06.02.1964
Sameinað þing: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

78. mál, strandferðir norðanlands

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveim öðrum þm. úr Norðurl. e. leyft mér að flytja á þskj. 85 till. til þál. um strandferðir norðanlands og útgerð strandferðaskips frá Akureyri. Efni till. er að skora á ríkisstj. að athuga möguleika á því, að Skipaútgerð ríkisins í samráði við hlutaðeigandi bæjar- og sýslufélög komi á fót á Akureyri útgerð strandferðaskips, er annist strandferðir norðanlands, enda séu ferðir þess í samræmi við ferðir strandferðaskipa frá Reykjavik til Austfjarða og Vestfjarða, og niðurstöður athugunarinnar verði lagðar fyrir Alþingi svo fljótt sem unnt er.

Á Alþingi því, er nú situr, og á þingi í fyrra voru uppi ýmsar till. frá þm. varðandi strandferðamál. Það hafa verið fluttar sérstakar till. varðandi strandferðir á Vestfjörðum og varðandi strandferðir á Austfjörðum og varðandi ferðir milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, svo að ég nefni nokkrar till., sem ég man eftir. Það kemur fram í þessum till., að þeir, sem að þeim standa, telja, að rétt sé og eðlilegt að skipuleggja ferðir einstakra skipa með sérstöku tilliti til þarfa þeirra landshluta, sem þau eiga að þjóna. Það er nú svo, að það er nokkuð áberandi stundum, þegar strandferðaskipin fara hringferðir, að þau verða mikinn hluta af leiðinni að sigla þannig, að þau hafa lítinn farm að flytja, en þar á milli býðst þeim það mikill farmur, að þau geta ekki fullnægt eftirspurninni. Með tilliti til þess virðist auðsætt, að þörf sé á því, ef unnt er, að skipuleggja strandferðirnar þannig, að flutningsmöguleikar skipanna notist sem bezt.

Við flm. þessarar till. erum þeirrar skoðunar, að það komi mjög til athugunar að taka upp það fyrirkomulag á strandferðum, sem sérstaklega er þörf á vegna Norðurlands, að það strandferðaskip, eitt eða kannske fleiri, sem innir þá þjónustu af hendi, þ.e.a.s. er í ferðum sérstaklega fyrir Norðurland, það sé staðsett á Norðurlandi og gangi á milli hafna norðanlands, mæti svo á Austfjörðum og Vestfjörðum öðrum strandferðaskipum, sem hafa samband við Reykjavík, og að skipin skiptist á farþegum og farmi, eftir því sem þörf er á. Við teljum, að það þurfi að athuga til hlítar, hvort ekki sé heppilegast að koma strandferðunum norðanlands fyrir á þennan hátt.

Ég leyfi mér svo að öðru leyti að vísa til þeirrar grg., sem till. fylgir, og óska þess, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.