20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Jónasar Péturssonar, um niðurgreiðslur vil ég segja það, að ég ætla ekki að fara að hefja hér sérstakar umr. um niðurgreiðslurnar meir en orðið er. Hér er um að ræða aðgerðir í efnahagsmálum, og sú hæstv. ríkisstj., sem felldi niður niðurgreiðslurnar, verður að gera sér grein fyrir afleiðingunum af því. Það má deila um það, hversu heppilegar niðurgreiðslur eru, og sérstaklega það, þegar þær fara að verða verulega háar. En ég vil minna þennan hv. þm. á það, að það var ríkisstj. Alþfl. studd af Sjálfstfl., sem fór að hafa þessar niðurgreiðslur verulega háar. Ég vil líka minna hv. þm. á það, að í stjórnartíð núv. hæstv. ríkisstj. hafa verið teknir upp nýir málaflokkar í niðurgreiðslur, og það væri fráleitt með öllu, ef ætti einn góðan veðurdag að fella niðurgreiðslukerfið niður, slíkt er óframkvæmanlegt. Ég held, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, jafnvel þó að honum litist ekki á þetta lýti, sem er á líkama hæstv. ríkisstj. En lýtin eru miklu fleiri.

Það er mikill misskilningur hjá hæstv. fjmrh., ef hann heldur, að ég sjái eftir því að taka þátt í deilum við hann, þótt komið sé nálægt jólum. Hitt þykir mér mun verra, að hafa ekki búið mig undir þessi vinnubrögð og mat á vinnu þeirri, sem lögð hefur verið fram síðustu daga og nætur til þess að hraða afgreiðslu fjárl. Auðvitað ætti að búa sig undir það að halda uppi nokkuð löngum umr. um fjárl., þótt seint sé. Það er til athugunar eftirleiðis, eins og þeir segja, endurskoðendur ríkisreikningsins, að 2. og 3. umr. fjárl. fari ekki fram í sömu vikunni. Ég benti á það hér við 2. umr. málsins, að það væru fráleit vinnubrögð að ætla sér það, og fyrst hæstv. ráðh, tekur upp kappræður um almenn stjórnmál, þegar svo er á liðið eins og nú er, þá er ástæðulaust, að aðrir sjái eftir sér til þeirra hluta.

Ég hafði dálítið gaman af kaflanum í ræðu hæstv. ráðh., þegar hann var að svara hv. 3. þm. Reykv. og bera saman kerfið hjá þeim austur þar, eins og hæstv. forsrh. orðar það, og það, sem menn byggju við hér. Það voru þrír meginþættir, sem þeir töldu, að hæstv. ríkisstj. þyrfti að hafa í sinni hendi til þess að hafa stjórn á efnahagsmálunum. Það var í fyrsta lagi stjórn peningamálanna, í öðru lagi fjárfestingin og í þriðja lagi kaupgjaldið. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki talið eftir sér að reyna að ná í sínar hendur stjórn peningamálanna, og hún sækist eftir þessu æ meira og meira, eins og ég benti á við 2. umr, fjárl., m.a. með því að taka í sköttum og tollum af þjóðinni meiri tekjur til ríkissjóðs heldur en hún þarf vegna útgjalda ríkissjóðs. í öðru lagi beitir hún valdi sínu í gegnum Seðlabankann í æ ríkari mæli til þess að ná valdi á peningamálum þjóðarinnar. Og nú ætlar hún að taka upp þá stefnu í þeim að keppa beinlínis við viðskiptabankana um spariféð. Á þennan hátt hefur hæstv. ríkisstj. Íslands hug á að halda í höndum sér stjórn peningamála, eins og þeir gera austur þar.

Annar þáttur er það, sem hæstv. ríkisstj. Íslands hefur líka sýnt tilburði til að ná í sínar hendur, og það var, þegar hún lagði fram hér á hv. Alþingi í haust frv, um launamál o. fl. Efni þessa frv. var að taka í sínar hendur kaupgjaldið í landinu og afnema verkfallsréttinn. Að vísu átti að byrja með nokkurra mánaða tilraun, en upphaflega ætlaði hæstv. ríkisstj. sér að hafa þetta í tvö ár. Það var planið, sem fyrst var lagt fyrir. Hún byrjaði á því að hopa til tveggja mánaða og gafst svo upp að lokum. En þó að hæstv. ríkisstj. hafi gefizt upp, þá er viljinn sá sami, hana langaði til að hafa það eins og þeir gera austur þar, að hafa í sínum höndum kaupgjald launþeganna í landinu og banna þeim að gera verkfall.

