24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er athyglisvert, að þeir hv. þm., sem síðast hafa talað, hreyfa út af fyrir sig ekki aths. við nauðsyn þeirra gjalda neinna, sem talin eru í frv, eða gerð er grein fyrir, að greiða eigi með þeim skatti, sem samkv. frv. ber að leggja á. Þvert á móti er svo að skilja sem þeir telji í sumum veigamiklum atriðum, að þar sé vantalið, ef svo má segja, að meiri framlög þurfi til aðstoðar atvinnuvegum heldur en frv. gerir ráð fyrir. Það lýsti sér glöggt í ræðum beggja hv. þm. Hins vegar eru þeir sammála um það, að óþarfi sé að leggja þennan skatt á, vegna þess að fjárins sé hægt að afla með öðrum hætti.

Hv. 5. þm. Austf. vildi í þessu sambandi gera upp á milli eiginlegra ríkisútgjalda og annarra útgjalda. Sannleikurinn er sá, að hér er um ríkisútgjöld að ræða í öllum tilfellum. Greiðslurnar verða inntar af hendi úr ríkissjóði og tekjurnar renna þangað. Og sá skilsmunur skiptir engu máli. En það er athyglisvert, að þó að hv. þm. báðir telji nú, að nægt fé sé fyrir hendi í ríkissjóði, svo að ekki þurfi að leggja á skatt í þessu skyni, eru þeir báðir fyrir nokkrum vikum búnir að samþykkja stóra skattálögu, þungbæra, í ákveðnu skyni, til vegaframkvæmda. Ef hv. þm. telja, að nægt fé sé í ríkissjóði og þess vegna geti ríkissjóður nú og hafi getað að undanförnu tekið á sig þungar byrðar án þess að fá til þess tekjur, af hverju hreyfðu þeir ekki þessu, þegar vegalagafrv. var til meðferðar? Ég minnist þvert á móti þess, að hv. 1. þm. Austf. taldi sér að því sérstaka sæmd, að hann hefði verið til kvaddur og hans flokkur og átt mikinn þátt að því að fá vegalagafrv. samþykkt ásamt þeirri skattálögu, sem í því frv. var fólgin og var eitt af aðalatriðum þess. Það er alveg ljóst, að hv. þm. játa það, þegar þeim sjálfum er nógu umhugað í raun og veru um að fá ný útgjöld ákveðin, að það verði ekki gert, nema tekna sé aflað til þeirra. Það var þessi raunverulegi áhugi, sem augljóslega hefur verið fyrir hendi varðandi vegaframkvæmdir, en er ekki fyrir hendi varðandi það efni, sem hér um ræðir. A.m.k. stendur algerlega upp á þessa hv. samþm. um að gera grein fyrir, af hverju þeir gera þennan skilsmun.

Með sama hætti er það óneitanlega nokkuð einkennilegt, þegar þeir fara að ræða um aðrar leiðir, sem séu til þess að hjálpa útveginum, og þá er á þeim báðum svo að skilja, að aflétting útflutningsgjaldsins væri þar eitt helzta úrræðið. Hv. 1. þm. Austf. segir, að það sé ranglátt að hafa slíkt útflutningsgjald á sjávarútveginum, kenndi því víst um, að það hefði verið komið í lög, áður en hann kom á þing. En honum hefði þá enzt tími til þess sem einum þeirra, sem lengst hafa hér setið, að fá þessu breytt, og svo mikil völd hefur hann stundum haft, að hann hefði átt að geta fengið þeirri ósk framgengt, ef þar væri ekki um alveg nýja uppgötvun að ræða. En sannleikurinn er sá, að það útflutningsgjald, sem hér er um að ræða og nú er að nokkru leyti verið að létta af, rennur að öllu leyti sjávarútveginum sjálfum til heilla, og það má að vísu segja, eins og ég gat um í ræðu minni í dag, að ekki væru neinar meginreglur brotnar, þó að nokkur hluti þess, sem eftir er, væri einnig tekinn á ríkissjóð. En um hitt hygg ég, að allir hljóti að vera sammála, að mjög óeðlilegt væri, ef ríkissjóður ætti að taka að sér að greiða tryggingar allra skipanna, sem greitt er fyrir með útflutningsgjaldinu. Það væri ekki fyrirkomulag, sem neinum væri til heilla, allra sízt til frambúðar. Í þessu er till. hv. 5. þm. Austf. óneitanlega skynsamlegri, en hann vill halda því fram, að þarna sé hægt að spara mikið fé með því að koma á öðru og hagkvæmara fyrirkomulagi á tryggingum. Það er löngu vitað, að athugun þeirra mála stendur yfir, en hitt er einnig vitað, að ef útvegsmenn gætu sjálfir bent á aðra hagkvæmari tryggingu og komið henni í heild betur fyrir en þeir nú gera, þá væri þeim það vissulega ekki láandi né mundu neinir sakna þess, þó að þeir vildu taka þær byrðar á sig og fá þessu útflutningsgjaldi um leið aflétt. En eftir því hafa þeir ekki óskað, væntanlega vegna þess, að þeir telja, að þegar á allt er litið, sé þó þessi skipan þeim hagkvæm.

