18.12.1963
Sameinað þing: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (2932)

65. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Davíð Ólafsson:

Herra forseti. Eins og hv. 1. flm. bessarar till. á bskj. 70 lýsti, er megintilgangur þeirra flm. að fá endurskoðuð lög um aflatryggingasjóð í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur af þessu máli nú um 14 ára skeið, vegna þess að slík endurskoðun hafi ekki farið fram síðan lögin voru sett og kominn tími til þess, að slíkt verði gert. Mér þykir rétt í þessu sambandi að geta þess, að á árunum 1957—1960 starfaði mþn. á vegum fiskiþings að endurskoðun l. um hlutatryggingasjóð. Með þessari nefnd starfaði enn fremur fulltrúi frá þáv. sjútvmrh., og í þessari n. voru fulltrúar alls staðar að af landinu. N. var valin þannig, að fram kæmu sem flest sjónarmið við athugun málsins, því að það var ljóst af umr. undanfarinna ára, að ýmsar skoðanir voru uppi um það, hvernig skyldi haga störfum þessa sjóðs. Þessi nefnd starfaði á fjórða ár og vann mikið starf, kynnti sér sjónarmið manna víðs vegar og að lokum skilaði hún áliti, sem var svo tekið fyrir á fiskiþingi 1960, og meginefnið í till. n., sem voru þó ekki í öllum atriðum samhljóða, — það voru skiptar skoðanir í n. nokkuð, — meginatriðin voru síðan samþykkt á fiskiþingi á árinu 1960. Og þær breytingar, sem mest hafði verið talað um og flestir höfðu verið sammála um, að æskilegt væri að gera, voru þá einmitt gerðar í sambandi við það og komu svo fram í frv., eins og það var lagt fyrir á árinu 1962. Það kom hins vegar til viðbótar, að einmitt á því ári komu upp raddir um það, að eðlilegt væri, að togararnir kæmu inn undir þessi lög líka og grundvelli þeirra væri breytt með tilliti til þess. En með þessu vildi ég sýna, að endurskoðun á 1., mjög gaumgæfileg og rækileg endurskoðun, fór fram á þessum 3–4 árum, sem ég gat um áðan, þar sem fram komu mismunandi sjónarmið úr öllum landshlutum. Ég mundi því segja, að það væri eiginlega of skammur tími liðinn frá samþykkt þessara laga 1962 og líka of skammur tími liðinn frá þessari gaumgæfilegu athugun, sem fram fór, til þess að þess mætti vænta, að nokkrar nýjar hugmyndir kæmu fram, sem máli skiptu í sambandi við þessi gildandi lög.

Ræða hv. 1. flm. gefur mér ekki tilefni til að fjölyrða meira um þetta atriði. En ég vildi aðeins í tilefni af því, sem segir i grg. með till., bæta hér örfáum orðum við. Þar ræðir um, að óánægju gæti um það, að afgreiðsla gangi ekki nógu fljótt, og þá rætt um skýrslugerð í því sambandi, og látið að því liggja, að e.t.v. sé ekki nauðsynlegt að ganga svo hart eftir því, að skýrslum sé skilað sérstaklega til sjóðsins, þar sem mikið sé um skýrslugjafir yfirleitt, og skal það fúslega játað, að ekki bara á þessu sviði, heldur á fjölmörgum öðrum sviðum er krafizt margvíslegra skýrslna af mönnum. En í þessu sambandi vildi ég geta þess, að þarna er um sjóð að ræða, sem greiðir út milljónir og milljónatugi sum árin, og það er varla hægt að ætlast til þess, að úr slíkum sjóði séu greiddar slíkar upphæðir, nema fyrir liggi alveg óyggjandi skýrslur, sem hægt sé að byggja á. Það er því alveg föst regla hjá sjóðsstjórninni, að greiðslur úr sjóðnum fari ekki fram, nema þær skýrslur, sem hún telur nauðsynlegar, liggi fyrir.

Nú er þetta ákaflega misjafnlega erfitt eða suðvelt eftir því, hvernig það er tekið. Gangur málsins er sá, að eftir vertíð er óskað eftir, að menn sendi inn skýrslur. Þetta er tiltölulega auðvelt, þegar um er að ræða það, sem kalla mætti hina stærri útgerð vélbátaflotans, þ.e.a.s. allt annað en minnstu bátana, við skulum segja báta undir 12 lestum, opna vélbáta. Það er tiltölulega auðvelt, vegna þess að útgerð þessa hluta flotans er í miklu fastari skorðum en útgerð minni bátanna. Útgerð minni bátanna er oft afar stopul. Það er skipt um veiðarfæri oft á hverri vertíð, það er farið af línu yfir á net, yfir á færi og aftur yfir á hin veiðarfærin, alveg eftir því, hver aflabrögðin eru eða hvað menn telja henta, og mjög oft kemur það fyrir, að útgerð þessara smærri báta er þannig, að það er bókstaflega illgerlegt að flokka þá í nokkra þá flokka, sem lögin gera ráð fyrir eða reglugerðin. Þá kemur til kasta sjóðsstjórnarinnar að meta hvert einstakt tilfelli, og það verður að segjast eins og er, að það er oft afar erfitt. Það er mjög algengt með þessa smáútgerð, að hún leggst niður tíma og tíma, vegna þess að menn fá arðvænlegri atvinnu í landi, þó að hins vegar líka sé mikið um það, að þessir bátar séu gerðir út reglulega þannig, að til fyrirmyndar sé. En það eru einmitt undantekningar, sem vilja helzt koma fyrir í þessum flokkum, sem gera erfiðleikana, og verða þær þá einmitt oft til þess, að hinir, sem vel hafa stundað og eðlilega. gjalda þess, hversu erfitt er að komast til botns í athugunum á skýrslum annarra báta. Það er því, eins og ég sagði, alveg ófrávíkjanleg regla hjá stjórn sjóðsins að afgreiða alls ekki bætur, nema fyrir liggi alveg öruggar upplýsingar frá þeim aðilum, sem færir eru um að gefa þær, um afla, úthaldstíma, róðrafjölda, mannafjölda og yfirleitt allt það, sem snertir aflamöguleikana, því að á því er byggt meginsjónarmið þessara laga. Þetta hefur frá upphafi verið talið alveg ófrávíkjanlegt skilyrði og skylda sjóðsstjórnarinnar, að greiða engar bætur úr sjóðnum, nema slíkar upplýsingar lægju fullkomlega fyrir.

Þetta vildi ég nú upplýsa í tilefni af því, sem segir í grg. með till.

Þessi till. fer nú til n., eins og lagt hefur verið til, og n. gefst þá tækifæri til að athuga öll gögn málsins, og væntanlega gefst þá einnig þeim aðilum, sem nefndir eru í till., tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á henni, og þá má athuga málið betur að því loknu.