30.10.1963
Sameinað þing: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í D-deild Alþingistíðinda. (3268)

27. mál, afurðalán vegna garðávaxta

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er náttúrlega litlu að svara þeim hv. 4. þm. Austf. og hv. 1. þm. Austf. Mér þykir það leitt, að hv. 4. þm. Austf. fannst, að svörin hjá mér væru ekki nægilega skýr. Ég ætla þó. að hv. þm. sé alveg nægilega skýr til þess að hafa alveg skilið það, sem ég sagði. Það var, að það væri ekki komið fullnaðarsvar frá Seðlabankanum um það, hvort lánað verður út á garðávexti að þessu sinni. Og á meðan ekki er komið fullnaðarsvar, þá er það náttúrlega hvorki já né nei. En ég benti á, að það væri ekki til baga, þótt þetta svar væri ekki komið, vegna þess að garðávextirnir hafa ekki enn verið meðhöndlaðir þannig á þessu hausti, að það sé nokkur tilbúinn til þess að leggja fram skýrslu ásamt tilheyrandi vottorðum, sem slíkri lánbeiðni þurfa að fylgja. Það gerist ekki fyrr en í nóvembermánuði, seinni hl. mánaðarins. Og þegar hv. 4. þm. Austf. hugleiðir þetta nánar, þá býst ég við, að hann verði eftir atvikum ánægður með mitt svar.

En hv. 1. þm. Austf. talaði um það, að Seðlabankinn hafi áður lánað 67% og hann hafi getað það. Gat hann það vegna þess, að hann hafði fjármuni til þess að gera það, eða gerði hann það með öðrum hætti? Ég vil benda á það, að þegar Seðlabankinn í stjórnartíð hv. 1. þm. Austf, lánaði 67%a og gat það, eins og hv. þm. sagði, þá leiddi það til verðbólgu, það efast jafnvel hv. 1. þm. Austf. ekki um. En þá þurfti Seðlabankinn ekki að hugsa um það að hafa til tryggingar fyrir gjaldeyrisvarasjóði, vegna þess að þá var enginn gjaldeyrisvarasjóður til og þá var ekkert hugsað um það að eignast gjaldeyrisvarasjóð. Þá voru bara gjaldeyrisskuldir. Það er þetta, sem hefur breytzt, að í staðinn fyrir að hafa gjaldeyrisskuldir, eins og var áður, hefur verið að því unnið að mynda gjaldeyrisvarasjóð, og það hefur tekizt með því að lána ekki meira út úr Seðlabankanum af fjármunum en raunverulega eru til. Og þeirri stefnu verður vitanlega ekki breytt hér með. Það hlýtur að verða stefna hverrar ábyrgrar ríkisstj. að láta ekki Seðlabankann lána meira af fé, hvorki út á afurðir né annað, heldur en það fé, sem hann raunverulega hefur yfir að ráða. Og nú hefur Seðlabankinn þetta tvíþætta hlutverk auk margs annars: Það er að lána út á afurðirnar og það er að tryggja það, að hverju sinni séu til verðmæti til þess að tryggja gjaldeyrisvarasjóðinn. Og ég er alveg sannfærður um, að þegar hv. 1. þm. Austf. hugleiðir þetta, að það er ekki unnt að hafa gjaldeyrisvarasjóð, nema liggi fyrir verðmæti til tryggingar honum, þá held ég, að hann jafnvel fari að efast um, að Seðlabankinn í hans stjórnartíð hafi raunverulega getað lánað þessi 67%, sem hann talar nú oft um.

Ég upplýsti hér áðan, að það væri að því stefnt að auka afurðalán, og það er vissulega að því stefnt. Og ég vil undirstrika það. vegna þess að hv. 1. þm. Austf. vildi láta orð að því liggja, að það væri ekki greitt fyrir landbúnaðinum í þessu efni, að landbúnaður og sjávarútvegur sitja nú við alveg sama borð hvað þetta snertir, En æskilegt er, að báðir þessir atvinnuvegir fái meiri lán, hærri lán, strax og það er mögulegt að láta þau af hendi.