingar og þeirra stofnanir að láta fúna í sínum sjóði fémuni hins fátæka manns. Ég sagði, að ekkert væri fjær sanni, vegna þess að þetta fé, sem þannig er lagt til hliðar, er einmitt fyrst og fremst varasjóður verkamannsins og annarra launþega, til þess ætlaður, að hægt verði að grípa til hans til þess að auka og örva atvinnuna, þegar að því kemur, sem í flestum þjóðfélögum kemur fyrir öðru hverju, að af einhverjum óviðráðanlegum ástæðum dragist atvinna saman. Til þess eru þessir fémunir ætlaðir.

Annar liðurinn, sem er nauðsynlegt að samræma í stjórn þjóðarbúsins, er banka- eða peningapólitíkin. Og að mínu viti þarf henni að vera þannig hagað, að fyrst og fremst sé hún undir stjórn sjálfstæðs seðlabanka, sem hefur eftirlit og umsjón með þeim málum. En eins og seðlabankalögin Íslenzku frá 1961 taka fram, er ætlazt til þess, að Seðlabankinn hafi um sín mál náið samstarf og samráð við ríkisstj. á hverjum tíma til þess að reyna eftir föngum að samræma stefnuna í bankamálum við stefnuna í fjármálum ríkisins. Vitanlega þurfa bankarnir að hafa svipuð sjónarmið í þessum efnum, og þegar of mikil eftirspurn eða meiri eftirspurn, skulum við segja, er eftir vinnuafli heldur en framboð og hætta á þenslu og verðbólgu, þá verður bankapólitíkin að sjálfsögðu að vera sú að reyna heldur að halda að sér höndum um útlán, en reyna svo að auka þau, ef nauðsyn krefur, til þess að auka atvinnuna og atvinnulífið í landinu.

Þetta er auðvitað hverjum manni augljóst mál, og það er furðulegt, að hér á Alþingi skuli heyrast raddir um það, eins og heyrist hér svo ákaflega oft frá Framsfl., að þegar öllum vitanlega er miklu meiri eftirspurn en framboð eftir vinnuafli, yfirborganir og kapphlaup um vinnuaflið, þá um leið eigi ríkissjóður og bankar að auka framlög og lán til framkvæmda í landinu. Þetta stangast svo á við alla heilbrigða skynsemi, að það tekur engu tali.

Þriðji liðurinn, sem ég nefndi að þyrfti auðvitað að vera samræmdur hinum tveimur, fjármála- og bankapólitíkinni, er svo launapólitíkin. Og vitanlega væri það æskilegast, að samtök launþega og atvinnurekenda semdu um þau mál á þeim grundvelli, að kaupgjald í landinu yrði á hverjum tíma í samræmi við gjaldþol útflutningsatvinnuveganna. Vitanlega er það æskilegast og ætti að vera svo, ef allir meginþættir efnahagslífsins eru í lagi og samræmdir, að þjóðin gæti bætt sín lífskjör nokkuð á hverju ári. Það er stundum talað um hagvöxt, aukningu á þjóðarframleiðslu, þjóðartekjum, aukna framleiðni. Ef hér væri allt með felldu og sæmilegt jafnvægi og samræmi í öllum þessum aðgerðum, á slíkt að geta orðið og nokkur umbót í lífskjörum manna að geta átt sér stað á hverju ári. Við höfum þess dæmi um þetta frjálsa þjóðskipulag, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur ekki ýkjamikla trú á, þess eru dæmi, að öll þessi þrjú meginatriði, fjármála- og bankapólitíkin og launapólitíkin, eru það vel samræmd, að það þjóðfélag býr við vaxandi velmegun, einhver beztu lífskjör, sem þekkjast. Það má nefna sem dæmi eitt af Norðurlöndunum, Svíþjóð. Þó að þar fari sósíaldemókratar með völd, hafa þeir ekki innleitt þar sósíalisma. Þeir hafa að sjálfsögðu framkvæmt margvíslegar félagslegar umbætur á kjörum fólksins. En þar er þessum meginlögmálum fylgt, að gæta þess að hafa samræmda stefnu í fjármálum, peningamálum og launapólitík. Og þannig er það svo, að hin frjálsu samtök launþega og atvinnurekenda fylgjast nákvæmlega með því á hverjum tíma, hvað getur framleiðslan, hvað getur iðnaðurinn, hvað geta útflutningsatvinnuvegirnir í Svíþjóð borið án þess að raska jafnvæginu og án þess að stofna til þenslu og verðbólgu? Og þess vegna gerist það ár eftir ár í þessu ágæta landi, sem stundum er nefnt velferðarríkið, að þar er samið um kauphækkun, sem nemur kannske 2%, 3%, þetta er það algengasta, stundum eru samningar gerðir til eins árs og stundum til 2 ára, allsherjarsamningar fyrir öll félög launþega og atvinnurekenda í einu og með gildistíma hinum sama. Stundum kemur það fyrir, að það er mat þessara aðila, þessara mjög svo ábyrgu aðila, sem eru í forustu fyrir báðum samtökum, að þjóðarbúið þoli ekki kauphækkun þetta árið, og ég ætla t.d., að nú sé það mat þessara aðila, að ýmiss konar lagfæringar og tilfærslur og leiðréttingar á samningum séu réttmætar og nauðsynlegar, en heildarlaunahækkun sé ekki til hags þjóðinni í heild né launþegunum.

