29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í D-deild Alþingistíðinda. (3210)

178. mál, vináttuheimsókn fulltrúa Alþingis til Grænlendinga

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 336 till, til þál. þess efnis, að Alþingi ákveði að senda nefnd fimm alþm. til Grænlands til þess að koma á betra sambandi við grænlenzku þjóðina en verið hefur af hálfu Íslendinga fram að þessu. Sé þessi n. þannig skipuð, að formaður hennar sé hæstv. forseti sameinaðs Alþingis, og þingflokkarnir útnefna að öðru leyti hver einn mann í þessa nefnd. Það sé síðan grennslazt eftir því hjá forustumönnum Grænlendinga, hvenær þeim mundi henta bezt að taka á móti slíkri nefnd til þeirra lands, og enn fremur séu gerðar ráðstafanir til þess, að þegar slík nefnd alþm. fer að heimsækja Grænland, hafi hún nokkra möguleika á því að efla meira en orðið er kynnin á milli þjóðanna. Það hafa þegar verið teknar ákvarðanir af hálfu Alþingis um að stuðla að því, að grænlenzkir námsmenn gætu stundað nám hér við Háskóla Íslands, og enn fremur ráðstafanir til þess að tryggja, að vissir Íslendingar lærðu grænlenzku, þannig að við hefðum betri aðstöðu til þess að kynna okkur menningu þeirrar þjóðar, og með þessu móti er farið fram á, að Alþingi Íslendinga geri sérstakar ráðstafanir til þess af opinberri hálfu að koma á nánari kynnum á milli þjóðanna.

Ég þarf ekki hér gagnvart hv. alþm. að ræða um þau gömlu tengsl, sem á milli Íslands og Grænlands eru, og þau eðlilegu tengsl, sem ættu að vera á milli okkar og næstu nágrannaþjóðar okkar, þeirrar þjóðar, sem nú byggir Grænland. En ég vil aðeins, án þess að fara nokkuð út í okkar sögu í sambandi við Grænland. minna á, að það fer nú brátt að liða að því að þúsund ár séu liðin, síðan Íslendingar fundu Grænland og settust þar að og bjuggu þar, líklega um fimm alda skeið. Og enn eru þar minjar eftir Íslendinga, ekki aðeins fornminjar, heldur líka vafalaust nokkur áhrif í lífi þeirrar þjóðar, sem þar lifir. Þess vegna er ástæðan til þess, að þetta er borið fram, fyrst og fremst sú að hefja aftur kynni á milli þessara þjóða út frá okkar sögu, út frá okkar landafræði, ef svo mætti segja, út frá því, að þetta eru nágrannaþjóðir, sem eiga að hafa náin kynni hvor af annarri.

