26.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Frsm. meiri hl:

(Davíð Ólafsson): Herra forseti. Fjhn. Nd. hefur haft þetta frv. til l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl. til meðferðar. Til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins þótti rétt að bjóða fulltrúa frá Alþb., sem ekki á sæti í þessari n., að fylgjast með störfum n., og tók hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, þannig þátt í störfum n. við athugun málsins. Það kom hins vegar í ljós, að n. gat ekki haft samstöðu um afgreiðslu málsins, og hefur minni hl., þeir hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 11. þm. Reykv., skilað séráliti á þskj. 210.

Það eru engin ný sannindi, þó að sagt sé, að framleiðsla sjávarafurða í landinu hafi nokkra sérstöðu og raunar algera sérstöðu miðað við aðrar atvinnugreinar í því, að hún verður að treysta á erlendan markað nær eingöngu með sölu á sinni framleiðslu. Þetta leiðir af sér, að þessi framleiðsla er í harðri samkeppni á erlendum mörkuðum við sams konar vörur, sem þar eru boðnar frá öðrum þjóðum. Þar kemur tvennt til, sem hefur mikla þýðingu. Það eru í fyrsta lagi gæði vörunnar, í öðru lagi verðlagið. Að því er snertir gæði vörunnar, má óhætt segja, að íslenzkar sjávarafurðir standi þar vel að vígi í samkeppni við sams konar afurðir annars staðar frá, og það mun yfirleitt vera svo, að gæði íslenzkra sjávarafurða standist fullkomlega samanburð við sams konar vörur á erlendum markaði.

Öðru máli gegnir um verðlagið. Þar er samkeppnisaðstaðan nokkru erfiðari, og þar hefur framleiðslukostnaður afurðanna úrslitaáhrif, en einn veigamesti þátturinn í framleiðslukostnaðinum er vinnslukostnaðurinn auk verðs á hráefni. En veigamikill liður í vinnslukostnaðinum er aftur á móti vinnulaun, sem greidd eru til þeirra, sem starfa beint eða óbeint að vinnslunni, og hafa því breytingar á vinnulaunum mikil áhrif á framleiðslukostnaðinn og þar með á samkeppnisaðstöðuna á erlendum markaði.

Þær ráðstafanir, sem gerðar voru með efnahagsmálalöggjöfinni 1960, miðuðu að því að tryggja sjávarútveginum rekstrargrundvöll og að atvinnugreinarnar störfuðu þá á jafnvægisgrundvelli við eðlilega samkeppnisaðstöðu innbyrðis. Það var ætlun ríkisstj. frá byrjun að halda þessari stefnu, og voru í upphafi m.a. felldar niður uppbætur til útflutningsframleiðslunnar, og margvíslegar aðrar ráðstafanir voru gerðar í því skyni að skapa betri skilyrði fyrir framleiðslu og sölu sjávarafurðanna og eðlilegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Allt fram á árið 1963 má segja, að sjávarútvegurinn í heild hafi haft hagstæðan starfsgrundvöll, enda er því ekki að neita, að náttúran var einnig á þessu tímabili hagstæð og gjöful að því er fiskaflann snertir, og það átti vissulega sinn þátt í því að skapa þetta ástand. En við höfum áður haft reynslu af því, að jafnvel mikill afli og góð náttúruskilyrði nægðu ekki til þess að skapa öruggan starfsgrundvöll fyrir útveginn. Togararnir hafa hér þó nokkra sérstöðu. Þegar á árinu 1961 komu í ljós erfiðleikar í rekstri togaranna, sem voru þá kenndir að nokkru leyti aflabresti, en hjá þeim, sem togaraútgerð stunduðu, kom einnig fram sú skoðun, að að hluta a.m.k. væru erfiðleikarnir því að kenna, að togurunum hafði verið mismunað í uppbótakerfinu, sem gilti á árunum eftir 1950 og talið var að hefði bitnað á togurunum.