Því miður höfum við Íslendingar ekki borið enn gæfu til þess að koma á slíkri samræmingu milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, slíkri samræmingu, sem nauðsynleg er milli þessara þriggja meginþátta í efnahagslífinu. Ég skal hér ekkert rekja, hverjum það er að kenna. Ég nefndi það, að ríkisstj. hefði sýnt þó lit á því í þessu ástandi mikillar eftirspurnar og þenslu að leggja fyrir til mögru áranna, leggja í þennan varasjóð verkamannsins. Það má vel vera, að ríkisstj. hefði átt að gera meira, að hún hefði, þegar henni var ljóst, hvert stefndi, átt að fresta einhverjum opinberum framkvæmdum eða draga úr þeim til þess að eiga sinn þátt í því að draga úr þenslunni. Það má vel vera, að bankarnir hefðu líka átt að draga úr sínum útlánum til þess að reyna að draga úr þenslunni. Það er líka ljóst, að samtök vinnuveitenda og launþega hafa hér ekki þau sömu sjónarmið og t.d. í Svíþjóð, sem ég minntist á. Hér hefur það ekki enn fengizt fram, að þessi samtök sameiginlega afli sér nákvæmra, hlutlausra upplýsinga um það, hvað þjóðarbúið þoli, og miði sína samninga um kaup og kjör við það. Við skulum vona, að okkar þjóðfélag stefni í þessa réttu átt, þó að ekki hafi tekizt að koma því á enn.

Hitt er svo alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. segir, að ef ekki eru nægilega samræmdir allir þessir þættir og sérstaklega ef ekki er höfð stjórn á fjárfestingunni, eins og hann talar um, þá skapast margir erfiðleikar. Og ég er honum alveg sammála um, að það er hægt að bæta úr þessu og það er ein ákveðin leið, sem ég veit að hann fylgir og er sannfærður um að sé rétt, og það er að hafa stjórnina á þessu öllu saman undir einum og sama hatti. Þar er auðvitað fyrirmynd Sovétríkin og önnur kommúnistísk eða sósíalistísk alþýðulýðveldi, eða hvað þau nú heita, víðs vegar um heim. Þar er því svo fyrir komið, að undir stjórn hins alvalda, einvalda kommúnistaflokks er á einni hendi, undir einum hatti stjórnað fjármálum ríkisins, skattamálum og útgjöldum, peningamálum og bankamálum og ákvörðun launa. Ákvörðun launa er alveg eins og öll önnur völd þar vitanlega í höndum ríkisins, þ.e.a.s. stjórnar kommúnistaflokksins, og ekki nóg með það, heldur eru verkföll bönnuð og lagðar við þungar hegningar sem landráð og svik gegn alþýðulýðveldunum, ef nokkur dirfðist að leggja út í slíkt. Ég segi, með því að sameina þannig á eina einræðis- og harðstjórnarhönd yfirstjórn allra þessara þriggja meginþátta: launamála, bankamála eða peningamála og svo í þriðja lagi fjármála ríkisins, er hægt að halda jafnvægi í þjóðfélaginu. En spurningin er þá: Vilja Íslendingar eða aðrar vestrænar þjóðir, sem búið hafa við frelsi og elska frelsið, fórna frelsinu til þess að tryggja jafnvægi í þessum málum með þessum hætti. Ég er viss um, að það vilja Íslendingar ekki. Þeir vilja heldur búa við hið frjálsa þjóðskipulag, hið frjálsa athafnalíf, þá að þar komi öðru hverju upp örðugleikar, þegar ekki er nægilegt samræmi milli þessara þriggja meginþátta efnahagslífsins. Þegar svo þar við bætist, að það er sýnilegt öllum, sem kynna sér þau mál, að þetta jafnvægi, friður, stöðugleiki, skulum við segja, í hinum sósíalistísku alþýðulýðveldum, sem náðst hefur með einræðinu, hefur hins vegar ekki megnað að skapa þjóðunum, hvað þá verkamönnunum, lífskjör neitt á borð við það, sem tíðkast í hinum frjálsu þjóðskipulögum, hvers vegna ættu menn þá að sækjast eftir slíku, þegar í þessum löndum, sem búa við þennan skipulagða þjóðarbúskap, fer hvort tveggja saman, svipting frelsisins og lakari lífskjör.

