20.03.1964
Sameinað þing: 56. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

143. mál, stórvirkjunar- og stóriðjumál

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þremur öðrum þm. að flytja hér á þskj. 260 till. til þál. um stórvirkjunar- og stóriðjumál. Tillgr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna nefnd til að kynna sér niðurstöður þeirra rannsókna á stórvirkjunarmöguleikum hér á landi, er fram hafa farið á vegum raforkumálastjórnarinnar, svo og athugana stóriðjunefndar á möguleikum til stóriðju. Nefndin velur sér formann. Hlutaðeigandi ríkisstofnunum og ríkisstarfsmönnum ber að velta n, allar umbeðnar upplýsingar og aðstoð í starfi hennar. N. er og heimilt að ráða sérfróða menn sér til aðstoðar. N. ber að leggja fram álit sitt og till. í stórvirkjunar- og stóriðjumálum svo fljótt sem unnt er. Kostnaður við störfin greiðist úr ríkissjóði.“

Hér er sem sé lagt til, að kosin verði mþn. til þess að athuga þessi miklu mál. En þessi till. er samin strax eftir umr. þær, sem hér urðu á hv. Alþingi 5. febr. s.l., en þá svaraði hæstv. iðnmrh. fsp. varðandi undirbúningsathuganir á möguleikum til stórvirkjana og stóriðju á Íslandi.

Það kom fram í sambandi við þær umr., að undanfarið hafa fárið fram athuganir ýmsar á möguleikum til stórvirkjunar vatnsafls í landinu og í því sambandi einnig athuganir varðandi hugsanlegan stóriðnað til raforkukaupa. Eftir því sem þá kom fram hér á Atþingi, er undirbúningsathugunum nokkuð áleiðis komið og það svo, að okkur flm. þessarar till. virðist tímabært að taka nú stefnuna í þessum málum. Flm. þessarar till. telja hér um svo stórfelld mál að tefla, að þau eigi nú að koma til kasta Alþingis eða a.m.k. nefndar á vegum þess, áður en lengra er haldið. í þessu sambandi knýja á æðimargar spurningar, sem menn velta mjög fyrir sér. Og þessum spurningum virðist okkur flm., að Alþingi eigi að svara.

Á að taka upp samstarf við erlenda aðila varðandi rekstur stóriðju, svo sem alúminíumverksmiðju, til raforkukaupa, og ef það verður gert. hvernig á þá að tryggja hagsmuni Íslendinga í því sambandi?

Íslendingar hafa enga reynslu í því að setja slíkri starfsemi löggjöf né gera um hana samninga, og því er rík nauðsyn, að Alþingt taki þessi mál föstum tökum og þau séu gaumgæfilega athuguð á vegum þess. áður en nokkurt skref verður stigið, sem er bindandi í þessum efnum.

Þá koma upp spurningar eins og þessar: Hvar á að setja upp stórvirkjanir og stóriðin. ef til greina kemur? Enn fremur: Hvernig yrði hægt að koma byggingu stóriðjuvers inn í framkvæmdaáætlun Íslendinga án þess að setja úr skorðum eðlilegt athafnalíf og uppbyggingu í landinu?

Enn fremur kemur spurningin um, hvort nýjar stórframkvæmdir ættu að verða til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins eða hvort nýjar ráðstafanir í þessum málum ættu að verða til þess að auka enn vandann í þeim efnum.

Allar þessar spurningar knýja á í sambandi við þessi miklu mál, og þeim er í raun réttri öllum ósvarað, eins og eðlilegt er, vegna þess að Alþingi hefur ekki enn sem komið er haft þau gögn í höndum eða fengið þær unnlýsingar, að hægt sé að svara þessum spurningum fremur en mörgum öðrum, sem knýja á í þessu sambandi.

Ég mun ekki reyna að svara þessum spurningum á þessu stigi málanna, enda er þessi þáltill. einmitt um rannsókn á þessum málum öllum og um það að efna til athugunar á þeim af hálfu Alþingis og gert ráð fyrir, að allir flokkar eigi hlut að slíkri athugun, eins og till. sjálf ber með sér. En ég vil fara fáeinum orðum um einstaka þætti þessara mikilvægu mála, en þau munu aðallega verða sögð til þess að benda á nauðsyn þess, að miklu ýtarlegri skoðun fari fram en enn hefur orðið, áður en stefnan er endanlega mörkuð varðandi einstaka þætti þeirra.

Ég hika ekki við að segja, að það sé eitt af aðalsmerkjum íslenzks þjóðarbúskapar, að nálega allur atvinnurekstur á Íslandi er í höndum Íslendinga sjálfra. Og ég álít, að þannig þurfi þetta að vera, meginstefnan þurfi að verða þessi framvegis, eins og verið hefur. Kemur þá til athugunar í því sambandi spurningin um það, hvort skynsamlegt sé og nauðsynlegt að gera undantekningu frá þessari aðalreglu, þegar sérstaklega stendur á, og hvernig þá skuli standa á, til þess að slíkt komi til mála, og hvernig skuli þá ganga frá þeim málum.

