07.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í D-deild Alþingistíðinda. (3294)

85. mál, Hofsárbrú í Vopnafirði

Lúðvik Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú ekki um að villast af þeim upplýsingum. sem hér hafa verið gefnar, að ekki hefur verið staðið við þau loforð, sem gefin voru í nafni ríkisstj. á sínum tíma um byggingu á brú á Hofsá í Vopnafirði. Það fer ekkert á milli mála að því hafði verið lofað af þáv. hæstv. ráðh., að byggð skyldi brú á Hofsá í Vopnafirði næst á eftir þremur brúabyggingum, sem þá voru fyrirhugaðar. Þær brýr hafa allar verið byggðar og síðan hafa verið byggðar allmargar aðrar brýr, sem síðar var lofað að byggja, en hlaupið frá því að efna loforðið, sem gefið var um byggingu á brú á Hofsá í Vopnafirði.

Þá hefur hæstv. samgmrh. nú skýrt frá því, að á árinu 1961 hafi vegamálastjóri gert till. að nýju um brúabyggingar fyrir fé úr brúasjóði og þá aftur gert að sjálfsögðu till. um, að brúin á Hofsá yrði með í næstu áætlun. En enn á ný, þrátt fyrir fyrri loforð, tekur hæstv. samgmrh. Þessa brú eina út úr áætluninni, fellir hana niður, en tekur aðra inn, þrátt fyrir það þótt áður væri búið að bregðast gefnu loforði í málinu. Ég veit, að það er létt verk að telja upp margar brýr hér og þar í landinu eða óbrúuð vatnsföll og benda á það, hve mikil nauðsyn sé á því, að slík vatnsfölt séu brúuð. Það er létt verk. Það yrði eflaust hægt að halda áfram slíkum afsökunum næsta áratuginn, ef samgmrh. vill viðhafa slíkt. En hitt er atriði í málinu, að ákveðið loforð hafði verið gefið í þessum efnum, að byggja þessa brú, og á því leikur heldur enginn vafi, að það er brýn nauðsyn á að byggja brúna og hefur verið allan þennan tíma.

Mér þykir mjög leitt að heyra, að hæstv. samgmrh. skuli ekki enn vera búinn að taka ákvörðun um það eftir allt það, sem gert er í þessu máli, að standa við þau loforð, sem gefin hafa verið, og hann hafi enn í huga að draga það að byggja þessa brú. Enn heyrði ég hann hér telja upp nokkrar brýr, sem byggja þyrfti og hann væri a.m.k. ákveðinn að gengju fyrir brúarbyggingunni á Hofsá. Ég vil nú aðeins leyfa mér, um leið og ég kvarta yfir því, hvernig staðið hefur verið að framkvæmdum í þessu máli, að skora á hæstv. samgmrh. að endurskoða nú áætlanir sínar í þessum efnum og kynna sér betur af eigin raun þær þarfir, sem liggja að baki kröfu heimamanna um, að þessi brú verði byggð, því að ég trúi því ekki, ef hann kynnir sér málið til hlítar, að þá fallist hann ekki á réttmæti þess, að þessi brú verði ein sú fyrsta, sem byggð verði hér eftir fyrir fé úr brúasjóði, með tilliti til þess, hvernig þetta mái allt hefur gengið.