Þeir tala enn um vextina, og ber þar nú nokkuð á milli óneitanlega, en aðalatriðið er þó, að hvorugur kemst fram hjá því, að létting á afurðavíxlavöxtum hefur sáralitla þýðing í þessu sambandi. Tölurnar liggja fyrir, um þær tjáir ekki að þræta. Hv. 1 þm. Austf. vildi komast fram hjá þessu með því að segja, að það væru ekki bankavextir nema að litlu leyti, sem hér hefðu þýðingu. Mikill hluti fjármagns hér á landi væri lánaður út, að því er mér skildist, utan við bankana og það væru þeir vextir, sem úrslitum réðu í ótalmörgum samböndum. Að öðru leyti vildi hann mjög lítið gera úr þýðingu vaxtanna um áhrif á efnahagslífið. Ég hygg þó, að engum geti dulizt, að hækkaðir vextir hafa átt mjög ríkan þátt í aukningu sparifjár, og á þeim óvissutímum, sem við óneitanlega lifum, væri það til aukins óróa og óvissu, ef innlánsvextirnir væru lækkaðir. Þar er ótvírætt um augljós áhrif til góðs að ræða. Það er einnig augljóst, að á miklum þenslutímum, eins og báðir hv. þm. og alveg sérstaklega 1. þm. Austf. játaði að nú væru, mundi það ekki horfa til góðs eða til þeirrar aðgátar, sem við þarf að hafa, að lækka almennt útlánsvexti, þó að hitt liggi sem sagt til athugunar, eins og ég lýsti í dag, að lækka vexti á afurðalánunum.

En heldur hv. 1. þm. Austf., að það sé fyrst nú, sem verulegur hluti fjármagns fer utan við bankana? Og heldur hann virkilega, að vextir af því fé hafi áður fyrr, meðan lægri vextir voru, verið í nokkru samræmi við hina skráðu vexti? Hv. þm. hlýtur að muna það, hann var þá svo mjög ráðandi um fjármál landsins, að fyrir seinna stríðið voru hér opinberar lánsstofnanir, t.d. veðdeildin, sem lánaði út á hús. Menn fengu þar eingöngu verðbréf, og það þótti mikil mildi, ef bankinn sjálfur eða veðdeildin vildi kaupa bréfin aftur og keypti þau þá með stórum afföllum. Allur þorri manna varð hins vegar að sætta sig við að selja þessi verðbréf á mun lægra verði en jafnvel bankinn eða veðdeildin keypti þau á, og það mun þá hafa mjög verið tíðkað, að á almennum markaði fóru bréfin á kringum 60%. Nei, það er engin nýjung, að vextir í viðskiptum hér séu mjög háir og farið hafi verið fram hjá þeim hámarkstakmörkunum, sem áður fyrr voru settar. Þetta þekkjum við öll. Ég játa það með hv. þm., að það er ekki e.t.v. hin sama þýðing vaxta í okkar þjóðfélagi og í ýmsum öðrum, en það er þó augljóst og reynslan síðustu ár og raunar einnig áður fyrr hefur sannað, að vextir hafa vissulega mjög mikla þýðingu.

