22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

167. mál, tæknistofnun sjávarútvegsins

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um tæknistofnun í þágu sjávarútvegsins. Verkefni hennar skulu vera rannsóknir á hagkvæmustu gerðum fiskiskipa, miðað við íslenzkar aðstæður, rannsóknir veiðitækja og veiðarfæra, svo og upplýsingastarfsemi um slík efni. Skal undirbúningi hraðað svo, að hægt verði að leggja frv. um þetta mál fyrir næsta reglulegt Alþingi:

Ég vil nú fylgja þessari till. úr hlaði með fáeinum orðum.

Hvarvetna um heim er mönnum að verða það æ betur ljóst, að undirstaða framfara og bættra lífskjara er aukin þekking, aukin tækni, sem því aðeins tekst að hagnýta til hlítar, að þjóðin sé vel menntuð og hafi komið sér upp nauðsynlegri upplýsinga- og rannsóknastarfsemi.

Íslendingar hafa nú á síðari tímum verið að gera sér þessar staðreyndir ljósar. Smám saman hafa augu þeirra verið að opnast fyrir því, að þekkingin, kunnáttan, hagnýting tækninnar eru undirstöður þess, að takast megi að nýta auðlindir landsins á þann veg, að hægt verði að bæta lífsskilyrði þjóðarinnar, hægt verði að efla hana til verulegra framfara.

Þó er eins og alltaf skorti nokkuð á, að við viðurkennum nauðsyn þekkingarinnar á sumum mikilvægum sviðum. Það eru eyður í framfarasókn okkar. Kunnáttuskorturinn og þekkingarleysið dregur enn ótrúlega mikið úr þeirri þróun, sem ella væru öll skilyrði til að gæti verið ör og hagfelld.

Það er staðreynd, að framleiðnin í íslenzkum sjávarútvegi er mikil, ekki aðeins miðað við aðra íslenzka atvinnuvegi, heldur einnig við atvinnuvegi í háþróuðum löndum. Á því leikur þó enginn vafi, að framleiðni þessa mikilvæga atvinnuvegar okkar má auka stórlega frá því, sem nú er, til hagsbóta fyrir alla þá, sem við sjávarútveginn vinna, og fyrir þjóðarbúið í heild. í því felst ekkert vanmat á öðrum atvinnuvegum, þótt fullyrt sé, að afkoma okkar og möguleikar til að lífa hér góðu lífi eru að ákaflega miklu leyti undir því komnir, að hér verði stundaðar fiskveiðar og fiskiðnaður á grundvelli fullkominnar tækni, verkmenningar og vísindalegrar þekkingar.

Miðað við mikilvægi þessarar atvinnugreinar sjávarútvegsins skortir enn mjög á, að leiðbeininga- og rannsóknastarfsemi í þágu hans sé nægilega mikil og fjölþætt.

Ég ætla ekki að fara að gera lítið úr því, sem gert hefur verið og gert er á þessu sviði. Við höfum þurft að byggja hér upp margt á skömmum tíma, sumt nokkurn veginn frá grunni, og þá kann það að vera vorkunnarmál, þó að eitthvað verði útundan. En á þessu sviði er svo mikið í húfi, að alvarlegar eyður í uppbyggingarstarfinu, velkir hlekkir í keðjunni geta kostað okkur verðmæti, sem nema tugum, jafnvel hundruðum millj. kr. á hverju einasta ári.

Á sviði sjávarútvegs hafa nú um alllangt skeið starfað 2 rannsóknastofnanir, báðar að mjög mikilvægum verkefnum. Það eru fiskideild atvinnudeildar háskólans og Rannsóknarstofa Fiskifélags Íslands. Á vegum fiskideildar eru, eins og kunnugt er, framkvæmdar hafrannsóknir, rannsóknir á göngum og stofnsveiflum íslenzkra nytjafiska, fiskileit, bæði á áður kunnum veiðisvæðum og leit nýrra fiskimiða. Rannsóknarstofa Fiskifélagsins fæst aftur á móti við rannsóknir á hráefnum fiskiðnaðarins og framleiðsluvörum hans. En svo mikilvæg eru verkefni þessara stofnana beggja, að vissulega ber nauðsyn til að efla þær ár frá ári, og þar má ekki horfa um of í nokkurn kostnað, því að fáir fjármunir munu bera skjótari ávöxt. En þetta er þó ekki fullnægjandi. Hér skortir með öllu þriðju stofnunina, sem nútíma sjávarútvegur verður að byggjast á, eigi hann að fylgjast með tímanum, eigi hann að verða fær um að hagnýta sér á sem hagkvæmastan hátt þá vélvæðingu og þá tækniþróun, sem fiskveiðar byggjast á í stöðugt ríkara mæli. Ég á hér við stofnun, sem hefði það verksvið að framkvæma rannsóknir á hvers konar nýjungum og tækni við fiskveiðar, fylgjast sem bezt með þróuninni í slíkum efnum, bæði innanlands og utan, hafa frumkvæði um prófun veiðitækja og fiskileitartækja, nýrra veiðiaðferða og nýrra gerða og mismunandi stærða fiskiskipa. Þá væri það einnig mikilvægt verksvið slíkrar stofnunar að velta íslenzkum útvegsmönnum og fiskimönnum sem allra gleggstar upplýsingar um niðurstöður slíkra rannsókna og athugana.