Einn var sá þáttur, sem hæstv. ráðh. leizt ekki á að taka upp eftir þeim austur frá. Og það var með fjárfestingareftirlitið. Stefna ríkisstj. í þeim málum er sú, að það væri kapphlaup um vinnuaflið í landinu, og þessu kapphlaupi ætlaði hæstv. ráðh. sér að svara með því að draga úr fjárfestingu hjá ríkinu. Minni framkvæmdir á vegum ríkisins, til þess að þeir, sem fjármunina eiga og einkafjármagninu ráða, gætu náð vinnuaflinu, það er stefna hæstv. ráðh. í fjárfestingarmálum. En ef ætti nú að fara að hafa þar eitthvert eftirlit, fara að velja úr framkvæmdum, það leizt hæstv. ráðh. ekki á, og hæstv. fjmrh. vildi ekki fylgja þeim austur þar í þeirri stefnu. — Og svo ekki meira um þennan þátt.

Út af svörum hæstv. ráðh. vil ég segja þetta: Hann taldi, hæstv. ráðh., að ég hefði ekki farið rétt með tilvitnun mína, þegar ég vitnaði til Viðreisnar, hún sannaði ekki það, sem ég vildi sanna. Það, sem ég hef haldið fram, bæði í umr, nú og áður fyrr, þegar ég hef rætt um þessi mál, er, að samanburður okkar á fjárl. fyrir árin 1958 og 1959 er, eins og tekið er fram í nál. okkar um fjárlfrv., gerður hliðstæður með því, að við tökum niðurgreiðslurnar, sem inntar voru af hendi af útflutningssjóði þessi ár, og bætum þeim við niðurstöðutölur fjárlaga. Þær voru árin 1959 113 millj., eins og segir í Viðreisn, sem hæstv. ráðh. las og staðfesti mína frásögn, en 75 millj. 1958, og þeim er bætt við niðurstöðutölur fjárlaga fyrir það ár, Þess vegna er þessi samanburður algerlega hliðstæður og útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir, sem hæstv. ráðh. er þar að ræða um, voru greiddar vegna yfirfærslugjaldsins og bótakerfisins, sem var afnumið með gengisbreytingunni, en ekki af þeim ástæðum, sem nú er gert. Þær uppbætur, sem nú eru greiddar, voru teknar upp með samningum um breytingu á framleiðsluráðslögunum á haustdögum 1959 og í byrjun árs 1960. Þar var því breytt í þeim lögum, að það mætti á innlendum markaði ákveða verðið svo hátt, að það bæri uppi það, sem vantaði til, að útflutningurinn gæfi það verð, sem bóndinn þyrfti að fá og átti að fá samkv. verðlagsgrundvelli. En gegn því að gefa þetta eftir var það ákvæði upp tekið, að ríkissjóður bæri takmarkaða ábyrgð á verði útfluttra landbúnaðarafurða. Samanburður okkar í sambandi við fjárl. 1958 og síðar er þess vegna algerlega hliðstæður.

Þá ætlaði hæstv. fjmrh. sér að sanna það, að við hefðum ekki viljað afnema uppbótakerfið í áföngum, og vitnaði þar í hluta úr nál. Það var bent á það af Framsfl. í umr. um efnahagsmálin 1960, að það heljarstökk, sem hæstv. ríkisstj. var að stökkva, væri ekki framkvæmanlegt og hægt að koma standandi niður úr því stökki. Álögurnar, sem fylgdu breytingunni á efnahagskerfinu, væru svo miklar, að það mundi skapa þá óðadýrtíð, sem staðreyndirnar sýna að orðin er. Þess vegna varð að fara út úr uppbótakerfinu í áföngum, eins og á var bent af Framsfl., en ekki eftir þeirri leið, sem hæstv. ríkisstj. fylgdi þá.

Það var eitt, sem var athyglisvert í ræðu hæstv. fjmrh., og það var afstaðan um niðurgreiðslurnar, er hann svaraði því, hvort ætti raunverulega að fella niður 92 millj. eða lækka aðstoð ríkisins til niðurgreiðslna. Það, sem við höfum haldið fram í því sambandi, er afstaðan til verðlagsins í landinu, en ekki mat á niðurgreiðslunum sjálfum að öðru leyti en því, er við efnahagsmálum horfir. Um þetta sagði hæstv. ráðh., að það yrði tekið til athugunar eftir áramótin, þegar efnahagsmálin í heild yrðu tekin þá til athugunar, þá yrði þetta einn þáttur í því. Þetta gefur ástæðu til að ætla, að nokkuð sé ógert enn þá í efnahagsmálum og til skatthækkunar gæti komið.

