27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

801. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil Þakka hæstv. ráðherra fyrir glögg og skýr svör við fyrirspurnum mínum, sérstaklega þeirri fyrstu, sem ég á síðustu stundu breytti talsvert, en ráðherrann var svo vinsamlegur að svara eins og ég setti hana fram hér áðan.

Ég verð því miður að láta í ljós talsverða óánægju með þær upplýsingar, sem hæstv. ráðherra gaf um stöðu málsins í dag. Ég vék að því hér í frumræðu minni áðan, að ég teldi, að rangt væri að farið að eyða bæði miklum tíma sérfræðinga og miklum peningum í það að vinna undirbúningsstörf og gera teikningar að rannsóknarskipi, sem svo síðar yrðu e.t.v. aldrei notaðar, eins og reynslan var um þær teikningar, sem gerðar voru á árinu 1958. Ég held, að það verði að taka ákvörðun fyrst um, hvort byggja eigi skipið eða ekki. Það er ekkert vafamál, að það hafa mörg rannsóknarskip verið byggð í fjölda landa, að tekniska hliðin á þessu er ekkert óleysanlegt dæmi, og um fjárhagshliðina er það að segja, að eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, þá munu nú eða um n.k. áramót vera til í sjóði í þessu skyni nærri 20% af áætluðum byggingarkostnaði slíks skips. Mér er fortalið, að erlendar skipasmíðastöðvar séu fúsar til þess að útvega lán út á þau skip, sem þær kunna að smíða, algengt er a.m.k. 80% af byggingarkostnaði og í sumum tilfellum enn þá hærra. Mér er enn fremur sagt, að þegar ríki sé viðsemjandi skipasmíðastöðvanna, þá geti þessi lán komizt allt upp í 90% af byggingarkostnaði skipanna, þannig að ég held, að í dag liggi það því alveg fyrir, að fjárhagsgrundvöllur til þessara framkvæmda er til staðar og tekniska hliðin á málinu er tiltölulega auðveld. Hér vantar ákvörðun hæstv, ríkisstj. um að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd strax og láta vinna að því í samræmi við það.

Eins og ég gat um í ræðu minni hér áðan, ganga 3% af útflutningsgjaldinu í sjóð, sem nota á til þess að byggja rannsóknarskipið. Ef 80–90% af byggingarkostnaði skipsins fengjust að láni frá þeirri skipasmíðastöð, sem það kann að smíða, þá er mjög sennilegt, að lánskjörin geti orðið það góð, að þessi tekjustofn geti staðið undir greiðslum af láninu, sem inna þarf af höndum, og ef það nægði ekki, þá hefur það svo sem áður gerzt hér á hv. Alþ.,hæstv. ríkisstj. gæti eftir einhverjum leiðum aflað fjár, sem á þyrfti að halda, ef þessi tekjustofn gefur ekki það miklar tekjur, að hann nægi til þess að greiða lánið niður.

Ég gat um það í ræðu minni áðan, að spurningin um byggingu hafrannsóknarskipsins væri spurning um það, hvernig ætti að leysa stofnkostnaðarspursmálið. Fjárveitingar til rekstrarkostnaðar slíks skips hafa verið á fjárlögum undanfarin ár, og þær munu væntanlega halda áfram. Ég vil því að endingu skora á hæstv. ríkisstj. að láta nú ekki verða lengri drátt á að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd en þegar er orðinn.