Framsóknarmenn hafa lengi litið svo á, að slíkt gæti komið til greina og þó einkum ef með því einu móti væri hægt að leysa tiltekin aðkallandi verkefni í þágu alþjóðar, sem með öðrum hætti væri ómögulegt að leysa. En ætíð höfum við verið talsmenn þess, að varlega væri farið í þessum efnum, og ekki hefur það sízt verið mitt hlutskipti æ ofan í æ að vara við því að fara ógætilega í þessu tilliti. Ég skal ekki fara langt út í að ræða það, í hvaða sambandi t.d. mér finnst, að komið gæti til mála að víkja frá þeirri reglu, að atvinnurekstur Íslendinga sé í höndum Íslendinga sjálfra, en ég vil þó vegna þess, hvernig þessi mál standa núna, segja, að eitt af því, sem mér finnst koma til greina í því sambandi, væri að ljá máls á því að taka upp samstarf við erlent fjármagn um að koma á fót stóriðju, sem sett yrði á fót til þess að kaupa rafmagn frá stóru orkuveri, ef það lægi fyrir, að með því eina móti væri hægt að virkja nógu stórt og fá nógu ódýrt rafmagn, miklu ódýrara rafmagn en hugsanlegt væri að fá með því að virkja smærra. En ef menn vilja athuga þennan möguleika, að gera undantekningu við þvílíkar kringumstæður, koma upp enn margar spurningar, bæði varðandi það vatnsafl, sem Íslendingar hafa til ráðstöfunar og er virkjunarhæft, og fjöldamargt annað, og rísa þá spurningar eins og þessar:

Hvað fæst miklu ódýrara rafmagn handa öðrum atvinnurekstri og landsmönnum yfirleitt með því að virkja verulega stórt en með því að virkja í áföngum og smærra, eins og við höfum gert? Hvað verður sem sé mikill ávinningur að því að virkja verulega stórt, og hversu stórfellt atriði er það fyrir íslenzkan þjóðarbúskap? Þetta þarf að skoða og það þarf að liggja fyrir, hvernig ástatt er í þessum efnum. Enn fremur: Hvað höfum við mikið vatnsafl hentugt til virkjunar, og erum við aflögufærir hvað snertir vatnsaft og aðrar orkulindir, — erum við aflögufærir í stórrekstur? Höfum við ráð á að láta mjög mikið af okkar orku ganga í stórrekstur útlendinga í landinu, jafnvel þótt það yrði til þess. að við gætum virkjað stærra en ella? Hvað höfum við sem sagt ráð á því að láta mikið af okkar vatnsafli til stóriðnaðar? Raforkuþörf landsmanna eykst með ofsahraða, og einhvers staðar hef ég séð, lauslega áætlað, að með sama áframhaldi og verið hefur undanfárið muni Íslendingar verða búnir að .fullvirkja allt sitt vatnsafl skömmu eftir aldamótin.

Í þessu sambandi kemur einnig til athugunar, hver er raunveruleg raforkuþörf þeirrar stóriðju, sem þarna kemur til greina. í sambandi við þessar áætlanir, lauslegar að mér skilst, sem enn hafa verið gerðar, er talað um t.d. 30 þús. tonna framleiðslu af alúminíum, sem sagt er, að sé hin allra minnsta verksmiðja, sem til greina komi að reka af þessu tagi, en í því sambandi er talað um, að það eigi að vera þessi stærð fyrst um sinn. þá er spurningin: Þýðir það, að það yrði að stækka slíkan iðnrekstur, áður en langt um liði, og yrði að gefa skuldbindingar um, að sá iðnrekstur yrði stækkaður og þá hve mikið, og hvernig kemur það heim og saman við þá raforku, sem Íslendingar geta raunverulega haft á boðstólum? Þetta þarf að liggja fyrir og íhugast gaumgæfilega, og hér er um grundvallaratriði að ræða eða réttara sagt: hér er eitt af þeim mörgu grundvallaratriðum, sem koma til skoðunar í sambandi við þetta mál, sem sé, hvað hafa Íslendingar ráð á því að binda mikið rafmagn í erlend fyrirtæki á Íslandi, jafnvel þótt ávinningur kynni að verða að því, til þess að fá einu sinni stóra virkjun?