Að því er sjálf fiskiskipin varðar, skortir mjög á, að fram hafi fárið nokkrar skipulegar rannsóknir á hæfni þeirra og hagkvæmni við hinar ýmsu veiðar, sem stundaðar eru hér við land. Þetta gildir bæði um stærð skipanna, gerð þeirra og útbúnað, og að sjálfsögðu leitast útgerðarmenn við að laga sig eftir því, sem reynsla sjálfra þeirra og annarra kennir þeim. Stundum verður sú reynsla dýrkeypt, stundum stórum kostnaðarsamari einstaklingunum og þjóðarbúinu en þurft hefði að vera. Jafnvel það eitt, að föst stofnun hefði með höndum skýrslugerð og miðlun upplýsinga um það, hvaða gerðir og stærðir fiskiskipa skiluðu hagfelldustum árangri við hinar ýmsu tegundir veiða, — jafnvel það eitt gæti komið að verulegum notum. En jafnframt þyrfti slík stofnun að hafa bolmagn til að aðstoða útgerðarfélög eða útgerðarmenn, sem vildu gera tilraunir með álitlegar tækninýjungar á sviði skipagerða eða skipaútbúnaðar.

Þá er ekki síður nauðsynlegt, að fiskveiðiþjóð eins og Íslendingar komi sér upp tækni- og rannsóknastofnun, sem hefði með höndum prófun og upplýsingastarfsemi um veiðarfæri hvers konar og fiskileitartæki. Á hverju árí koma á markaðinn veiðarfæri úr nýjum gerviefnum eða með nýju sniði. Framleiðendur og seljendur veiðarfæra og fiskileitartækja hafa að sjálfsögðu tekið sölutækni nútímans í þjónustu sina, og hver um sig heldur fram gæðum sinnar vöru. Meðan hér er engin föst stofnun, sem hefur það sérstaka hlutverk að fylgjast með nýjungum á þessu sviði og kanna þær með sérstöku tilliti til íslenzkra aðstæðna, eiga útgerðarmenn oft úr vöndu að ráða. Þeir vilja fylgjast sem bezt með og leggja stundum í verulega áhættu við að prófa sig áfram með nýjungar. Reynslan sannar, að slíkar tilraunir heppnast stundum vel, stundum miður og hafa þá ef til vill kostað marga aðila stórfé.

Dæmi þess, hver hagur ætti að geta orðið að tæknistofnun í þágu sjávarútvegsins, er sagan um hnútalausu herpinæturnar, sem tekið var að flytja hingað inn fyrir rúmlega hálfu öðru ári eða þar um bil. Þessar nætur voru lítið eitt ódýrari en aðrar herpinætur og höfðu að sögn gefið góða raun sums staðar erlendis. Þessi nýjung vakti athygli útgerðarmanna. Á skömmum tíma voru keyptar hingað nætur af þessari tegund í milli 25 og 30 fiskiskip fyrir samtals sennilega upp undir 20 millj. kr. Nú munu flest eða öll síldveiðiskip hér hafa hætt að nota þessa tegund af nótum. Þær hentuðu ekki hér. Tjónið er mikið. Ekki aðeins er þar um að ræða verð veiðarfæranna sjálfra, heldur og aflatjón, sem vafalaust skiptir stórum upphæðum. Nú kynni einhver að segja, að allsendis væri óvíst, að tæknistofnun sjávarútvegsins, ef til hefði verið hér, hefði komið í veg fyrir þetta tjón til að mynda. Mér þætti hins vegar líklegt, að svo hefði getað orðið að verulegu leyti. Slík stofnun, sem væri hlutverki sínu vaxin, mundi skjótt hafa þau áhrif, að útvegsmenn tækju verulegt tillit til umsagna hennar og leiðbeininga, þegar um nýjar gerðir veiðarfæra væri að ræða. í því tilviki, sem ég nefndi áðan, prófun hnútalausu herpinótanna, mætti hugsa sér, að tæknistofnun hefði fárið að eitthvað á þessa leið: Hún hefði leitað samninga við framleiðendur eða umboðsmenn Þeirra um lán eða leigu á svo sem eins og tveim nótum til reynslu. Vafalítið hefðu slíkir samningar tekizt, þar eð framleiðendum hefði verið gert ljóst, að með þessum hætti einum væri hægt að koma veiðarfærunum inn á hinn tiltölulega stóra íslenzka markað. Síðan hefði tæknistofnunin látið það verða sitt fyrsta verk að prófa styrkleika nótanna. Þá hefði það sennilega komið þegar í ljós, sem vegna skorts á tiltölulega einföldum tækjum fékkst ekki upplýst fyrr en of seint, að þessar hnútalausu nætur eru allmiklu veikari en venjulegar herpinætur. Þrátt fyrir þennan alvarlega galla má gera ráð fyrir, að tæknistofnunin hefði getað fengið einhverja reynda aflamenn til að prófa þessar nætur um stundarsakir, annað tveggja styrklaust eða þá fyrir fjárstyrk, sem aðeins var örlítið brot af því tugmilljónatjóni, sem kaup á 25—30 nótum og aflatjón jafnmargra skipa bakaði útvegsmönnum, sjómönnum og íslenzku þjóðarbúi.

