04.03.1964
Sameinað þing: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

113. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Till., sem ég flyt hér ásamt 3 hv. þm., er á Þskj. 199, um endurskoðun laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Þessi þáltill. var flutt af okkur sömu þm. á síðasta þingi, en till. var þá ekki útrædd. Hún var send lagadeild Háskóla Íslands til umsagnar, en þingi var slitið, áður en lagadeildinni ynnist tími til að afgreiða umsögn um málið. Ef máli þessu verður eftir þessa umræðu vísað til allshn., tel ég víst, að hún muni óska eftir að fá umsögn um málið frá lagadeild, sem áður var um beðið. Með því að ég hafði framsögu fyrir þessu máli á síðasta þingi og það fylgir málinu allýtarleg grg., þá þarf ég ekki að fara um málið mörgum orðum.

Flestar þjóðir munu hafa allýtarlega löggjöf um það, hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja, til þess að útlendir einstaklingar eða félög megi eignast fasteignir í hlutaðeigandi landi og hafa afnotarétt af þeim. Við Íslendingar höfum þessi ákvæði í lögum nr. 63 frá 28. nóv. 1919, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Í lögunum frá 1919 er sett sú aðalregla, að þeir einstaklingar, sem eiga heimilisfang í landinu, hafi réttindi til að eiga fasteignir í landinu og hafa afnotarétt fasteigna í landinu. í lögunum er það ekki gert að skilyrði, að einstaklingurinn sé íslenzkur ríkisborgari og ekki einu sinni hafi dvalizt tiltekið árabil í landinu sjálfu. Það virðist ekkert vera því til fyrirstöðu, að útlendingar eignist hér fasteignir, ef þeir uppfylla það skilyrði eitt að vera hér búsettir. Ef um félög er að ræða og hver félagi ber fulla ábyrgð á skuldbindingum félagsins, er það einnig nægilegt, að þeir séu búsettir á Íslandi. Sé um hlutafélög að tefla eða stofnanir, er það skilyrði eitt sett, að félagið eða stofnunin eigi hér heimilisfang og hafi hér varnarþing í landinu og stjórnendur stofnunarinnar eða hlutafélagsins eigi hér heimilisfang. Frekari skilyrði en þau, sem ég hef nú greint, virðast ekki sett fyrir því, að útlendingar eigi hér fasteignir. Það er eftirtektarvert, að íslenzk löggjöf setur engin skilyrði um hlutafjáreign íslenzkra ríkisborgara. Þótt hlutafjáreign sé að miklum hluta í höndum útlendinga, er það löglegt samkv. íslenzkum lögum.

Mér virðist það liggja í augum uppi, að ákvæði laganna frá 1919 eru ekki mikill hemill á það, að útlendingar geti eignazt hér fasteignir, og ætti það að liggja ljóst fyrir samkv. því, sem ég hef nú rakið. Það er þess vegna brýn nauðsyn til þess að áliti okkar flm., að þessi lög séu endurskoðuð. Ég hef ekki kynnt mér að ráði löggjöf annarra þjóða um þetta efni, en tel mig þó geta fullyrt, að hjá flestum öðrum þjóðum eru skilyrðin fyrir því, að útlendingar geti eignazt fasteignir, miklu strangari en hér á landi. En ég tel rétt og raunar alveg nauðsynlegt, að við, sem erum fámenn þjóð, höfum a.m.k. eins ströng ákvæði því til varnar, að útiendingar geti keypt hér fasteignir, eins og nokkur önnur þjóð.

Efni till. er einnig um endurskoðun lagaákvæða um atvinnuréttindi útlendinga hér á landi. Við flm. álítum, að rétt sé, að ákvæði þessu viðvíkjandi séu athuguð í sambandi við þetta mál.

Það kann að vera, að ýmsir segi sem svo, að þessarar löggjafar sé ekki mikil þörf eða endurskoðunar á henni, þetta hafi allt gengið sæmilega, útlendingar hafi ekki keypt hér fasteignir. Það er rétt, þeir hafa ekki keypt hér fasteignir að ráði. En við verðum að gæta þess, að tímarnir eru breyttir. Við höfum lifað í einangrun, og það hefur verndað okkur í þessu efni. Nú lifum við í þjóðbraut, og tímarnir eru að því leyti breyttir, og þeir eru breyttir að öðru leyti. Mörg aðstaða til atvinnurekstrar, sem áður var lítils virði hér á landi, er nú orðin mikils virði, og er tvímælalaust, að útlendingar renna til þeirra réttinda hýru auga. Það er þess vegna að okkar áliti nauðsynlegt, að sett sé ýtarleg löggjöf um þessi efni að ýtarlegri rannsókn lokinni, eins og gert er ráð fyrir í þessari till. Við hina breyttu aðstöðu, sem ég minntist á áðan, að við erum nú í þjóðbraut, en vorum áður afskekktir, bætist það, að mörg lönd eru nú fullsetin, og það er leitað eftir hverjum auðum bletti, sem opinn stendur, og við getum gert ráð fyrir því, að það verði einnig hér á landi. Það er því, eins og ég hef tekið fram, álit okkar flm., að þetta mál þurfi ýtarlega rannsókn og að henni lokinni þurfi að setja löggjöf um þetta efni, sem er a.m.k. eins trygg og löggjöf sú, sem flestar aðrar þjóðir setja um þetta efni.

Ég legg til, að eftir þessa umr. verði málinu vísað til allshn.