26.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Í fyrri daga, þegar slíkir voveiflegir hlutir gerðust, að skip strandaði, þá var það talin ein æðsta skylda skipstjórnarmanns að senda hraðboða til næsta yfirvalds, og var sá boði vanalega kallaður strandboði, og ætlazt var til, að yfirvaldið tæki þá í sínar hendur skip og önnur verðmæti á strandstaðnum. Nú hafa mikil tíðindi gerzt hér. Með frv. því, sem hér er til umr. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl., hefur ríkisstj. sent strandboð til hv. Alþingis. Það má segja, að slíkt komi mörgum landsmönnum ekki svo mjög á óvart, því að mörgum forsjálum og hyggnum manni leizt ógæfulega á, þegar núv. ríkisstj. tók við stjórnvöl á þjóðarskútunni. Og þegar kunnugt varð um stjórnarstefnu hennar, virtist mörgum, að siglt mundi verða norður og niður, og svo hefur því miður orðið. E.t.v. mun ríkisstj. nú ásamt sínum fylgjurum gjarnan vilja fá að lifa aftur upp sín fjögur stjórnarár og reyna að læra af fenginni reynslu. En það frv., sem hér er til umr., sýnir ekki neina breytingu á hugarfari eða stefnu, og því hljóta henni ætíð að vera búin þau örlög að stefna á ógæfuhlið. Ríkisstjórnin er samt ekki af baki dottin. Með strandboðinu til Alþ. fylgdi sú krafa, að það samþykkti enn á ný stórkostlegar álögur á þjóðina, til þess að hún gæti komið stjórnarfleyi sínu af strandstaðnum, a.m.k. í bili, eins og hæstv. forsrh. nánast tók til orða við 1. umr. þessa máls.

Í aðförum sínum í sambandi við þá skattheimtu, sem felst í þessu frv., minnir ríkisstj. helzt á hina fyrri dönsku menn, sem sátu hér á landi í skjóli danska einvaldsins og kröfðust dagsverka og annarra fjárútláta af þrautpíndum almúganum. Nú krefst ríkisstj. mikilla skattpeninga úr höndum láglaunafólks, sem áður hafði í því því efni meir en nóg á sínum herðum, og þessi skattpeningur á að standa straum af því að koma stjórnarfleyinu á flot. En mér er spurn: Á að leggja nýjar álögur á þjóðina til þess að hjálpa ríkisstj. í þessu efni? Ég segi nei. Ríkisstj. segist hafa vald og meiri hluta þjóðarinnar til að gera hvert það, sem hún telji heppilegast eða henni hentar, segist hafa hlotið traust hennar við kosningar s.l. sumar. Hvernig hlaut ríkisstj. þann meiri hl.? Það væri saga til næsta bæjar að rifja það upp, ófögur saga. En vitanlega vann ríkisstj. nauman sigur í síðustu þingkosningum, svo nauman, að margur með hennar fortíð og stjórnarfleyið þá þegar í skerjagarðinum hefði ekki látið sér nægja. En þessi ríkisstj. lætur sér í þessu efni í raun og veru allt nægja, ef hún aðeins getur haldið völdunum. Látum svo vera, að hún héldi áfram í sumar með sínar veiku meirihlutahækjur, en nú, eftir að hún hefur sent strandboð til Alþingis, ber henni skylda til að láta á næsta sumri ganga til kosninga. Þjóðin á kröfu á því að fá nú aftur tækifæri til að dæma stjórnarstefnuna og árangur hennar, eftir það, sem nú er fram komið, sem hún var leynd fram yfir síðustu kosningar. Ef ríkisstj. vinnur kosningar næsta sumar í drengilegri og hreinskilinni baráttu, þá mun ég og aðrir viðurkenna lýðræðislegan rétt hennar að sitja áfram, og þá skal ég fúslega játa, að þjóðin eigi ekki betri stjórn skilið enn um stund.

Hvað er það svo, sem núv. ríkisstj. krefst af þjóðinni? Að enn séu hækkaðar álögur á hana sem nemur meir en 10% þeirra tolla- og skattaálagna, sem fyrir eru og upp eru gefnar, en eru meiri í reyndinni. Hvernig á svo að innheimta þennan skatt? Auðvitað á að fara hina illræmdu söluskattsleið, sem hefur sér flest til foráttu, en fátt til ágætis eða réttlætingar. Söluskattur kemur þyngst niður á fátækum og barnmörgum fjölskyldum, og það, sem e.t.v. engu minna varðar, er, að reynslan hefur sýnt, að engin skattheimta ríkissjóðs er eins erfið og affallasöm og söluskattur í smásölu.

Og hvernig eru svo þessar fyrirhuguðu álögur afsakaðar, og hver er talin ástæðan fyrir þeim? Óhjákvæmilegar og eftir ástæðum hógværar kaupkröfur láglaunafólksins eru taldar nú sem áður orsök þess að hafa komið efnahagslífi þjóðarinnar í öngþveiti. Það er ekki nýtt, að þessi ríkisstj. skelli þannig mistökum sínum í efnahagsmálum á láglaunafólkið í landinu. Þegar það knýr fram einhverjar leiðréttingar kjara sinna, kveður slíkt einlægt við, og í hvert sinn, sem fólkið ber fram slíkar kröfur, hefur ríkisstj. boðað refsiráðstafanir og framkvæmt þær í formi gengisfellingar eða með beinum auknum álögum eftir öðrum leiðum. Þegar þurfandi fólk reynir á viðurkenndan lýðræðislegan hátt og hóflegan að krefjast réttar síns, þá skal því refsað og launabótin hrifsuð úr hendi þess.