Þegar um er að ræða þann hugsanlega möguleika, að útlendingar fái leyfi til að reka hér atvinnurekstur í landinu, þá er rétt að hafa í huga, að vitanlega gætu þeir samningar orðið með tvennu móti. Vafalítið væri hægt að gera þá samninga nokkuð trygga fyrir Íslendinga og trygga frá íslenzku sjónarmiði með skýrum ákvæðum um þau hagsmunaatriði, sem þar gætu komið til greina, og skýrum ákvæðum um réttindi þess félags, sem þar kæmi til greina, þar sem greinilega og glöggt væri afmarkað starfssvið þess — miða þá samninga algerlega við að leysa sérstakt vandamál með undantekningu í eitt skipti eða eitt skipti af fáum, miða við að ekki ætti að opna Ísland fyrir erlendu fjármagni, heldur ætti að gera undantekningu í eitt skipti eða í eitt af örfáum skiptum. Ég geri ráð fyrir, að ef samvizkusamlega og af fullum skilningi væri að þessu unnið, væri hæet að ganga þannig frá, að hættulaust væri, og ég vil vona. að ef nokkuð slíkt kemur til greina, þá yrði það gert.

En það væri líka hægt að fara öðruvísi að. Það væri hægt að gera samninga við útlendan hring eða útlent stórfyrirtæki um atvinnurekstur á Íslandi, sem væri það rúmur og þannig gerður og jafngilti því, að Trójuhestur væri kominn inn í íslenzkt atvinnulíf, og þannig frá gengið að erlent fyrirtæki fengi í gegnum slíkt aðstöðu til að flétta sig inn í íslenzkt atvinnulíf. Ef ekki er tryggilega um þessa hnúta alla búið, er þessi hætta fullkomlega fyrir hendi, og þess vegna er fullkomin ástæða til, að öll þessi mál séu athuguð gaumgæfilega niður í kjölinn, skynsamlegustu fordæmi annars staðar athuguð til hlítar og örugglega um alla hnúta búið. Lítið mundi það stoða til að koma í veg fyrir slíka hættu, sem þarna væri á ferðinni, ef illa væri frá gengið, þótt útlendingunum væri ætlað að vera í félagsskap við þá menn innlenda, sem ákafastir eru í því að koma sér að til þess að þjóna erlendu fjármagni gegn fríðindum fyrir sig. En við verðum auðvitað að gera ráð fyrir því, þótt ég vilji engar getsakir flytja í garð eins eða neins, að slík sjónarmið séu til hjá okkur fullkomlega eins og í öllum öðrum löndum.

Með þessum fáu orðum, sem ég hef sagt um þessi þýðingarmiklu grundvallaratriði, hef ég aðeins viljað vekja athygli á því, hversu þetta mál er stórfellt og vandasamt og því þýðingarmikið, að það fái vandlega athugun og að öll sjónarmið fái að koma til greina, og þau fái að koma til greina, áður en það er orðið of seint, áður en menn eru búnir að binda sig í einu eða öðru tilliti varðandi þessi efni, því að þá er of seint, að sjónarmiðin fái að koma fram. Þau verða að fá að koma fram á undirbúningsstigi málanna, áður en nokkuð hefur verið gert, sem bindur.

Það er einmitt út frá þessu sjónarmiði, sem ég vil að óreyndu vonast eftir því, að hæstv. ríkisstj. taki því vel að kjósa einmitt nú mþn. í Þessi mál, því að þau eru það örlagarík og öll þannig vaxin, að það er ekki viðeigandi, að tiltölulega naumur meiri hluti á Alþingi ráði þeim til lykta, án þess að minni hl. fái fullkomlega aðstöðu til þess að taka þátt í allri rannsókn málanna og raunar undirbúningi þeirra, áður en þau eru komin á ákvörðunarstig. En það er ekkert samráð að skoða þessi mál sameiginlega, þegar ákvarðanirnar hafa raunverulega verið teknar og menn eru bundnir af því, sem þeir þegar hafa gert. Og það eru engar getsakir í því til neins, þó að á það sé bent með þeim rökum, sem ég hef gert, hversu þýðingarmikið það er einmitt, að slíkt samráð eigi sér stað á frumstigi málanna, enda mundi kannske með því móti vera hægt að eyða ýmiss konar tortryggni, sem annars gæti auðveldlega komizt að og kemst oft að í sambandi við mál, þótt minni séu vexti en þessi, þýðingarminni og einfaldari viðfangs.

