05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í D-deild Alþingistíðinda. (2942)

72. mál, rafvæðingaráætlun

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er langt liðið, síðan þessi till. var lögð fram hér á hv. Alþingi, það var 19. nóv. í vetur.

Árið 1954 voru sett lög um viðauka við raforkulögin frá 1946. Svonefnd 10 ára áætlun um raforkuframkvæmdir var byggð á þeim nýju lögum. Framkvæmdir hófust 1954, og hefur verið unnið að þeim síðan. Stofnkostnaður rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins var í árslok 1962 orðinn samtals 648.8 millj. kr. samkv. reikningum raforkumálaskrifstofunnar. Er þar talinn kostnaður við virkjanir og aðalorkuveltur, dísil- og hjálparstöðvar, birgðahús og áhöld, bæði hjá rafmagnsveitum ríkisins og einnig hjá héraðsrafmagnsveitum ríkisins. En þar að auki, auk þeirrar upphæðar, sem ég nefndi, er gengishalli færður eignamegin á efnahagsreikning rafmagnsveitnanna, 130.6 millj. kr. Það er sá halli, sem varð á erlendum lánum við gengisbreytingarnar undanfarin ár. Framlög úr ríkissjóði á árunum 1954—1962, að báðum meðtöldum, til þessara mála, Þ.e. samtals til raforkuframkvæmda og raforkusjóðs, hafa numið í heild samkv. ríkisreikningum 179.6 millj. Nokkuð var búið að leggja fram úr ríkissjóði fyrir 1954 til raforkuframkvæmdanna, sem ekki er hér talið með, og á fjárlögum fyrir 1963 voru áætlaðar 24 millj. 250 þús. samtals til raforkuframkvæmda og raforkusjóðs, þannig að hafi þær upphæðir verið greiddar, sem gera má ráð fyrir, hefur upphæðin verið orðin á þessu tímabili frá 1954—1963 rúmlega 200 millj. kr. Framlögin úr ríkissjóði til rafvæðingarinnar hafa verið allmiklu lægri síðustu árin en á árunum 1957 og 1958. Hefði þó þurft að hækka fjárveitingarnar úr ríkissjóði til að vega á móti þeirri miklu hækkun á framkvæmdakostnaði, sem orðið hefur á því sviði sem öðrum síðan 1960.

Samkv. upplýsingum raforkumálaskrifstofunnar höfðu samtals 2458 sveitabýli fengið rafmagn frá samveltum í árslok 1962. Þá var raforkuráð búið að gera samþykktir um raflinur frá héraðsrafmagnsveitum til 692 býla til viðbótar. Þegar þeim framkvæmdum er lokið, má því gera ráð fyrir, að samtals 3150 sveitabýli hafi fengið rafmagn frá samveltum. Fréttir hafa borizt um það frá raforkumálaskrifstofunni, að þaðan hafi verið sendar til ráðh. á s.l. sumri tvær nýjar áætlanir um raflínur um sveitir. Á aðra áætlunina munu vera tekin svæði, þar sem meðalvegalengd milli býla er 1—11/2 km, en á hinni

áætluninni er meðalvegalengd milli býla 11/2—2 km. Raforkumálaskrifstofan nefnir þetta bráðabirgðaáætlanir og hefur ekki viljað láta afrit af þeim. Var sagt í haust, að þær væru ekki til birtingar, og því hefur ekki fengizt afrit af þeim. Hins vegar hafa einstakir þm. getað fengið nú eins og jafnan áður upplýsingar hjá raforkumálaskrifstofunni um athuganir og áætlanir, sem gerðar hafa verið um raflínulagnir í kjördæmum þeirra. Af þeim upplýsingum, sem þannig hafa fengizt, virðist koma fram, að hinar nýju áætlanir nái til um það bil 740 sveitabýla til viðbótar þeim, sem þegar hafa verið tekin á framkvæmdaáætlanir, sem búið er að samþykkja í raforkuráði. Ef samþykkt yrði að leggja raflínur til þessara 740 býla og það framkvæmt til viðbótar því, sem nú er búið að samþykkja, væri heildartala sveitabýla, sem hefðu rafmagn frá samveltum, orðin tæplega 3900. Við þessa tölu má svo bæta þeim býlum, sem hafa rafmagn frá sérstökum vatnsaflsstöðvum, því að yfirleitt mun mega segja, að raforku þeirra sé vel eða sæmilega fullnægt, þó að margar þær stöðvar séu að vísu orðnar gamlar og þurfi endurbóta við. Raforkumálaskrifstofan telur, að í árslok 1962 hafi 489 sveitabýli haft raforku frá einkastöðvum, sem reknar eru með vatnsafli.