Ég held, að við Íslendingar eigum að reyna að halda frelsinu í okkar athafnalífi. Og um leið og ég veit og viðurkenni, að það er nauðsynlegt að hafa hemil á fjárfestingu, þegar þensla eða verðbólga er fram undan, þá vil ég þó ekki, að það sé gert með sama hætti og ég held að hv. 3. þm. Reykv. hugsi sér, þ.e.a.s. með valdboðum, með lögum, með því, að menn þurfi að sækja um leyfi til fjárfestingar, eins og hér tíðkaðist um margra ára skeið, með öllum þeim örðugleikum, sem því fylgja. Sem betur fer var það eitt af verkum núv. stjórnarflokka að afnema þessi fjárfestingarákvæði, þannig að menn gátu um frjálst höfuð strokið og þurftu ekki að sækja. um leyfi til hvers sem þeir vildu byggja. Vitanlega hefur þetta frjálsræði í för með sér ýmsar hættur, og það er bent á verzlunarhallir, sem byggðar séu hér og þar og eigi þátt í því að setja efnahagslífið úr skorðum. Þetta má vel vera, og þess vegna þarf einmitt að reyna að hafa hemil á fjárfestingunni og halda henni innan eðlilegra marka með öðrum ráðum en boðum og bönnum og leyfum. Og það er hægt að gera það á margvíslegan hátt, m.a. að sjálfsögðu með réttri beitingu stefnunnar í banka- og peningamálum. Það eru mörg fleiri ráð, sem þar koma til greina. En leyfin, boðin og bönnin held ég, að við ættum að forðast.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér, — og það voru orð hans og þessi kennslustund, sem hann gaf okkur í þjóðfélagsfræðum, sem gaf mér tilefni til þessara hugleiðinga, — en hann sagði enn fremur, að þjóðfélagið íslenzka þyldi nú ekki aðeins 15% kauphækkun, ekki 30%, heldur a.m.k. 100% kauphækkun. Og þetta veit ég að hv. þm. meinar, að Íslenzka þjóðfélagið þoli a.m.k. 100% kauphækkun. Ég ætla, að öll launaútgjöld hjá íslenzku þjóðinni séu nú um það bil 7000 millj. á ári. 100% kauphækkun til jafnaðar þýddi þá, að 7000 millj. yrðu settar á einu ári til viðbótar út í þjóðfélagið. Hvað það þýðir, getur náttúrlega hver sem er gert sér í hugarlund.

