20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, fjárlög 1964

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þessar deilur, sem hér hafa orðið um fjárlögin almennt, enda er nú liðið mjög á kvöldið. En ég á hér nokkrar brtt. við fjárl., sem raunar eru fluttar með samflokksmönnum mínum úr Norðurl. e., og ég vil aðeins leyfa mér að minna á þessar till. Þær eru, má segja, í þrennu lagi. Í fyrsta lagi er hér um að ræða nokkrar hækkunartill. vegna hafna í Norðurl. e., og auk þess er svo um að ræða tvær aðrar till., sem snerta samgöngumál og menningarmál í Norðurl. e.

Við höfum leyft okkur að leggja til, að framlag til Ólafsfjarðarhafnar verði hækkað um 100 þús. kr. frá því, sem er lagt til í frv. í Ólafsfjarðarhöfn er enn geysimikið ógert og nauðsynlegt að hraða framkvæmdum sem mest til þess að gera þá höfn þannig úr garði, að hún geti komið Ólafsfirðingum að því gagni, sem þeim er nauðsyn. Svo sem kunnugt er, byggir Ólafsfjörður alla sína afkomu á sjávarútvegi, og óhætt er að fullyrða, að höfnin er þar mál málanna, þó að ýmislegt fleira sé í því byggðarlagi, sem einnig þarf að vinna að og koma fram. Það má segja, að Ólafsfjarðarkaupstaður sé fremur ungur sem slíkur, þó að byggð hafi verið í Ólafsfirði allt frá ómunatíð, en Ólafsfjarðarkauptún og síðar Ólafsfjarðarkaupstaður er þó tiltölulega ungur og hafnarframkvæmdir þar hefjast ekki fyrr en undir 1940 að nokkru ráði, og síðan hefur verið unnið þar að hafnarframkvæmdum nú um 20 ára skeið eða ríflega það. En mjög mikið vantar enn á, að búið sé að gera höfnina svo úr garði, að hún sé í því horfi, sem nauðsynlegt er, vegna þess að Ólafsfjörður er mikið sjávarpláss og hefur mikla útgerð og liggur að ýmsu leyti mjög vel við miðum, bæði eins og nú horfir við þorskveiði, svo og við síldarmiðunum. Það er sérstaklega nauðsynlegt nú að fara að ljúka við síldarplanið og bryggjur, og einnig þarf að gera við þær skemmdir, sem urðu á höfninni fyrir tveimur árum og enn er ógert við. Það er því till. okkar nú, að allmiklu meira fé verði varið til þessarar hafnar heldur en lagt er til á frv. Raunar hljóðar tillaga okkar ekki um háa upphæð, því að við förum aðeins fram á, að það verði 100 þús. kr. meira en er á frv., en það mundi þó bæta verulega úr og minna á þá staðreynd, að í Ólafsfirði er margt enn ógert.

Önnur höfn við Eyjafjörð, sem við leggjum til að verði hækkuð í fjárl., er Dalvíkurhöfn. Það má segja hið sama um hana og um Ólafsfjörð, að þar er mikið eftir að gera, þó að allmikið hafi verið gert nú að undanförnu. Þar er mjög mikið eftir að gera, og eftir því sem ég hef frétt, er ekki fyrirhugað að vinna verulega í höfninni á næsta ári að öðru leyti en því að hafa þar dýpkunarframkvæmdir, en þó er þar svo margt annað ógert, að nauðsynlegt er að setja meira fé í höfnina þar og fullgera hana sem allra fyrst. M.a. þarf að styrkja hafnargarðinn með því að bera í hann meira grjót, og vitum við, hvílík nauðsyn það er, eftir þann skaða, sem höfnin varð fyrir, fyrir tveimur árum, að hafa garðinn ekki lengi þannig, eins og hann er nú, því að hann liggur sífellt undir skemmdum, ef slíkt óveður dynur yfir eins og var fyrir tveimur árum.

Svo eru tvær aðrar hafnir við Eyjafjörð, sem þurfa á því að halda að fá enn nokkuð aukið fjármagn, þó að framkvæmdir þar séu raunar komnar lengra áleiðis heldur en þær tvær hafnir, sem ég hef áður nefnt. Það eru Árskógssandur og Hrísey. Þar er að vísu búið að gera mikið nú, og í Hrísey má segja, að framkvæmdum sé lokið í bili, en miklar skuldir eru þó á höfninni og því nauðsynlegt að létta undir með Hríseyjarhöfn af hálfu ríkisins sem frekast er kostur, því að enn skuldar ríkissjóður mikið fé í þá höfn. Og sama er að segja um Árskógssand, þar skuldar ríkissjóður að sjálfsögðu enn verulegar upphæðir og því nauðsynlegt að leggja svo mikið sem frekast er kostur til hafnarinnar, auk þess sem þar á eftir að vinna enn nokkurt verk, til þess að höfnin sé komin í það horf, sem hún þarf að vera.

Ein till., sem ég nefndi hér áðan og við flytjum, þm. Framsfl. úr Norðurl. e., varðar Múlaveg, en svo sem kunnugt er, hefur Múlavegur verið í byggingu undanfarin a.m.k. 9 ár. Ég held, að fyrsta framlag til Múlavegar hafi komið á fjárlög árið 1954, og síðan hefur verið unnið þar að framkvæmdum, og nú er svo komið, að það er tiltölulega stuttur vegarspotti eftir til þess að tengja saman endana milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, en þó er það sá spottinn, sem erfiðastur er, og reikna má með, að í þennan veg vanti enn margar milljónir, og ef dýrtíðin vex eins og undanfarin ár, er hætt við, að sú upphæð eigi eftir að hækka í krónutölu fremur en hitt.