Í þessu sambandi vil ég einnig taka það fram aftur og setja undir það strik, að það hefur ævinlega verið skoðun Framsfl., að varðandi þessi efni, varðandi möguleika á því, að erlendir aðilar fengju að reka hér eitt og eitt fyrirtæki, þegar sérstaklega stæði á, varðandi þessi efni ætti að stefna þannig, að þar væri um algerar undantekningar að ræða, og um hvert einstakt tilfelli yrði að gera sérstakan samning og hafa sérlög um hvert tilvik fyrir sig. Þessu höfum við ætíð haldið fram til þess að leggja á það höfuðáherzlu, að við viljum alls ekki breyta meginstefnunni í þessum efnum, sem hefur verið sú, að Íslendingar hafi sjálfir með höndum atvinnureksturinn í sínu eigin landi. Þá er ástæða til í þessu sambandi að benda á það, að við teljum núverandi löggjöf varðandi möguleika útiendinga til þess að komast hér inn í fyrirtæki of óljósa og of veika og höfum flutt aðra þáltill. um að taka þau efni til sérstakrar rannsóknar með það fyrir augum að setja sterkari löggjöf til þess að tryggja, að Íslendingar hafi full tök á þessum málum. En það er tæpast hægt að segja, að Íslendingar hafi nú full tök á þessum málum, ef litið er á löggjöfina almennt, en má þó kannske segja, að á meðan fjármagnsflutningar eru undir jafnsterku opinberu eftirliti og nú er, geti íslenzk stjórnarvöld haft úrslitaáhrif í þessu í flestum tilfellum, en almenna löggjöfin um þetta er ákaflega velk og miklu veikari hér en í mörgum öðrum löndum, sem við þekkjum til.

Þá vil ég koma að einum þætti þessara mála, sem er einn hinn allra veigamesti og ég vil aninna hér á sterklega, líka til þess að sýna, hvað hér er mikið í húfi og hversu eðlilegt Það er, að um þetta sé haft víðtækt samráð og öll sjónarmið fái að koma til greina. Það er varðandi uppbyggingu íslenzka þjóðarbúsins framvegis. Það er sem sé spurningin um það, hvernig eigi að byggja landið. En það er margyfirlýst skoðun okkar í Framsfl., að við teljum, að það eigi að byggja allt landið, það eigi að leggja áherzlu á að byggja allt landið. Við erum þeirrar skoðunar, að byggi þjóðin ekki allt landið, muni hún ekki geta haldið landinu til frambúðar. En nú horfir mjög óvænlega í þessum efnum, eins og við vitum, og ætla ég ekki að fara að halda hér um það langan fyrirlestur, þótt full ástæða væri til þess. En það horfir þannig, að það er fullkomin ástæða til að óttast, að nálega öll þjóðin setjist að í einni borg og næsta umhverfi hennar, þ.e.a.s. höfuðborginni Reykjavík. En með því lagi mundu Íslendingar aldrei geta orðið til frambúðar sjálfstæð þjóð eða haldið landi sínu, það er alveg óhugsandi. Aðrir mundu þrengja sér inn í þá hluta landsins, sem Íslendingar hafa þá ekki forsjálni né myndarskap til þess að nytja. En ég vona, að við viljum öll, að Íslendingar haldi áfram að búa hér einir í landi sinu og nytji allt landið.

Í þessu sambandi mun það nú mestu skipta og fleiri og fleiri virðast vera að átta sig á því, að það verður að koma upp þéttbýlissvæðum, þar sem byggðin er nú dreifð, til þess að styðja dreifbýlið og til þess að koma í veg fyrir, að byggðarlög leggist í eyði. Ég vil leyfa mér að segja mönnum frá því, hvernig þessi stefna var mótuð á siðasta flokksþingi framsóknarmanna, en það var gert með þeim orðum, að flokkurinn vildi stuðla að uppbyggingu og vexti þéttbýlismiðstöðva í sem flestum byggðarlögum og skapa með því bættan grundvöll fyrir nýja atvinnustarfsemi og iðnvæðingu, styðja á þann hátt hinar dreifðu byggðir umhverfis og gera um leið viðskipta- og samgöngukerfið auðveldara viðfangs og sömuleiðis skólamál, heilbrigðismál og fleiri samfélagsmál. Sem sagt, sú stefna sé mótuð eindregið að koma upp þéttbýlismiðstöðvum sem víðast í landinu. Þannig var stefnan í þessum þýðingarmiklu málum mótuð á flokksþingi framsóknarmanna fyrir tæpu ári, og var þá í raun og veru aðeins rifjað upp það, sem Framsfl, hafði áður ályktað um þau efni, en þó að ýmsu leyti gert skýrara.

Þá kemur upp sú hugsun, að það þarf að vinna að því, að það geti komið upp fleiri borgir á Íslandi en höfuðborgin ein. Um þetta hafa m.a. af einum embættismanni landsins verið settar fram mjög skynsamlegar hugleiðingar nú alveg nýlega, þar sem hann leggur mikla áherzlu á þetta stórfellda atriði, það verði að koma upp fleiri borgir, og svo auðvitað að eflast fleiri kaupstaðir og fleiri kauptún. Sannleikurinn er sá, að ef þéttbýlismiðstöðvar komast upp í öllum byggðarlögum landsins, er dreifðari byggðinni þar með borgið. Þróunin sýnir þetta og reynslan. Beinast liggur þá við varðandi uppbyggingu borga á Íslandi að gera stórátök á næstunni til þess, að Akureyri geti orðið að borg, og samhliða því að efla þéttbýlissvæði í öðrum landshlutum líka. En sú ráðstöfun að vinna að því að gera Akureyri að borg, sem mundi styðja byggðina á öllu Norðurlandi og ég mundi vilja segja líka á Austurlandi og Vesturtandi, mundi vera eitt hið allra stærsta skref, sem hægt væri að stíga til að snúa við þeirri öfugþróun, sem orðið hefur nú um langt skeið, að nálega öll þjóðin virðist sækja í að taka sér bólfestu í höfuðborginni einni og hennar nánasta þéttbýll. Það er fullkomlega rétt, sem komið hefur fram í þessu sambandi, að þetta er líka stórkostlegt hagsmunamál fyrir íbúa höfuðborgarinnar, því að hún mun ekki lengi verða höfuðborg í sjálfstæðu ríki, ef ekki verður hægt að beina þróuninni inn á heppilegri brautir að þessu leyti nú á næstunni en verið hefur um sinn.