En það eru jafnframt fleiri orsakir og fleiri mál, sem rétt er að athuga, um leið og slík ákvörðun væri tekin. Grænland er frumstætt land. Það er land, sem vafalaust mundi, ef það væri viðurkennt sem sjálfstætt land, heyra undir það, sem nú almennt er kallað þróunarlönd í heiminum, og það hefur hvað eftir annað komið fram, m.a. á þeim ráðstefnum, sem haldnar hafa verið á Norðurlöndum, og líka í Norðurlandaráði og raunar líka borizt beinlínis til Norðurlandaráðs tilmælt frá dönskum mönnum um það, að þeim mikla áhuga, sem er ekki hvað sízt mjög ríkur í Skandinavíu, um að sýna hinum frumstæðu þjóðum, sýna þróunarlöndunum í verki samúð og samhjálp, að slíkum áhuga bæri alveg sérstaklega að beina til Grænlands. Þegar við tölum um Norðurlönd, eigum við öll löndin, allt frá Finnlandi og vestur til Grænlands, og þetta er landflæmi, sem allir við, sem tilheyrum Norðurlöndum, eigum að láta okkur varða, þess íbúa og þess lönd. Og ég álít það mjög réttar raddir, sem fram hafa komið frá ýmsum Dönum í þessu efni, að Norðurlandaþjóðirnar hefðu mátt sýna meira í verki vilja sinn til þess að hjálpa, til þess að efla einmitt þá þjóð, sem í Grænlandi býr, búa betur að henni, efla hennar tækni, efla hennar atvinnulíf og hjálpa henni félagslega. Norðmenn og Svíar hafa unnið alveg sérstaklega mikið starf að því að reyna að hjálpa ýmsum þróunarlöndum, og þó að ég vilji ekki gera lítið úr því, sem Danir hafa gert viðvíkjandi Grænlandi á ýmsum sviðum, er það samt svo, að það er langt frá því, að sú þjóð, sem byggir Grænland, sé enn þá komin félagslega á sama stig og aðrar Norðurlandaþjóðir. Við Íslendingar höfum að vísu ekki sýnt mikinn áhuga fram að þessu, hvað snertir aðstoð við þróunarlöndin, nema þá að ljá ýmsa af okkar sérfræðingum til þess að aðstoða Sameinuðu þjóðirnar til þess að hjálpa þeim á ýmsum tæknilegum og atvinnulegum sviðum, og vona ég, að það verk ýmissa íslenzkra ágætismanna hafi komið að nokkru gagni, en ég býst við, að fyrir okkur Íslendinga væri alveg sérstaklega rétt að beina okkar huga að því að reyna að aðstoða Grænlendinga í þessum efnum og skapa sem bezt samstarf á milli þjóðanna.

Við Íslendingar eigum að muna það sem minnstir allra Norðurlandaþjóða, að þessar þjóðir eru ekki bara fimm, þær eru sjö. Færeyingar og Grænlendingar eru þjóðir alveg eins og hinar, þótt þær sem stendur tilheyri sérstakri ríkisheild, þeirri dönsku. Og við Íslendingar sem síðastir af þessum fimm þjóðum. sem nú eru viðurkenndar t.d. í Norðurlandaráði, hlutum okkar sjálfstæði og losnuðum úr ríkjatengslum við hinar, sem bæði Finnar og Norðmenn höfðu þó áður verið í, — við ættum hvað frekast að finna það okkar skyldu að láta þessar þjóðir, bæði þá færeysku og grænlenzku, vita Það, að við lítum á þær og viðurkennum þær sem þjóðir, enda hefur það til allrar hamingju, án nokkurs tillits til flokkaskiptingar á Íslandi, hvað eftir annað komið fram, sérstaklega hvað Færeyinga snertir.

Nú er hins vegar svo komið, að hjá Grænlendingum sjálfum, hjá þeirri þjóð, sem byggir Grænland, verður í æ ríkara mæli vart sjálfstæðisbaráttu, frelsisbaráttu, og það er alveg greinilegt, að sú þjóð er að skipuleggja sig sem sérstaka þjóð, á sama hátt og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert, þegar þær hafa verið að berjast fyrir sínu frelsi. Grænlenzka þjóðin hefur nú þegar skapað sér sinn fyrsta stjórnmálaflokk, og formaður þess flokks er um leið ritstjóri að stóru blaði, sem gefið er út í Grænlandi, heitir á dönsku „Grönlandsposten“, þess grænlenzka nafn kann ég því miður ekki að bera fram, en það er prentað bæði á grænlenzku og á dönsku. Það er búið að mynda sérstakt verkalýðssamband í Grænlandi, það er búið að mynda sérstakt sjómannasamband í Grænlandi, og það sem ekki hvað sízt ætti að láta okkur Íslendingum renna blóðið til skyldunnar: niðri í Kaupmannahöfn hafa grænlenzkir menntamenn myndað Grænlendingafélag, fyrst og fremst stúdentar, sem hafa tekið upp þráðinn gagnvart sinni þjóð, á sama hátt og íslenzkir stúdentar tóku á 19. öld í frelsisbaráttu okkar þjóðar þá gagnvart Dönum, og það er nú þegar mjög greinilegt, að krafa grænlenzku þjóðarinnar er í vaxandi mæli sú, að hún njóti jafnréttis við aðrar þær þjóðir, sem byggja Danmörku eða danska ríkið. Ég varð m.a. var við það í dönsku blöðunum nú nýlega, að það höfðu átt sér stað þó nokkrar kröfugöngur hjá danska ríkisþingínu einmitt af hálfu Grænlendinga til þess að leggja áherzlu á þeirra jafnréttiskröfur í þessu efni. Og það, sem sérstaklega þar á í því sambandi, voru kröfurnar um jöfn félagsleg réttindi fyrir grænlenzku þjóðina og Grænlendinga og fyrir aðra þá, sem nú sem stendur tilheyra dönsku ríkisheildinni.

