12.02.1964
Sameinað þing: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (3029)

112. mál, atvinnuástand á Norðurlandi vestra

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur frammi á Þskj. 198, er fram borin í þrennum tilgangi: í fyrsta lagi til þess að beina athygli Alþingis og hæstv. ríkisstj. að því alvarlega atvinnuástandi, sem skapazt hefur á vestanverðu Norðurlandi, en þar er núna tvímælalaust lakara atvinnuástand og verri atvinnuhorfur en í nokkrum öðrum landshluta. Í öðru lagi er þessi till. fram borin til þess að fá því framgengt, eins og fram kemur í till. sjálfri, að mþn. rannsaki þetta alvarlega ástand og íhugi, hvaða almennar ráðstafanir sé unnt að gera til þess að bæta úr því, og geri síðan beinar till. til úrbóta á hverjum stað. Í þriðja lagi gefst með þessari till. tækifæri til þess að benda á ýmsar færar leiðir út úr þeim vandræðum, sem skapazt hafa, og í grg. er bent á fjöldamarga möguleika, sem til greina koma, í því skyni að efla atvinnulíf og tryggja atvinnuástand á þessu svæði. Það er bent á ýmis nauðsynleg atvinnutæki, sem reisa þarf í landinu og ættu ekki siður heima í þessu kjördæmi en annars staðar á landinu.

Þm. Alþb. hafa lengi lagt á það sérstaka áherzlu, að skipuleggja þyrfti atvinnuuppbyggingu úti um land og að sjálfsagt væri að byggja sérstaklega á fullnýtingu sjávar- og landbúnaðarvara. í þessu sambandi hafa verið fluttar margar till. hér á þinginu, t.d. till., sem nýlega var afgreidd til n. hér, en hana flutti 5. þm. Austf., og fjallaði um eflingu útflutningsiðnaðar. Svipaðar till. hafa einnig komið fram hér í þinginu núna, og má þar geta till., sem hv. 5. þm. Norðurl, v. flytur og fjallar um iðnað í kaupstöðum og kauptúnum. Þessi till., sem hér er á dagskrá, er að sjálfsögðu í fullu samræmi við þessar fyrrgreindu hugmyndir, en með henni er þó sérstaklega stefnt að því að leysa vandræði þess landshluta, sem tvímælalaust býr núna og hefur búið við lakast atvinnuástand á undanförnum árum.

Það má segja, að atvinnuástandið sé einna lakast á Hofsósi og Skagaströnd í þessu kjördæmi. Þarna hefur lengi verið almennt atvinnuleysi, sem er ekki ólíkt því eins og það varð verst á kreppuárunum. Þannig er komið, að flestir vinnandi menn eru neyddir til þess að dveljast meiri hluta ársins fjarri heimilum sínum. í báðum kaupstöðum þessa kjördæmis, Siglufirði og Sauðárkróki, hefur verið mjög erfitt atvinnuástand. Á Siglufirði er mjög þröngt um atvinnu, og ekki hefur ástandið batnað, eftir að tunnuverksmiðjan á staðnum brann til kaldra kola. Á Sauðárkróki hefur sjávarútvegurinn verið á heljarþröminni, og frystihús á staðnum hafa ýmist verið í mjög erfiðri aðstöðu eða hreinlega gjaldþrota. Það, sem á skortir á öllum þessum stöðum, er, að eitthvert atvinnuöryggi sé til staðar. Ein aðalorsök ástandsins á þessu svæði er vitaskuld sú, að frá Þessu svæði, sem áður var eitt helzta síldveiðisvæði landsins, hefur síldin raunverulega horfið. Þessi landshluti, sem byggður hefur verið upp með hliðsjón af síldarvinnslu og síldarmóttöku, hefur misst af síldinni, en fólkið hefur ekki ráðið við það ástand, sem skapazt hefur. Á stöðununum hefur ekki verið til fjármagn eða aðstaða til útvegunar fjármagns, svo að hægt væri að breyta þessu ástandi með því að fá ný atvinnutæki, og því hefur fárið sem fárið hefur.

Það þarf ekki að taka fram, að þetta hérað, Norðurland vestra, er að mörgu leyti mjög vel fallið til uppbyggingar góðra atvinnuvega og blómlegs atvinnulífs. Þetta hérað liggur svo að segja í þjóðbraut. Flutningar til og frá eru mjög auðveldir, og einnig er mjög auðvelt um rafmagnsvinnslu á þessu svæði.