Einmitt í sambandi við þessi stóriðjumálefni og stórvirkjanir í landinu kemur upp þessi spurning um byggðina í landinu, hvernig menn vilja telja æskilegt, að hún þróist. Fram hjá þessu atriði mega menn ómögulega líta í sambandi við þessi mál, vegna þess að hér er um svo stórar framkvæmdir að ræða, ef úr þeim verður, að þær geta alveg skipt sköpum. Ef hægt væri að koma þessu þannig fyrir, að stærri iðnaðarfyrirtæki og stærri virkjanir, sem nú verður í ráðizt, e.t.v. á næstunni, stuðluðu að þeirri þróun, sem ég hef verið að ræða, þá hefðu skeð stórir atburðir í málefnum landsins, sem vænta mætti sér mikils góðs af í framtíðinni. En ef illa tekst til í þessum efnum og ekki er hægt að koma þessum nýju framkvæmdum þannig fyrir, að þær stuðli að æskilegri byggðaþróun en verið hefur, þá eykst hættan enn á því, að það snarist alveg í þessum málum til mikils tjóns fyrir Íslendinga í framtíðinni.

Í þessu sambandi er ástæða til að minna á, að Alþingi virðist hafa haft talsvert opin augun fyrir þessu, og kem ég þá að því, sem vitnað er til í grg. þessarar þáltill., að hinn 22. marz 1961 samþykkti Alþingi þál. um að undirbúa virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvörum og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“

Hér er beinlínis af hálfu Alþingis ákvarðað, að hraðað skuli fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugað að hagnýta þá orku til framleiðslu á útflutningsvörum. Það er sýnilega höfð stóriðja í huga í sambandi við hugsanlega virkjun á Jökulsá á Fjöllum, og þessi þáltill. er afgreidd einróma á Alþingi fyrir þremur árum. Það er enginn vafi á því, að með samþykkt þessarar þáltill. tekur Alþingi vissa stefnu. Það er engin tilviljun, að það er ekki gerð á Alþingi ályktun um rannsókn á stórvirkjun og hugsanlegri stóriðju annars staðar en í Jökulsá á Fjöllum. Mér vitanlega hefur Alþingi sjálft ekki ákvarðað, að slík rannsókn fari fram nokkurs staðar nema þar, og það er engin tilviljun, að þessi staður er tekinn út úr. Það er beinlínis af því, að þessi staður er á Norðurlandi og þá er byggðajafnvægið haft í huga. Þarna er beinlínis ályktað, að þessi athugun skuli ganga fyrir, stefnan tekin þannig, að það er alveg bersýnilegt, að Alþingi telur æskilegt að beina þessum málum í það horf, að einmitt á Norðurlandi yrðu gerðar stórar framkvæmdir.

Nú verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Og um þetta stórfellda mál er það að segja, að Alþingi hefur ekki, þótt 3 ár séu liðin síðan þessi þáltill. var samþykkt, fengið neina skýrslu um niðurstöður þessarar rannsóknar. Á hinn bóginn vitum við, að eitthvað hefur verið rannsakað í þessu efni. Enn fremur vitum við, að aðrir möguleikar hafa verið mikið rannsakaðir, t.d. Búrfellsvirkjun í Þjórsá, og er ekkert nema gott um það að segja. En Alþingi hefur ekki enn fengið neina skýrslu um niðurstöðurnar af rannsókninni, sem átti að fara fram varðandi möguleikana á því að virkja Dettifoss og setja upp iðnað, sérstakan útflutningsiðnað, í sambandi við þá virkjun. Ég tel skylt, að Alþingi fái slíka skýrslu og fái skýrslu um aðrar rannsóknir líka, eins og Búrfellsvirkjunina og allt, sem gerzt hefur í þessum málum, til þess að menn geti áttað sig á því, hvernig raunverulega er ástatt og hvað hefur komið í ljós við þessar athuganir. En þetta hefur ekki enn þá komið hér fram. Á hinn bóginn er talað núna eins og virkjun Dettifoss og raunar annarra norðlenzkra fallvatna sé úr sögunni. Það er talað eins og þessar virkjanir séu úr sögunni og það án þess að um þetta hafi verið gefnar skýrslur, þannig að menn geti áttað sig á því, hvernig málin horfa við. Og þetta er eitt af því, sem rekur á eftir okkur að gera till. um, að mþn. sé nú skipuð í málið. Leggjum við hina mestu áherzlu á, að sú nefnd, sem við viljum mega vona að verði kosin samkv. þessari þáltill., fái öll gögn varðandi þessi efni og skoði þetta allt ofan í kjölinn. Hér er ekki um neina smámuni að ræða, eins og ég þykist hafa bent á með þessum fáu orðum, sem ég hef látið falla varðandi hugsanlegar framkvæmdir og áhrif þeirra á líf þjóðarinnar í landinu.