Það er ekki að ófyrirsynju, að slíkar kröfur koma fram, einmitt vegna þess, að launamisréttið í Grænlandi er alveg sérstaklega mikið. Það eru allt önnur laun, sem þeim mönnum, sem eru af grænlenzkum toga spunnir, grænlenzku bergi brotnir, eru greidd, heldur en þau laun, sem mönnum, sem eru af dönskum ættum, eru greidd þar, þannig að það er gerður beinlínis munur eftir því, af hvaða þjóðflokki menn eru, og á þetta þó að heita í sama ríkinu og ekki undarlegt, þó að þeir grænlenzku menntamenn, sem nú eru að vaxa upp hjá þessari þjóð, þegar hún er að öðlast evrópska mennt, þá byrji þeir með því að gera kröfur einmitt fyrir hönd sinnar þjóðar til jafnréttis.

Þetta minnir mig á það, að hér á Alþingi ræddum við í þessum sal fyrir 10 árum mjög Ýtarlega um þessi mál. Þá lá það fyrir, að Danir höfðu með því að breyta sinni stjórnarskrá 5. júní 1953 innlimað Grænland í Danmörku. Það var háttur, sem við vitum t. d, að ýmsar gamlar nýlenduþjóðir, t.d. Portúgalar, hafa haft á og afsaka sig nú með því hjá Sameinuðu þjóðunum, þegar verið er að ræða um blóðsúthellingar þeirra og hryðjuverk í Angóla, að það séu portúgölsk innanríkismál, vegna þess að Angóla sé innlimað í Portúgal. Ég vil samt, þó að ég nefni þetta í sömu andránni, engan veginn bera þarna neitt saman. Danir eru yfirleitt í sinni framkomu menningar- og menntaþjóð, sem kemur fram af mannúð gagnvart þeim, sem þeim eru undirgefnir, þó að þá bresti oft stjórnvizku í slíku sambandi.

