24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. ótvírætt er, að hinar miklu kauphækkanir, sem urðu á s.l. ári, hljóta að hafa margvísleg áhrif á efnahag okkar Íslendinga. Þessi áhrif verða misskjótvirk og munu lýsa sér með mismunandi hætti. En flestir munu hafa gert sér grein fyrir því, að viðbúið sé, að verði ekki gagnráðstafanir gerðar, sé líklegt, að til hreinna vandræða horfi. Hins vegar er æskilegt, að þessi áhrif fái lýst sér í framkvæmd, svo að allir aðilar geti áttað sig á þeim og mönnum gefist færi á að íhuga, hver úrræði séu líklegust til þess að forða þeim voða, sem yfir vofir. Þar er okkur öllum mikill vandi á höndum, og það er ljóst, að haldgóð úrræði fást ekki, nema um þau náist viðtækt samkomulag. Þess vegna er æskilegt, að svigrúm gefist til þess að íhuga allt það mál frá rótum og stjórnvöld og fulltrúar helztu atvinnustétta reyni til þrautar, hvort þau geti náð samkomulagi um nokkrar þær ráðstafanir, sem vænta má að til frambúðar nokkurrar dugi. Sem betur fer stendur nú þannig á, að við höfum meira svigrúm í þessum efnum en oft áður. Það svigrúm er að pakka hinum ríflegu gjaldeyrissjóðum, sem tekizt hefur að safna á undanförnum árum. Þeir gera að verkum, að við getum tekið okkur nokkurn tíma til að íhuga okkar ráð og kanna til hlítar, hvort unnt er að finna sameiginleg úrræði, sem aðilar eftir atvikum geti við unað. Og ríkisstj. mun á næstu mánuðum sjálf undirbúa þær till., sem hún hyggur að til sæmilega haldgóðrar lausnar kunni að horfa, og þegar hennar íhugunum er lengra komið áleiðis, leita samráðs við fulltrúa atvinnustéttanna.

En því miður dugir það eitt ekki að hugsa sitt ráð og vera aðgerðarlaus á meðan, vegna þess að verði ekki nú þegar gerðar nokkrar ráðstafanir, horfir til hreins óefnis. Eins og kunnugt er og marglýst var yfir við samningatilraunir á mánuðunum fyrir jólin, vofir yfir stöðvun á okkar útflutningsatvinnuvegum, ef ekki er þegar hafizt handa um einhverjar ráðstafanir þeim til léttis. Og í samningagerðinni, sem lokið var skömmu fyrir jól, var því lýst yfir af hálfu ríkisstj., að hún mundi með einum eða öðrum hætti hjálpa hraðfrystihúsunum til þess að standa undir þeirri 15% kauphækkun, sem um var samið. Og hygg ég, að öllum sé kunnugt, að ef þvílík yfirlýsing hefði ekki verið gefin, mundu samningar ekki hafa tekizt að því sinni og sennilega ekki enn í dag. Það er því fyrst og fremst til þess að efna það loforð, sem það frv. er borið fram, sem nú er hér til 1. umr.

Í 1. gr. þess er fjallað um nokkurn hluta þeirrar aðstoðar, sem hraðfrystihúsunum á að veita, og enn fremur er efni 3. gr. frv. um hið sama. Samkv. útreikningum Fiskifélags Íslands er talið, að aukning útgjalda hraðfrystihúsanna vegna 15% kauphækkunarinnar svari til 5.2% af framleiðsluverðmæti húsanna, og er þá talið, að þetta muni á þessu ári nema nálægt 62 millj. kr. upphæð. Þessari fjárhæð er ætlað að ná með tvennu móti, annars vegar því, sem lýst er í 1. gr., og hins vegar því, sem 3. gr. fjallar um. Samkv. 1. gr. er ætlazt til þess, að ríkissjóður leggi fram 43 millj. kr. á árinu 1964, er verja skuli til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks. Stofnlánadeild sjávarútvegsins á að úthluta þessu fé til tiltekinna framkvæmda í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands eftir reglum, sem sjútvmrh. setur. Það er kunnugt, að einn liður í rekstri hvers fyrirtækis hlýtur að vera sá að koma á endurbótum og endurnýjun þeirra tækja, sem unnið hefur verið með. Um hraðfrystihúsin er það svo, að talið er, að afkoma þeirra sé mjög misjöfn eftir því, hvort þau hafa komið á hjá sér umbótum eða ekki. Og er raunar talið mjög erfitt um áframhaldandi rekstur þeirra húsa, sem ekki hafa komið þvílíkum umbótum á.

