06.02.1964
Sameinað þing: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í D-deild Alþingistíðinda. (2991)

87. mál, vegasamband milli Fljótshverfis og Suðursveitar

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég get nú verið fáorður um þessa till. Samhljóða till. þessari hefur verið flutt hér áður og gerð hér grein fyrir henni, en allýtarleg grg. fylgir till.

Efni þessarar till. er það, að hún beinir þeirri áskorun til ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvort unnt sé og hvað kosta mundi að koma á hringveg kringum landið, þ.e.a.s. að tengja vegasambandið úr Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu við vegasambandið í AusturSkaftafellssýslu. Við álítum það, sem búum á Austurlandi, að hér sé um mjög mikið mál að ræða og að margt bendi til þess, að nú séu orðnir fullir möguleikar á því að leysa þann vanda, sem þarna er við að glíma. Það má heita fullvíst, að það liði ekki mjög langur tími, Þangað til vegasambandið frá Höfn í Hornafirði og í Öræfasveit verður orðið samfellt, þangað til verður búið að brúa þær ár, sem þar eru á leiðinni enn óbrúaðar. En þá er eftir vegarstæði, sem mun spanna yfir um það bil 30 km svæði, að vísu erfitt svæði til vegagerðar, því að það liggur yfir Skeiðarársand, en mjög margt bendir til þess, að það eigi ekki að hræðast Þá erfiðleika, sem þarna er við að glíma. Svo miklar breytingar hafa orðið á hlaupum Skeiðarár nú hin siðari ár, að jafnvel þó að þessi vegagerð yrði að byggjast á því, að nokkur hluti á þessum kafla yrði að byggjast á tiltölulega ódýrum staurabrúm, sem maður gerði hreinlega ráð fyrir að kynnu að sópast í burtu, þegar jökulhlaup verða, þá er þar ekki um meiri kostnað að ræða en svo, að við álítum, að það eigi ekki að horfa í það að byggja vegagerðina á þessum grundvelli. Ég hef átt tal við nokkra þá menn, sem eru mjög kunnugir staðháttum á þessu svæði og hafa mikla trú á því, eins og nú er komið, að hægt sé að koma á eðlilegri vegagerð þarna á milli. Ég vil því, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta fara fram athugun á þessum málum.

Hér hefur nokkuð verið rætt um það í þinginu áður, að gerðar yrðu tilraunir til þess að halda uppi ferðum yfir þetta svæði með svonefndum vatnadreka, þ.e.a.s. nokkurs konar skriðdreka, sem gæti flutt bila, ferjað bíla þarna yfir. Slíkt kann auðvitað að bæta nokkuð úr í einstaka tilfellum, en það leysir ekki þann meginvanda, sem hér er um að ræða. Sé vegagerðin möguleg, þurfum við að fá vitneskju um það. Ef þetta mætti takast, er um leið búið að tryggja Austurlandi öruggt vegasamband við Suðurlandsundirlendið og Reykjavík allt árið, en slíkt hefði gífurlega þýðingu fyrir alla byggð og allan rekstur á Austurlandi. Þá gefur það auðvitað alveg auga leið, hvað þetta vegasamband mundi þýða fyrir Austur-Skaftafellssýslu, íbúana þar og allan rekstur á því svæði.

Ég skal ekki, eins og ég sagði, eins og öllu háttar við þessa umr., hafa um þetta fleiri orð, en ég vildi leggja til, að að þessari umr, lokinni yrði till. vísað til fjvn.