Af þeim tölum, sem ég hef hér nefnt, kemur fram, að þó að lokið verði að leggja raflinur til þeirra heimila, sem raforkuráð hefur gert samþykktir um, og þó að ákveðið yrði að leggja raflínur frá héraðsrafmagnsveitum til þeirra u.þ.b. 740 býla, sem eru á hinum nýju bráðabirgðaáætlunum raforkumálaskrifstofunnar, yrðu samt eftir á annað þúsund sveitaheimili, sem hvorki hefðu rafmagn frá samveltum né sérstökum vatnsaflsstöðvum. Þegar á þetta er litið, virðist sjálfsagt, að gerð sé rækileg athugun á því, hvort mögulegt sé að ganga enn lengra í því að leggja raflínur um sveitir frá samveltum, þ.e.a.s. gera áætlanir um raflínur um svæði, þar sem meðalvegalengd milli býla er 2—3 km. Það getur ekki verið ýkja mikið verk að gera slíkar áætlanir til viðbótar þeim, sem þegar hafa verið gerðar. Raforkuþörf sveitanna á að fullnægja með línum frá samveltum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum, að svo miklu leyti sem mögulegt er, því að með því móti verður þörfinni fullnægt langtum betur en með öðrum úrræðum. En þar sem heimili eru svo mjög afskekkt, að ekki þykir fært að leggja raflínur til þeirra frá almenningsveitum, verður að sjálfsögðu að grípa til annarra ráða, þó að miklu lakari séu. Ég hef nefnt hér fjölda þeirra sveitabýla, sem hafa fengið rafmagn frá samveltum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum, en ég hef með vilja sleppt að geta þeirra sveitaheimila, sem hafa komið upp mótorstöðvum til raforkuframleiðslu, en talið er, að þau séu um það bil 500 alls. Flestar þessar stöðvar eru mjög litlar og alveg ófullnægjandi. Margar af þeim munu hafa verið settar upp til bráðabirgða sem ófullkomin úrlausn, meðan beðið er eftir raflínum frá samveltum. Það gefur því alls ekki rétta hugmynd um ástandið, ef þau heimili, sem hafa mótorstöðvarnar, eru talin með hinum, sem hafa fengið fullnægt sinni raforkuþörf.

Till. um nýja rafvæðingaráætlun á þskj. 79, sem hér er til umr., er flutt af okkur 8 þm. úr Framsfl. Aðalefni till. er að skora á ríkisstj. að fela raforkumálastjóra og raforkuráði að gera áætlun um rafvæðingu allra þeirra heimila á landinu, sem hafa ekki fengið rafmagn samkv. 10 ára áætluninni eða frá sérstökum vatnsaflsstöðvum og hafa ekki enn verið tekin á framkvæmdaáætlanir um raflinur, sem raforkuráð hefur samþykkt. Sé áætlunin miðuð við, að framkvæmdinni sé að fullu lokið á árinu 1968. Er og lagt til, að gert verði yfirlit um öll þau heimili í hverju sveitarfélagi, sem hafa ekki enn fengið rafmagn frá samveltum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum og eru utan þeirra framkvæmdaáætlana um raflínur, sem raforkuráðið hefur samþykkt. Lagt er til, að þessar áætlanir séu í tvennu lagi: í fyrsta lagi yfirlit og áætlun um býli, þar sem meðalvegalengd milli þeirra er allt að 2—21/2 km, og í öðru lagi um þau býli, þar sem vegalengdin er 21/2—3 km að meðaltal. Þessu yfirliti fylgi áætlun um kostnað við raflínulögn til þessara heimila. Þetta yfirlit og þessar áætlanir er alveg nauðsynlegt að gera til undirbúnings ákvörðun um það, að hve miklu leyti raforkuþörf sveitanna verður fullnægt með raflinum frá samveltum. Það er undirstöðuatriðið, að slíkar áætlanir séu gerðar. Og þessu þarf að ljúka hið allra bráðasta.

