18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

126. mál, fjölgun tannlækna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi átti frú Katrín Smári hér sæti sem varaþm. Þá flutti hún þáltill., sem nú er tekin til umr. og fjallar um fjölgun tannlækna. Vil ég í fjarveru hennar gera stutta grein fyrir till. Till. hljóðar, með leyfi hæstv. forseta, svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj, að leita leiða til að fjölga tannlæknum í landinu og tryggja þannig meiri og betri tannlækningar og leggja tillögur til úrbóta fyrir næsta reglulegt þing.“

Það er alkunna, að tannlækningar eru einn velkasti hlekkur í heilbrigðismálum íslenzku þjóðarinnar. Skortur á tannlæknum er mikill, með þeim afleiðingum, að erfitt er að fá tannviðgerðir nema eftir langa bið, og hlýtur slíkt ástand að hafa mjög slæm áhrif á tannheilsu þjóðarinnar. Sérstök ástæða er til þess að hafa áhyggjur af þessum málum vegna barna og unglinga. Hinni uppvaxandi æsku er mikil nauðsyn, að haft sé eftirlit með tönnum hennar og lækning tryggð í tíma, þegar hennar er þörf. Hið sama gildir að sjálfsögðu um barnshafandi konur.

Talið er, að tannlæknar þurfi að vera einn á móti hverjum 1000 íbúum, sem þeir þjóna. Hér á landi mun vera einn tannlæknir á móti hverjum 3500 landsmönnum. Rektor Háskóla Íslands sagði nýlega í blaðaviðtali, að húsnæðisvandræði og fjárskortur valdi því, að ekki útskrifast fleiri tannlæknar en raun ber vitni. Jafnvel með bættum aðstæðum og auknu fé gerir háskólinn sér ekki von um, að þessi mál komist í viðunandi horf fyrr en 1980. Er því ærin ástæða til þess að gefa þessu máli gaum og leitast við að hraða þessari þróun í rétta átt, þannig að við þurfum ekki að bíða hátt á annan áratug, áður en þjóðin hefur viðunandi fjölda tannlækna, svo vel sem hún býr í mörgu öðru tilliti.

Tannlæknanám krefst sérstakrar og mjög dýrrar aðstöðu, og enda þótt nýlega hafi verið aukið við tannlæknadeild háskólans og aðgangur að deildinni takmarkaður, er ástandið eins og hér hefur verið getið. Æskilegt virðist, að ríkisstj. láti rannsaka þetta mál sérstaklega og leiti lausnar á þeim vanda, sem þarna blasir við, þannig að tannlækningar verði ekki torfengnari eða dýrari en aðrar lækningar. Sá er tilgangur þeirrar till., sem frú Katrín Smári flutti fyrr á þinginu.

Herra forseti. ég vil leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.