27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

801. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði, sem ég vildi taka fram eða bæta við. Ég held menn hljóti að vera sammála um, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn að eignast rannsóknarskip fyrir sjávarútveginn með sem mestum hraða og að það hljóti að vera hægt að framkvæma þetta með því fjármagni, sem er fyrir hendi; ef ákveðið er að taka lán fyrir verulegum hluta af andvirði skipsins. Ég vildi því bara taka undir áskorun hv. 4. þm. Reykn. um, að ákvörðun verði tekin um að kaupa skipið, og um lántöku í því skyni og beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún vildi ekki afla sér heimildar Alþingis fyrir þeirri lántöku nú, t.d. í sambandi við fjárl. Það verði tekin sú stefna að taka lán til að kaupa skipið, að því leyti sem stofnframlagið hrykki ekki, og gengið frá þeirri lánsheimild núna, væntanlega á næstu dögum, þegar gengið verður frá fjárl., og lýsi ég stuðningi mínum við þá stefnu. Sé slík lánsheimild fyrir í lögum, þá náttúrlega þarf þess ekki. En sé hún ekki í lögum, skora ég á hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því, að stjórnin fái heimild til að taka lán í þessu skyni.