En þegar hv. þm. beinir því til mín og varar mig við því að halda því fram, að verkamenn, sem krefðust kauphækkunar, væru að skapa verðbólguna, þá er þetta ákaflega mikill misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi haldið þessu fram. Og það gefur mér tilefni til þess að minnast á það, að það hefur einmitt verið stefna ríkisstj., síðan hún tók til starfa, að vinna að því, að einmitt láglaunafólkið gæti fengið kjarabætur, gæti fengið launahækkanir, sem ekki þyrftu að ganga nákvæmlega að sama skapi yfir allt þjóðfélagið og yrðu þar að engu, eins og reynslan sýnir. Á undanförnum tveim árum hefur ríkisstj. hvað eftir annað beint því til forustu Alþýðusambandsins að stuðla að því og taka höndum saman við okkur um það að reyna að tryggja hinum lægst launuðu og þá fyrst og fremst verkamönnum raunhæfar kjarabætur, án þess að sú sama prósenta eða bætur, sem þeir fengju, þyrftu að ganga yfir allt. Alþýðusambandsstjórnin hefur verið til viðræðu um þetta og taldi sig ekki hafa samkv. skipulagi Alþýðusambandsins möguleika á því eða vald til þess. Nú reyndi á þetta hinar síðustu vikur. Ríkisstj. lagði fram sínar till., sem voru byggðar á því að tryggja raunhæfar kjarabætur til handa þeirri lægst launuðu. Þetta er auðvitað ekki hægt, ef sama kauphækkunarprósenta á að ganga yfir allt þjóðfélagið. Ég verð að játa, að það olli ekki aðeins furðu okkar, heldur vonbrigðum, að foringjar stærstu verkamannafélaganna, eins og Dagsbrúnar og Einingar á Akureyri, skyldu þverneita að fallast á þessa stefnu um að tryggja verkamönnunum og hinum lágt launuðu eitthvað meira en öllum hinum. Þeir gerðu þegar í upphafi bandalag við allar aðrar stéttir, sem stóðu í samningum, stéttir, sem margar hverjar hafa miklu hærra kaup og betri lífskjör heldur en verkamenn, bundust samtökum við þau um það, að þeir væru ekki til viðtals um annað en að sú sama hækkunarprósenta, sem verkamenn fengju, skyldi ganga yfir allar hinar stéttirnar. Ég verð að segja, að mér er óskiljanleg sú þjónusta við verkamenn og hina láglaunuðu, sem kemur fram í þessu, því að það er öllum mönnum vitanlegt, að um leið og þessi sama kauphækkun gengur yfir allt þjóðfélagið, er hún orðin að engu. Það sýnir reynslan, og það staðfesti hv. 3. þm. Reykv. rækilega í sinni ræðu, þar sem hann benti á þróunina allt frá 1947, að allar kauphækkanir, sem orðið hafa á þessum tíma, hefðu ekki bætt kjör verkamannanna. En því miður var það svo, að þessi hv. þm., sem löngum hefur verið mikill alþýðuleiðtogi, kom hér fram með dálítið svipuð sjónarmið, sem vöktu mjög mikla furðu mína.

Ég hafði gert hér niðurgreiðslurnar að nokkru umtalsefni og varpaði því fram, að niðurgreiðslu á vöruverði mætti ekki gera að einhverri trúarjátningu, sem ekki mætti endurskoða eða blaka við, heldur væri rétt að rannsaka þetta ofan í kjölinn, benti m.a. á það, að hátekjumenn og stóreignamenn fá sömu niðurgreiðslu á einingu af öllum þessum vörutegundum, og hvort það væri ástæða til að halda því áfram að moka þannig fé til þeirra úr ríkissjóði og hvort ekki væri mögulegt að nota þetta fé, sem gengur til niðurgreiðslu handa hátekjumönnum, til þess að bæta kjör þeirra láglaunuðu. Hver eru svör hv. 3. þm. Reykv., hins ágæta alþýðuleiðtoga um áratugi? Þetta vill hann ekki. Hann segir: Látið þið þetta bara haldast, þó að þeir ríku fái að njóta niðurgreiðslnanna líka. — Er þetta m.ö.o. alveg samræmd stefna hjá Alþb., að neita því, að verkamenn megi fá meiri kauphækkun en aðrir, neita því, að fátæku fjölskyldurnar megi fá niðurgreiðslu eða slíka hjálp, nema þeir ríku fái það líka.

Hv. þm. og fleiri minnast hér á fjölskyldubæturnar í þessu sambandi og segja: Hálaunamennirnir fá fjölskyldubætur, ef þeir eiga börn, alveg eins og hinir. — Og þetta er rétt. Ég fyrir mitt leyti er mjög gagnrýninn á þetta skipulag, og ég tel, að við eigum að breyta þessu. Í því sambandi vil ég minnast á það, af því að hér hefur verið minnzt bæði af mér og fleirum á rasjónaliseringu, og hv. 3. þm. Reykv. taldi, að við ættum ekki að vera að rasjónalisera eitt og eitt fyrirtæki og atriði, heldur þyrfti að rasjónalisera allt þjóðfélagið. Ég skal nú benda honum á eina umbót, eina rasjónaliseringu, sem ég held að eigi að vinna að. Við höfum hér fjölskyldubætur, sem eiga fyrst og fremst að hjálpa þeim, sem eru barnmargir. Við höfum hér í okkar útsvarslögum frádrátt á útsvari fyrir hvert barn. Við höfum í tekjuskattslögum sérstakan persónufrádrátt miðað við börn. Og við höfum niðurgreiðslur á vöruverði, sem í meginefnum eru auðvitað miðaðar við það að hjálpa þeim fátækari og þeim barnmörgu. En er í rauninni ekki allt þetta eitt og hið sama, þegar það er kannað niður í kjölinn, og væri það ekki athugandi að reyna að sameina alla þessa fyrirgreiðslu þjóðfélagsins, sem fyrst og fremst á að miðast við þá fátækari og barnafjölskyldurnar, e.t.v. sameina þetta: fjölskyldubætur, barnafrádrátt í útsvörum og tekjuskatti og niðurgreiðslur, undir eitt, þannig að það kæmi raunverulega lágtekjumönnum og barnafjölskyldum fyrst og fremst til góða, en rynni ekki til hátekjumanna, sem ekki þurfa á því að halda? Mér hefur virzt, að hér væri vissulega verkefni fyrir hagsýslu og rasjónaliseringu. En mér eru það nokkur vonbrigði, að hv. þm. skuli taka svona ábendingu um það, að rétt sé að athuga þetta atriði í sambandi við niðurgreiðslurnar, hvort ekki sé hægt að verja betur því fé, sem fer gegnum niðurgreiðslurnar til hátekjumannanna, sem ekki þurfa á þeim að halda.

