18.12.1963
Sameinað þing: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í D-deild Alþingistíðinda. (2933)

65. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Gísli Guðmundason):

Herra forseti. Aths. hv. 6. landsk., sem hér talaði síðast og er mjög kunnugur starfsemi aflatryggingasjóðs, gefur ekki að neinu ráði tilefni til andsvara af minni hálfu. Ég vil þó geta þess, að að sjálfsögðu var mér kunnugt um starfsemi þeirrar n., sem tók til starfa á árinu 1957 og átti að endurskoða lögin um aflatryggingasjóð bátaútvegsins, enda gat ég þess í framsöguræðu minni; að n. hefði um þetta mál fjallað. Hitt er mér jafnkunnugt, að árangur varð ekki mikill með löggjöf af starfi þeirrar n., sem sjálfsagt mun hafa stafað af því, eins og hv. þm. tók fram, að skoðanir voru nokkuð skiptar í þessari n. meðal þeirra manna, sem um málið fjölluðu.

Þegar hér er rætt um endurskoðunartillögu þá, sem fyrir liggur, er að sjálfsögðu átt við endurskoðun á vegum Alþingis, sem leiðir til tillögugerðar að því leyti, sem efni þykja standa til.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég held, að lagabreytingin, sem gerð er 1962, hafi ekki borið mikinn blæ þeirrar endurskoðunarvinnu, sem hv. þm. ræddi um. Ég hef hér fyrir framan mig stjfrv. frá 1962 um aflatryggingasjóð bátaútvegsins ásamt grg., sem því fylgdi, og upphaf grg. ber með sér, að frv. er samið í rn. og ekki vitnað þar til n., heldur segir þar aðeins, með leyfi hæstv. forseta, að reynslan hafi sýnt, „að stefna þurfi að því að velta sjóðnum aukna vernd gegn misnotkun og að það sjónarmið, eins og það hefur komið fram í till. frá fiskiþingi,“ hafi verið tekið hér til greina. Er þar sennilega og einkum átt við ákvæði 12. gr. í frv. frá 1962 um, að fram fari sérstök rannsókn, ef skip veiðir minna en 33% meðalveiðimagns í stað 20% áður.

Í grg. till, á þskj. 65 höfum við flm. getið þess, að nokkuð hafi borið á kvörtunum út af starfsemi sjóðsins, a.m.k. í sumum landshlutum. Hins vegar leggjum við ekki dóm á það, hvort þær kvartanir séu á rökum byggðar. Það geri ég ekki heldur hér. En þær geta að sjálfsögðu stafað af því að einhverju leyti, að gallar séu á löggjöfinni, sem þyrfti að leiðrétta, ef þær eiga á annað borð rétt á sér. Stjórn sjóðsins þarf þar ekki að neinu leyti að vera um að kenna. það er vissulega svo, að ýmsum í þessu landi, þ. á m. útvegsmönnum, þykir nóg um skýrslugjafir, svo miklar sem þær eru orðnar til ýmissa aðila, og ég hef heyrt útvegsmenn hafa orð á því, að þeir verði stundum að gefa tvöfaldar og þrefaldar skýrslur, þ.e.a.s. fleiri en einum aðila, það eigi hins vegar að nægja að gefa einum aðila hér í höfuðborginni slíkar skýrslur, þá geti aðrar stofnanir, eins og t.d. aflatryggingasjóður, notað þær hinar sömu skýrslur. Þannig falla orð hjá mönnum. En að sjálfsögðu mundi það verða athugað við endurskoðun málsins m.a., hvort eitthvað mætti draga úr þessum skýrslugjöfum.