26.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Björn Pálsson:

Herra forseti. Við búum nú ekki við suðrænt veðurlag, en við vitum þó, að það kemur jafnan regn á eftir þrumunni. Og það er það, sem er að gerast hér. Nú er að byrja að rigna, þruman er gengin hjá að mestu.

Þegar núv. stjórn tók við völdum, átti allt að laga, það átti að afnema niðurgreiðslur, a.m.k. útflutningsuppbætur, og skapa rétt gengi. Ég skal játa, að útflutningsuppbæturnar voru meira og minna gallaðar og m.a. vegna þess, að þeim er ekki alltaf réttlátlega úthlutað. Ég veit t.d. um smáfisksuppbæturnar, að því miður var þar ekki gætt fyllsta réttlætis, vegna þess að það gáfu ekki allir réttar skýrslur. Ég býst við, að sumir hafi gert það, en ég hafði nokkurn veginn vissu fyrir því, að t.d. gáfu sumir upp, að hluti af netafiskinum á Suðurnesjum væri smáfiskur, og það var vitanlega ekki rétt. Þannig er það með allar uppbætur og niðurgreiðslur, að það vill gæta ranglætis með úthlutun þeirra, svo að það er til bóta, ef hægt er að afnema slíkt. En það gengur nú þannig til, það, sem átti að laga, hefur ekki tekizt að laga. Við þurfum að gera okkur ljóst, hvers vegna þetta mistókst.

Ég hef aldrei haft gleði af því, þó að þessari stjórn gengi eitthvað illa, heldur hefur það hryggt mig, og eftir minni takmörkuðu þekkingu á hlutunum hef ég stöku sinnum reynt að benda á, hvað ég álíti að betur hefði mátt fara. En það hefur aldrei verið á það hlustað. Ég benti á það 1960, að gengið væri fellt of mikið, þetta skapaði óeðlilegar verðhækkanir. Ég benti einnig á það, að hækkun vaxta, um leið og gengið væri fellt, mundi ekki ná takmarki sínu, vegna þess að rekstrarfjárþörfin mundi aukast svo mikið, að eftirspurnin eftir fé mundi verða það mikil, að menn tækju lánin, hvað sem þau kostuðu.

Þetta hefur allt komið fram. Þetta verkaði hvað á móti öðru. Það var ekki gagn að vaxtahækkuninni, þegar verðhækkanir voru svona miklar. Fólkið varð einhvers staðar að fá peninga. Það þurfa allir að hafa íbúð eða búa í einhverjum húsum. Vegna verðhækkananna mun byggingarkostnaður hafa hækkað um 50–70%, og hækkun hefur orðið síðan. Lánin voru takmörkuð. Nú eru lánaðar 150 þús. kr. út á íbúðina. Fólkið er að verða í vandræðum með fé til að geta byggt yfir sig, og við þekkjum það, þm. utan af landi, að maður má ekki hitta þetta fólk, sem er að byggja núna, án þess að það spyrji okkur: Getið þið ekki einhvern veginn útvegað okkur lán. Lánstíminn er styttur, vextirnir hækkaðir og þeir, sem eru að byggja yfir sig, eru í vandræðum. Þetta er að koma meira fram, eftir því sem árunum fjölgar, frá því að þessar ráðstafanir voru gerðar. Og ef ríkisstj. vill nú gera eitthvað af viti til þess að fá fólkið til að vera sanngjarnt í kaupkröfum, ætti hún að gera fólkinu auðveldara að byggja yfir sig. Hún ætti að lána fólkinu eða þeim, sem byggja íbúðir, 300 þús. kr. gegn 4% vöxtum og 40 ára afborgun, í staðinn fyrir að stytta lánstímann, hækka vextina og hafa lánsfé hverfandi lítið. Hvernig í ósköpunum getur ríkisstj. búizt við því, að fólkið geti unnið fyrir lágt kaup eða án þess að krefjast hærra kaups, þegar útgjöldin eru alltaf stöðugt hækkuð?

