31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í D-deild Alþingistíðinda. (2954)

76. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hélt hér langa ræðu áðan í tilefni þess, að ég sagði nokkur orð fyrr í umr. um þetta mál, fyrir nokkrum vikum. Þessi fáu orð, sem ég sagði þá, hafa gert þennan hv. þm. sýnilega mjög órólegan. Öll ræða hans þar þess vott, svo og það, að hann skyldi finna ástæðu hjá sér til þess að taka umr. upp um þetta mál á ný nú af þessu tilefni.

Hann sagði, að ég hefði sagt, að það væri allt í lagi í húsnæðismálunum, og hann gaf mér þau heilræði, að það væri engin skömm að viðurkenna staðreyndir. Ég sagði ekki, að Það væri allt í lagi í húsnæðismálunum. Ég lagði einmitt ríka áherzlu á, að það væri þörf mikilla aðgerða í húsnæðismálunum, m.a. með því að bæta lánstíma og lánskjör lánanna og lánsupphæð verulega frá því, sem nú er. En þessi málfærsla hjá hv. 11. þm. Reykv. er á þessa leið:

Hann kemur hér upp og gerir mér upp orð og hugmyndir, sem ég hef ekki sagt. Síðan berst hann hetjulegri baráttu við það hér í ræðupúltinu að berja niður þessar fullyrðingar, sem hann lætur mér í munn. Og auðvitað þykist hann hafa unnið sigur í þessari viðureign. En ég get vel unnt honum slíks sigurs.

En hvert var tilefni ræðu minnar hér fyrr í þessum umr.? Það var einungis það, að þessi hv. þm. sagði, að ástandið í húsnæðismálunum hefði fárið hríðversnandi á hverju ári, og ég sagði, að mér þætti það engin tilviljun, að þessi hv. þm. segði þetta, því að þetta væri sá söngur, sem hv. framsóknarmenn halda fram, bæði á þessum vettvangi og annars staðar, um þessi mál, þó að hann sé gersamlega rakalaus og stangist á við allar staðreyndir í þessum málum.

Þessi hv. þm. tók svo upp þráðinn, eins og þeir framsóknarmenn gera jafnan, að bera afrek vinstri stjórnarinnar í húsnæðismálunum saman við það, sem síðan hefur skeð. Ég ætla ekki að þreyta hv. þingheim með því að eltast við allar ólar í þessum ummælum hv. þm. Hann gerði sérstaklega þó að atriði það, sem ég hafði sagt um hækkun byggingarvísitölunnar. Ég hafði bent á það, að hún hefði hækkað um 34 stig í tíð vinstri stjórnarinnar, en um 47 á öllu tímabilinu síðan. Hann sagði, að allar upplýsingar mínar um hækkun vísitölunnar í tíð vinstri stjórnarinnar væru rangar. Ég verð að segja það alveg hreinskilnislega, að ég fylgdist ekki með röksemdafærslu hv. þm. í þessu efni, og ég vísa henni algerlega heim til föðurhúsanna, og ég get látið fylgja með hér nóvemberhefti af Hagtíðindunum, þar sem er gerð grein fyrir þessu máli, og þeir, sem geta lesið rétt úr tölum, geta séð þar, hvað er hið sanna í þessu máli.

Svipað er að segja um margs konar fullyrðingar, sem hv. þm. þar hér fram í samanburðinum á milli aðgerða núv. ríkisstj. og vinstri stjórnarinnar í þessum málum. En ég ætla ekki að þreyta þm. á því að taka einstaka liði fyrir, það hefur svo margoft verið gert. Blekkingarnar eru svo augljósar og í svo mikilli andstöðu við staðreyndir, að þess gerist ekki þörf. En þessi hv. þm. var ákaflega samkvæmur málflutningi framsóknarmanna í þessum málum, — Þeim málflutningi að leggja í tíma og ótíma áherzlu á afrek vinstri stjórnarinnar í þessum málum. Flest það, sem gott hefur verið gert, hefur verið gert í tíð vinstri stjórnarinnar. Vinstri stjórnin setti húsnæðismálalöggjöfina, sagði hv. þm. En hann minntist ekki á það, að lögin, sem sett voru 1957, í tíð vinstri stjórnarinnar, voru að mestu leyti endurprentun á lögum, sem sett voru í tíð ríkisstj. Ólafs Thors 1955. Og þessi framsóknarmaður gengur svo langt í þjónkun sinni við sjónarmið og pólitíska hagsmuni kommúnista í þessum málum, að það hvarflar ekki að honum að minnast á það, sem gert var í tíð ríkisstj. Ólafs Thors næst á undan vinstristjórnartímabilinu, í tíð Steingríms Steinþórssonar, sem þá var félmrh. og vann að þessum málum með miklum heilindum. Þannig er málflutningur þessara manna. Þeir sjást ekki fyrir. Þeir eru stöðugt að verja vinstri stjórnina, og þeir gera það af svo miklum ákafa, að þeir sjá ekki einu sinni sína menn.