Það er tvímælalaust mjög varhugavert fyrir ríkisvaldið að horfa aðgerðalaust á þessa öfugþróun, sem nú hefur átt sér stað að undanförnu. Þetta er tvímælalaust mál, sem skiptir ekki aðeins íbúa þessa svæðis miklu, heldur hlýtur einnig frá þjóðhagslegu sjónarmiði að vera mjög varhugavert að horfa upp á það, að atvinnulíf í einum landshluta drabbist niður og byggingar grotni niður, vegna þess að fólkið flýi á brott. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að enginn getur reiknað ferðir síldarinnar og einn góðan veðurdag getur hún komið á þessa staði aftur, en þá er ef til vill komið það ástand, að fólk er ekki til staðar til að taka á móti henni, byggingar grotnaðar niður og atvinnulífið álit í molum.

Frá Þjóðhagslegu sjónarmiði virðist því sjálfsagt, að ríkisvaldið geri einhverjar almennar ráðstafanir til að bæta og tryggja atvinnuástandið á þessum stöðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að kaup í almennri verkamannavinnu er ekki svo hátt nú, að menn geti lífað af 8 tíma vinnu. Hv. alþm. geta því ímyndað sér, hvernig sé ástatt fyrir mönnum, sem verða ekki aðeins að láta sér nægja lítið yfir 8 tíma vinnu, heldur standa líka uppi vinnulausir í 3–4 mánuði á ári. Eitt af stjórnarblöðunum lýsti því yfir fyrir rúmu ári, að maður, sem yrði að vinna 8 tíma á dag og hefði ekki annað til að framfleyta sinni fjölskyldu, yrði tvímælalaust hungurmorða. Hvað verður þá sagt um það fólk, sem litið meiri atvinnu hefur en þessa 8 tíma, en verður þar að auki að horfa upp á að vera atvinnulaust í kannske 3–4 mánuði á hverju ári?

Nú kunna einhverjir að spyrja: Af hverju flytjast menn ekki á brott, þegar ekkert er að hafa á þessum stöðum? Hvað eru menn að hanga, þar sem ekkert er að hafa og ekkert að gera? Mönnum sé nær að flytjast á brott frá þessum steindauðu stöðum og það sé nóg vinna annars staðar, sem menn geta hlaupið í.

Þessu er því til að svara, að algengast er hér á landi, að menn hafi lagt allar sínar eigur í að byggja hús yfir sig og sína fjölskyldu. Og það er um þessi hús að segja, að oft eru þetta einu eignir manna. Menn eiga ekkert annað af dauðum hlutum á þessari jörð en þessa einu eign, sitt hús, og þetta eru oft ágæt íbúðarhús. En nú stendur svo á, að þessar byggingar eru algerlega verðlausar og óseljanlegar. Það er því skiljanlegt, að ekki er glæsilegt fyrir menn að flytja burt úr heimabyggð sinni og verða að skilja eftir á staðnum eina verðmætið, sem þeir eiga og ekki er unnt að selja, og verða svo kannske að flytja til Reykjavíkur, þar sem óðaverðbólga ríkisstj. hefur sprengt húsaleiguverðið upp í 4—6 þús. kr. á mánuði. Ég trúi ekki öðru en flestir, sem þetta hugleiða, skilji, að það er erfitt fyrir menn að taka slíka ákvörðun og ekki að undra, að fátækir menn séu ekki ýkja ginnkeyptir fyrir því að flytja á brott, meðan nokkur von er til þess, að litið verði á vandamál þetta af einhverjum skilningi.

Nú munu ýmsir samþykkja þessar röksemdir, að það kunni að vera erfitt fyrir menn að flytjast alfarna á brott og skilja byggingar sínar og eigur eftir, en þeir munu segja: Meðan svo stendur á, að lítið aflast, geta menn bara leitað suður á vertið um stundarsakir, því að þar er oft og tíðum mikil þörf á vinnuafli. Reyndar er haft eftir einum hv. þm., að það sé ekkert auðveldara fyrir menn en að fara suður og það sé reyndar þjóðhagslega nauðsynlegt að hafa svona pláss, þar sem ekkert er að gera, hafa svona hóp af mönnum, sem ekkert hafa, svo að hægt sé að gripa til þessa ónotaða vinnuafls og senda á þá staði, sem þörf er á, því að eins og við vitum, er þannig háttað okkar atvinnuvegum, að það geta verið mikil áraskipti að því, hvar atvinnunnar er mest þörf. Ég skal fúslega játa, að það er ekki bein frágangssök fyrir unga og fullhrausta menn að leita sér atvinnu annars staðar, þegar um undantekningartilfelli er að ræða og meðan sem sagt svona illa stendur á, að enga atvinnu er að fá í heimabyggð þeirra. En mergurinn málsins er auðvitað sá, að í fyrsta lagi eru þetta viða engin undantekningartilfelli. Á stöðum eins og Hofsósi og Skagaströnd er þessi háttur orðinn almenn regla og engin undantekning. Þaðan verða flestallir vinnandi menn að leita á brott mikinn meiri hluta ársins og það ekki eitt árið eða annað, heldur ár eftir ár. Ég held, að það geti ekki talizt heilbrigt eða eðlilegt og beri ekki að stuðla að því, að svo sé, að menn séu fjarri heimilum sínum meiri hluta ársins um langt árabil, og geti á engan hátt talizt heilbrigt í neinu þjóðfélagi. Í öðru lagi ber auðvitað að minna á, að það vill nú svo illa til yfirleitt, að ekki nærri allir eiga heimangengt. Fjöldamargir hafa alls ekki heilsu til þess að fara frá heimili sínu í önnur byggðarlög og snapa þar uppi einhverja atvinnu og verða að þiggja hvað sem er. Þetta getur stafað af því, að menn hafi ekki sjálfir heilsu til þess að standa í slíku. Það getur líka staðið þannig á, að þeir eigi sjúka konu, sem þeir eigi erfitt með að vera burtu frá í 8—9 mánuði. Það geta verið heimilisástæður og svo fjöldamargar aðrar ástæður. Þess vegna fer það svo, að enda þótt segja megi, að menn geti leitað á brott til annarra staða hingað suður, þar sem einhverja atvinnu er að fá, geta þetta ekki nærri allir, og þá fer þannig, að fjöldamargir eru hreinlega dæmdir til atvinnuleysis töluverðan hluta af hverju ári.