Sama er að segja um bændur. Allur þeirra rekstrarkostnaður jókst til muna. Og það, sem er allra verst, það er misræmið í þessu. Þeir, sem voru búnir að búa um sig, búa við tiltölulega góð kjör. Þeir, sem eru að því nú, og þeim fjölgar alltaf, búa við þessi slæmu kjör. Þeir þurfa að hafa miklu meiri tekjur en þeir, sem voru búnir að búa um sig. En vitanlega fylgja aðrir þeim eftir, og allir gera kröfurnar. En nú er búið að fara hringinn. Nú er þessi hæstv. ríkisstj. búin að sameina þetta tvennt, þ.e. lánsfjárskortinn og vaxtaokrið frá sínu eigin tímabili, og er að sameina alla. gallana frá vinstristjórnartímanum, sem þeir kenndu oft við hv. 1. þm. Austf. og kölluðu Eysteinsku, þ.e. meiri eða minni uppbætur. Það má kalla það útflutningsuppbætur eða hvað það nú er. Það er visst á hvert fiskkíló og falsgengi um leið. Hvað er þessi söluskattur? Hann auðvitað hækkar og hækkar nauðsynjar fólksins, og við vitum, að við fáum miklu minna fyrir krónuna nú en í fyrra. En það er þetta, sem er að gerast. Það er verið að sameina allt það versta frá tímabilum tveggja stjórna, en sleppa öllu því skásta.

Mér er sagt, að nú muni það liggja í loftinu að bæta þeim frystihúsum, þau eigi að njóta aðallega styrksins, þau frystihús, sem mest framleiða og bezta hafa aðstöðuna, það verði úthlutað eftir framleiðslumagninu, en ekki eftir þörfinni. Það þýðir vitanlega það, að þeir, sem frysta nú síldina og fá 3 kr. fyrir að frysta kg eða 4 jafnvel, það er fyrir vinnu og frystingu, en þeir, sem flytja hana í land, fá eina 84 aura. Þetta eru þau frystihús, sem hafa langsamlega bezta aðstöðu, því að þetta er í raun og veru það, sem skapar góð rekstrarskilyrði fyrir frystihúsin, en ef miðað er við framleiðslumagn, þá eru það þessi frystihús, sem fá langmest. Það á því ekki að úthluta eftir magni, heldur á að kynna sér, hvaða frystihús hafa mesta þörf fyrir aðstoð, og það á ekki að gera eftir frásögnum þeirra sjálfra, heldur á trúnaðarmaður ríkisstj. eða þeirra, sem eiga að sjá um úthlutunina, að ferðast milli húsanna og kynna sér rekstur þeirra og þarfir, og svo á að gera athugun á því, hver þurfi aðstoðina.

Ég talaði hér örfá orð um kvöldið, ég fór ekki fram á, að það yrði greiddar vissar prósentur eða aurar á hvert fisk kg. af því að þegar byrjað er á þessu kerfi, þá er ógerlegt að stöðva það, það koma meiri og meiri kröfur.

Þá er eftir þessi blessaði kjaradómur hjá verzlunarmönnum. Mér er sagt, að það muni verða stærsta bomban, sem hefur komið í efnahagslíf okkar, ég hef hlerað það. Svo eru eftir kaupkröfurnar í júní í sumar. Þá ætla verkamennirnir af stað aftur. Það er að byrja að rigna, og við fáum skúr. Það er svo með selinn, er mér sagt, að það sé hægt að slá hann í rot, en ef hann er sleginn annað högg, þá raknar hann úr roti. Þruman er gengin hjá og regnskúrinn er byrjaður og verður vafalaust mikill. En við skulum samt ekki örvænta, því að þegar ósköpin eru búin, vitum við, að það verður heiðríkt og sólin fer að skína.