Í öðru lagi er í till. lagt til, að gerð skuli áætlun um uppsetningu dísilstöðva fyrir þau heimili, sem eru svo afskekkt, að ekki þykir fært að leggja raflínur til þeirra frá samveltum, og hafa ekki skilyrði til vatnsaflsvirkjunar. Með hliðsjón af miklu framlagi ríkisins til að uppfylla þarfir annarra fyrir rafmagn, virðist sanngjarnt, að ríkið komi upp stöðvum fyrir þá, sem geta ekki fengið raflínur hjá samveltum. Leiguna eftir dísilstöðvarnar ætti að miða við það, að notendur þeirra njóti a.m.k. ekki minni stuðnings af opinberri hálfu en þeir, sem fá rafmagn frá samveltum. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að í raforkul. frá 1946 er ákvæði um, að rafmagnsveitum ríkisins skuli heimilt að selja raforku beint til neytenda á þeim stöðum, þar sem héraðsveitur eru ekki fyrir hendi, eða annars staðar með samþykki héraðsveitunnar. Þar er beinlínis gert ráð fyrir þeim möguleika, að hið opinbera selji rafmagn beint til notenda, þegar svona stendur á. Þá er og í okkar till. farið fram á, að gerðar verði áætlanir um aukinn stuðning við þá, sem koma upp sérstökum vatnsaflsstöðvum til heimilisnota. Loks segir í till., að hin nýja rafvæðingaráætlun skuli fullger fyrir lok marzmánaðar í vetur, sé áætlunin þá lögð fyrir Alþingi ásamt lagafrv. um framkvæmdir. Nú hefur dregizt lengi, að þessi till. væri tekin hér til meðferðar á þingi, og má vera, að þessi frestur sé nokkuð stuttur, en þó held ég, að þessum áætlunum mætti ljúka á mjög skömmum tíma, ef rösklega væri að því unnið, vegna þess að þær undirstöðuupplýsingar, sem þarf fyrir slíka áætlunargerð, eru fyrir hendi hjá raforkumálaskrifstofunni.

Eins og ég hef áður vikið að, hefur ríkissjóður lagt fram töluvert fé til rafvæðingarinnar, og ríkið hefur útvegað mikið fjármagn að láni til framkvæmda hjá ríkisrafveltunum. En þar að auki hefur ríkið aðstoðað aðra, einkum bæjarfélög, með ábyrgðum og lánsútvegunum til stórvirkjana. Án þeirrar aðstoðar ríkisins hefðu þau stóru orkuver ekki verið reist. Þannig hafa allar framkvæmdir á þessu sviði verið gerðar með beinum og óbeinum stuðningi ríkisins. Árangurinn af þessari starfsemi er sá orðinn, að nú hafa langflestir landsmenn rafmagn til heimilisnota og annarra þarfa. Tiltölulega fáir eru enn án þessara mikilsverðu þæginda, og það er tvímælalaus skylda þess opinbera að bæta úr þörfum þeirra tiltölulega fáu heimila, sem enn eru utan við ljósið og ylinn frá rafmagninu. Og þetta þarf að gera svo fljótt sem mögulegt er og á þann hátt, að þörfum þeirra heimila verði sem bezt fullnægt. Það hefur þegar dregizt of lengi að láta þetta fólk vita, hvers það má vænta af hálfu þess opinbera í þessu þýðingarmikla máll. Og það er ástæðulaust að láta þetta dragast lengur, því höfum við lagt fram till., sem hér er til umr., um, að nú í vetur verði lokið áætlunum um að ljúka rafvæðingu byggðanna og framkvæmdir síðan ákveðnar strax, þegar áætlanir hafa verið gerðar.

Rétt mun samkv. venju, að till. fái athugun þingnefndar, en ég vil leyfa mér að leggja sérstaka áherzlu á, að nefndin hraði afgreiðslu málsins. Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað nú, en till, vísað til hv. allshn. til athugunar.