Þá vildi hv. 1. þm. Austf. gera lítið úr áhrifum kaupgjalds til þess að skapa þann vanda, sem við nú erum í. Og hv. 5. þm. Austf. hélt svipuðu fram öðru hvoru, en lenti þar illilega í mótsögn við sjálfan sig. Hann sagði berum orðum, að kaupgjald hækkaði og þar af kæmu aðrar hækkanir á eftir, sagði, að þetta vissum við öll. Hann var áður búinn að skamma mig fyrir, að ég hefði viljað, að þessi þróun kæmi í ljós, og taldi, að ég bæri frv. fram til þess að sýna þetta í verki. Eftir hans játningu þarf ekki einu sinni á þessu frv. að halda til þess að sanna það, vegna þess að þetta er lögmál, sem er svo löngu í ljós komið og öllum kunnugt, að það þarf ekki að bera fram þetta frv. til að sanna það. Þetta er sú reynsla, sem við höfum haft hér mörg undanfarin ár og áratugi, og það er algerlega rangt hjá hv. þm., að það hafi verið núv. stjórn, sem hafi hleypt þessari skriðu af stað, eins og hann sagði.

Þetta er þróun, sem er búin að eiga sér stað a.m.k. allt frá árinu 1937 og raunar áður, óumdeilanlega. Ríkisstj. hver eftir aðra hafa lent í þessum vanda, sem hér er um að ræða. Báðir hv. þm. vilja kenna núv. ríkisstj. um, að í okkar tíð hafi skapazt eitthvert sérstakt ástand, og láta eins og eitthvað svipað hafi aldrei fyrr hér við borið. Ég minni hv. 1. þm. Austf. á, að það var einmitt deila út af kaupgjaldi, sem varð valdandi samvinnuslita Framsfl. og Alþfl. á árinu 1937 og 1938 endanlega. Það var vegna þess, að Framsóknarstjórnin réð ekki við kaupgjaldið og þá erfiðleika, sem að hennar mati höfðu sprottið af of háu kaupgjaldi, að Framsfl. leitaði samstarfs við Sjálfstfl. og Alþfl. um myndun þjóðstjórnarinnar 1939. Ég minni hv. 1. þm. Austf. á þá örðugleika, sem þessi sama þjóðstjórn af þessum sömu ástæðum átti í á árinu 1941 og aftur á árinu 1942. Ég minni á þá örðugleika, sem stjórn Sjálfstfl. átti í af þessum sömu sökum á árinu 1942. Ég minni á, að utanþingsstjórnin hrökklaðist frá völdum ekki sízt vegna þess, að hún treysti sér ekki lengur til að ráða við þetta vandamál. Nýsköpunarstjórnin fór raunar frá, að því er kallað var, af öðrum ástæðum, en hún átti einnig í stöðugu stríði af þessum sökum. Sú stjórn, sem ég og hv. 1. þm. Austf. vorum fyrst saman í, stjórn Stefáns Jóhanns, gliðnaði sundur á árinu 1949 af þessum sökum. Þá myndaði Sjálfstfl. stjórn og bar fram till, til úrbóta og fékk Framsfl. með sér til að fallast á þá lausn í meginatriðum. Það samstarf hélzt fram á árið 1956, þegar það stjórnarsamstarf sprakk að nokkru leyti af orsökum kauphækkananna 1955. Það þarf væntanlega ekki að minna þessa hv. þm. á þeirra raunir í vinstri stjórninni frá 1956 og 1958.

Nei, hér er vissulega ekki um neitt nýtt vandamál að ræða. Vandamálið hefur ætíð verið þetta hið sama, að kaupgjald hefur a.m.k. að mati stjórnvaldanna, ríkisstj., meiri hl. Alþingis, atvinnurekenda og oft raunar verkalýðsins sjálfs verið svo hátt, að gera hefur orðið gagnráðstafanir. Þetta kemur af því, að menn hafa hugsað, að hægt væri að bæta lífskjörin með einföldum samþykktum um kauphækkanir og kjarabætur langt umfram það, sem framleiðsluaukning og efnahagsástand landsins hefur hverju sinni gefið tilefni til.

Því fer mjög fjarri, að það sé rétt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að það væri núv. ríkisstj. áhugaefni að koma í veg fyrir, að almenningur fengi hækkað kaup og bætt lífskjör. Það er þvert á móti. Það er okkar áhugamál að bæta lífskjör almennings og verkamanna sem allra mest. En við teljum, að óraunhæfar kauphækkanir horfi síst til þess. Þetta er deilumál, sem við oft höfum rætt um og þarf þess vegna ekki í sjálfu sér að fjölyrða ýkja mikið um að þessu sinni.

