07.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í D-deild Alþingistíðinda. (3295)

85. mál, Hofsárbrú í Vopnafirði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austf. taldi, að það væri ekki ástæða til að rifja upp, hvaða brýr hafi verið byggðar, síðan fyrirmælin komu um byggingu Hofsárbrúar. Ég tel, að það sé mikið atriði, ef upplýsist, að þótt Hofsárbrúin sé nauðsynleg, þá hafi þær brýr, sem voru byggðar, verið enn nauðsynlegri, — endurbygging gamalla brúa á aðalvegum, sem voru að hrynja. Og víst hefur allt fé brúasjóðs verið notað, og það mun enginn hv. þm. segja, að það hafi ekki verið notað vel, til hinna nauðsynlegustu framkvæmda. Ég tel ekki nokkurn vafa á því, að brúin á Fjallsá var enn nauðsynlegri en brúin á Hofsá. Ég tel einnig, að brúin á Steinavötn hafi verið enn nauðsynlegri en brúin á Hofsá. Allar þessar brýr eru í sama kjördæminu. En það skal viðurkennt, að síðan mjólkurbúið kom í Vopnafirði, en það er stutt síðan, þá hefur viðhorfið breytzt, og brúin á Hofsá kallar meira eftir síðan. Þegar við ræðum þetta rólega og yfirvegum staðreyndir, þá held ég, að við verðum allir sammála um, að það sé ekki tilefni til brigzlyrða um, að það hafi ekki verið staðið við loforð. Framkvæmdaáætluninni hefur verið fylgt að öllu öðru leyti en þessu, og það er áreiðanlegt, að þegar ákvörðun hefur verið tekin um brúarbyggingar, þá hefur ekkert annað ráðið en það, hvað verður að ganga fyrir, til þess að samgöngur teppist ekki algerlega, og hvað það er, sem getur beðið, enda Þótt það sé nauðsynlegt. Og viðhorf mitt til brúarbyggingarinnar á Hofsá hefur breytzt við tilkomu mjólkurbúsins og mjólkurflutninganna.