08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í D-deild Alþingistíðinda. (3134)

158. mál, landfundir Íslendinga í Vesturheimi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um það, að Alþingi skori á ríkisstj. að leita samvinnu við ríkisstj. Kanada og Bandaríkjanna um rannsóknir varðandi landfundi Íslendinga í Vesturheimi á 10. og 11. öld. Samhljóða till. hefur verið flutt á tveimur undanförnum þingum, og sé ég þess vegna ekki ástæðu til þess að rekja þetta mál ýtarlega hér, heldur vísa til þess, sem þá hefur verið sagt. En rétt finnst mér að vekja athygli á því í þessu sambandi, að mál, sem er mjög skylt þessu, er nú til umr. á öðru þingi, þ.e. þingi Bandaríkjanna, en þar hefur fyrir nokkru komið sú till. fram frá allmörgum þm., að 9. okt. verði gerður að sérstökum hátíðisdegi, Leifs Eiríkssonar-degi, til minningar um það, að Leifur heppni hafi verið fyrstur hvítra manna til þess að finna meginland Ameríku. Þess má einnig geta í þessu sambandi, að nú fyrir nokkrum dögum var norræna flugfélagið SAS að hefja sérstakar flugferðir til Chicago, til heimsborgarinnar í miðsvæði Bandaríkjanna, og í sambandi við það var þar efnt til mikillar sýningar á ýmsum munum frá víkingatímunum, sem voru fengnir að láni frá norskum eða norrænum söfnum, og þangað var sérstaklega boðið þeim manni, sem hefur kynnt sér mest rannsóknir varðandi landfundi norrænna manna í Vesturheimi fyrr á öldum, Helge Ingstad, og hann látinn flytja þar sérstakan fyrirlestur um þessi mál og allmikið gert bæði á þennan hátt og annan af hálfu SAS til þess að auglýsa það, að hér hefðu verið menn að starfi eða staðið að þessum landfundum, sem væru af norsku bergi brotnir, vegna þess að Norðmenn eru einn aðilinn að SAS. Þetta sýnir ásamt mörgu öðru, að það er nú mjög vaxandi áhugi í sambandi við þetta mál, landfundi norrænna manna í Vesturheimi á 10. og 11. öld, og það stendur að nokkru leyti í sambandi við það, að nýlega hafa verið gerðar rannsóknir á fornminjum, sem þykja staðfesta það nokkuð örugglega, að þær frásagnir Íslendingasagnanna séu réttar, að norrænir menn, íslenzkir, hafi verið í Vesturheimi á þessum tíma. Ég vil í þessu sambandi geta þess enn fremur, að nýlega eru komin út í Bretlandi tvö allmerkileg fræðirit um þetta efni og öðru þeirra fylgja þýðingar á öllum frásögnum Íslendingasagna um þessi málefni. Það virðist þannig vera, að það séu margir aðrir en Íslendingar sjálfir, sem láti sig nú þessi mál verulega skipta, en þó stendur það engum nær en okkur að reyna að standa fyrir því, að rannsóknir á þessum efnum verði gerðar til fullrar hlítar, vegna þess að hér er um landfundi íslenzkra manna að ræða og þessa landfundi ásamt landnámi í Grænlandi má telja með merkari atburðum í íslenzkri sögu og þess vegna þýðingarmikið fyrir okkur frá sögulegu sjónarmiði og menningarlegu sjónarmiði séð að fá sem fullkomnastar rannsóknir á þessum efnum.

Kunnugir menn í þessum málum hafa sagt mér, að þó að þær rannsóknir, sem Ingstad hafi gert að undanförnu, séu merkilegar og athyglisverðar, þá sé nauðsynlegt að gera miklu víðtækari rannsóknir í þessum efnum en enn hafi átt sér stað, og í því sambandi er bent á, að t.d. stór landssvæði á Nýfundnalandi og Labrador hafi ekki verið rannsökuð í þessu sambandi, par sem ekki er ólíklegt, að enn megi finna svipaðar minjar um ferðalög norrænna manna á þessum tíma og Ingstad hefur fundið. Þessar rannsóknir geta verið nokkuð kostnaðarmiklar, vegna þess að hér er víða um lítt byggð landssvæði að ræða, og þess vegna er ekki óeðlilegt, að við leitum um þetta samvinnu við þær þjóðir, sem má segja, að hér eigi hlut að máli, það eru þjóðir Norður-Ameríku, vegna þess að þær hafa engu síður en við sögulegan áhuga á því að fá það upplýst sem bezt, hvaða hvítir menn það eru, sem fyrstir hafa fundið meginland Norður-Ameríku.

Af þessum ástæðum er það lagt til í þessari till., að leitað sé eftir samvinnu við Bandaríkjamenn og Kanadamenn um að framkvæma þessar rannsóknir, og ég hygg, m.a. af þeim dæmum, sem ég hef nú nefnt, og ýmsum fleirum, að það mundi ekki standa á þessum aðilum að taka upp samvinnu við okkur um þessi mál. Það virðist mér, að sýni ekki sízt sú till., sem er fram komin á Bandaríkjaþingi og ég áður minntist á.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín fleiri að þessu sinni, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.