Að því er varðar frekari rökstuðning fyrir nauðsyn þess, að hér verði komið upp tæknistofnun í þágu sjávarútvegsins, leyfi ég mér að vísa til allýtarlegrar greinargerðar, sem fylgir þessari þáltill. Aðrar fiskveiðiþjóðir, sem framarlega standa, hafa fyrir löngu komið sér upp slíkum stofnunum, sem flestar eða allar hafa gefið mjög góða raun.

Í desembermánuði s.l. birtist í tímaritinu Ægi mjög fróðleg ritgerð um erlendar nýjungar á sviði fiskveiða. Þessi ritgerð var eftir Jakob Jakobsson fiskifræðing. í ritgerðinni kemst hann svo að orði um veiðarfærarannsóknir hér á landi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð Íslendingar nota einungis innflutt efni í veiðarfæri, er ljóst, hve mikið verkefni er hér á sviði veiðarfærarannsókna, og gegnir raunar furðu, hve lítið hefur verið unnið að þeim til þessa. Rannsóknarstofa Fiskifélags Íslands fékk tæki til prófunar á fínu garni árið 1936 og hefur að sjálfsögðu veitt útvegsmönnum þá þjónustu, sem þeir hafa óskað og unnt hefur verið að framkvæma með hinni einu litlu og ófullkomnu vél, sem sú stofnun hefur yfir að ráða. Þá hafa ýmsir aðrir aðilar, t.d. atvinnudeild háskólans og netaverksmiðja Björns Benediktssonar, veitt mikla hjálp á þessu sviði, en um skipulegar rannsóknir á eiginleikum og notagildi veiðarfæraefna hefur ekki verið að ræða hér á landi. Vansalaust má slíkt ekki við svo búið standa öllu lengur.“

Eftir að þessi þáltill., sem hér er til umræðu, var flutt, hefur hæstv. ríkisstj. lagt fyrir Alþ. frv. til l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, mikinn lagabálk. Þetta frv. hefur verið lagt fram áður hér á Alþ., en ekki náð fram að ganga. í þessu frv. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er ráð fyrir því gert, að viss hluti, þó mjög takmarkaður hluti þeirra verkefna, sem ég legg til að heyri undir nýja stofnun, tæknistofnun sjávarútvegsins, skuli vera meðal margra viðfangsefna hafrannsóknadeildar. En samkv. frv., sem ég áðan nefndi, á hafrannsóknadeild að taka við af fiskideild atvinnudeildar háskólans með nokkuð auknum verkefnum. Ég er ekki í vafa um, að þessi skipan, þótt að henni væri horfið, leysir ekki vandann, sem hér er við að etja, a.m.k. ekki til hlítar og ekki til neinnar frambúðar. Sérstök stofnun, sem fyrst og fremst væri ætlað að sinna þessum tilteknu verkefnum, er alveg bráðnauðsynleg. Ég er ekki í neinum vafa um, að hún mundi á skömmum tíma gera hvort tveggja, annars vegar spara þjóðarbúinu verulega fjármuni, hins vegar auka þjóðartekjurnar beinlínis um ótaldar milljónir eða milljónatugi.

Ég vænti þess, að till. mín fái vinsamlega og góða afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Ég legg til, að umr. um till. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.