Það er mjög athyglisvert, að þegar hv. 1. þm. Austf. segir, að það sé allt annað en kaupgjaldið, sem hér um valdi örðugleikum, býsnast búðir hv. samþm. yfir því, að ekki skuli hafa verið leystur sá vandi, sem nú er varðandi ákvörðun fiskverðsins, sem útvegsmenn og sjómenn telja óviðunandi fyrir sig. En af hverju telja þeir það óviðunandi, þrátt fyrir það að báðir þessir aðilar, eins og ég vakti athygli á í dag og hv. 5. þm. Austf. var að reyna að mótmæla, að báðir þessir aðilar vitanlega hafa notið góðs og njóta góðs af þeirri aðstoð, sem nú er verið að veita hraðfrystihúsunum? Þeir telja sér hana ekki nægja, vegna þess að kauphækkanirnar í landi leggist einnig á þá í meira mæli en þessi aðstoð nægi til að bæta upp. Það er vegna þess að lagaákvæðin eru slík, það á að miða við söluverðið á vörunni erlendis og þess vegna dregst hinn innlendi kostnaður frá því verði, sem útvegsmenn og sjómenn fá, og þegar sú kostnaður stóreykst vegna hækkaðs kaupgjalds, kemur augljóslega minna í hlut bæði útvegsmanna og sjómanna. Og kröfurnar, sem báðir þessir hv. þm. bera nú fram um það, að rétta þurfi hlut þessara manna, byggjast einmitt á því, að að þeim hafi verið þrengt svo, að þeir verði að lúta sama fiskverði þrátt fyrir þá aðstoð, sem ríkisstj. hefur veitt, og þrátt fyrir að fiskverð hafi nokkuð hækkað erlendis, vegna þess að þeir verða að bera hækkun kaupgjaldsins í landi. Þetta er óhagganleg staðreynd, sem ekki tjáir með neinu móti að þræta um og þarf ekki að eyða frekar orðum að.

Þá talar hv. 1. þm. Austf. um einhverja allsherjar sælutíma verkamanna á árinu 1958 og að það sé nú enn ekki, eða standi rétt í mörkum, að þeir séu búnir að ná sams konar kaupmætti og þeir hafi haft 1958. Þá miðar hv. 1. þm. Austf. við hinn margumtalaða lægsta taxta Dagsbrúnar og að menn vinni einungis 8 tíma. Þegar verið var að ræða um lausn kaupdeilunnar í vetur og verið var að reyna að ráða fram úr henni með skaplegum hætti, talaði enginn í alvöru um það, að menn í raun og veru hefðu tekjur samkv. 8 tíma vinnu og lægsta taxta Dagsbrúnar. Þá var miðað við allt aðrar upphæðir, sem menn í raun og veru hefðu tekjur af. Það er einungis eins og þessi lægsti taxti sé hafður til sýnis um það, hversu bág kjör almennings séu hér á landi. Nú játa ég, að þetta er auðvitað lágt kaup og vissulega bæri að rétta hlut þeirra lægst launuðu í hlutfalli við aðra. Og það var einmitt ein af megintill. ríkisstj. í vetur, að reynt væri að gera átak til að bæta kjör þessara og annarra hinna, sem í raun og veru kunna að vera illa staddir. En á það var ekki hlustað. Öll verkalýðshreyfingin sameinaðist í algerri mótstöðu gegn þeirri hugmynd og taldi, að ekki mætti raska launahlutföllum frá því, sem þau höfðu orðið við síðustu samninga, — a.m.k. ekki varðandi þá allra lægst launuðu.

En hér kemur raunar margt fleira til greina. Þegar borinn er saman kaupmáttur launa 1958 og t.d. nú, verður að minnast þess, að 1958 var það kerfi viðhaft að reyna að hafa sem allra ódýrastar einmitt þær vörur, sem komu inn í vísitöluna, en hins vegar óheyrilegir skattar á ýmsu, sem talið var til óþarfa, en var í sjálfu sér enginn óþarfi, heldur einungis utan vísitölunnar. Þess vegna segir vísitalan frá 1958 svo sáralítið til um raunveruleg lífskjör manna þá og nú. Nú hafa þessir sérskattar allir verið afnumdir, auk þess sem tollskrá hefur verið samræmd þar að auki, svo að nú er úr sögunni þessi gífurlegi munur, sem var á ýmsum nauðsynjum áður fyrr eftir því, hvort þær komust inn í vísitölu eða ekki.