Hv. þm. virtist skilja ræðu mína svo, að ég hefði boðað hækkun á söluskatti. Ég minntist ekki á það mál. Ég sagði, að þær miklu launahækkanir, sem hefðu orðið nú og væru í uppsiglingu, kölluðu á ýmsar efnahagsaðgerðir eftir áramótin. Ég minntist ekki á neina skatta í því sambandi. En þetta gaf hv. þm tilefni til þess að ræða nokkuð um söluskatt, sem hann sagði að þýddi verðbólgu, og hann orðaði þetta mjög vel, að maður uppsker verðbólgu, þegar maður sáir söluskatti. Og þá dettur mér annað í hug. Í því þjóðskipulagi, sem hann dáir mest, hinum svokölluðu alþýðulýðveldum, er það einhvern veginn svo einkennilegt, að þar er tekjuþörf ríkisins fyrst og fremst fullnægt með sölusköttum. Það eru fyrst og fremst tollar eða álagning innflutningsfyrirtækja í höndum ríkisins eða söluskattar. Þetta er náttúrlega allt mjög svipað, þetta eru skattar af neyzluvörum almennings, hverju nafni sem þeir heita. En það er vitað mál, að í Sovétríkjunum er yfirgnæfandi meiri hl. af öllum tekjum ríkisins fenginn með slíkum söluskatti. Að vísu er það rétt, að söluskattsálagningin og innheimtan í Sovétríkjunum og alþýðuveldunum skapar ekki verðbólgu. Þó að þeir sái þar söluskatti, uppskera þeir ekki verðbólgu, vegna þess að þeir hafa á einni hendi alla stjórnina á öllum þáttum efnahagslífsins og ekki aðeins það, heldur hafa á þeirri sömu hendi líka ekki aðeins lögregluna, opinbert og leynilega, heldur líka dómsvaldið til þess að tryggja það, að þau öfl séu nægjanlega fljótt tekin úr umferð, sem kynnu eitthvað að æmta eða skræmta.

Hv. 3. þm. Reykv. komst hér mjög skemmtilega að orði. Eftir að hann var búinn að dásama það, hvað ríkisvaldið þyrfti að hafa miklu meiri afskipti af borgurunum í þjóðfélaginu eins og við vitum að er hans draumsýn, þá minntist hann á eitt af sínum uppáhaldsefnum, sem heitir Framkvæmdabankinn og hann taldi nú botnlanga í þjóðfélaginu með sívaxandi meinsemd og skemmd. Og svo orðaði hann þetta svo skemmtilega: Framkvæmdabankinn er látinn halda lífi. Þessi botnlangi er ekki skorinn í burtu. — Svo bætti hann við: Svona er ríkisvaldið. Þegar búið er að koma einni vitleysu inn í það, hangir hún þar árum saman og endalaust. — Þetta er ákaflega rétt lýsing, því miður, þetta er allt of algengt. En þegar maður hefur nú þessa miklu meinsemd og ágalla á allt of sterku og víðtæku ríkisvaldi í huga, sem hv. 3. þm. Reykv. lýsti svona vel, þá er ekki víst, að menn verði svo sérstaklega boðfúsir í það að auka stórkostlega þetta ríkisvald og ekki aðeins auka það, heldur gera einn aðila, hinn alvalda, einráða flokk öreiganna, kommúnistaflokkinn, einvaldan yfir öllum þáttum ríkisvaldsins.

Hv. 1. þm. Austf. og hv. frsm. 1. minni hl., 3. þm. Vesturl., gerðu nokkur atriði úr ræðu minni hér áðan að umtalsefni. Í rauninni svöruðu þeir harla litlu meginatriðum í ræðunni, og skal ég láta mér nægja örfá svör til þeirra.