Ég ætla ekki að fara út í afrek vinstri stjórnarinnar í þessum málum. Þeir ætluðu að gera margt. Þeir ætluðu að auka útlánin, en Þeir minnkuðu þau. Þeir ætluðu að bæta lánskjörin, en þeir gerðu þau lakari. Þeir gerðu lánskjör húsnæðismálastjórnar lakari með því að velta stærri hluta af lánunum í vísitölubundnum lánum. Þeir ætluðu að auka húsbyggingarnar, en þær minnkuðu. Þeir sögðust ætla að minnka íbúðirnar, meðalstærð íbúðanna. Þær stækkuðu. Það skeði yfirleitt flest öfugt við það, sem þessir menn ætluðu að gera og sögðu.

Það er ekki ástæða til að fara lengra út í þessi mál nú. En þessi mál eru hin alvarlegustu mál og þýðingarmestu mál, eins og ég lagði áherzlu á í minni fyrri ræðu, því skulum við ekki gleyma. En við verðum að hafa augun opin fyrir staðreyndum. Við verðum m.a. að hafa augun opin fyrir þeirri staðreynd, að á síðasta áratug höfum við varið til íbúðarhúsabygginga um 40% af heildarfjárfestingu landsmanna og um 10% af þjóðarframleiðslunni, og það er allra manna skoðun, að það er ekki hægt að ætlast til Þess, að við eyðum meiri hluta af þjóðarframleiðslunni til þessara mála en þessu nemur. Við verðum líka að hafa opin augun fyrir því, að á síðasta áratug hafa verið byggðar íbúðir fyrir 58 þús. íbúa, á sama tíma sem íbúafjöldi landsins hefur aukizt um 34 þús.

Ég sagði ekki í minni fyrri ræðu, að það væri ekki húsnæðisskortur, að það þyrfti ekki að byggja. Ég sagði það ekki. Það eru orð hv. 11. þm. Reykv. En ég sagði: Þessar staðreyndir hljóta að benda til þess, að þetta hafi nokkur áhrif á byggingarþörfina. En ég vil leggja áherzlu á, að það er margt að í þessum málum. En hvað er það, sem er helzt að? Ef það er rétt, að við getum ekki gert þjóðhagslega meira átak í þessum málum en við höfum gert, þ.e.a.s. varið meiri hluta þjóðarteknanna í þessar þarfir en við höfum gert, hvað eigum við þá að gera? Hvað er það, sem er að? Það er margt að. Það er fyrst og fremst það, að það er ekki nægilega gott skipulag á lánamálunum. Við höfum reist hús, við höfum bætt húsakostinn, og í þeim skilningi má segja, að þjóðin hafi haft efni á þessu. Fjármagn til þessa hefur ekki verið tekið annars staðar frá en af þjóðarframleiðslunni. Við þurfum ekki að gera meira átak í þessu efni þjóðhagslega séð á kostnað annarra þarfa, sem eru ekki síður brýnar. Við þurfum að koma á bættu skipulagi, við þurfum að hafa betra skipulag á ráðstöfun þess fjármagns, sem hagkerfið þolir að gangi til þessara mála. Og það verður ekki gert með öðrum hætti en auka útlánin stórkostlega. Það þýðir ekki minna en gerbreytingu frá því, sem nú er.

Hinn óbærilegi húsnæðiskostnaður og ástand þessara mála í dag er í senn ein meginorsök og meginafleiðing verðbólguþróunarinnar í landinu. Það er meginafleiðing vegna þess, að fólkið hefur fundið fyrst og fremst tryggingu fyrir fjármunum sínum í íbúðarhúsabyggingum og þó án tillits til þess, hvað þær væru hagkvæmar, og þetta ástand í húsnæðismálunum er ein meginorsökin fyrir verðbólguþróuninni, vegna þess að lánin, hin föstu lán til íbúðarhúsabygginga, eru svo lítil, að launþegar geta ekki af venjulegum launatekjum sínum staðið undir þessum lánum. Eina vonin, sem þeir eygja til þess að bera þessar byrðar, er von verðbólgunnar, með hækkandi verðlagi og hækkandi kaupi. Og meðan þetta ástand er í þessum málum, er vonlaust að gera nokkrar skipulegar aðgerðir til lækkunar byggingarkostnaðarins. Og þetta ástand er enn fremur ein meginástæðan og orsökin fyrir hinum sívaxandi kaupkröfum alls almennings. Nei, ég legg áherzlu á það hér nú eins og ég gerði í minni fyrri ræðu: Það er vissulega þörf mikilla aðgerða í húsnæðismálunum. En ég hygg, að þessi till., sem hér liggur fyrir til umr., það skipti tiltölulega litlu máli, hvort hún verður samþ. eða felld, og ég gerði nánari grein fyrir því í minni fyrri ræðu. En hv. 11. þm. Reykv. þóttist eygja einhverja meiri von til þess, honum fannst sinn hagur vænkast mjög í þessu efni með því, að SUS hefði sýnt það nú á nýafstöðnu þingi, að þeir hefðu mikinn áhuga á úrlausn húsnæðismálanna. Skal ég sízt draga það í efa. En hitt dreg ég fyllilega í efa eftir ræðu hv. 11. þm. Reykv., að hans hagur sjálfs hafi nokkuð vænkazt, frá því að hann tók hér til máls siðast í þessum umr., ég meina vænkast að því leyti, að hann hafi augun opin fyrir staðreyndum málsins og dragi réttar ályktanir af þeim, því að svo bezt getum við gert vel í þessum málum, að við vanmetum ekki það, sem vel er gert, og við sjáum, hvað miður fer.