29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

189. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á þskj. 380 hef ég leyft mér ásamt 3 þm. Framsfl. að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna nefnd til þess að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga í því skyni að finna nýja tekjustofna, er geri kleift að fella niður eða lækka verulega útsvar af framfærslutekjum manna. N. taki einnig til athugunar önnur atriði laganna, eftir því sem ástæða þykir til.“

Í fjarveru 1. flm. langar mig til þess að fylgja till. þessari úr hlaði með örfáum orðum, auk þess sem ég um rökstuðning fyrir tillöguflutningi þessum vísa til grg.

Á undanförnum árum hefur sú þróun vaxið í æ ríkara mæli, að sveitarfélögin hafa neyðzt til að leggja útsvör á nauðþurftatekjur gjaldenda til þess að geta haldið uppi starfsemi og framkvæmdum í sveitarfélögunum, sem nauðsynlegar eru taldar. Nú á seinustu árum, eftir því sem dýrtíðin hefur vaxið og framfærslukostnaður aukizt, hefur þetta ástand, að sveitarfélögin neyðist til þess að leggja á framfærslutekjur manna útsvör, orðið æ illbærilegra, og nú er svo komið, að það er almennt viðurkennt, að á þessu þurfi að verða einhver breyting.

Á árinu 1961, að mig minnir, var tekið upp það nýmæli í lög, að sveitarfélögin fengu um 1/5 hluta af álögðum söluskatti í sinn hlut. Þessum nýja tekjustofni sveitarfélaganna var mjög fagnað á þeim tíma. En síðan þetta var gert, hefur mikið vatn runnið til sjávar, og með margs konar löggjöf hér frá Alþingi hafa lögboðin útgjöld sveitarfélaganna verið stórlega aukin. Þarf ég ekki í því sambandi að minna á annað en þá nýju löggjöf, sem sett hefur verið hér um almannatryggingar, sem lagt hafa sveitarfélögunum stórkostlegar útgjaldabyrðar á herðar. Það er ekkert vafamál, þó að ég hafi ekki tiltækar nú í augnablikinu tölur til þess að sanna þetta, að lögboðin útgjöld stærri sveitarfélaganna síðan 1961 hafa vaxið miklum mun meira en sá hluti, sem þau hafa fengið í gegnum 1/5 hluta af jöfnunarsjóðsgjaldinu. Ég tel því, að nú sé svo komið, að það sé algerlega óhjákvæmilegt, að Alþingi taki til athugunar löggjöfina um tekjustofna sveitarfélaganna, fyrst og fremst í tvennum tilgangi. í fyrra lagi til Þess að afla sveitarfélögunum nýrra tekjustofna umfram þá, sem þau nú þegar hafa, og e.t.v. ekki síður í þeim tilgangi að gera sveitarfélögunum þannig mögulegt að hætta að leggja útsvör á nauðþurftatekjur almennings. Út á það gengur þessi till. Hún gerir ráð fyrir að kjósa nefnd til þess að endurskoða tekjustofnalöggjöf sveitarfélaganna í þessum tilgangi.

Eftir að þáltill, okkar fjórmenninga var lögð fram, hefur verið lagt fram stjórnarfrv. nokkru siðar um breyt. á l. nr. 69 frá 28. apríl 1962, um tekjustofna sveitarfélaga. Mér til mikillar undrunar er í því frv. hvergi vikið að þessu mikla vandamáli. Þar er hvergi reynt að finna sveitarfélögunum, sem nú eru í sárri þörf, nokkra nýja tekjustofna, en hins vegar gengur frv. dálítið í þá áttina að lækka útsvör á almenningi af lægri tekjum með því að hækka nokkuð persónufrádráttinn frá því, sem áður var. En það er þó auðséð, að sú lækkun verður í framkvæmdinni ekki mikil, af þeirri einföldu ástæðu einni, að sveitarfélögin þurfa eftir sem áður á miklum tekjum að halda og þau geta ekki að óbreyttri löggjöf um tekjustofnana mætt þeirri breytingu, sem á að gera á útsvarslöggjöfinni, á annan hátt en þann að fella að meira eða minna leyti niður þær ívilnanir, sem þau hafa veitt á undanförnum árum og í grg. með frv. ríkisstj. eru taldar hafa numið á milli 15 og 30% í kaupstöðum landsins. Sveitarfélögin geta ekki mætt þessari tekjurýrnun á annan hátt en þann að hætta við að mestu leyti að veita þessar ívilnanir, þannig að um raunverulega lækkun útsvara eftir samþykkt stjórnarfrv. tel ég að ekki verði að ræða. Vandamálið er því enn til staðar. Löggjöfina um tekjustofna sveitarfélaga þarf að endurskoða í þeim tilgangi að afla sveitarfélögunum nýrra tekjustofna, svo að þau geti hætt að leggja á nauðþurftatekjur almennings.