Svo sem hæstv. sjútvmrh. gat um í framsöguræðu sinni við 1. umr. málsins, hefur á undanförnu ári farið fram athugun á hag og afkomu og rekstri togaraútgerðarinnar. Ég átti þess kost að taka þátt í þessari athugun. Slík athugun sem þessi, gerð á tiltölulega skömmum tíma, hlýtur að hafa sín takmörk. Hún takmarkast við athugun á vissum þáttum og er því ekki algild, en hún leiddi þó í ljós viss atriði, sem eru mjög athyglisverð.

Ef við lítum fyrst á afla togaranna og þá aflarýrnun, sem hefur orðið í þeirra rekstri nú undanfarin ár, var það ljóst þegar frá byrjun og raunar gengið vitandi vits að því, þegar landhelgin var færð út í 12 mílur, að togararnir mundu hljóta af því nokkurt áfall. En þar urðu heildarhagsmunir að sitja í fyrirrúmi og buðu þá útfærslu í 12 mílur, eins og framkvæmd var. En eins og ég sagði áðan, var það fyrirsjáanlegt, að áhrifin mundu bitna að nokkru leyti á togurunum — og hafa einnig komið fram í minnkandi afla þeirra. Þegar á árinu 1958, áður en útfærslan kom til, var gerð tilraun til að meta, hversu mikið þetta aflatap togaranna mundi geta orðið. Það var þá ljóst og er ljóst síðan, að það er mjög erfitt að meta slíkt nákvæmlega. Það eru ýmis atvik, sem koma þar til greina. En við þær aðstæður, sem þá voru og gengið var út frá við þá athugun, komust menn að þeirri niðurstöðu, að við venjulegar kringumstæður mætti gera ráð fyrir, að togari mundi hafa, misst um 600 lestir af ársafla sínum vegna útfærslunnar. En menn vonuðu þá, að afli á fjarlægum miðum mundi geta bjargað a.m.k. nokkru, ef ekki öllu, í þessu efni, og má segja, að það hafi ekki verið óeðlilegt miðað við þá þróun, sem hafði verið í þeim aflabrögðum einmitt á árunum 1958 og 1959, því að á árinu 1958 fengu togararnir nær 54% af sínum afla á fjarlægum miðum. Árið 1959 hækkaði þessi hlutfallstala upp í rúmlega 60%. En þegar á árinu 1960 varð ljóst, að hér var að verða breyting á, og raunar seint á árinu 1959 eða seinni part ársins 1959 kom í ljós, að þær vonir, sem menn höfðu gert sér um mikinn afla á fjarlægum miðum, rættust ekki, því að árið 1961 fór þetta hlutfall niður í nær 30% og 1962 niður í 23%, en 1963 liggja ekki fyrir neinar tölur, en það er ekki gerandi ráð fyrir því, að hlutfallið hafi verið hærra á því ári en varð á árinu 1962.

Fjarlægu miðin hafa sem sagt ekki gefið þann afla, sem menn höfðu vonað. Af því hefur aftur leitt, að togararnir eru þeim mun háðari heimamiðunum en gert var ráð fyrir á þeim tíma, þegar landhelgin var framlengd. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á þýðingu heimamiðanna fyrir togarana og þar með þýðingu útfærslu landhelginnar fyrir afkomumöguleika og aflamöguleika togaranna. Þetta er nauðsynlegt að menn hafi í huga, þegar reynt er að meta afkomu togaranna og afkomuhorfur.