Sjálf viðmiðunin er þess vegna röng. Einnig er á hitt að líta, að margir, sem áður voru í lægsta flokki Dagsbrúnar, eru nú komnir í efri flokka, 2. og 3. flokk, hvernig sem það er nú sundurgreint. Og jafnvel þó að við þessa mjög hæpnu viðmiðun sé miðað, sem ég áður gat um, kemur í ljós, að þegar litið er á þessar hækkanir í flokkum, sem mikill fjöldi manna hefur notið og ég vil fullyrða tiltölulega fleiri en þeir, sem eftir eru í lægsta flokknum, þá breytist þessi mynd algerlega og kaupmáttur lægsta Dagsbrúnarkaups fær á sig allt aðra mynd en venjulega er í frammi höfð.

En þá er einnig á það að líta, að höfuðmeinsemdin í efnahagsmálum okkar nú er ekki sú, að menn út af fyrir sig hafi svo sérlega lágar tekjur, heldur að þeir þurfa að vinna svo lengi fyrir tekjunum. Ég veit ekki, hvort gerð hefur verið á því nokkur heildarathugun, sem mark sé takandi á, hvort vinnutími sé lengri nú en hann var 1958. Hins minnist ég, þegar hv. skrifari þessarar deildar, 3. þm. Vestf., sagði það, skömmu eftir að núverandi stjórn var mynduð, að það væri ein afleiðingin af hennar illu áformum, að eftirvinnan mundi hverfa úr sögunni, svo að einhverja töluverða þýðingu hefur hún haft fyrir afkomu almennings einnig á hinum sælu — ef svo mætti segja með skopmerki bak við — vinstristjórnarárum.

En ef litið er á raunverulegar tekjur verkamanna nú og 1958, þannig að kaupmáttur atvinnutekna er metinn, þegar tillit hefur verið tekið til beinna skatta og fjölskyldubóta, og sagt er, að árið 1958 veiti 100, — og landið allt tekið, — þá er það svo, að miðað við 100 1958, þá hafa verkamenn núna 103.7, og verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, ef þeir höfðu 100 19.55, þá hafa þeir nú líka 116.3, sem þeirra raunverulegu tekjur hafa vaxið á þessu tímabili. Þessar upplýsingar eru byggðar á gögnum, sem bráðlega munu birtast í riti Framkvæmdabankans, Úr þjóðarbúskapnum, en koma í raun og veru einnig mjög saman við ýtarlega töluskrá, sem kjararannsóknanefnd hefur látið taka saman og sent frá sér, þar sem mjög svipuð mynd kemur fram. Þar eru tölurnar öðruvísi upp settar, en heildarsvipurinn er sá sami, enda er þarna um sams konar staðreyndir að ræða að sjálfsögðu. Þetta er ekki vegna þess, að verkamenn eða þessar stéttir hafi nú fengið meiri hlut úr þjóðartekjunum en var á vinstristjórnarárunum, vegna þess að það hlutfall virðist vera alveg hið sama 1962 og það var hæst á vinstristjórnartímabilinu. Hér er um að ræða almenna aukningu þjóðartekna, sem þessar stéttir, sem betur fer, hafa orðið aðnjótandi, eins og aðrar launastéttir í landinu. Það er sem sagt síður en svo, að á þær hafi hallað frá vinstristjórnartímabilinu. Hlutfallið virðist vera alveg hið sama nú, eins og ég segi, og það var bezt, þegar vinstri stjórnin var við völd. Það hefur verið ívið betra fyrir launastéttirnar á sumum árunum í milli. Ég skal ekki fara að rekja það, en ljóst er af þessu, að það er sízt á launastéttirnar hallað og það er sízt svo, að núv. ríkisstj. hafi nokkra löngun til þess að halla á þær, hún vill að sjálfsögðu hag þeirra sem allra beztan, og ætti ekki að þurfa að standa í rökræðum um slíkt á Alþingi. Það viljum við eflaust allir hver um sig, þótt okkur óneitanlega greini á um leiðirnar til þess að ná því marki.