Það er því eðlilegt, að þegar ríkið verður að hlaupa undir bagga með þessum mjög þýðingarmikla rekstri í landinu, áskilji það sér íhlutunarrétt um, að þeim endurbótum á rekstrinum verði á komið, er allir eru sammála um að horfi til góðs. Það er einnig eðlilegt, að það framlag, sem hér er ætlað, verði ekki einungis veitt til þeirra, sem eiga eftir að koma á hjá sér endurbótum, heldur einnig til hinna, sem þegar hafa ráðizt í þessar framkvæmdir og allverulegan kostnað þeirra vegna. Um þetta verður að sjálfsögðu fjallað nánar í þeim reglum, sem setja skal samkv. 1. gr., en hitt er, eins og ég segi, eðlilegt, að ríkið vilji fylgjast með því, að fénu sé varið á þennan veg, og með því verður ekki talið, að á neinn hátt sé hallað á þá, sem hjálparinnar eiga að njóta, vegna þess að fjárframlög í þessu skyni verða að teljast eðlilegur hluti af rekstrinum.

Hinn hluti aðstoðarinnar kemur fram í þeirri afléttingu útflutningsgjalds, sem ráðgerð er í 3. gr. frv. En þar segir, að af saltfiski, saltfiskflökum, söltuðum þunnildum og hrognum, af skreið, freðfiski, frystum rækjum, hrognum og humar, svo og af frystum fiskúrgangi til skepnufóðurs, skuli útflutningsgjald verða 4.2% af fob-verði í stað 6% áður. Talið er, að samkv. þessu muni hraðfrystihúsin fá hjálp, er jafngildi 19 millj. kr., og enn fremur framleiðendur saltfisks og skreiðar, sem jafngildir 11 millj. kr. Hins vegar hefur ekki verið talin ástæða til að svo stöddu að veita þvílíkan létti á öðrum afurðum en hér eru taldar.

Það er ljóst, að þessi aðstoð, sem fiskframleiðendur eða fiskiðjuver fá með þessum hætti, kemur að sjálfsögðu einnig útvegsmönnum og sjómönnum að gagni, vegna þess að hennar vegna er hægt að greiða hærra fiskverð en ella. Hins vegar er rétt að geta þess þegar, að eftir að fiskverð hefur verið ákveðið með þeim hætti, sem lög segja fyrir um, hefur komið fram mikil óánægja, bæði útgerðarmanna og sjómanna, með þá verðákvörðun. Ég skal ekki blanda mér í þá deilu, einungis láta uppi þá skoðun mína, að hún er ótvírætt tekin með löglegum hætti. Með því er ég sízt af öllu að draga úr því, sem ég heyrði, að A.S.Í, hefði ályktað í gær, að þetta væri borið undir dómstóla. Það er eðlilegt, að slíkt verði gert, ef menn telja ólöglega að farið. En mín skoðun er sú, að dómsniðurstöðunni hafi verið náð með löglegum hætti, enda ella vandséð, hvernig hægt hefði verið að framfylgja ákvæðum l., eins og á stóð. Hitt er svo allt annað mál, hvort aðilar telja verðið viðunandi fyrir sig, hvort útgerðarmenn treysta sér til þess að gera út og sjómenn til að vera á bátum, en þetta vandamál skapaðist fyrst eftir að samning þessa frv. var komin á lokastig, og það verður að sjálfsögðu að íhuga betur og með rækilegri hætti en unnt var á þeim tíma, sem til stefnu var, hvort þetta mál er þannig vaxið, að það krefjist sérstakra afskipta ríkisvaldsins. Hitt stendur óhaggað, að þó að fé samkv. 1. gr. og 3. gr. frv. eigi formlega að renna til fiskiðjuveranna, kemur það einnig útvegsmönnum og sjómönnum að gagni, eins og ég þegar hef lýst.