Annað atriði, sem kom í ljós við þessa athugun, var, þegar gerður var samanburður við erlenda togara, sem stunda veiðar á sömu miðum, skip af sömu stærð og sömu gerð, og gerð var athugun á vinnufyrirkomulagi um borð í skipunum. Það liggur óvefengjanlega fyrir, að erlendir togarar af sömu stærð og gerð og á sömu miðum hafa slíkt fyrirkomulag um borð í sínum skipum, sem gerir þeim kleift að hafa mun færri menn á skipunum en tíðkast á íslenzku skipunum. Áður fyrr var það nokkurn veginn regla, að íslenzku skipin öfluðu meira og mun meira við sambærilegar aðstæður en erlendu skipin. Og það má þá segja, að miðað við það hafi ekki verið óeðlilegt að hafa fleiri menn til þess að vinna að aflanum um borð. Þetta virðist nú því miður vera breytt á seinni árum. Ef borinn er saman afli íslenzku skipanna við afla erlendu skipanna við sambærilegar veiðar og sambærileg skip, þá er ljóst, að það er mjög svipað og sennilega ekki meira hjá íslenzku skipunum, þannig að afli allra skipanna hefur minnkað, en íslenzku skipanna þó meira. En það er hins vegar einnig ljóst af upplýsingum, sem fyrir liggja, að hinir erlendu sjómenn fá meiri tekjur miðað við sömu aðstöðu, og liggur það vafalaust í vinnufyrirkomulaginu um borð. Nú tíðkast það mjög að ræða um vinnuhagræðingu, framleiðsluaukningu hjá atvinnuvegunum, og hér er vissulega verðugt verkefni fyrir viðkomandi aðila og sérfræðinga á þessu sviði.

Mjög athyglisvert er í þessu sambandi að líta á það, sem gerzt hefur í síldveiðiflotanum.

Þar hefur breytt veiðitækni og betri tæki gert það mögulegt að fækka mönnum á skipunum um nær 40%, jafnhliða því að vinnan er gerð léttari, en aflinn hefur þó aukizt. Hér gildir það, eins og í öllum atvinnurekstri, að laga sig eftir breyttum tímum og breyttum aðstæðum.

Eins og ég gat um áðan, sýnir þessi athugun að sjálfsögðu ekki öll vandamál þau, sem togaraútgerðin á við að stríða, skýrir ekki að öllu leyti þann hallarekstur, sem á skipunum er og hefur verið, en ég mundi segja, að þetta væru tvö mjög veigamikil atriði, sem ómögulegt er að líta fram hjá, þegar þessi mál eru athuguð.

Hin mjög lélega afkoma togaraútgerðarinnar hefur gert það óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða til að forða því, að sú útgerð stöðvaðist, því að togararnir eru enn veigamikill liður í framleiðslustarfseminni. Það hefur verið gripið til þess undanfarin ár að greiða styrki í viðbót við það, sem aflatryggingasjóður hefur greitt fyrir árin 1961 og 1962, en einnig er gert ráð fyrir því, að þessar greiðslur haldi áfram í svipuðu formi og áður fyrir árið 1963.

Á árinu 1963 varð sú þróun í kaupgjaldsmálum í landinu, sem hafði úrslitaþýðingu fyrir sjávarútveginn. Það var augljóst, að þessi atvinnuvegur, sem eins og ég gat um áðan byggir afkomu sína öðrum þræði á því að selja afurðir sínar á erlendum mörkuðum, gat ekki undir neinum kringumstæðum risið undir þeirri 30% kauphækkun eða meira raunar, sem hún var í sumum tilfellum. Þetta var öllum ljóst og margviðurkennt og raunar ekki umdeilt atriði.

Við lausn verkfallsins í des. 1963 hafði ríkisstj., eins og getið er um í aths. við þetta frv., lýst því yfir, að hún mundi gera ráðstafanir til þess að mæta þeirri 15% kauphækkun, sem þá var samið um, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er raunverulega fram borið til þess. Það eru farnar tvær leiðir í meginatriðum, þ.e. að lækka útflutningsgjöld af sjávarafurðum eða vissum flokkum þeirra og greiða styrki til togaranna og til vinnslustöðva, eða til frystihúsanna.