Ég hafði gert nokkurn samanburð á útgjöldum ríkisins 1958 og fjárlagafrv. fyrir 1964, eins og það væntanlega verður. Og nú halda þeir því báðir fram, að sá samanburður sé rangur og villandi, vegna þess að ég miði við ríkisreikninginn 1958, en fjárl. væntanlegu fyrir 1964. Ég skal skýra frá því, hvers vegna ég geri þetta. Ég geri það af þeirri einföldu ástæðu, að það liggur fyrir, hver urðu hin raunverulegu útgjöld ríkisins á árinu 1958. Þegar þau liggja fyrir í ríkisreikningi, hvaða rök mæla þá með því að vera að miða við áætlun um útgjöldin, sem fjárlögin eru. Vitanlega er sá rétti samanburður 1958 að taka útgjöldin eins og þau urðu. Varðandi árið 1964 er það ekki hægt af skiljanlegum ástæðum. Það verður auðvitað að miða við áætlunina, meðan árið er ekki á enda. Varðandi þennan samanburð að öðru leyti hafa hv. þm. ekki réttar tölur til viðmiðunar frá árinu 1958, jafnvel þó að þeir miðuðu við fjárlög fyrir það ár, vegna þess að við útgjöld fjárl. virðast þeir aðeins bæta útgjöldum vegna niðurgreiðslu innanlands á vöruverði, en sleppa útgjöldum vegna útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir, sem þá voru greiddar að vísu af útflutningssjóði, en nú eru greiddar úr ríkissjóði og á því að hafa hér til samanburðar. Þegar við tökum fjárlagaútgjöldin ásamt niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum landbúnaðarvara, urðu útgjöldin 955 millj. á árinu 1958, ekki 882 millj., eins og segir í nál. Framsfl. Ef við tökum ríkisreikninginn, munar þetta 130 millj. og verða þá 1084 millj. eða um það bil. Hv. frsm. 1. minni hl. vitnaði í bókina Viðreisn, sem ríkisstj. gaf út á sínum tíma, bls. 31, og þar segir á bls. 31: „Það hefur áhrif á afkomu ríkissjóðs, ef útflutningssjóður leggst niður og ríkissjóður verður að taka við þeim niðurgreiðslum á innlendum vörum, sem útflutningssjóður hefur staðið straum af undanfarin tvö ár. Þessar niðurgreiðslur eru áætlaðar 265 millj. árið 1960. Á móti þessu kemur, að ríkissjóður losnar við að greiða framlag til útflutningssjóðs. Það nam 152 millj. árið 1959. Hrein útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna afnáms útflutningssjóðs nemur því um 113 millj, kr.“ Þetta vitnar hv. þm. í, og þetta er alveg rétt tilvitnun, rétt hjá honum og rétt í bókinni Viðreisn. En bara það, sem skakkar, er, að við erum að bera saman árin 1958 og 1964, en þessi tala, 113 millj., er um breytinguna frá árinu 1959 til 1960 og kemur því ekkert þessu máli við.

Hv. þm. Framsfl. hafa mótmælt þeim ummælum mínum, að hafa yrði í huga, þegar rætt er um hækkanir fjárl., að 1960, þegar efnahagsaðgerðirnar voru samþykktar, hefði þessi flokkur, Framsfl., ef hann hefði orðið við völd áfram, að sjálfsögðu hækkað skatta og álögur á landslýðnum. Hv. frsm. 1. minni hl. sagði, að þetta væri þvert á móti staðreyndum, því að Framsfl. hefði viljað fara út úr uppbótaleiðinni í áföngum. Hvað er nú til í þessu? Það er ljóst, að 1960 var Framsfl, andvígur afnámi uppbótakerfisins, vegna þess að hann lagðist á móti öllu, sem var nauðsynlegt til þess að nema það úr gildi. Hann var á móti því að leiðrétta gengið, hann var á móti vaxtahækkuninni, og hann var á móti öðrum aðgerðum á sviði peningamála og fjármála, sem voru undirstaða þess, að hægt væri að afnema uppbótakerfið gamla. Þetta kom líka allt saman fram í ræðum og nál. Ég skal t.d. vitna í nál. 2 minni hl. fjhn. Ed., Karls Kristjánssonar, um frv. um efnahagsmál í febr. 1960. Þar segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Þá efnahagserfiðleika, sem við er að fást á líðandi stundu, telur Framsfl. að hægt sé að leysa án þess að grípa til grófra aðgerða. Hann telur, að þetta megi vel takast með því að draga nokkuð úr fjárfestingu, sem getur að skaðlitlu beðið um stund, og með því einnig að auka skattlagningu á eyðslu, sem ekki er nauðsynleg.“ M.ö.o.: þarna voru ráðin þau, ef ráð skyldi kalla, annars vegar að draga úr verklegum framkvæmdum, og kemur það náttúrlega allvel heim við boðskapinn nú, og hins vegar með því að auka skattlagninguna. Ég held, að það þurfi í rauninni ekki frekar vitnanna við um, að þetta var stefna Framsfl. þá og kom fram, þá sjaldan hægt var að knýja hann til þess að gera einhverja grein fyrir stefnu sinni, en vitanlega var honum það örðugt, því að stefnan var svo óljós í huga framsóknarmanna sjálfra.