Því hefur verið hreyft, hvort ekki væri réttara að hafa annan hátt á þeirri aðstoð, sem veita þyrfti, heldur en hér er gerð till. um. Það er vitað, að sumir eru óánægðir með, að veita eigi fé til framleiðsluaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks, vildu hafa meðferð fjárins að öllu óbundna. Ég hef þegar gert grein fyrir því, af hverju við töldum þann hátt eðlilegan, sem í 1. gr. segir. Þá hefur einnig verið um það talað, að réttara hefði verið að létta frekar af útflutningsgjaldi heldur en gert er samkv. 3. gr. Því til að svara er það, að mjög óheppilegt yrði að teljast og með öllu óviðunandi, ef ríkissjóður tæki beint á sig gjöld af vátryggingum skipanna. Það er kostnaður, sem eðli málsins samkv. og til þess að nokkur varúð verði viðhöfð verður að hvíla á útgerðinni sjálfri með einum eða öðrum hætti. Hitt er allt annað mál, að ýmsir telja, að núv. tryggingafyrirkomulag sé ekki með öllu heppilegt og um of kostnaðarsamt. Það er atriði, sem ég skal leiða minn hest hjá, en er þó miklu flóknara og vandasamara en sumir vilja vera láta. En því tjáir ekki að neita, að hér á landi falla ýmis útgjöld á tryggingarnar, sem víðast annars staðar mundu vera látin lenda á útgerðarmönnunum sjálfum, og úr því að svo er, er eðlilegt, að tryggingarnar séu hér kostnaðarsamari en víðast hvar annars staðar. En tryggingafyrirkomulagið er allt í endurskoðun, og mun um það á sínum tíma koma till. til breytingar, þó að hún liggi enn ekki fyrir.

Að öðru leyti má segja, að nokkurt áhorfsmál sé, hvort sum þeirra gjalda, sem útflutningsgjaldið stendur undir, ættu að berast að meiri hluta af ríkissjóði en nú er ákveðið. Við töldum eðlilegt, að ríkið tæki á sig hálfan kostnað eða hálft framlagið til fiskveiðisjóðs, vegna þess að með því fær sjávarútvegurinn svipaða skipan sinna stofnlána og landbúnaðurinn hefur nú þegar. Þar er því tekið upp sams konar fyrirkomulag og hinn aldni höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar býr nú við og ekkert nýtt fordæmi skapað. Gjöldin til fiskimálasjóðs, til byggingar haf- og fiskirannsóknarskips, til rannsóknarstofnunar sjávarútvegsins mætti segja, að ríkið gæti tekið að sér að öllu eða nokkru, án þess að þar með væri horfið frá eðlilegu fyrirkomulagi. En þá er á það að líta, að þarna er um svo lágar upphæðir að ræða, að þær mundu ekki hrökkva til að ná þeirri fjárhæð, sem verja þarf til aðstoðarinnar. Gjaldið til Landssambands ísl. útvegsmanna er hins vegar bæði lítið og eðli málsins samkv. ekki eðlilegt, að það hvíli á öðrum en útgerðinni sjálfri. Ég hygg því, að með þeirri skipan, sem valin hefur verið, hafi verið farin hæfileg millileið í þessum efnum.

Þá hefur einnig því verið hreyft, hvort hægt væri að létta fyrir hraðfrystihúsunum með því að afnema tollgreiðslur eða lækka tolla á vélum og tækjum til fiskvinnslu og efni til slíkra véla og tækja, sem smíðuð eru innanlands. Það er talið, að á árinu 1962 hafi tollar af slíkum vélum og tækjum til frystihúsa numið kringum 5 millj. kr., og sker sú upphæð engan veginn úr í þessum efnum og er erfitt að ákveða slíka lækkun fyrir eina grein, án þess að allsherjarendurskoðun eigi sér jafnframt stað. Nú stendur þvílík endurskoðun yfir, og þá verður þetta atriði haft í huga, hvort þarna sé hægt að afnema tolla af öllu eða nokkru, en á þessu stigi málsins þótti ekki fært að taka um þetta atriði ákvörðun.

Þá hefur einnig verið rætt um það, hvort rétt væri að lækka vexti á afurðavíxlum, og hafa átt sér stað um það viðræður milli Seðlabankans og ríkisstj. En vaxtagreiðslur frystihúsanna vegna afurðalána bankanna eru hins vegar mjög lítill hluti af framleiðsluverðmæti þeirra. Það er talið, að á árinu 1963 hafi þessar greiðslur alls numið um 15 millj. kr., eða 1.25% af framleiðsluverðmætinu. Algert afnám vaxta kemur vitanlega ekki til greina, einhver lækkun hefði munað hraðfrystihúsin sáralitlu, og þótti því ekki taka því að gera slíka ráðstöfun í sambandi við lausn þessa máls nú, en hitt stendur eftir, að Seðlabankinn hefur til íhugunar í samráði við ríkisstj., hvort unnt sé að lækka þessa vexti. En þá þarf einnig að athuga, hvaða áhrif það hefur á vexti almennt og aðstöðu bankanna, svo að það er nokkru flóknara mál en um það verði eða sé rétt að taka skyndiákvörðun.