Hér er að vísu, eins og tekið hefur verið fram, farið inn á leið, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa ekki talið æskilega. Þvert á móti hefur hún talið það æskilegt að forðast hana í lengstu lög. Það hefur hins vegar ekki áhrif á meginstefnuna, að sjávarútvegurinn verði rekinn án styrkja og uppbóta. Að því verður stefnt að leita leiða, sem aftur gætu komið rekstri sjávarútvegsins á heilbrigðan grundvöll. Það má að vísu segja, að enn sé þetta vandamál ekki mjög stórt, einnig með tilliti til þess, að aðstaðan út á við er hagstæð, og að sjálfsögðu auðveldar það lausn vandamálanna. í heild má telja, að þeir styrkir, sem frv. með þeim brtt., sem ég mun lýsa hér á eftir, gerir ráð fyrir að greiddir verði til sjávarútvegsins, nemi rúmlega 4% af heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða miðað við árið 1963, og er þá ekki meðtalið það, sem ætlað er að fari til fiskileitar, því að það er ekki hægt að kalla það beinan styrk til útgerðarinnar. Það er hliðstætt því, sem tíðkazt hefur um nokkurra ára skeið í sambandi við síldveiðarnar. Ekki er heldur talið með það, sem ætlað er að fari til fiskveiðasjóðs. Þar er um að ræða ráðstöfun, sem leiði til þess, að þessi aðalstofnlánasjóður útvegsins fái sömu starfsskilyrði eða tekjur sínar á sama hátt og stofnlánasjóðir landbúnaðarins.

Þá verður líka að gera sér það ljóst, að þessir styrkir, sem ætlað er að greiða, og aflétting útflutningsgjaldsins bæta aðeins að nokkru upp áhrif kauphækkananna á árinu 1963 og annarra hækkana, sem rýrt hafa afkomu sjávarútvegsins, enda er þeim ljóst, sem að þessu standa, að til frambúðar fær þetta ekki staðizt, og því margyfirlýst, að leita verði nýrra úrræða, en hins vegar óhjákvæmilegt að gera þessar ráðstafanir nú til þess að forða frá vandræðum, forða frá framleiðslustöðvun.

Það var ljóst, að þær breytingar í efnahagslífinu, sem urðu á s.l. ári, hlutu einnig að hafa óhagstæð áhrif á útgerðina, ekki aðeins á fiskvinnsluna, heldur einnig á afkomu sjómanna. Kom þetta að sjálfsögðu mjög skýrt í ljós við úrskurð yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins 20. jan. s.l., að hér var um vandamál að ræða, sem þurfti úrlausnar við. Það þótti hins vegar ekki ástæða að fresta framlagningu frv. á þeim tíma, en hins vegar var ætlazt til þess, að málið yrði athugað nánar í meðförum þingsins.

Með þessum úrskurði yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins var á grundvelli l. um verðlagsráð ákveðið, að á þeirri vetrarvertíð, sem nú var hafin, skyldi fiskverð til veiðiskipanna verða hið sama og það var á vetrarvertíð 1963, þ.e.a.s. sama meðalverð skyldi gilda. Útvegsmenn hafa talið, að aukinn útgerðarkostnaður, sem m.a. stafar af hækkunum kaupgjalds, hafi skert rekstrargrundvöll útgerðarinnar, og sjómenn telja það ekki réttmætt, að þeir fái ekki hækkun á sínum launum í nokkru samræmi við almennar launabreytingar í landinu, en þeirra laun ákvarðast að meginhluta til af aflaverðmætinu. Það verður ekki vefengt og hefur raunar ekki verið vefengt, að launa- og verðlagsbreytingar þær, sem orðið hafa í landinu á s.l. ári, íþyngja allverulega útgerðarrekstrinum, og enn fremur er það ljóst, að launahækkanir á s.l. ári hafa rýrt aðstöðu sjómanna, ef borið er saman við þá, sem í landi vinna. En segja má, að hvort tveggja þetta hafi óheppileg áhrif á þróun útgerðarinnar í heild. Ein af þeim brtt., sem n. flytur, snertir þetta atriði. Þar er lagt til, að frá 1. jan. 1964 skuli ríkisstj. heimilt að greiða sem svarar 6% viðbót við það ferskfiskverð, sem ákveðið var með úrskurði yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins 20. jan. s.l.