Ég vil taka það fram, að íbúar í kaupstöðum og þorpum á vestanverðu Norðurlandi eru að vísu ekki þeir einu, sem bundnir eru átthagafjötrum og örlögum atvinnuleysis vegna erfiðra skilyrða. Þannig er ástatt í fáeinum öðrum þorpum á landinu, enda þótt það sé tiltölulega lítið um það sem stendur. Þessir átthagafjötrar eru reyndar þeir sömu sem binda nú marga fátæka bændur í landinu. Ég lít svo á, að þetta tilfelli, sem hér um ræðir, sé þó alveg sérstakt, þar sem um heilan landshluta er að ræða, sem svo illa er komið fyrir, og þess vegna tel ég, að ríkisvaldið verði að koma þarna til hjálpar, ef þessi landshluti eigi ekki að dragast aftur úr í atvinnulegu tilliti.

Till. þessi er að öðru leyti nokkuð ýtarlega útskýrð í grg., og tel ég ekki ástæðu til þess að endurtaka eða rekja það. En ég vil minna á, að þessi mál eru heimamönnum í Norðurlandi vestra mjög á hjarta, og ég tel sjálfsagt og eðlilegt að lesa hér tvær till., sem snerta einmitt þetta mál og hafa komið fram núna seinustu vikurnar.

Á fundi, sem haldinn var á Skagaströnd 16. jan. s.1., var samþykkt eftirfarandi till., sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur hreppsnefndar og iðnaðarmanna í Höfðahreppi skorar á Alþingi að samþykkja fram komna till. Ragnars Arnalds um rannsókn á atvinnuástandi Norðurlandskjördæmis vestra og vinna að því að koma á fót atvinnutækjum á hverjum stað í samræmi við þá niðurstöðu, sem þá fæst “

Á fundi, sem boðað var til á Skagaströnd hinn 9. jan. s.1., var borin upp till. og samþ. af öllum fundarmönnum, þar með flestum hreppsnefndarmönnum. Þessa tillögu vil ég líka lesa:

„Almennur fundur, haldinn á Skagaströnd 9. jan. 1964, bendir á hið alvarlega ástand, sem verið hefur í atvinnumálum staðarins nú um nokkurt skeið. Tugir manna standa uppi atvinnulausir nokkurn tíma á hverju ári, og verðmætt vinnuafl fer í súginn. Fundurinn telur það sjálfsagða skyldu ríkisvaldsins að gera sérstakar ráðstafanir, þegar svona stendur á, að sveitarfélag fær ekki að gert, og telur því sjálfsagt, að reist verði á Skagaströnd einhver þau framleiðslu eða iðnaðarfyrirtæki, sem þörf er á að reisa og heppilegt er talið að staðsetja á Skagaströnd. Bendir fundurinn sérstaklega á niðurlagningarverksmiðju, dráttarbraut, tunnuverksmiðju eða lýsisherzlu. Fundurinn skorar á Alþingi og ríkisstj. að láta þegar fara fram skipulega rannsókn á því, hvaða ráðstafanir séu heppilegastar til að tryggja atvinnuástand á Skagaströnd.“

Ég hef lesið þessi bréf vegna þess, að í þeim kemur fram hið almenna viðhorf, sem ríkir í þessu kjördæmi um, að ríkisvaldinu beri skylda til þess að koma til hjálpar, og tel ég það nokkurn stuðning við þá till., sem ég flyt hér.

Að lokum vil ég leyfa mér að leggja til, að lokinni þessari umr., að málinu verði vísað til síðari umr. og fjvn.