Það er í sambandi við þessi efni lauslega talað um, að komið gæti til mála að hafa iðjuver á Norðurlandi, sem fengi orku frá stórvirkjun á Suðurlandi, enda þá að sjáifsögðu byggt á því að leggja línu yfir hálendið og flytja orkuna norður. Ég lít þannig á, að það, sem komið hefur fram um hetta, bendi til þess, að menn hafi opin augun fyrir þeirri nauðsyn, að hinar nýju framkvæmdir, sem gerðar verða, gætu orðið til þess að stuðla að æskilegri byggðaþróun en verið hefur. En hér er aðeins um lauslegt tal að ræða, sem ekki er hægt að festa neinar hendur á, enda liggja ekki fyrir þær upplýsingar, sem Þurfa fyrir að liggja til þess að átta sig á þessu, því að enn hefur ekkert annað verið gert en að nefna eina og eina tölu í þessu sambandi, án þess að nokkrar upplýsingar hafi verið gefnar um það, hvað að baki þeirra talna liggur, hvað þá að af þessu hafi fengizt heildarmynd. En ég vil láta í ljós þá skoðun, sem ég vona að sé einnig skoðun fleiri og verði endanlega ofan á, ef úr framkvæmdum verður á einhverri stóriðju í sambandi við virkjanir, þá beri hiklaust að leggja í verulegan kostnað, — ég segi: verulegan kostnað, ef þarf, til þess að staðsetning slíkra fyrirtækja gæti orðið þannig, að þau stuðluðu að heppilegri byggðaþróun í landinu.

Ég vil leyfa mér að segja það við ýmsa, sem gjarnan, þegar svona mál eru á döfinni, halda því fram, að ekkert komi hér til álita annað en beinhart peningasjónarmiðið, beinhart það sjónarmið, hvað ódýrast sé í bili, að þegar litið er á þá óhemjusóun, sem hér á sér stað í landinu í sambandi við fjárfestingarframkvæmdir landsmanna yfirleitt, og þegar litið er á handahófið í því efni, sem látið er viðgangast, og alla þá lúxuseyðslu, sem í er lagt og ekkert skilur eftir, — þegar litið er á þetta allt saman og þetta er haft í huga, þá ætti mönnum sannarlega ekki að vaxa í augum, þótt verulegu fjármagni væri varið til þess að stuðla að byggðaþróun í landinu, sem fleiri og fleiri virðast nú sjá, að lífsnauðsyn ber til, ef þjóðin ætlar að byggja þetta land og lífa hér sjáifstæð og óháð framvegis. Og ég segi: Þess vegna á ekki að horfa í það, þótt verulega verði að leggja í kostnað í þessu sambandi. Slíkt eiga þeir ekki að horfa í, sem sannfærðir eru um, að það þurfi að breyta til í þessu efni og hafa áhrif á þróunina. Og ég spyr: Hvenær á að kryfja þessi mál til mergjar, ef ekki þegar taka á ákvarðanir um iðnaðaruppbygginguna í landinu framvegis, eins og menn raunverulega verða og þurfa að gera, ef þessi málefni, sem hér hafa verið rædd, komast á framkvæmdastig?

Í raun og veru gæti ég látið þetta nægja um þetta mál til þess að sýna fram á nauðsyn þess að setja mþn. og nauðsyn þess, að fulltrúar allra flokka hafi aðstöðu til þess að bera saman bækur sínar og tryggja þar með, að öll sjónarmið komi fram. En ég ætla að bæta við þetta örfáum orðum að gefnu tilefni í sambandi við önnur atriði, sem rædd hafa verið, en stórvirkjun og alúminíumverksmiðju til þess að kaupa afgangsorkuna frá henni. En það eru þær bollaleggingar, sem komið hafa fram varðandi olíuhreinsunarstöð í landinu. Ég vil þá fyrst segja það sem mína skoðun, að þó að ég telji, að það geti komið til mála, ef vel er frá öllu gengið og með sérstakri varúð unnið, að semja við útlendinga um að setja upp fyrirtæki eins og alúminíumverksmiðju, með öllum þeim fyrirvörum, sem hér hefur verið greint, — þó að slíkt geti komið til mála sem undantekningartilfelli, þá tel ég, að það eigi ekki að geta komið til mála, að þjónustufyrirtæki fyrir Íslendinga verði á vegum útlendinga og undir þeirra yfirráðum, t.d. fyrirtæki eins og olíuhreinsunarstöð.

