06.02.1964
Sameinað þing: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (2982)

86. mál, símagjöld á Suðurnesjum

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 95 till. til þál. um breytingu á gjaldskrá landssímans. Efnislega samhljóða till. var árið 1960 flutt af hv. 3. þm. Reykn., en enn þá hefur breyting sú, sem ályktunin gerir ráð fyrir, ekki komið til framkvæmda, og þess vegna er till. þessi flutt nú enn á ný.

Svo sem þskj. 95 ber með sér, er efni ályktunarinnar það að fá fram samræmingu á símagjöldum Suðurnesjamanna, t.d. á borð við afnotagjöld þess fólks, sem byggir landssvæðið frá Reykjavík suður til Hafnarfjarðar. Ákvörðun um sama afnotagjald á þessu byggðasvæði er m.a. studd þeim staðreyndum, að stór hluti íbúanna sækir á tiltölulega fáa vinnustaði og að náin félagsleg samskipti eru á milli byggðarlaga þessa svæðis, þ.e. á svæðinu frá Viðey í Reykjavík að Hvaleyrarholti við Hafnarfjörð.

Fyrir örfáum árum hélt sjálfvirkni innreið sína við símaþjónustuna hér á landi og vinnur nú verk margra handa öllum þeim, er njóta, til mikils hagkvæmnisauka. Eðlilega hafa ýmsir byrjunarörðugleikar orðið samfara hinni miklu breytingu, sem sjálfvirknin hefur haft í för með sér. Næst á eftir fyrrnefndu landssvæði hélt sjálfvirkni talsímans innreið sína á Reykjanesskagann. Símnotendur þar telja sig misrétti beitta miðað við hið fyrrnefnda landssvæði, þ.e. frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Að því er virðist liggja nákvæmlega sams konar rök til þess, að íbúar Suðurnesja sitji við sama borð í þessum efnum og í mörgum atriðum öðrum, og því e.t.v. enn ríkari þörf, ef hliðsjón væri af því höfð, hve atvinnugreinar íbúanna á Suðurnesjum eru einhæfar. Þær eru bundnar sjó og sjávarstörfum og þar af leiðandi í orðsins fyllstu merkingu háðar duttlungum íslenzkrar veðráttu. í dag er meginhluti fiskiflotans, e.t.v. allur, í Grindavík, eða skiptist milli Grindavikur og Sandgerðis, en á morgun í Keflavík vegna veðráttu eða aflamöguleika. Við jafnsveiflukennda atvinnuaðstöðu kemur tækni talsimans að sérstaklega góðu haldi og er af þeim sökum mikið notuð í mjög nauðsynlegum tilgangi. Hin dreifðu byggðarlög Suðurnesja hafa aðeins eina að- og útskipunarhöfn millilandaskipa í Keflavík. Þessi sérstaða krefst einnig mikillar símanotkunar, er öllum, sem minnstu kynni hafa af, er augljós.

Við, sem búum hér á landssvæðinu frá Reykjavik til Hafnarfjarðar, teljum sjálfsagt að greiða 1.10 kr. fyrir símtalið innan þess ramma, án tillits til lengdar þess. Suðurnesjamenn greiða sama gjald fyrir hverjar 24 sekúndur, sem þeir tala saman sín í milli eða á milli byggðarlaga þar. Án viðvörunarmerkis er hverju viðtalsbili þar lokið. Hér er um ósanngjarnt misræmi að ræða, — misræmi, sem vart verður lengur varið. Vegalengdirnar milli útvegsbæjanna á Suðurnesjum verða vart lengur taldar geta staðið í vegi fyrir því, að talsímanotendur á Suðurnesjum sitji við sama borð í greiðslu afnotagjalds talsímans.

Við tölum oft fjálglega hér og á öðrum samkomum um nauðsyn þess, að vel sé hlúð að sjávarútvegi og því starfsfólki þjóðarinnar, sem við þann útveg vinnur, og spörum oft ekki fjárframlög í því skyni. Hér er aðeins farið fram á rökrétt jafnrétti þessa fólks, án stórfelldra fjárútláta.

Nefnd sú, sem till. Þessa fær væntanlega til meðferðar, verður að breyta því í till., sem nú fær ekki lengur staðizt af þeim ástæðum, hve langt er um liðið, síðan till. var lögð fram.

Herra forseti. Ég legg svo til, að till. verði að loknum umr. nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.