04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í D-deild Alþingistíðinda. (3300)

802. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Fyrirspyrjandi (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir svar hans. Það kom mér ekki á óvart, að það mundi verða kostnaðarsamt mannvirki að byggja höfn við Dyrhólaey, og ég tók það hér fram áðan, að mér væri fyllilega ljóst, að þetta væri svo stórt mál, að það hlyti að þurfa mikinn og langan undirbúning. En ég vil vænta þess, að þær rannsóknir, sem þegar eru hafnar, verði ekki látnar niður falla, heldur verði þeim fram haldið, þangað til endanlegar og ákveðnar niðurstöður liggja fyrir, og ég vil treysta því, að hæstv, ríkisstj. geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að styðja þetta mikla nauðsynjamál. En ég er í engum vafa um það, að einhvern tíma og það kannske ekki svo langt framundan verður byggð höfn við Dyrhólaey, svo framarlega sem rannsóknir segja ekki, að það sé ómögulegt.