24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég held, að það sé vafasöm þýðing þessara löngu ræðna, og það væri ekki svo mikil fjarstæða af þm. að setja metnað sinn í að segja mikið efni í fáum orðum í staðinn fyrir að segja mikið efni í mörgum orðum eða jafnvel lítið efni í mörgum orðum. Og þeir menn, sem bezt hafa kunnað orðsins list, eins og Perikles og slíkir, töluðu alltaf stutt, en það var alltaf tekið eftir því, sem þeir sögðu. Það væri ekki svo vitlaust af okkur hér í þinginu að vera stuttorðir, en vera inni, meðan talað væri, og þá yrðu þessi fáu orð áhrifameiri en löngu ræðurnar.

Það eru örfá atriði, sem ég vildi leyfa mér að benda á, áður en málið fer til nefndar, því að við vitum, að það er erfitt að fá breytingar gerðar, eftir að nefndir hafa skilað áliti. Og við vitum það einnig, að það er erfitt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að hafa áhrif á gang mála, og það er ef til vill mannlegt og eðlilegt.

Ég vildi í fyrsta lagi benda á, að aðstaða frystihúsanna er geysilega misjöfn. Þau, sem hafa smáfiskinn, eru verr sett. Ég hygg, að vinnan við að vinna smáfiskinn sé allt að því þrefalt meiri og þar að auki nýtist fiskurinn miklu verr. Ég skal ekki fullyrða, hver sanngjarn verðmunur er, en ég er viss um, að það má muna þriðjungi á verði hráefnisins og jafnvel 2/5 hlutum, til þess að það beri sig jafnvel að vinna þennan lélega fisk. Þeim mun meira magn, þeim mun betur ber frystihúsið sig yfirleitt. Afkoma frystihúsanna er geysilega misjöfn, og mörg þeirra eru algerlega að gefast upp. Það er staðreynd, að dreifbýlinu er að blæða út.

Ég vildi skjóta þessari aths. fram til þeirrar nefndar, sem hefur með þetta að gera, og til ríkisstj., að þetta verði athugað. Þeir, sem hafa stóra fiskinn, bera sig ekki illa. Ég er dálítið kunnugur rekstri frystihúsa og hef talað við marga, sem hafa rekið þau. Þeir, sem hafa góðan fisk, segja mér, að þeir hafi ekki undan neinu að kvarta og þeir telja vinnslukostnaðinn vera það mikið aukaatriði, að það skipti ekki öllu, hvort unnið sé í næturvinnu eða dagvinnu. En vinnslukostnaðurinn er ekkert aukaatriði fyrir þá, sem hafa lélega fiskinn. Þetta er geysilega mikið atriði. Annað, sem kemur til greina, er það, að það er vitað, að þau frystihús, sem vinna síldina, hafa allt aðra aðstöðu en hin, því að síldin, sem er látin í frost, það er svo lítið borgað fyrir hana og útgerðarmenn eru stórlega féflettir. Það ætti að vera hægt að bæta hag þeirra með því að hækka síldarverðið. Sama er að segja um saltsíldina. Þeir, sem tekst söltun vel, stórgræða, jafnvel þótt útgerðin riði. Þetta er ekkert lítið atriði.

Annað atriði, sem ég vildi benda á, er, að það er með þessu frv. gert ráð fyrir því, að stofnlánadeild sjávarútvegsins ráði þessu eða seðlabankastjórnin. Þetta eru þeir menn, sem standa hvað fjærst alþýðu manna í landinu og hafa minnst samband við hana, og satt að segja finnst mér bankavaldið vera nóg í þessu landi, þó að þessum herrum sé ekki fengið algert einræði í þessum efnum. Sjútvmrh. semur vafalaust einhverjar reglur, en í framkvæmdinni mun það verða þannig, að þessir menn ráða hlutunum að miklu leyti. Mér væri það miklu ljúfara, að stjórn aflatryggingasjóðs hefði með þessi mál að gera. Þeir eru kunnugir þessum málum, betur en líklega nokkrir aðrir, og fylgjast með afkomu hinna einstöku landshluta og hinna einstöku frystihúsa betur en flestir aðrir, og það geta allir komið til þeirra og talað við þá, ef þá langar til, þetta eru alþýðlegir menn.

Það er ekki gert ráð fyrir því, að fiskurinn hækki í verði samkv. þeim úrskurði, sem þegar liggur fyrir. Ég veit, að sjómenn eru mjög óánægðir með þetta. Ég er nú ekki mikill kröfumaður, því að allar þessar blessaðar kröfur í okkar þjóðfélagi hafa verkað þannig, að menn bera, þegar upp er staðið, lítið úr býtum, þetta er tekið af þeim aftur. En ég held, að það, sem bezt væri gert fyrir útgerðina, væri að lækka vextina hjá fiskveiðasjóði úr 6½% í 4%. Ég get sagt ykkur, að það er algerlega vonlaust með báta, sem kosta 10–12 millj., að borga 6½% vexti og þær afborganir, sem á þeim hvíla, það er gersamlega vonlaust mál, og þið sannið, að eftir 1–2 ár verða svo að segja allir bátaeigendur orðnir vanskilamenn. Þá liggur ekki annað fyrir en annaðhvort selja bátana eða leyfa þeim að vera áfram vanskilamenn. Það skapar algert vonleysi hjá útgerðarmönnum að borga þessa háu vexti. Það er miklu nær að gera þær ráðstafanir strax, sem gerir þeim fært að vera skilamenn, heldur en gera þá að vanskilamönnum. Þetta tel ég ekki lítið atriði, og ef ríkisstj. gerði þetta, þá mundi sú ráðstöfun vera mjög jákvæð fyrir útgerðarmennina. Það gæti einnig komið til greina að lengja afborgunartímann í fiskveiðasjóði, það gæti líka hjálpað, og sennilega þyrfti að gera hvort tveggja, til þess að útgerðarmönnum takist að standa í skilum.

Það eru þessi atriði, sem ég vildi leyfa mér að benda á, áður en málið fer til n., og skal svo ekki fjölyrða meira um þessi atriði.