Auk þeirrar aðstoðar, sem samkv. 1. og 3. gr. er ætluð til hraðfrystihúsanna og þar með útvegsmanna og sjómanna, er í 2. gr. ákveðið, að 51 millj. kr. skuli greiða til togara, sem gerðir eru út á árinu 1964. En þá er þess að gæta, að ætlazt er til, að miðað verði við úthald togaranna á árinu ,1963, þannig að þeir geti, svo skjótt sem fé er fyrir hendi, fengið þessar greiðslur. Það er svipað fyrirkomulag og á sér stað með aflatryggingasjóðinn. Það má því segja, að það sé frekar að deila um orð heldur en efni, hvort þessi styrkur er veittur fyrir árið 1963 eða 1964, og er þá viðbúið, að sumir haldi því fram, að úr því að miða skuli við árið 1963, eigi styrkurinn að koma til allra togara, sem þá voru út gerðir. Hin leiðin var nú valin í frv. og orðalagið miðað við það, að finna mætti leið til þess að styrkja einnig nú þegar þá togara, sem ekki voru gerðir út árið 1963, lágu þá, en einhverjir e.t.v. fengjust til þess að gera út nú, ef styrkveiting væri fyrir hendi. Þetta atriði verður að sjálfsögðu athugað nánar í nefnd og þá einnig tekin um það fullnaðarákvörðun í þeim úthlutunarreglum, sem ætlazt er til að settar verði samkv. greininni.

Það er engin nýjung, að úr ríkissjóði hafi þurft að greiða beinan styrk til útgerðar togaranna. Svo var einnig t.d. gert á árinu 1962 og raunar áður einnig, þótt í smærra mæli væri. Ástæðan til þess er það gífurlega tap, sem togararnir urðu fyrir við útfærslu landhelginnar, og það er eðlilegt, að landsmenn allir taki þátt í því að bera þann bagga með útgerðarmönnum togaranna, enda ljóst, að ef svo væri ekki gert, þá mundi togaraútgerð með öllu leggjast hér niður. Og þó að henni hafi gengið treglega hin síðari ár, vitum við af fenginni reynslu, að slíkt kann að breytast, áður en varir, og væri mjög illa farið, ef við misstum þessi miklu aflatæki með ollu úr okkar eigu og værum þess vanmegnugir að taka við afla, þegar hann er fáanlegur og kemur stundum mjög skjótlega á land og skapar hér mikil verðmæti, og er þá skemmst að minnast þess, sem gerðist á árunum 1958 og 1959. Að öðru leyti má segja um erfiðleika togaranna fyrir utan þennan aflabrest, sem sumpart má segja að sé almennur á þessum slóðum nú, en sumpart kemur beinlínis af stækkun landhelginnar, að talið er, að óheppilegt vinnufyrirkomulag sé um borð í skipunum, og væri vissulega æskilegt, að um það næðust samningar milli réttra aðila að gera þar á breytingu, báðum eða öllum aðilum til góðs, ekki sízt meðan þannig stendur í landi, að hér er skortur á vinnuafli, og því engin hætta á, að menn verði atvinnulausir, þótt nýir vinnuhættir verði upp teknir á togurunum. Hitt blasir þvert á móti við, að vegna mikillar aukningar bátaflotans eru horfur á sjómannaskorti.

Þessi upphæð hefur verið ákveðin samkv. till. n., sem skipuð var á sínum tíma af hæstv. sjútvmrh., og má örugglega segja, að hún sé algert lágmark þess, sem líklegt er að komizt verði af með.

Þá er einnig í 2. mgr. 2. gr. ráðgert að verja meira fé en þegar er ætlað á fjárlögum til þess að halda úti skipi til fiskileitar. Fiskileit hefur orðið íslenzkum síldveiðum að ómetanlegu gagni. Því miður verður að segja, að gagnið hefur ekki orðið jafnmikið af þeirri fiskileit, sem stunduð hefur verið fyrir togarana, en vafalaust mundi meiri ávinningur hafa orðið, ef lengur hefði verið hægt að halda úti skipi. Til þess hefur skort fé, og ætti nú a.m.k. verulega að verða úr því bætt.