Hv. 1. þm. Austf. spurði og krafðist svars, hvort stjórnin ætlaði að minnka niðurgreiðslurnar. Ég var búinn að svara þessu í minni fyrri ræðu. Ég svaraði því, að þegar fjárlfrv. var samið, var gert ráð fyrir, að niðurgreiðslur yrðu minnkaðar á árinu 1964, og við það er fjárlagafrv. miðað. Þegar efnahagsmálin í heild koma til meðferðar nú eftir áramótin, verður að gera það upp við sig: Eigum við að minnka niðurgreiðslurnar þannig, að upphæðin í fjárlögum nægi, eða á að halda niðurgreiðslunum, og þá þarf að gera ráðstafanir til fjáröflunar í því skyni? Það verður einnig liður í efnahagsmálaaðgerðunum. Þetta tók ég fram hér í minni fyrri ræðu og endurtek hér með.

Ég skal fara að stytta mál mitt, en vil þó minnast á eitt. Bent var á það og sannað skýrum rökum, að fullyrðingar hv. framsóknarmanna um samdrátt verklegra framkvæmda fá ekki staðizt, það er ekki heil brú í þeim. Það er ekki aðeins, að framlög til verklegra framkvæmda síðan 1958 hafi aukizt sem svarar hækkun tilkostnaðar, sem við skulum segja að sé um 50%, heldur hafa þessar verklegu framkvæmdir eða fjárframlög til þeirra tvöfaldazt, þrefaldazt, fjórfaldazt og fimmfaldazt, eins og ég sýndi fram á í minni ræðu. Hver eru svörin? Formaður Framsfl. talaði hér strax á eftir. Hann lýsti því bara yfir, að allir vissu það, að stórkostlegur samdráttur væri í verklegu framkvæmdunum og fjárframlögunum til þeirra. Meira þurfti ekki. Þessir tveir þm. hafa nú talið, að það væri ekki mikið að miklast af, þótt það væri stóraukið vegafé ákveðið nú með vegal. nýju, með nýjum skattaálögum, og hv. frsm. 1. minni hl. orðaði þetta svo og beindi máli sínu til mín: Vegakerfið er allt að grotna niður undir handleiðslu þessa ráðh. —- Auðvitað var allt í sómanum, þegar stjórnin tók við, það er ekki að efa. En það vill svo einkennilega til, að ég hef hér fyrir framan mig frv. nokkurt, sem þáv. formaður Framsfl. ásamt tveim flokksbræðrum sínum í Ed., þ.e.a.s. þeir Hermann Jónasson, Páll Þorsteinsson og Sigurvin Einarsson fluttu bæði á þinginu 1959 og 1960, sem sagt í byrjun síðasta kjörtímabils, þegar núv. ríkisstj. var að taka til starfa. Og hvað segir í þessu frv.? Það er lagt til, að á árunum 1960–1964, að báðum meðtöldum, skuli verja árlega 6 millj. kr. umfram fjárveitingar á fjárlögum til nýbyggingar þjóðvega á Vestfjörðum og Austurlandi, alls 30 millj. kr. Og hver eru rökin fyrir því? Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp aðeins glefsur úr grg. Þar segir svo:

„Viðunandi vegakerfi í byggðum landsins er eitt meginskilyrði fyrir því, að atvinnulíf geti þrifizt og byggð haldizt. Athugun leiðir því miður í ljós, að ýmis byggðarlög hafa dregizt svo mjög aftur úr í þessu efni, að ekki verður við unað lengur.“

Síðan segir, þegar lýst hefur verið fjárveitingum til vegagerðar:

