18.12.1963
Sameinað þing: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

65. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt 5 öðrum hv. þm. leyft mér að flytja á þskj. 70 till. til þál. um endurskoðun laga um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Efni þessarar till. er, að kosin verði á Alþingi fimm manna mþn. til að endurskoða lög nr. 77 28. apríl 1962, um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og gera till. um breytingar á þeim, eftir því sem henni þykir ástæða til. Gert er ráð fyrir, að n. hafi í starfi sinu samráð við Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda. Enn fremur geri hún sér sérstaklega far um að kynna sér skoðanir útvegsmanna og sjómanna í einstökum landshlutum varðandi málið og reynslu þeirra af starfsemi hlutatryggingasjóðs og aflatryggingasjóðs.

Sjávarútvegur eða fiskveiðar voru frá öndverðu annar aðalatvinnuvegur í þessu landi, og síðan á 14. öld a.m.k. hefur mikill hluti þeirrar vöru, sem út var flutt úr landinu til þess að afla gjaldeyris til utanríkisviðskipta eða utanlandsviðskipta, verið sjávarvara. Nú á síðustu tímum er það svo, að yfir 9/10 hlutar af allri útflutningsvöru landsmanna hafa verið frá sjávarútveginum komnir. Fjöldi manns í þessu landi hefur haft lífsframfæri af fiskveiðum, og þó að þeir séu nú ekki hlutfallslega eins margir og áður hefur verið, er það samt stór hluti þjóðarinnar, sem lifir á þeim óbeinlínis. En eins og kunnugt er, árar misjafnlega á sjónum. Fiskveiðar eru ekki árvíss atvinnuvegur í þessu landi og reyndar hvergi í veröldinni, frekar en annar veiðiskapur. Þeim, sem sjóinn stunda, getur vegnað eitt árið mjög vel, annað árið mjög illa. Og menn hafa lengi velt fyrir sér, m.a. hér i löggjafarsamkomunni, aðferðum til þess að jafna á milli áranna, þannig að þeir, sem sjóinn stunda, og þjóðin legði á betri árum til hliðar til þess að draga úr áföllum verri áranna. Ég hygg, að það hafi verið um 1940, sem var gerð tilraun til löggjafar um þessi efni, þar sem voru lög um hlutatryggingafélög. Þau lög voru nokkur ár í gildi, en komu ekki almennt að gagni á þeim tíma. Ég ætla, að það hafi aðeins verið eitt félag, á Vestfjörðum, stofnað samkv. heimildum i þessari löggjöf. En árið 1949 voru sett lög um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins. Meginatriði þeirra laga var það, að útvegurinn sjálfur og þjóðfélagið í heild skyldu hjálpast að því að veita þá tryggingu, sem hér er um að ræða. Hlutatryggingasjóði voru ákveðnar tekjur á þann hátt, að helmingur skyldi greiddur af útfluttum sjávarafurðum og helmingur úr ríkissjóði ár hvert.

Þessum lögum hefur verið breytt síðan. Fyrir nokkrum árum var sú breyting gerð á, að gjaldið til hlutatryggingasjóðsins var hækkað nokkuð og tekin upp nokkuð aukin trygging vegna síldveiða. En aðalbreytingin, sem á lögunum hefur verið gerð, var gerð árið 1962 og þá nafni þeirra um leið breytt, þannig að sjóðurinn heitir nú aflatryggingasjóður sjávarútvegsins, en hét áður, eins og ég sagði, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins. Eins og nafnið bendir til, var með þessari nýju löggjöf fært út starfssvið sjóðsins. Starfsemi hans var áður takmörkuð við bátaútveginn, en er nú tengd við sjávarútveginn í heild. Togaraflotinn, sem áður stóð utan við þessa starfsemi, á nú að greiða gjöld í aflatryggingasjóðinn og hefur réttindi í sjóðnum. Og ég ætla, að það hafi verið aðalástæðan fyrir breytingu laganna 1962 að láta lögin einnig ná til togaraútgerðarinnar, og var þetta aðferð, sem gripið var til, til þess að koma hinum mjög svo aðþrengda togaraútvegi til aðstoðar. Nú eru lögin þannig, að tekjur til aflatryggingasjóðs eru 11/4% af fob.-verði útfluttra sjávarafurða, að undanteknum hval- og selafurðum, og á móti kemur framlag úr ríkissjóði, sem nemur helmingi útflutningsgjaldsins. Sjóðurinn skiptist samkv. l. í síldveiðideild, almenna deild bátaflotans, almenna deild togaraflotans og jöfnunardeild, en þessi jöfnunardeild hefur samkv. l. það hlutverk að „veita hinum deildunum lán eða styrki, ef svo stendur á,“ eins og það er orðað.