Þau útgjöld, sem þetta frv. bakar ríkissjóði, eru talin munu nema 128 millj. kr. á árinu 1964, og lýsir það sér sem sagt í þessu beina framlagi til hraðfrystihúsanna samkv. 1. gr., til togaranna samkv. 2. gr. og til þess að bæta Fiskveiðasjóði Íslands upp þann tekjumissi, sem hann verður fyrir vegna ákvæða 3. gr. Þá var því einnig lýst yfir á þinginu fyrir jólin, að ef almennar kauphækkanir yrðu, mundu bætur til almannatrygginga verða hækkaðar, svo sem þá var nánar lýst. Nú þegar hefur verið lagt fram frv. um þetta, og nemur sá útgjaldaauki á þessu ári 27 millj. kr. fyrir ríkissjóð. Við afgreiðslu fjárl. var ráðgert eða haldið opið réttara sagt, hvort hætt yrði niðurgreiðslum á verði nokkurra vara, þ.e. á fiski að öllu leyti og kjöti og smjöri að nokkru leyti. Ráðgert hafði verið, að ef sú lausn verkfallsins fengist, sem ríkisstj. gerði till. um hinn 3. des., yrði þessum niðurgreiðslum haldið áfram. Það var hins vegar ekki um slíkt talað í sambandi við þá lausn, sem endanlega fékkst. Engu að síður hefur ríkisstj. talið rétt að svo stöddu að halda niðurgreiðslunum áfram, og skortir þá til þess 55 millj. kr. Er þá talið, að öll þessi útgjöld muni nema kringum 210 millj. kr.

Óhjákvæmilegt er að afla fjár til þess að standa undir þessum útgjöldum, og hefur ekki önnur vænlegri leið fundizt til þess heldur en hækkun söluskatts, en hækkun hans úr 3% upp í 5% mundi, miðað við það að hækkunin tæki gildi hinn 1. febr., nema mjög svipaðri upphæð og hér um ræðir.

Ef þær hækkanir, sem orðið hafa vegna afleiðinga verkfallsins, hefðu ekki orðið, mundi að mestu leyti hafa verið hægt að sleppa við þessar greiðslur. Það má segja, að greiðslan til togaranna sé kauphækkununum óskyld, en allar hinar greiðslurnar standa í nánu sambandi við lausn verkfallanna í desember. Því var þá þegar marglýst yfir af hálfu ríkisstj. og hefur raunar oft komið fram síðan, að án tekjuaukningar til ríkissjóðs væri ekki með neinu móti hægt að standa undir þessum gjöldum, og er vandséð, að þau komi léttar við almenning með nokkurri aðferð, sem framkvæmanleg er og á hefur verið bent, annarri en þessari. Það er talið, að þetta muni valda kringum 2 stiga vísitöluhækkun, en raunverulega ekki hækka verðlagið þó nema um 1.4%. Allir þeir, sem áttu tal við ríkisstj. um lausn verkfallsins í desember, voru aðvaraðir um, að einhver slík hækkun yrði óhjákvæmileg. Svipað kom fram í umr., sem áttu sér stað hér á Alþingi, meðan á verkfallinu stóð, og eins og ég segi, hinu sama hefur ítrekað verið lýst yfir af hálfu stjórnarinnar opinberlega síðan og í skrifum einstakra ráðherra.

Þessi skattlagning getur því ekki komið neinum á óvart, enda er hún, eins og ég segi, með öllu óhjákvæmileg. Ég hef að vísu lesið, að vandinn væri sá einn að taka tekjuafgang ríkissjóðs og verja honum í þessu skyni. Þannig las ég í einhverju blaði í morgun, að tekjuafgangur ríkissjóðs 1962 hafi numið mjög háum upphæðum, — ég man ekki, hvort það voru 200 eða 300 eða 400 millj. kr., — og svipaðri upphæð aftur á árinu 1963. Í þessu blaði var raunar nokkurt ósamræmi, því að á öðrum staðnum var sagt, að þessar miklu fjárhæðir væru greiðsluafgangur ríkissjóðs, en á hinum staðnum, að þarna hefðu verið umframtekjur ríkissjóðs á þessu ári. Sannleikurinn er sá, að greiðsluafgangur ríkissjóðs varð raunverulega á árinu 1962, eins og alþm. er kunnugt, eitthvað í kringum 160 millj., og samkv. því, sem mér er tjáð, mun hann verða lægri á árinu 1963, eftir því sem séð verður. Hér eru því alls ekki fyrir hendi svo miklar fjárhæðir eins og ætla mætti af því, sem sumir halda fram í þessum efnum. Engu að síður mætti segja, að ef þessar fjárhæðir væru lagðar saman, væri þarna nóg fé til þess að standa undir þessum útgjöldum. En ef þannig væri farið að, væri vísvitandi verið að magna verðbólgu í landinu.

