11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (3214)

180. mál, embætti lögsögumanns

Flm. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Efni þeirrar till. til þál., sem hér liggur fyrir, er að fela ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd til þess að undirbúa löggjöf um embætti lögsögumanns, þar sem höfð verði til hliðsjónar löggjöf á Norðurlöndum um ombudsmand. Í till. er lagt til, að hliðstæður íslenzkur embættismaður beri hið forna heiti „lögsögumaður“. Eitt af verkefnum hins nýja embættis yrði að leiðbeina mönnum um, hvað væru lög, en einmitt því hlutverki gegndi lögsögumaðurinn að fornu, þótt með öðrum hætti væri. Færi vel á því, að þessi embættismaður bæri þetta forna heiti.

Hér á landi hefur þróunin orðið sú, eins og víðar annars staðar, að aukizt hafa afskipti ríkisvaldsins og annarra opinberra aðila af málum, er snerta daglegt líf einstaklinganna. Ríkið og sveitarfélögin eru stærstu vinnuveltendur í þjóðfélaginu, og þúsundir manna starfa hjá þessum aðilum og fyrirtækjum þeirra sem fastráðnir starfsmenn eða lausráðnir tímavinnu og vikukaupsmenn. Flestir bankar og lánastofnanir eru ríkiseign. Algengast er, að bæjar- og sveitarfélög séu eigendur byggingarlóða. Sveitarstjórnir hafa það þannig í hendi sér, hverjir fá leigðar lóðir undir hús, hvort sem um er að ræða hús til atvinnurekstrar eða íbúðar. Til ýmiss konar atvinnurekstrar þarf leyfi stjórnarvalda. Hið opinbera úthlutar borgurunum auk þessa margháttuðum styrkjum og hlunnindum. Fleira skal ekki hér talið, en af því, sem hér hefur verið nefnt, er ljóst, að segja má, að efnahagsleg afkoma hvers einasta borgara þessa lands sé að meira eða minna leyti undir því komin, hvernig viðskipti hans við opinbera aðila takast. Um margt af þeim hlutum gilda ákveðnir lagabókstafir eða reglur, en um annað fer eftir mati hlutaðeigandi yfirvalda.

Það er alkunna, að í okkar þjóðfélagi er fjármagn af mjög skornum skammti og svo til allur atvinnurekstur landsmanna byggist á lánsfé frá opinberum lánastofnunum. Það fer eftir mati stjórnenda þessara lánastofnana, hverjum gert er kleift að reka atvinnufyrirtæki hér, hvort sem um er að ræða útgerð, landbúnað, iðnað, verzlun eða annað. Þessar sömu lánastofnanir og Húsnæðismálastofnun ríkisins velta lánsfé til íbúðarhúsnæðis, sem landsmenn reisa. Þá eru og lagðar á einstaklingana margháttaðar kvaðir af þjóðfélagsins hálfu, bæði fjárhagslegar og annars konar kvaðir. Framkvæmd skatta- og tollalöggjafar er t.d. sá þáttur í rekstri þjóðfélagsins, sem mjög er umdeildur og ekki hefur alltaf þótt fara nægilega réttlátlega úr hendi. Og loks er framkvæmd réttarfarslöggjafarinnar.

Af öllu þessu er ljóst, að hver einstaklingur og þjóðfélagið í heild á ekki litið undir því, að hinu mikla valdi, sem opinberum afskiptum fylgir, sé samvizkusamlega og réttlátlega beitt.

Ekki er ólíklegt, að sú röksemd komi fram, að embætti það, sem hér er lagt til að stofnað verði, sé óþarft, vegna þess að Alþingi og sveitarstjórnir kjósi yfirleitt stjórnarnefndir opinberra stofnana. Það er ekki langt síðan einmitt þessari röksemd var beitt hér á hv. Alþingi, þegar rædd var till. um að rannsaka lánastarfsemi bankanna. En þessi röksemd gegn málinu er ekki gild. Þau mörgu fjársvikamál, sem upp hafa komið á undanförnum árum, benda til þess, að hlutaðeigandi yfirvöld og stjórnarnefndir hafi ekki að fullu valdið því eftirlitshlutverki, sem þeim er falið. Eftirtektarverð er sú yfirlýsing eins af bankastjórum Landsbankans, að búast megi við fleiri og stærri tíðindum í fjármálaheimi okkar á næstunni en þeim svikamálum, sem upp hafi verið ljóstrað að undanförnu. Og bankastjórinn bætir því við, að hér væru starfandi skipulögð bófafélög. Það er engan veginn út í hött að draga þá ályktun af ummælum bankastjórans, að fjárglæframenn og bófafélög séu sterkir keppinautar heiðarlegra einstaklinga og félaga í þessu þjóðfélagi. Lýsing bankastjórans kemur því miður vel heim við það almenna álit, að fjármálalíf þjóðarinnar sé rotið og spillt. Það er eitt af grundvallaratriðum lýðræðisþjóðfélags, að menn geti treyst því að njóta réttlætis af stjórnarvöldunum, jafnt hjá löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi.

Því miður verður það ekki sagt, að þetta traust sé fyrir hendi í þjóðfélaginu í dag. Þvert á móti hefur það orðið almennara á siðari tímum, að tortryggni gæti um, að lögum og reglum sé ekki réttlátlega beitt. Það er fyrir alllöngu orðin almenn skoðun manna hér á landi, að ef hinn almenni borgari vilji reyna að tryggja sér framgang sinna mála, verði hann með einhverjum hætti að njóta stuðnings sterks aðila í þjóðfélaginu.