Hv. 1. þm. Austf. gerði mjög mikið úr því, að nú væri ég farinn að játa, sem áður hefði gert hróp að honum og fleirum fyrir það, að þeir hefðu viljað samvinnu við atvinnustéttirnar, nú væri ég farinn að játa, að slík samvinna væri nauðsynleg. Ég hef aldrei látið mér til hugar koma annað en slík samvinna milli ríkisvalds og höfuðatvinnustétta væri nauðsynleg, og ætíð harmað, þegar hún hefur ekki tekizt. Það, sem ég og margir fleiri víttum á vinstristjórnartímunum, var, að vinstri stjórnin lét utanþingsaðilum úrslitavöld í hendur yfir þeim málum, sem undir Alþ. eiga að heyra, eins og bezt sést á því, að sú hæstv. ríkisstj. sagði af sér, án þess að um það væri rætt, jafnvel í ríkisstj. sjálfri, eftir að hæstv. þáv. forsrh. hafði fengið eins konar vantraust á Alþýðusambandsþingi. Það var þessi framkoma og þessi afstaða, sem ég og margir aðrir töldum sízt horfa til heilla, til viðbótar því, sem við þá sýndum fram á og höfum raunar oft rifjað upp, að þó að þetta kæmi á daginn, að Alþýðusambandsþingið væri þarna formlega látið hafa líf ríkisstj. í hendi sér, þá var það engan veginn ætlun stjórnarherranna þá að láta Alþýðusambandið ráða efni málsins. Það, sem á valt, var, að ríkisstj. vildi senda Alþýðusambandsþingið heim til þess síðan ein ásamt sínum þingmeirihl. að ráða málum til lykta.

Nei, það er auðvitað nauðsynleg samvinna milli ríkisstj. og Alþingis annars vegar og höfuðstéttarsamtaka þjóðfélagsins hins vegar, og ég ítreka það, að það er hætta á ferðum, ef slík samvinna næst ekki. En vitanlega verður þá hvor aðili að gera sér grein fyrir, hvað til hans verkefnis heyrir, og ætla sér ekki annan hlut en eðli málsins og stjórnskipun segir til um. Það tjáir ekki fyrir almenningssamtök, hversu fjölmenn sem þau eru, að ætla sér að beita sínu valdi svo, að ótvíræður úrskurður kjósenda, löglega kjörnir fulltrúar á Alþ. og löglega kjörin ríkisstj. og þeirra vilji sé að engu hafður. Slík samvinna horfir sízt til þjóðarheilla, alveg eins og það er ljóst, að það tjáir ekki fyrir ríkisvaldið þó að ríkisstj. og Alþ. sé sannfært um, að það hafi skynsamleg úrræði í ýmsum efnum, — ef þau úrræði brjóta gersamlega í bága við almenningsálit í landinu eða það, sem öflug stéttarfélög telja sér algera lífshagsmuni, þá er ekki líklegt, að slíkar ákvarðanir löggjafans eða ríkisstj. hafi mikla raunhæfa þýðingu. Um þetta þekkjum við ótalmörg dæmi, og þarf ég ekki að fara að rekja alla þá sögu hér.

Allra sízt mega stéttarsamtökin ætla sér að fara að taka að sér yfirstjórn í landinu, meðan þannig til háttar, að þau eru gersamlega ólýðræðislega upp byggð varðandi þeirra skipulag allt saman, kosningarhætti, kjörskrár og annað slíkt. En þó að ég sjái annmarka á skipun þessara almenningssamtaka, sem við nú tölum um, og ég á þar við fleira en eitt, sem ýmislegt er út á að setja, þá er það engu að síður svo, að þetta eru öflugir aðilar, og vissulega ber að reyna að ná samkomulagi við þá í ýtrustu lög, og vissulega er það rétt, að þeir geta aldrei gersamlega til lengdar gengið á móti vilja meiri hluta sinna félaga, vegna þess að þá mundu þeir, þrátt fyrir ýmiss konar hömlur og ofbeldi, rísa upp, svo að segja má, að hér sé um flókið og margþætt mál að ræða.