Sérstaklega virðist það hafa farið í taugarnar á hæstv. ráðh. og þeim ráðh., því að hæstv. samgmrh. talaði hér einnig, hvað sagt var um vegamálin, og taldi hæstv. fjmrh., að ég hefði notað þar of stór orð, er ég taldi, að ástandið í vegamálunum væri að komast á það stig, að kerfið sjálft væri að bresta. Nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna hér í grg. fyrir vegamálafrv. Á bls. 16 segir svo, — „Vandamálið — og lausn þess“ heitir sá kafli, — þar segir m.a. þetta:

„Nefndin komst brátt að þeirri niðurstöðu, að þjóðin stæði andspænis tvíþættum vanda í vegamálum. Í fyrsta lagi fer bifreiðaeign landsmanna og þar með bifreiðaumferð svo ört vaxandi, að vegakerfið mun reynast algerlega ófullnægjandi og jafnvel bresta.“

Þetta var nú mat þessarar n., sem samdi vegamálafrv. Það sýnir, að það eru fleiri en ég, sem eru á þeirri skoðun, að vegakerfið í landinu muni bresta, ef ekki sé snúið frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í ráðherratíð hæstv. núv. fjmrh. En í sambandi við fyrri aðgerðir í vegamálum vil ég leyfa mér að vitna til greinar, sem Geir Zoëga, fyrrv. vegamálastjóri, skrifaði í Fjármálatíðindi, 1. hefti 1956. Þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Aðaláherzlan hefur verið lögð á það að gera sem víðast akfæra vegi, ekki aðeins aðalleiðir, heldur jafnvel inn í hvert byggðarlag og heim á hvern bæ. Er nú svo komið, að akfærir vegir munu ekki lengjast verulega úr þessu, en keppa verður þeim mun meir að endurbótum á þeim.“

Þetta sagði þessi embættismaður um stefnu Framsfl. í vegamálum, meðan Framsfl. stjórnaði vegamálunum. Þá tókst að teygja vegakerfið út yfir allt landið. En á bls. 9 í þessu hefti gerir vegamálastjóri fyrrv. samanburð á því, hvað miklum hluta af útgjöldum fjárl. hafi verið varið til vegamála. Og allt frá 1940–1954, sem þessi skrá nær yfir, er varið frá 10–15% af heildarútgjöldum fjárlaga til vegamála í landinu. En í ráðherratíð núv. hæstv. fjmrh. hefur þetta verið 5, 6 og 7%. Á sama tíma sem þróunin hefur orðið á þann veg, hefur allt til þess tímabils, sem þessi grein fyrrv. vegamálastjóra nær yfir, verið svo, að ríkissjóður hefur orðið að leggja vegagerðinni til meira fé en hann hefur haft í tekjur af umferðinni í landinu. Og það er ekki fyrr en eftir þann tíma, sem ríkissjóður sjálfur hefur meira fé í tekjur af umferðinni en hann leggur til vegamála. Og það skipta engu máli fyrir ríkissjóð þær tekjur, sem eru af umferðinni umfram gjöldin, fyrr en á árinu 1959. En síðan 1959 hafa sem sagt ár frá ári farið vaxandi þær tekjur, sem ríkissjóður hefur haft af umferðinni í landinu, og það svo, að það skiptir hundruðum millj. nú orðið, nettótekjur ríkissjóðs, og á þessu ári, 1963, mun ríkissjóður koma til með að hafa í tekjur af leyfisgjöldum af innfluttum bifreiðum álíka fjárhæð og varið er til vegamála. Og svo kemur hæstv. fjmrh. og er undrandi yfir því, að hv. þm. skuli nú leyfa sér að gagnrýna stefnu hans um framkvæmd á fjárveitingum til vegamála, þegar ríkissjóður hefur þannig fleytt rjómann af raunverulega verkum þeirra, sem hafa staðið fyrir því að koma á vegakerfinu á Íslandi, og á sama tíma, sem inn í landið eru fluttar þúsundir og aftur þúsundir af bifreiðum. Þörfin fyrir landflutningana eykst dag frá degi, stærri og þyngri bílar fara um vegina einnig dag frá degi og annað eftir því. Og eins og ég tók fram í ræðu minni í dag, gerist það ekki hér á hv. Alþingi, að þm, sameinist um að leggja hundrað millj. kr. skatt á þjóðina, nema vegna þess að málið er svo veigamikið að þeirra dómi, að það má einskis láta ófreistað til þess að koma því í höfn. Það er sterkastur sá dómur og mest virði um stefnu hæstv. núv. ríkisstj. í framkvæmd vegamála, að Alþingi sameinast um að leggja hundrað millj. kr. skatt á þjóðina til þess að bjarga vegamálunum.

Ég skal ekki þreyta hv. þm. lengur á umr. um þetta mái að sinni, en segja hæstv. ráðh. það að lokum, að ég mun njóta góðrar jólagleði, þó að hann legði það á sig að vera 4 daga að leita að gögnum til þess að svara ræðu minni, og þó tókst ekki betur en raun varð á. Ég treysti því einnig, að hann megi góðrar jólahelgi njóta.