Ég held nú satt að segja, að það miði allt að því, að vitleysan verði það mikil, að það verði ógerlegt annað en laga hana. Ég álít, að ríkisstj. hefði aldrei átt að ganga inn á þessa 6% hækkun á fiski. Uppbótakerfið verður ekki stöðvað, þegar byrjað er á því. Ríkisstjórnin átti að fara aðra leið. Hún átti að lækka vextina við útgerðarmennina. Ef við reiknum með, að báturinn afli á vertíðinni 600 tonn, þá jafngildir þessi uppbót 108 þús. Þar af eiga sjómennirnir að fá um 40%, eða rúmar 40 þús. kr. Þeir fá það með uppbótum til yfirmanna o.fl. Ef hæstv. ríkisstj. hefði lækkað vextina um 2½%, sem sagt samræmt þetta, það yrðu þá sömu vextir á skipum, sem voru keypt fyrir 1960, og þeim, sem eru keypt eftir 1960, þá hefði það af bát, sem fær 7–8 millj. kr. lán, jafngilt 170 þús. kr. Það hefði verið meiri lækkun, og það var viturlegri leið, heldur en að ganga inn á þetta kerfi, sem við vitum að er hér um bil ógerlegt að stöðva, þegar byrjað er á því. En útgerðarmennirnir, það verður ekkert lakara fyrir þá að greiða einhvern hluta vaxtalækkunarinnar til sjómannanna heldur en fá þessa aura eða skipta þeim á milli sín og sjómannanna. En þetta var viturlegri leið. Ég benti á þessa leið, en hæstv. ríkisstj. hlustaði ekki á það, því að hún hlustar aldrei á, — þó að maður vilji benda henni á það, sem vit er í, og vilji henni vel, þá hlustar hæstv. ríkisstj. aldrei á það. Þess vegna er ég farinn að gera lítið að því.

Þetta er ekki nóg. Svo rekur að því, að útgerðarmennirnir borga ekki þessa vexti og bændurnir, sem búa við þessi sömu vaxtakjör, — það eru alltaf fleiri og fleiri bændur að taka þessi lán nú með háu vöxtunum, — þeir borga ekki sína vexti, og þá verða bankarnir að taka skipin og jarðirnar. Þetta kemur allt af sjálfu sér. Þannig fer með alla vitleysu, sem gerð er. Hún er óframkvæmanleg, og þannig mun þetta verða. Menn geta ekki borgað þessa háu vexti af skipunum, nema krónan haldi áfram að hríðfalla, sem má vera að hún geri. Við höfum það þá eins og Frakkarnir, þegar þeir tóku tvö núll aftan af og gerðu 1 franka úr 100. Það rekur sjálfsagt að því eftir nokkur ár, að við verðum að gera það sama, sleppa 1 eða 2 núllum, og sama mun verða um bændurna. Þeir, sem eru að taka lán nú, geta ekki borgað vexti og afborganir.

Ég get sagt ykkur, að ég fékk 30 þús. kr. að láni fyrir mann, sem byggði hús í kauptúni, — ég segi ykkur þetta bara sem dæmi. Hann var búinn að fá 70 þús. kr. áður og þurfti að borga 9 þús. af þessum 30 í vexti og afborganir af þessum 70, sem hann hafði fengið. Svona er það, lánin koma seint, þau eru lítil, og svo loksins, þegar leifarnar fást, fer mikið af því fé í vexti og afborganir. Þetta kemur allt af sjálfu sér, þetta er óframkvæmanlegt. En það er bara þetta, sem er athugavert. Það er verið að samræma það nú, sem var vitlausast og óheilbrigðast hjá tveimur ríkisstj., og svo ímyndið þið ykkur, að þetta geti gengið. Það gengur ekki langt. Skúrinn er að byrja, hann gengur hjá og vafalaust birtir til aftur, en við verðum orðin gegnvot vafalaust mörg okkar.