Þó að okkur komi ekki saman um allt, hv. alþm., þá erum við þó allir sammála um, að verðbólgan út af fyrir sig sé meinsemd, sem forðast beri. Ég hygg hins vegar, að engum, sem skyn ber á slíkt, detti í hug að halda öðru fram en því, að ef tekjuafgangi fyrri ára væri varið til þvílíkra útgjalda sem þessara, mundi það beinlínis verka verðbólguaukandi, auka til frambúðar þann vanda, sem okkur er nú mestur á höndum og þetta frv. að sínu leyti er ætlað að vera einn — að vísu einungis einn og lítill liður í til að berjast á móti. Það væri því alger sjálfsmótsögn, ef við nú til þess að létta okkur þessi spor spilltum framtíðarhorfum og möguleikum til þess að ráða við það geigvænlega viðfangsefni, sem mest hefur torveldað framsóknargöngu íslenzku þjóðarinnar síðasta aldarfjórðunginn.

Þá er í 6. gr. frv. heimild til þess, ef atvinnuástandið í landinu eða fjárhagur ríkissjóðs gerir það nauðsynlegt, að fresta til ársins 1965 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til í fjárlögum fyrir árið 1964. Sama gildir um greiðslu framlaga til framkvæmda annarra aðila, sem ákveðin eru í fjárlögum 1964. Svipuð heimild þessu hefur stundum áður verið veitt og þá sérstaklega í fjárl. Það fer auðvitað mjög eftir atvikum, hvort til þessarar heimildar þarf að grípa, og það verður að sjálfsögðu ekki gert, nema ríkisstj. sé öll sammála um það. Hitt vitum við, að ein af höfuðorsökum þeirra örðugleika, sem við eigum nú við að etja, er of mikil þensla, sem hér myndaðist á árinu 1963. Ýmsir aðilar hafa kennt þessa þenslu að nokkru framkvæmdum ríkisins. Ég hygg nú raunar, að þar hafi menn gert úlfalda úr mýflugu, vegna þess að framkvæmdir ríkisins hafa ekki ráðið eins miklu um í þessum efnum og sumir vilja vera láta. Hinu komumst við ekki hjá, að ef við viljum hvetja aðra til varúðar og gera alvarlega tilraun til þess að draga úr ofþenslu, sem skapar óheilbrigði og varanlegan vanda, þá verður ríkið einnig að vera viðbúið að veita þar forustu, að ganga á undan með góðu fordæmi. Það er í þessu skyni, sem heimildarinnar er aflað, en hún verður vissulega ekki notuð, nema brýn nauðsyn verði talin til.

Þá hygg ég, að ég hafi gert grein fyrir meginefni þessa frv. Um hin tæknilegu atriði þess skal ég ekki fjölyrða. Þau verða að sjálfsögðu athuguð í meðferð málsins. Ég hef haldið mér frá því að deila hér á nokkurn eða kenna nokkrum um það ástand, sem við eigum nú við að glíma. Það stoðar engan og verður engum til farsældar að vera stöðugt að deila um það, sem skeð hefur, þó að menn að sjálfsögðu hafi það hver um sig í minni og eigi af því að læra. Það, sem nú liggur fyrir, er að taka verkefnin með raunhæfum ráðstöfunum, leysa þau eins og þau liggja fyrir, og það er ótvírætt, að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, og enginn gleðst yfir því að þurfa að gera till. um verulega skattaþyngingu, þá er sú skattaþynging, sem nú er borin fram till. um, að langsamlega mestu leyti afleiðing af þeim orsökum, sem þegar eru orðnar. Og ef menn vilja ekki, að orsakirnar skapi enn þá meira tjón og glundroða, þá er þetta í bili hagkvæmasta og almenningi hollasta aðferðin til þess að firra vandræðum.