Danir höfðu sem sé innlimað Grænland í Danmörku með stjórnarskrárbreytingu 1953, og samkv. því höfðu þeir tilkynnt verndargæzluráði Sameinuðu þjóðanna, sem þeir höfðu sent skýrslu um Grænland fram að því sem danska nýlendu, að þeir mundu hætta því, og það mál kom hér fyrir Alþingi, hvort Íslendingar skyldu viðurkenna slíkt, að því yrði hætt. Það lá þá fyrir, að gæzluverndarnefnd Sameinuðu þjóðanna í þeirri ályktun, sem hún gerði, hafði sagt, að hún liti svo á samkv. þeim fram komnu skýrslum og skjölum, að grænlenzka þjóðin hefði af frjálsum vilja ákveðið innlimun í danska konungsríkið á jafnréttisgrundvelli við aðra hluta danska ríkisins, bæði hvað snerti stjórnskipun og stjórnarfar. Þetta var mjög véfengt hér á Alþingi þá, að grænlenzka þjóðin hefði nokkurn tíma af frjálsum vilja ákveðið innlimun í danska konungsríkið. Og þáv. ríkisstj. treysti sér ekki til þess að leggja það fyrir Alþingi Íslendinga, að við viðurkenndum þessa innlimun. Það var hins vegar lagt til af hálfu ríkisstj. þá, að fulltrúi Íslands skyldi sitja hjá við atkvgr. hjá Sameinuðu þjóðunum um þessi mál. Það var hins vegar engan veginn einhugur um það hér á Alþingi. Það var mikill hluti þm., sem vildi mótmæla þessum aðferðum þá og taka þannig beina afstöðu gegn því, sem Danir höfðu gert. Það var samþykkt með 30:20 atkv., að fulltrúi Íslands skyldi sitja hjá, en þeir 20, sem á móti voru, vildu taka afstöðu með því að mótmæla þessari aðferð þá. Meðal þeirra, sem þá greiddu atkv. á móti, var helmingur af núv. hæstv. ríkisstj., þrír ráðh., sem nú sitja í hæstv. ríkisstj., allir ráðh. Alþfl. nú. Ég fór að rifja þetta upp, þegar ég sá nýlega, að grænlenzkir stúdentar hefðu verið að krefjast jafnréttis og að grænlenzkir verkamenn vildu njóta sömu launa og aðrir borgarar danska ríkisins. Og ég sé, að í því, sem lagt var fyrir þá í gæzluverndarnefndinni, var gengið út frá því, að þessi innlimun, sem þá fór fram, færi fram á jafnréttisgrundvelli, þannig að þeir danskir borgarar, sem þá voru í Grænlandi, nytu sömu réttinda um stjórnarfar og aðrir borgarar danska ríkisins. Svo mun sem sé ekki vera. Það mun vera gerður greinarmunur á hinum ýmsu borgurum danska ríkisins enn sem komið er eftir því, af hvaða bergi þeir eru brotnir. Og ég býst við, að bæði þau verkalýðssamtök, sem nú berjast í Grænlandi, og þeir grænlenzku menntamenn, sem nú heyja sína baráttu, vilji láta breyta þessu, og ég veit, að í danska þinginu eru líka allmargir þm., sem vilja knýja fram breytingar í þessum efnum.

Við Íslendingar vitum sjálfir, hvað það er að vera þjóð, sem er að berjast fyrir sinu frelsi, ekki sízt að vera lítil þjóð, og þegar við vorum slík þjóð, þótti okkur vænt um að finna hjá öðrum þjóðum skilning á okkar rétti. Okkur ber skylda til þess, ekki aðeins almenn mannleg skylda, heldur líka sérstök þjóðleg skylda að sýna Grænlendingum okkar vináttu í verki. Við eigum að sýna þeim skilning og aðhlynningu í þeirra menningarbaráttu. Það er dýrmæt menning, sem þeir eiga, og menning, sem má ekki fara forgörðum, og okkur ber jafnvel fyrst af öllum að sýna skilning á slíku.

