04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í D-deild Alþingistíðinda. (3298)

802. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Fyrirspyrjandi (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., sem prentuð er á þskj. 94. Fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvaða niðurstöður liggja fyrir varðandi þær rannsóknir, sem gerðar voru s.l. sumar á hafnargerð við Dyrhólaey?“ Þetta er fyrri liður fsp. Hinn síðari hljóðar svo: „Hvað líður rannsóknum á tilflutningi jarðefna annars staðar við suðurströnd landsins, t.d. í Þykkvabæ?“

Í ágústmánuði s.l. barst mér bréf frá sýslumanni Skaftfellinga, sem hefur inni að halda ályktun frá sýslufundi V-Skaftafellssýslu, er haldinn var í Vík 2.—5. júlí s.l. Bréf þetta hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslufundur V-Skaftafellssýslu, haldinn í Vík 2.—5. júlí 1963, skorar fastlega á þm. Suðurlandskjördæmis að beita sér fyrir því allir sameiginlega, að á næsta Alþ. verði veitt nóg fé til fullkominna rannsókna á hafnargerð við Dyrhólaey, og jafnframt sameiginlega að ganga ríkt eftir því, ef fé fæst til þessara hluta, að fullnaðarrannsókn á umræddri hafnargerð verði framkvæmd tafarlaust.

Um notagildi hafnar við Dyrhólaey fyrir Suðurlandsundirlendið og landið í heild er þm. kjördæmisins kunnugt sem öðrum, er til staðhátta þekkja.

Ályktun þessi sendist öllum þm. kjördæmisins ásamt fyrstu varamönnum þess.

F.h. sýslunefndar V-Skaftafellssýslu.

Einar Oddsson.“

Það hefur ríkt þögn um þetta mál nú um nokkra mánuði a.m.k., en Þetta hafnargerðarmál við Dyrhólaey er ekki nýtt mál. Það var skömmu eftir síðustu aldamót, sem Bretar buðust til þess að byggja höfn við Dyrhólaey. En sá böggull fylgdi skammrifi, sem Alþ. treysti sér ekki að samþykkja, og var það mál þar með úr sögunni. En þetta hefur alltaf verið vakið upp annað kastið síðan og aldrei sofnað að fullu, þó að lítið hafi þokazt í áttina. Það er engum ljósara en mér, að hér er um stórmál að ræða, sem ekki verður leyst á stuttum tíma. Það hlýtur að krefjast mikils undirbúnings og margháttaðra rannsókna, áður en hægt er að hefjast handa um framkvæmdir.

Árið 1955 flutti Jón Kjartansson, þáv. þm. V: Skaftfellinga, till, um rannsóknir á hafnargerð við Dyrhólaey, og var hún samþykkt. Hafði hann sumarið áður fengið þýzka verkfræðinga frá firmanu Hochtief í Essen til þess að koma austur í Mýrdal og líta á aðstæður. Menn þessir voru þá á vegum Gísla Sigurbjörnssonar forstjóra hér á landi. Þeir komu snögga ferð austur í Mýrdal, og eftir þá ferð tjáðu þeir sig fúsa til að gera víðtækari athuganir. Sumarið eftir voru þessir verkfræðingar að störfum á Akranesi, og hugðist þá Jón Kjartansson fá þá austur að Dyrhólaey og hefja þær rannsóknir, sem um hafði verið rætt og Alþ. hafði samþykkt að gerðar yrðu, en þá brá svo við, að þáv. fjmrh. neitaði að leggja fram fé til þessara rannsókna, þó að Alþ. hefði heitið einróma að veita það. En hið þýzka verkfræðifirma Hochtief var þá búið að skrifa sýslumanni Skaftfellinga og tjá sig reiðubúið til þess að inna af hendi nauðsynlegar mælingar og rannsóknir fyrir 30 þús. vesturþýzk mörk. En þar sem fjmrh. sá sér ekki fært að inna þessa greiðslu af hendi, Þá varð ekkert af framkvæmdum að því sinni.