Sjómenn hafa fengið hækkaða kauptryggingu til samræmis við almennar kauphækkanir, sem urðu í landinu á s.l. ári. Það er í samningum ákvæði um það, að verði hækkanir á kaupgjaldi, hækki kauptrygging sjómanna í samræmi við það. Þann kostnað verður útgerðin að greiða, ef ekki aflast fyrir tryggingu, sem kallað er, og er það að sjálfsögðu þungur baggi, einmitt þegar illa gengur með aflabrögð. Það er erfiðara að gera samanburð á kaupi sjómanna við kaup þeirra, sem í landi vinna, þegar reiknað er með hlut, því að þar kemur aflaverðmætið inn í, og auðvitað má segja að afkoman sé óviðunandi hjá útgerðinni, ef ekki næst hlutur, og raunar einnig hjá sjómönnum, því að grundvöllurinn undir því að fara á sjó og fiska er að ná í mikinn afla, sem gefur þá góðan hlut. Ef litið er yfir lengri tíma, má þó ætla, að þessi viðbót við fiskverðið sé nærri því að jafna aðstöðu sjómannanna við kaup manna í landi eftir þær hækkanir, sem orðið hafa, ef um sæmilegan afla verður að ræða. Um hlut útgerðarinnar er það að segja, að þessi uppbót gerir betur en bæta upp þær beinu kauphækkanir, sem orðið hafa, en hins vegar telja útvegsmenn, að ýmsar aðrar hækkanir komi þar til, sem geri hlut útgerðarinnar lakari. En hvað sem því liður, er hér um að ræða verulega úrbót frá því, sem var, er frv. var lagt fram. Það er gert ráð fyrir því, að þessi viðbót við fiskverðið verði greidd nokkurn veginn jafnóðum, en um það munu verða settar sérstakar reglur.

Meiri hl. n. gerir enn fremur nokkrar aðrar brtt. við frv. í samráði við ríkisstj., sem og þessi er gerð, eins og kemur fram á þskj. 212.

Fyrsta brtt. snertir togarana og miðast við það að taka af allan vafa um, að úthlutun til togaranna skuli miðast við útgerð þeirra á árinu 1963, en jafnframt skuli heimilt að úthluta af fénu eftir hliðstæðum reglum til togara, sem voru ekki gerðir út á árinu 1963, en kunna að fara í útgerð á árinu 1964.

Þriðja brtt. meiri hl. er svo bein afleiðing af annarri brtt. um viðbótina við fiskverðið. Það hefur verið áætlað, að útgjöld vegna fiskverðhækkunarinnar geti numið eitthvað yfir 50 millj. kr., en slíkt fer að sjálfsögðu eftir aflabrögðum. En sé miðað við árið 1963 um aflamagn á þorskveiðunum og verðmæti þess afla, sem á land var lagður, og það er reynsla, að aflamagn á þorskveiðunum breytist ekki mikið frá ári til árs, þá má ætla, að þessi upphæð, sem verður til fyrir ½% hækkun á söluskattinum samkv. brtt., nægi til að mæta þessum útgjöldum, en ½% hækkun á söluskattinum frá því, sem var í frv., má áætla samkv. því, sem áður var áætlað og kemur fram í aths. við frv., að geti numið um 55.2 millj. kr.

Loks er svo fjórða brtt. á þskj. 212. Þar er breytt nokkuð orðalagi upphaflegu gr. og miðað við það, að ríkisstj. leiti samstarfs við lánastofnanir, sem lána til fjárfestingarframkvæmda, um að þær haldi þannig á málum, að fjárfestingarframkvæmdir verði innan hóflegra takmarka á árinu 1964, og jafnframt, eins og sagði í upphaflegu greininni, að ríkisstj. sé heimilt að fresta til ársins 1965 verklegum framkvæmdum ríkisins, eins og þar er til tekið.

Þetta eru þær brtt., sem meiri hl. n. í samráði við ríkisstj. hefur flutt við þetta frv., og ég sé ekki ástæðu til að fara um þær fleiri orðum nú. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum, og ég leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.