Ég álít, að heimsókn alþm. til Grænlendinga gæti orðið til þess að auka vináttu og skilning á milli þjóðanna. Ég held, að það sé ákaflega mikil þörf á því, að íslenzkir alþm. fylgist betur en gert er með því, sem þar er að gerast. Það hafa allmargir Íslendingar átt kost á því á undanförnum árum að koma til Grænlands, kynnast því nokkuð, og það er vonandi, að þær ferðir haldi áfram, og þyrfti oft að vera þannig, að mónnum gæfist tækifæri til að dveljast þar lengur en gert er þá 3 daga, sem menn hafa haft tækifæri til þess nú. Það mundi hjálpa til þess að efla skilning á milli þessara tveggja þjóða. En ég álft alveg sérstaklega nauðsynlegt, að auk þess sem Íslendingar hafa sýnt mikinn áhuga á því, — flugfélögin þekkja það bezt, hve mikil aðsókn hefur verið að þeim ferðum, sem þangað hafa verið farnar, — þá beri Alþingi Íslendinga beinlínis af sinni hálfu að sýna það, að við viljum koma á betra sambandi við þá grænlenzku þjóð. Það voru ekki aðrir menn okkur kærari á 19. öld, þegar við stóðum í okkar frelsisbaráttu, en ekki hvað sízt þeir á meðal þm. Dana, sem tóku þá undir okkar frelsiskröfur. Maður eins og Balthasar Christensen, sem þá tók undir okkar frelsiskröfur og sýndi skilning og hlýhug í verki gagnvart Íslendingum, fékk m.a. sent alveg sérstakt þakkarávarp frá Íslendingum. Um hávetur fóru jafnvel austfirzkir bændur um heiðar og fjöll til þess að komast niður í kaupstaðina til þess að undirskrifa þakkarávörpin til þeirra manna, sem sýndu þá skilning og hlýhug í okkar garð, þegar við vorum fátækir og lítils megandi og fáir viðurkenndu okkar rétt. Þær þjóðir, sem nú eru fátækar og lítils megandi, eiga þá kröfu til okkar, að við sýnum þeim skilning. Og það er engin þjóð af slíkum þjóðum, sem á jafnríka kröfu til slíks og grænlenzka þjóðin. Þess vegna álít ég rétt, að Íslendingar og Alþingi Íslendinga alveg sérstaklega sýni sig í því að vilja knýta vináttuböndin við þetta land, sem geymir bein Íslendinga, geymir stóran hluta af sögu Íslendinga og er það land, sem okkur stendur landfræðilega næst. Þess vegna er þessi till. til þál. fram komin.

Ég álit, að í þessari ferð, sem alþm. færu, væri einnig rétt, að vísindamönnum, sérstaklega sagnfræðingum, og blaðamönnum íslenzkum væri gefið tækifæri til að vera með. Við Íslendingar höfum látið okkur allt of litlu skipta það, sem er að gerast í þeim löndum, sem forfeður okkar eitt sinn fundu. Það var ánægjulegt, að nokkrir Íslendingar, íslenzkir fræðimenn og vísindamenn, skyldu fá að vera með í þeim fornleifaleiðangri, sem gerður var til Nýfundnalands og viðar, og við höfum af opinberri hálfu átt að taka meiri þátt í þessum, hlutum en gert hefur verið. Og það er rétt, þegar svona ferð væri farin núna, að einmitt ýmsir af okkar sagnfræðingum og okkar blaðamönnum hefðu tækifæri til þess að vera þarna með.

Ég vil leggja áherzlu á, að slík heimsókn til Grænlands á að skoðast sem einn þáttur í norrænni samvinnu. Ég býst satt að segja við, að það muni ekki af því velta, að Norðurlandaþjóðirnar og ekki sízt Íslendingar sýni enn meiri áhuga á Grænlandi en sýndur hefur verið fram að þessu. Við skulum gera okkur fyllilega ljóst, að sú hætta vofir yfir, að t.d. Bandaríkin, sem nú þegar hafa ítök í því landi, reyni að festa þau ítök, og það er nauðsynlegt, að Norðurlandaþjóðirnar, þær sem nú eru t.d. í Norðurlandaráði, standi saman um það að halda Grænlandi í þeirri norrænu heild, sem það tilheyrir núna. Ég lagði sérstaka áherzlu á Þetta mál í ræðu, sem ég flutti hér á Alþingi 1944 eða 1945, þegar mikið var um það rætt, hvort við Íslendingar værum að slíta okkur út úr þeirri norrænu heild, sem við höfðum tilheyrt fram að þessu, og þegar þær raddir komu fram í blöðum á Íslandi, af því að við hefðum stofnað okkar lýðveldi og skilið við Dani, værum við þar með að slíta öllu sambandi við Norðurlönd, og komu jafnvel fram þær raddir í okkar blöðum, að við hefðum til Norðurlanda litið að sækja. Ég lagði þá áherzlu á það, að einmitt eftir að við værum orðnir sjálfstætt lýðveldi, vildum við, að okkar tengsl við Norðurlönd væru meiri og betri en nokkru sinni fyrr og að við þyrftum að hafa vakandi auga á því, að Grænland, jafnvel sem stærsta landið á Norðurlöndum, tapaðist ekki út úr þeirri heild, og við vitum ósköp vel, hvaða hættur hafa verið yfirvofandi í þeim efnum á undanförnum áratugum.