Síðan hafa að vísu farið fram nokkrar rannsóknir á vegum vita- og hafnarmálaskrifstofunnar, og síðast í fyrra var þetta mál til umr. hér á hv. Alþ. og kom fram fsp. um Það frá Karli Guðjónssyni, þáv. hv. 6. þm. Suðurlandskjördæmis, og á síðasta sumri kom hingað til lands sérfræðingur frá Bandaríkjunum, sem talinn er mjög fær í því, sem lýtur að sandburði og tilfærslu jarðefna með ströndum fram. Hann mun hafa komið austur í Mýrdal og athugað aðstæður við Dyrhólaey og einnig víðar með suðurströnd landsins, svo sem í Þykkvabæ. En ekki hefur heyrzt um árangur af þeim athugunum, og því ber ég fram þá fsp., sem hér er til umr.

Það er ekki að ástæðulausu, að þessi fsp. er fram komin. Á leiðinni frá Höfn í Hornafirði og til Þorlákshafnar er algerlega hafnlaust. Um langt skeið urðu menn að brjótast í því að flytja nauðsynjar sínar í land úr skipum á smábátum og afurðirnar sömuleiðis um borð í skipin. Þetta átti sér stað undir Eyjafjöllum, í Vík í Mýrdal, við Skaftárós, Hvalsíki og í Öræfum. En þetta var gert aðeins vegna þess. að engar aðrar leiðir voru færar. Og erfiðleikunum, sem í sambandi við þetta voru, þarf ekki að lýsa fyrir mönnum, sem þekkja suðurströndina. En þegar bílarnir komu til sögunnar, breyttist þetta, vegir voru byggðir og brýr. En þessir löngu flutningar með bílum hljóta alltaf að verða dýrir. Öll aðstaða til þúskapar í þeim héruðum, sem verða að flytja allar vörur með bílum um langa vegu, hlýtur því að verða miklum mun erfiðari en þar sem hægara er að ná til markaðanna. Það er því ekki óeðlilegt, þó að fólkið, sem þarna býr, í þessum blómlegu sveitum við hafnlausa ströndina, spyrji hvort hægt sé að byggja höfn. Og við þessari spurningu vill það fá svar og það svo fljótt sem verða má. Ég átti heima í Mýrdalnum á annan áratug, og ég horfði oft á fiskiskipin á kvöldin eins og borg fyrir utan, þar sem þau mokuðu upp fiskinum örstutt undan landi, sérstaklega framan af vertíð, en Mýrdælingar gátu ekkert aðhafzt, vegna þess að þeir komust ekki út vegna brims. Vestmannaeyjabátarnir fiska venjulega framan af vertíð með ströndinni vestan undan Eyjafjöllum og allt austur í Meðallandsbugt. Og það er líka vitað mál, að þarna fram undan er oft mjög mikil síld.

Það er mikið talað um jafnvægi í byggð landsins. En unglingarnir, sem alast upp á þessum stöðum, eins og í Mýrdalnum og viðar á Suðurlandi, verða að fara að heiman, um leið og þeir geta farið að bjarga sér, vegna þess að ekki er athafnasvið fyrir þá heima fyrir.

Á stríðsárunum voru Bandaríkjamenn búnir að teikna höfn og gera mælingar í Þykkvabæ. En þegar styrjöldinni lauk, var þetta vitanlega úr sögunni af eðlilegum ástæðum. En fólkið, sem býr á þessum stöðum, í Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu, er ekki búið að gefa upp alla von um, að á öðrum hvorum þessum stað og jafnvel báðum sé mögulegt að byggja höfn. Ég get vel gert mér í hugarlund, hvaða byltingu slíkt mundi valda, en ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um það hér. En það má gjarnan minnast á það í þessu sambandi, að á þessu svæði eru einhverjar frjósömustu og þúsældarlegustu sveitir, sem til eru á Íslandi, og fram undan ströndinni auðugustu fiskimiðin. Það hlýtur því að verða krafa, að fullnaðarrannsóknir varðandi hafnargerðir á þessum stöðum verði látnar fara fram og þeim lokið á eins skömmum tíma og unnt er, og ég treysti því, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur til þess að hraða þessu nauðsynjamáli.