Ég vil minna hv. 1. þm. Austf. á það, að þegar við vorum saman í stjórn 1950 og verið var að setja efnahagslöggjöfina, þá töldum við hvorugur okkar okkur of góða til þess, heldur töldum það eitt eðlilegt að semja við þáv. Alþýðusambandsstjórn um mjög veigamikla breytingu á þeirri löggjöf. Við höfðum þá báðir komið okkur saman um, að gengisskráning skyldi tekin til endurskoðunar, hvenær sem allsherjarkauphækkun hefði átt sér stað. Alþýðusambandsstjórnin gekk á fund ríkisstj. og óskaði eftir, að þessu væri breytt. Ríkisstj. varð við þeirri ósk, og ég er í engum vafa um, að það, að við urðum við þeirri ósk, átti ríkan hlut að því, að vinnufriður hélzt töluverðan tíma þar á eftir. Ég vil einnig minna á verkfallið, sem var fyrir jólin, ég hygg haustið 1952. Þá var vitað, að það var töluverður ágreiningur milli Dagsbrúnarstjórnarinnar annars vegar og Alþýðusambandsstjórnarinnar. En Alþýðusambandsstjórnin beitti sér fyrir þeirri lausn, sem fékkst, mjög lítilli kauphækkun, en vöruverðslækkun eða hindrunum á hækkunum í staðinn. Það mátti líkja þeirri lausn að ýmsu leyti við þær till., sem ríkisstj. bar nú fram hinn 3. des. Það var vitað, að forráðamenn Dagsbrúnar voru mjög óánægðir með þessa lausn. Engu að síður gat Alþýðusambandsstjórnin fengið henni framgengt, og það var fyrir gott samstarf þá á milli þáv. ríkisstj. og þeirra, sem þá réðu í Alþýðusambandinu. Eftir það hélzt vinnufriður að mestu þangað til 1955. Vafalaust hefði margt betur mátt fara einnig á þessum árum, en ég minni á, að það var ekki vegna þess, að Alþýðusambandsstjórnin á þessum árum væri í höndum flokka okkar, míns og hv. 1. þm. Austf. Ég hygg einmitt, að það hafi verið stjórnarandstöðuflokkur, Alþfl., sem þá fór með æðstu völd í Alþýðusambandinu, og það var enginn fullkominn trúnaður eða vinátta þar á milli. En engu að síður tókst í tveimur örlagaríkum málum að ráða þeim til lykta með skynsamlegu samkomulagi og samvinnu. Og ég vil enn treysta því, að slíkri samvinnu sé hægt að koma á milli ríkisstj. og verkalýðsforingja, jafnvel þótt þeir standi á öndverðum meið í stjórnmálum og verkalýðsforingjarnir séu í stjórnarandstöðu við þá ríkisstj., sem þeir eru að semja við. En það krefst auðvitað þess, að báðir aðilar vilji ná samkomulagi, að þeir setji e.t.v. metnað og stærilæti eitthvað til hliðar, að þeir geri sér grein fyrir, hverju hægt er að ná til hagsældar fyrir almenning hverju sinni, leggi mesta áherzluna á það, en ekki sýndarkröfur, sem skapa stöðugt hærra og hærra kaup, stöðugt meiri örðugleika fyrir atvinnuvegi og stöðugt óvissa eða jafnvel minnkandi kaupgetu fyrir hið háa kaup, sem knúið hefur verið fram.

Ég vék að því hér áður í minni ræðu, að eitt okkar mesta vandamál væri ekki það, að almenningur hér á landi væri svo tekjulágur, heldur væri það hinn langi vinnutími, sem á bjátaði. Ég geri mér ljóst, að úr þessu verður ekki bætt nema á nokkru árabili, og til þess þarf vafalaust mikið átak. En það er einnig víst, að úr því verður ekki bætt nema, með samvinnu ríkisstj., verkalýðs og atvinnurekenda. Og ég ítreka það, sem hv. 1. þm. Austf. vitnaði einnig til í sinni ræðu, að ég hefði áður sagt, að ég tel þetta nú vera mest aðkallandi vandamálið fyrir íslenzkan verkalýð og e.t.v. mest aðkallandi vandamálið varðandi lífskjör íslenzku þjóðarinnar. Ég tel, að það væri hið eina rétta, að margar smádeilur og ýfingar væru settar til hliðar, meðan menn sneru sér að því heils hugar að reyna að leysa þetta mjög erfiða, en þó áreiðanlega leysanlega vandamál, ef góðvilji frá öllum er fyrir hendi.