Samkv. þessum lögum ber að skipta landinu í bótasvæði, veiðiskipum í flokka eftir stærð, veiðiútbúnaði o.fl. og árum í bótatímabil. Reikna skal út meðalveiðimagn í hverjum flokki skipa á hverju bótasvæði á hverju veiðitímabili. Ef aflabrestur verður, skal skip, sem aflar 84% eða minna af meðalveiðimagni, fá bætur, sem nema allt að 40%, sem á vantar, að það hafi meðalafla. Stjórn aflatryggingasjóðsins skipa menn samkv. l., en til að ákveða skiptingu í bótasvæði, skipaflokka og veiðitímabil þarf samþykki ráðh. og stéttasamtaka.

Það fé, sem fer um hendur aflatryggingasjóðs, er orðið allmikið að vöxtum. Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið frá sjóðnum, mun láta nærri, að á árunum 1960-1962 hafi tekjur sjóðsins verið samtals um 90 millj. kr. og bætur, sem greiddar hafi verið úr sjóðnum, samtals rúml. 88 millj. kr. Þetta munu þó ekki vera alveg nákvæmar tölur. Tekjurnar sundurliðast þannig, að hin almenna deild bátaflotans hefur fengið 40 millj. eða rúmlega það, síldveiðideildin 24.3 millj., togaradeildin 1.2 millj. og jöfnunardeildin 24.2 millj., en bætur sundurliðast þannig, að almenna deildin hefur greitt rúml. 20 millj., eða 20.2 millj., að mér virðist, síldveiðideildin 15.3 millj. og togaradeildin rúml. 52 millj., sem hún hefur að sjálfsögðu fengið að mestu frá jöfnunardeild til starfsemi sinnar.

Þessi löggjöf um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins er nú orðin 14 ára. Það er að vísu svo, að á henni voru gerðar þær breytingar, sem ég nefndi áðan, á árinu 1962, að víkka starfssvið sjóðsins og láta hann taka til togaraflotans. En ég ætla, að sú lagabreyting, sem þá var gerð, hafi fyrst og fremst, eins og ég sagði áðan, verið gerð vegna þessara sérstöku ráðstafana og hún hafi í raun og veru ekki falið í sér heildarendurskoðun á lögunum, enda er það auðsætt á grg. frv., sem þá var lagt fram. Hins vegar hefur oft verið um þetta mál rætt, lögin um hlutatryggingasjóð, meðal útgerðarmanna og sjómanna, bæði á fundum fiskifélagsdeildanna úti um land og eins á fiskiþingi, og ýmsar tillögur hafa verið uppi um breytingar á þessum lögum og jafnvel verið kjörnar nefndir til þess að endurskoða þau á vegum útgerðarmannasamtakanna. Ég held sem sé, að þrátt fyrir þessa lagabreytingu 1962 sé ástæða til þess að láta þessa endurskoðun fara fram, og skal ekki nánar fara út í þær ástæður. Ég mundi og við flm. till. leggja áherzlu á það, eins og reyndar kemur fram í till., að við þessa endurskoðun verði haft sem mest samráð við þá aðila víðs vegar um land, í einstökum landshlutum, sem eiga að njóta starfsemi sjóðsins á komandi tímum.

Ég ætla, að að þessari löggjöf hafi frá öndverðu orðið mikið gagn fyrir útveginn og að hér sé um að ræða mjög mikilsverða starfsemi, og einmitt með tilliti til þess viljum við flm, leggja áherzlu á það, að þessi endurskoðun fari fram. Það skal vel vanda, sem lengi á að standa.

Ég vil leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr., — ég ætla, að hæstv. forseti hafi ákveðið tvær umr. um till., — vísað til síðari umr. og allshn.