„Þetta hefur leitt til þess, að þar sem strjálbýlið er mest og jafnframt kostnaðarsamast að koma á vegasambandi, er nú vegasambandslaust á stórum svæðum. Afleiðingin er yfirvofandi brottflutningur þess fólks, sem býr á þessum landssvæðum, því að það sér fram á, að ef ekki er gert sérstakt heildarátak í þessum efnum, en aðeins unnið að vegagerðinni með svipuðum hraða og verið hefur, þá líður langur tími, þangað til vegasamband er komið á. En vegleysi þýðir það, að skref er að sumu leyti stigið aftur á bak. Þeir, sem hafa ekki vegasamband, hafa því allt aðra aðstöðu en aðrir þegnar þessa þjóðfélags. Í því er ekkert réttlæti. Við það unir fólk ekki til lengdar að láta setja sig skör neðar en aðra. Það flytur burt af þessum svæðum. Þegar það hefur gerzt, er ekki auðvelt að koma landinu í byggð aftur. Frv. þetta er borið fram í því skyni að reyna að byrgja brunninn í tíma.“

Svo segir nú í grg. fyrir frv. framsóknarmanna. Og þegar til umr. kemur, hafði orð fyrir frv. 2. flm., Sigurvin Einarsson, og hann lýsir ástandinu í vegamálum á Vestfjörðum mjög átakanlega. Hann segir: „Samkv. þeim skýrslum, sem vegamálastjóri lagði fram, kom í ljós, að hið mesta misræmi ríkir í vegamálum milli héraða. Afleiðingarnar leyna sér ekki heldur, ef litið er á atvinnu- og framleiðsluskilyrði þess fólks, sem þarna býr, eða ef litið er á brottflutning fólks úr þessum byggðarlögum, sem búa við bágborið ástand í vegamálum. Við flm. þessa frv. sjáum ekki aðra leið færa til þess að bæta úr þessu misræmi en þá að taka innlent lán í þessu skyni. Á þann hátt bætir hið opinbera að nokkru fyrir það, að misgert hefur verið við fólk eftir því, hvar það hefur búið í landinu. Því fer þó víðs fjarri, að jafnvægi verði komið á milli landshluta í þessum efnum, þótt samþ. verði það frv., sem hér er flutt, en það er þó verulegur áfangi til þess að rétta hlut þeirra, er erfiðasta aðstöðu hafa í vegamálum.“

Lýsingin er sem sagt sú á árinu 1959, þegar frv, er fyrst flutt og talað fyrir því, að það er ekki aðeins vegasambandslaust á stórum svæðum á Vestfjörðum og Austurlandi og hið mesta hörmungarástand í vegamálum, heldur hafa hinar strjálu byggðir verið beittar hinu mesta misrétti gagnvart öðrum héruðum. Fyrir því er þetta frv. flutt. En hverjir höfðu þá stjórnað vegamálunum undanfarin ár? Í undanfarin 9 ár, frá 1950–1958, hafði Framsfl. allan þann tíma samfleytt haft bæði fjmrh. og vegamálaráðh. Árangurinn sést í grg. og framsöguræðu fyrir þessu frv.

Nú kemur hv. frsm. 1. minni hl. og heldur því fram, að auðvitað hafi þá, þegar núv. stjórn tók við völdum, allt verið í sómanum, en undir handleiðslu minni, eins og hann orðar það, sé allt vegakerfið að grotna niður, svo að hreinasta hneyksli sé og óviðunandi.

Hv. frsm., 3. þm. Vesturl., var mjög hneykslaður á því í ræðu sinni hér áðan, að ég skyldi leyfa mér að halda þessa ræðu um fjárl., þegar komið væri svona nærri jólum. Ég skal nú segja honum það, að ein meginástæðan fyrir því, að ég flutti ekki þessa ræðu, sem ég flutti áðan, við 2. umr., er sú, að þegar hann flutti sína ádeiluræðu um mjög margt hér um daginn, þá hafði ég ekki við höndina hér gögn, sem þurfti til þess að afsanna margt í hans staðhæfingum. En út af þessum ummælum hans, að ég sé að spilla einhverri jólahelgi með því að leyfa mér að halda ræðu núna nokkrum dögum fyrir jól, þá sé ég ekki, að það hafi verið neitt ókristilegt í ræðu minni. Ég held, að það sé ekki neitt óguðlegt að gefa réttar upplýsingar, leiðrétta misskilning og ranghermi, enda var það klerkur góður og guðhræddur, sem sagði á sinni tíð, að skylt væri að hafa það heldur, er sannara reynist, og að minnsta kosti vona ég, að þessar ræður mínar í dag trufli ekki jólagleði þessa hv. þm. og hann megi njóta gleðilegra jóla þrátt fyrir það.