Á 22. gr. fjárl. er heimildarákvæði til handa ríkisstj. að taka lán til þriggja tiltekinna vega, þ. e. Ennisvegar, Strákavegar og Múlavegar. Til Ennisvegar heimilast ríkisstj. að taka allt að 12 millj. kr. lán og til Strákavegar 6 millj. kr. lán, en til Múlavegar 1 millj. kr. lán. Það er till. okkar, að þessari grein verði breytt þannig, að til Múlavegar heimilist að taka 2 millj. kr. lán. Má segja, að það sé ekki mikið í lagt miðað við þá framkvæmd, sem þarna er um að ræða.

Ég minntist áðan á nauðsyn hafnarinnar fyrir Ólafsfjörð, og ég býst við, að allir Ólafsfirðingar séu mér sammála um, að það sé höfuðatriði fyrir þá, að hafnarframkvæmdunum sé haldið áfram og að þær komist í það horf, sem nauðsyn ber til. En hitt er líka jafnvíst, að Ólafsfirðingar mundu fagna því og munu fagna því hvað mest, þegar Múlavegurinn er fullgerður, og mun vera almennt álit Ólafsfirðinga, að þá breytist mjög öll aðstaða Ólafsfirðinga, bæði í atvinnulegu tilliti og á annan hátt, eftir að sá vegur er kominn. Þá munu þeir tengjast þeim byggðum, sem þeir hafa alla tíð verið í nánustu sambandi við. Ólafsfjörður er gamall hluti úr Eyjafjarðarsýslu og hefur lengst af haft samband við Eyjafjörð, við Akureyri, um alla verzlun og samgöngur, og eins og nú háttar samgöngum við Ólafsfjörð, mundi þetta breyta mjög aðstöðu allri í Ólafsfirði, bæði grundvallaratvinnu þeirra, sjávarútvegi, og þó kannske ekki síður í sambandi við landbúnað þeirra, því að þá mundu skapast möguleikar fyrir Ólafsfirðinga að flytja mjólk alla leið til Akureyrar, því að leiðin er ekki svo löng, að það mætti ekki takast eftir Múlavegi. Og þess vegna er það, að það er hin mesta nauðsyn að hraða þessari framkvæmd. Múlavegur á nú senn 10 ára afmæli, fjárlagaafmæli, ef svo mætti segja. Afmæli hans mætti kannske miða við annað ár, því að það er lengra síðan farið var að mæla fyrir þessum vegi og kanna aðstæður fyrir honum, en það væri sannarlega full ástæða til þess nú á þessu 10 ára afmæli Múlavegar að auka fjármagnið til hans og m.a. með því að heimila ríkisstj. að taka allsæmilegt lán til vegarins, stærri lán en ríkisstj. leggur til hér í frv.

Fjórða till., sem við flytjum, varðar bókasafnsbygginguna á Akureyri. Svo sem kunnugt er, er eitt elzta bókasafn á landinu staðsett á Akureyri, gott og mikið safn, sem er kallað Amtsbókasafnið og fyrsti vísir þess mun hafa verið lagður í kringum 1800, og munu fá eða e.t.v. engin söfn eldri en þetta safn. Og þetta er ein aðalmenningarstofnun Norðurlands, Amtsbókasafnið á Akureyri, og þess vegna full ástæða til að búa því þær aðstæður, sem hæfa slíkri stofnun. Nú hefur verið ráðizt í byggingu safnhúss og búið að byggja nokkuð af húsinu. Það er áætlað, að bókasafnið komi til með að kosta 7–8 millj., þegar það er fullgert, en ef safnsbyggingin þarf að dragast mjög á langinn, sem allt bendir til, vegna fjárskorts, er þó hætt við, að safnsbyggingin verði enn dýrari, og við það bætist, að það er mjög erfitt um útvegun fjármagns til safnsins og óvíst um það, hvernig gengur á næsta ári að halda áfram byggingunni. Það er skylt að minnast þess, að ríkisstj. veitti til þessarar safnsbyggingar sem afmælisframlag, sem kallað var, á fjárl. í fyrra 1 millj. kr. Var það vitanlega þegið með þökkum og sýndi rausn ríkisstj. í garð Akureyrar á merku afmæli. En hitt er jafnvíst, að þessi safnsbygging þarf eigi að síður á að halda áframhaldandi fjárstuðningi, því að svo lítið kemur úr opinberum sjóðum til styrktar svo stórri framkvæmd, að það dregur næsta lítið. Við leggjum því til, að nú á fjárlögum verði lagðar til bókasafnsbyggingarinnar á Akureyri 300 þús. kr., og ef það yrði samþykkt, er þess að vænta, að slíkt framlag mætti haldast næstu árin, þangað til þessi bygging er komin upp. Það er varla verið að skapa þarna neitt sérstakt fordæmi, því að þessi bókasafnsbygging á Akureyri hefur á margan hátt sérstöðu. Hún hefur sérstöðu að því leyti til, að þarna er um stærra safn, stærri byggingu og meiri að ræða heldur en yfirleitt er, þegar byggt er yfir söfn úti um landsbyggðina, fyrir utan það, að þarna er um að ræða styrk við menningarstarfsemi í höfuðstað Norðurlands, og þess vegna má líta á það sem tillag ríkisins til þess að efla menningarlíf í norðlenzkum byggðum, ekki aðeins á Akureyri, því að vitanlega mundu allir Norðlendingar njóta þessa safns, og ég hygg því, að hið verðugasta verk, sem ríkið gæti gert, væri að veita a.m.k. þá upphæð, sem við leggjum til, og mætti þó meira vera.