Olíuhreinsunarstöð hefur, eins og ég sagði áðan, verið nefnd í sambandi við stóriðjumálin. Olíuhreinsunarstöð er ekki stærra mannvirki en sementsverksmiðjan eða áburðarverksmiðjan og þess vegna Íslendingum vel viðráðanlegt fyrirtæki eftir venjulegum leiðum. Það fyrirtæki, ef það kæmist á laggirnar, mundi hreinsa olíur og benzín fyrir Íslendinga sjálfa fyrst og fremst, þó að manni sé sagt, að það mundi flytja eitthvað út líka, því að það mundi víst ekki vera hægt að koma því hagkvæmt fyrir á annan máta. En stöðin mundi fyrst og fremst hreinsa olíur og benzín fyrir Íslendinga sjálfa og mundi verða hér ein um hituna á innanlandsmarkaðinum, að sínu leyti eins og sementsverksmiðjan og áburðarverksmiðjan. Slíkt fyrirtæki yrði að mínu viti að vera alveg á valdi Íslendinga og tryggt, að það yrði rekið með þeirra hag fyrir augum, og ríkið yrði að hafa þar alveg tvímælalaust verulega hönd í bagga, — ef ekki alveg yfirráðin í því fyrirtæki, þá a.m.k. verulega hönd í bagga, og öflugar ráðstafanir yrði að gera til þess að tryggja hagsmuni íslenzkra neytenda í því sambandi, jafnvel þótt Íslendingar ættu þar hlut að máli, alveg eins og það þótti t.d. ekki fært annað en sementsverksmiðjan yrði ríkisfyrirtæki, af því að hún var hér ein um hituna, og mönnum þótti ekki fært annað en ríkið réði í raun og veru öllu í áburðarverksmiðjunni, af því að hún er líka hér ein um hituna.

Það, sem komið hefur fram hér í sambandi við þessar bollaleggingar um hugsanlega olíuhreinsunarstöð, virðist mér vera þannig vaxið, að það megi ekki dragast lengur, að Alþingi ákveði einnig stefnu varðandi hugsanlega byggingu olíuhreinsunarstöðvar í landinu, því að mér er sagt, að olíuhreinsunarstöð gæti verið hið mesta þjóðþrifafyrirtæki í sjálfu sér, og fróðir menn segja mér, að olíuhreinsunarstöð gæti verið eins konar kjarni eða vísir að margs konar iðnaði þar út í frá. Og ég vil í því sambandi einmitt alveg sérstaklega benda á, að ef olíuhreinsunarstöð er raunverulega þannig vaxin, að hún geti verið eins konar kjarni eða vísir að iðnaði, sem gæti vaxið út frá henni, er einmitt enn meiri nauðsyn, að slík stöð sé á vegum Íslendinga sjálfra og algerlega undir þeirra yfirráðum, en ekki útlendinga. Ef útlendingar ættu að hafa í sínum höndum slíkt fyrirtæki og yfirráð þess í landinu, sem væri tilvalið móðurfyrirtæki eða eins konar byrjun að margvíslegum öðrum iðnaði, þá gæti það einmitt orðið til þess, að þeir gætu ofið sig inn í íslenzkt atvinnulíf á þann hátt, sem a.m.k. ég ekki vil ljá máls á.

Þess vegna finnst mér, og einmitt út af því, sem fram er komið í sambandi við þetta olíuhreinsunarmál, full ástæða til þess að láta þessar aths. falla, þegar þessi mál eru hér til umr., og leggja áherzlu á, að mér sýnist líka afar nauðsynlegt, að olíuhreinsunarmálin komi til meðferðar í mþn., eins og hér er gert ráð fyrir. Olíur og benzín munu nú vera meira en helmingurinn að magni til af öllu því, sem flutt er til landsins, og einhver stórfelldasti þáttur í okkar þjóðarbúskap. Auk þess skilst mér, að til þess að koma á fót olíuhreinsunarstöð sé bollalagt um að gera samning til langs tíma um kaup á hráolíu frá vissum aðilum. Það er náttúrlega út af fyrir sig fullkomið rannsóknarefni, hvort slíkt gæti verið hagfellt eða komið til greina, svo að það eru margir fletir á þessu olíuhreinsunarstöðvarmáli, sem þarf að taka til ýtarlegrar íhugunar, áður en það væri komið á framkvæmdastig, og margt að varast í því sambandi. En mér skilst, að olíuhreinsunarstöð gæti orðið hið merkasta fyrirtæki, ef hægt væri að koma henni upp með eðlilegum og skynsamlegum hætti.