Höfuðmarkmið með stofnun lögsögumannsembættis er að skapa traust almennings á stjórn þjóðfélagsins og eyða tortryggni. Þetta skal gert með eftirliti, ýmist að frumkvæði lögsögumannsins sjálfs eða eftir ábendingum og umkvörtunum annarra. Með skyldu lögsögumanns til þess að gefa þinginu skýrslu um störf sín á að vera tryggt, að starf hans sé unnið fyrir opnum tjöldum, en einmitt það er skilyrði þess, að stofnun slíks embættis nái tilgangi sinum.

Eins og fram kemur í grg. þáltill., hafa Svíar lengsta reynslu af starfi síns lögsögumanns. Slíkt embætti var stofnað þar í landi þegar árið 1809. Stofnanir, er gegna svipuðu hlutverki, eru starfandi í Danmörku, Finnlandi og Noregi. Nýjasta löggjöfin um þessi efni er sú norska, sem er frá 22. júní 1962. Höfuðmarkmiðið með þessu embætti er hvarvetna hið sama, að gæta hagsmuna almennings gagnvart opinberum aðilum. Sænski lögsögumaðurinn hefur á ýmsan hátt frábrugðið starfssvið starfsbræðrum sínum annars staðar. Hann hefur talsvert meiri völd en þeir, í reynd mun þó vera svo, að eigi sé ýkjamikill munur á störfum sænska lögsögumannsins og því hlutverki, sem norska lögsögumanninum er ætlað að gegna., en að sjálfsögðu er mjög lítil reynsla komin á störf þess síðar nefnda. Sænski lögsögumaðurinn gripur sárasjaldan til þess valds, sem honum er ætlað umfram hina. Sænski lögsögumaðurinn hefur fullt ákæruvald og hefur því rétt til að höfða mál á hendur þeim, sem misbeitt hafa valdi sínu. Norski lögsögumaðurinn hefur hins vegar ekki rétt til að höfða mál eða fyrirskipa réttarrannsókn, en honum er heimilt og skylt að gefa bendingar um réttarrannsókn eða málshöfðun, ef þurfa þykir. Þegar norsku lögin voru sett, var það túlkun formælenda þeirra, að embætti lögsögumanns skyldi fylgja slík virðing, að enginn aðili teldi sér fært að skorast undan tilmælum hans um leiðréttingar á misferlum. Lögsögumenn Norðurlanda eiga sjálfir að fylgjast með framkvæmdum öllum, er snerta mál borgaranna. Auk þess getur sérhver, sem telur sig eða einhvern annan órétti beittan, kvartað til lögsögumanna þar í landi. Sænski lögsögumaðurinn er skyldur að svara sérhverju bréfi, er honum berst, en slíkt hið sama gildir ekki annars staðar. Sænski lögsögumaðurinn skal árlega ferðast um landið og heimsækja dómstóla, fangahús, geðveikrahæli, ofdrykkjumannahæli og aðrar stofnanir, er fjalla um frelsisskerðingu manna eða annast hana. Lögsögumönnum Norðurlandanna er gert skylt að senda þjóðþinginu árlega skýrslu um störf sín, þar sem m.a. er gerð grein fyrir ástandinu í réttarfarsmálum. Enn fremur ber þeim að gera till. um breytingar á lögum og reglugerðum, ef þeim þykir ástæða vera til þess.

Hvarvetna á Norðurlöndum eru lögsögumennirnir kjörnir af þjóðþinginu. Það er mín skoðun, að hér á landi þurfi að fara aðrar leiðir í þessu efni en að einfaldur meiri hl. Alþ. kjósi lögsögumanninn. Mætti auðvitað benda á ýmsar aðrar leiðir, en ég skal ekki að þessu sinni fara nánar út í það atriði. Lögsögumönnunum er hvarvetna fengið víðtækt vald til þess að rannsaka mál, og hafa þeir aðgang að öllu í því efni, ef þeir telja sig við þurfa. Það er skoðun mín, að hér á landi sé brýn þörf á breytingum, er stuðli að aukinni tiltrú almennings til framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Það verður að vera unnt að sannfæra menn um það með rökum, að tortryggni í garð þessara aðila sé ástæðulaus. En slík tortryggni hefur óneitanlega fárið ört vaxandi í seinni tíð, að því er virðist ekki alltaf af ástæðulausu.

Höfuðtilgangur með stofnun embættis lögsögumanns á að vera að auka möguleika þess, að lög og reglur þjóðfélagsins gangi réttlátlega yfir alla og að menn þurfi ekki að leita réttar síns eftir annarlegum leiðum. Til þess að stofnun embættis lögsögumanns nái tilgangi sínum, verður að tryggja, að það verði óháð framkvæmdavaldinu, dómsvaldinu og stjórnmálabaráttunni í landinu. Það er því mikil nauðsyn, að viðtæk samstaða náist á hv. Alþ. um undirbúning slíks máls sem þessa. í þáltill. er lagt til, að fulltrúum allra þingflokka og fulltrúum frá hæstarétti verði falinn undirbúningur löggjafar um embætti lögsögumanns.

Ég leyfi mér að lokum að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. allshn.