Enn hefur ríkisstj. ekki lært svo mikið, að slík vinnubrögð þýða ekki. Fólkið fer aftur af stað, e.t.v. með meiri kröfur en áður, og heimtar sinn hlut til baka, og sagan endurtekur sig, nýjar kaupkröfur, nýjar álögur, og allt er komið á strand aftur, áður en varir. Ríkisstj. hefur ekki lært enn þau einföldu sannindi, sem felast í hinu hrjúfa alþýðuorðtaki: Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

En er nú mál ríkisstj. til Alþingis og þjóðarinnar meira en auknar skattálögur, sem ég hef aðeins lauslega vikið að, en aðrir gert meiri og nákvæmari skil, bæði við 1. umr. og nú við þessa umr.? Vissulega. í erindi ríkisstj., tilkynningunni til Alþ. fólst meira, rúsínan í pylsuendanum er eftir. Jafnhliða því að keppa eftir að koma álögum þjóðarinnar upp í a.m.k. 3 milljarða, þá vill hún fá einræðisvald til að fella úr gildi allar fjárveitingar skv. fjárl. 1964 til verklegra framkvæmda ríkisins og einnig framlög til framkvæmda annarra aðila, sem ákveðin eru í fjárl. Fyrr má nú rota en dauðrota. Þessi ríkisstj. leyfir sér, eftir allt sem á undan er gengið og fram undan er, að krefjast jáyrðis fylgjara sinna í öðru eins og þvílíku. Það má vissulega spyrja ríkisstj. og stuðningslið hennar: Er þetta hægt, Matthías? Eða: Loftarðu þessu, Pétur? Þessi ríkisstj., sem lofaði þjóðinni gulli og grænum skógum skv. hagfræðilegum formúlum, bæði á þingi við valdatöku sína og enn fremur í hinni frægu hvítu bók, sem ber nafnið Viðreisn og valdhafarnir óska nú, að aldrei hefði orðið til, með þessari umbeðnu heimild segir ríkisstj. við þjóðina: Þótt ég sjái nú fram á að geta kreist undan nöglum þínum um 3 milljarða í ríkiskassann, þá geri ég ekki ráð fyrir öðru en ég verði að nota allt þetta fé til ríkisrekstrarins, og því býst ég ekki við, að ég eigi nokkuð eftir handa þér til uppbyggingar í landinu þér til frambúðarhagsældar, ekki einu sinni krónu til vega, til brúa, til hafna, til skólabygginga eða viðhalds þeim, ekki til íþróttamannvirkja, ekki til bókasafna eða annars slíks, ekki til að byggja eða endurbæta sjúkrahús, ekki til fjárfestingar á vegum landbúnaðarins, ekki til nýrrar rafvæðingar eða jarðborana, ekki til vatnsveitna né aðstoðar til landakaupa kaupstaða og kauptúna og sennilega ekki neinn byggingarstyrk eða annað slíkt skv. 17. gr. fjárl. Og enn fremur: Framkvæmdaframlög skv. 20. gr. fjárlaga, þ. á m. fé til uppbyggingar flugvalla víðs vegar um landið, eru dauðadæmd á þessu ári, ef stjórninni býður svo við að horfa og fær umbeðna heimild. — Trúlega guggnar ríkisstj. í þessu efni, og segi ég henni það ekki til lasts. Verð ég að gera ráð fyrir, að fylgismenn ríkisstj. skoði hug sinn tvisvar, áður en þeir gefa þessa umbeðnu heimild.

Engar ríkisstj. munu fyrr eða síðar hafa sótt til Alþ. um slíka heimild sem þessa. Gæti ég trúað, að eina fordæmið sé, að ríkisstj. fékk eitt sinn heimild til að lækka um 10%, ef nauðsyn krefði, slík fjárlagaframlög, í svipaða átt og hér er beðið um að mega fella niður allar verklegar fjárveitingar.

Ég skal ekki fjölyrða um afleiðingar þess, ef framkvæmd væri umbeðin heimild. En slíkt er ekki hægt að þola, allra sízt af hendi þeirrar ríkisstj., sem alþjóð veit að hefur morð fjár til umráða. Slíkt er alveg ógerningur, jafnvel þótt einhvers konar móðuharðindi væru skollin á af manna völdum, sem munu sízt vera léttbærari en þau harðindi, sem náttúran kann að leiða yfir mennina. Það væri t.d. ánægjulegt eða hitt þó heldur fyrir núv. samgmrh. að sitja í ár uppi með nýsamþykkt vegalög og fá ekki tilskilið fé til að bæta eitthvað þjóðvegakerfi landsins, sem svo mjög hefur drabbazt niður í höndum hans á undanförnum árum. Og hvar er nú stórhugur menntmrh. á sviði menningarmálanna? Hlakkar hann t.d. til, að hundruð barna og unglinga hafi ekki skýli yfir höfuðið til að nema það, sem þeim ber lögum samkvæmt, og fjöldi annarra þeirra býr við ófullnægjandi aðstæður á því sviði? Og svona má halda áfram að telja í sambandi við niðurfellingu fjárveitinga, sem ríkissjóður er skyldur að leggja árlega fram til almenningsheilla og þarfa. Ég vil svara fyrir hinn aðspurða Matthías og segja: Þetta er ekki hægt.

Og loftar ríkisstj. slíkri ábyrgð? Ég segi nei. Hún á strax að segja af sér. Og ég vil að lokum bæta því við, sem eitt sinn var sagt hér í þingsölunum: Þótt fyrr hefði verið.