Það er ekki nóg, að amerískt félag hafi áhuga á að reisa hér slíka stöð. Það ber auðvitað fyrst og fremst að skoða málið frá því sjónarmiði, hvort það sé hagfellt fyrir Ísland að koma upp slíkri stöð, íslenzka atvinnuvegi og almenning á Íslandi, sem svo mjög notfærir sér þessar vörur, og svo hvort hægt er að koma rekstri slíkrar stöðvar tryggilega fyrir, þannig að það verði raunverulegur þjóðarhagur að því að koma henni á fót. Þá þarf suðvitað líka að athuga ýmsar viðskiptaástæður, sem eru fyrir hendi, eins og t.d. Það, hvort hugsanlegt er að færa fiskviðskiptin til, sem nú eru bundin mjög við þessi viðskipti, án þess að það verði að stórtjóni fyrir sjávarútveginn. Í því má ekki taka neina áhættu. Það má ekki gera neitt í þessum einum, sem verður áfall fyrir okkar þýðingarmestu atvinnuvegi, þá, sem fyrir eru og bezt hafa dugað frá öndverðu og bezt munu duga, ef rétt er að staðið.

Ég vil svo að lokum, til þess að draga með því saman að nokkru leyti það, sem ég hef þegar sagt, leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta að lesa hér, hvernig afstaða var tekin til þessara mála almennt á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. nú fyrir skemmstu, en þar voru þessi mál allýtarlega rædd með sérstöku tilliti til þeirra takmörkuðu upplýsinga, sem fram höfðu komið um þau þá, þegar fundurinn var haldinn. En þar var ályktað á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að fundurinn telji, að meginverkefni í íslenzkri iðnvæðingu séu á þeim sviðum, sem rætt er um hér að framan, þ.e.a.s. að byggja upp okkar eldri atvinnuvegi og efna til margvíslegs smærri iðnaðar, telur hann eðlilegt, að kannaðir verði möguleikar á uppbyggingu einstakra stærri iðngreina með beinni þátttöku erlends fjármagns samkv. sérstökum lögum og samningi hverju sinni, eins og flokkurinn hefur hvað eftir annað bent á í ályktunum flokksþinga. Hins vegar leggur flokkurinn áherzlu á,

að gæta ber fyllstu varkárni í þessum efnum og ályktar,

að ekki komi til mála að slaka á eflingu innlendra atvinnuvega og því síður draga þá saman til þess að rýma fyrir erlendri stóriðju á Íslandi;

að fram fari nú þegar endurskoðun á lögum um réttindi erlends fjármagns á Íslandi í því skyni að tryggja Íslendingum betur en nú er full yfirráð atvinnumála sinna;

að stofnun iðnaðar í samvinnu við erlent fjármagn er ekki lausn á efnahagsvanda landsins og á aðeins að vera liður í skipulegri uppbyggingu atvinnuveganna;

að tryggja efnahagslegan og tæknilegan grundvöll þess,

að við Íslendingar getum sem fyrst tileinkað okkur þá þekkingu, sem flytjast kann inn í landið á þennan hátt, svo að slíkur iðnaður gæti orðið alíslenzkur iðnaður sem allra fyrst;

að við ákvörðun slíkra framkvæmda yrði stefnt að því, að þær hefðu sem hagkvæmust áhrif á þróun landsbyggðarinnar.“

Ég tel mig nú hafa í því, sem ég hef sagt, gert nokkra grein fyrir þessum málum, eftir því sem hægt er á þessu stigi, en aðaláherzluna hef ég að sjálfsögðu lagt á að sýna fram á, hversu margt er óljóst um þessi efni og órannsakað og hversu mikil nauðsyn er á því, að einmitt á Alþingi sjálfu verði kosin mþn. með fulltrúum frá öllum flokkum til Þess að skoða þessi mál ofan í kjölinn, áður en nokkuð bindandi verður gert, áður en nokkur örlagarík ákvörðun verður tekin. Og ég vil að lokum leggja áherzlu á, að með þessari þáltill. viljum við eiga okkar þátt í því, að það verði sem víðtækast samstarf um þessi

mál, og við teljum það nauðsynlegt, að sem víðtækast samstarf verði um þessi mál, svo að sem flest sjónarmið komi til greina, áður en örlagaríkar ákvarðanir eru teknar. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. og meirihlutaflokkarnir hér á Alþingi taki þessari uppástungu vel og að það náist samkomulag um að efna til slíkrar sameiginlegrar skoðunar og rannsóknar á þessum þýðingarmiklu málum.

Ég vil svo leyfa mér, hæstv. forseti, að leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari fyrri umr.