Ég held, að það sé nauðsynlegt, að einmitt samstarf Norðurlanda og norrænna þjóða byggist meir og meir á því að viðurkenna sjálfstæði þjóðanna, sem eru innan þeirra stóru ríkjaheilda, sem þar voru áður. Ég held, að þróunin verði sú með tímanum, að bæði Færeyingar og Grænlendingar muni hafa sína sérstöku stjórn á sínum málum á mismunandi stigi, eins og nú þegar er farið að gerast með Færeyinga, og við þurfum, þegar við hugsum um Norðurlönd, að hugsa um allar þessar sjö þjóðir og sjá til þess, að þær haldist allar saman. Það kann einhverjum að finnast það undarlegt af okkur vegna þess, hversu mál þeirra er óskylt. En við höfum ekki fram að þessu álitið annað en að Finnar væru Norðurlandaþjóð og tilheyrðu Norðurlöndum sem þjóð og norrænum þjóðum, þó að þeirra mál sé okkur og ýmsum öðrum þjóðum Norðurlanda jafnóskiljanlegt og grænlenzkan. Ég held, að það sé þess vegna nauðsynlegt, að einmitt samvinna Norðurlandaþjóðanna byggist frá upphafi á þeirri viðsýni að viðurkenna og skilja rétt smárra sem stórra þjóða, án tillits til þess, á hvaða stigi valda og menningar þær standa, til þess að standa saman sem bræðraþjóðir í öllum Norðurlöndum.

Ég vil leyfa mér að vona, að hv. alþm. meti þá viðleitni og þann áhuga, sem fram hefur komið hjá íslenzku þjóðinni til þess að kynnast betur Grænlendingum, á þann hátt að gera þessa ráðstöfun af hálfu Alþingis, að heimsækja Grænland og reyna að skapa meiri vináttutengsl á milli grænlenzku þjóðarinnar og Íslendinga en verið hafa, og stefni um leið að því að auka þau menningarlegu kynni með því að gera það fært, að þær þjóðir geti skipzt á mönnum til dvalar og til þess að kynna á víxl sina menningu. Ég vil leyfa mér að vona, að sú saga, sem tengir Íslendinga og Grænlendinga saman, orki einnig á um það, að oss beri skylda til að knýta á ný tengsl við þá þjóð, sem byggir Þetta land, sem er Íslandi nákomnast af öllum löndum utan okkar eigin föðurlands. Ég vil leyfa mér að vona, að ekkert, sem kann að valda einhverjum pólitískum ágreiningi eða mismunandi skoðunum, líka í sambandi við okkar afstöðu til dönsku þjóðarinnar og danska ríkisins sem slíks, geti orkað neinu á um afstöðu til svona vináttuheimsóknar. Án tillits til þess, hvað við kunnum að álíta, hinir og þessir þm., þá vonast ég til þess, að við getum allir sameinazt um það, að oss beri skylda til að taka upp nánara vináttusamband en verið hefur fram að þessu milli íslenzku og grænlenzku þjóðarinnar og að við þess vegna getum sameinazt um að samþykkja þessa þáltill.

Ég vil því leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. sé þessari þáttill. vísað til síðari umr. og til utanrmn., og vil vona, þó að seint sé orðið á þinginu og þessi till. hafi beðið alllengi, að hv. utanrmn. geti orðið sammála um að afgreiða hana, þannig að slík vináttuheimsókn gæti fárið fram annaðhvort á sumri komanda eða, ef forustumönnum Grænlendinga þætti það betra, á næsta sumri á eftir.