04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

803. mál, flóabátaferðir og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er, hvað líði athugunum þeim á flóabátaferðum og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins, er ráðh. boðaði í umr. í sameinuðu þingi 19. apríl s.l. um till. til þál. um samgöngur á sjó við Vestfirði. Hv. fyrirspyrjandi las upp hér part af þeirri yfirlýsingu, sem ég hafði gefið í sambandi við umr. Í vor um þessi mál, og ég skal nú aðeins endurtaka einn kafla úr henni, því að hann sýnir alveg, hvernig þetta mál var hugsað. Þar sagði ég í þessum umr.:

Hv. 1. þm. Vestf. beindi þeim tilmælum til mín, að ég gæfi þá yfirlýsingu hér, að þessi mál skyldu verða tekin til athugunar, hvað sem þinglegri afgreiðslu þeirra liði. Og ég get með ánægju gert það, vegna þess fyrst og fremst, að þessi mál eru og hafa verið þegar í allmikilli athugun:

Þar átti ég við það, að hér hafa starfað að undanförnu um alllangan tíma norskir sérfræðingar um þessi mál, kynnt sér rekstur Skipaútgerðar ríkisins og margt þar að lútandi. Og það, sem ég átti við með þessu, var það, að þeim athugunum yrði haldið áfram með fullum krafti, þar til yfir lyki með þær, og síðar yrði þá farið í framhaldsrannsóknir, sem þessar frumrannsóknir gæfu tilefni til.

Þessir norsku sérfræðingar hafa nú skilað sínu áliti. Það er dagsett frá þeirra hendi 12. júní s.l. Síðan hefur það verið til nokkurrar athugunar hjá mönnum, sem ég fékk mér til leiðbeiningar og gagnkunnugir eru þessum málum, og álit frá þeim fékk ég 12. sept. s.l. En því miður verður það að segjast, að álit þeirra manna, sem ég hef fengið til þess að athuga þessar norsku till., stangast að nokkru leyti og má segja í grundvallaratriðum við till. Norðmannanna. Úr þessum ágreiningi verður ekki skorið nema með tilraunum, sem verður að gera og gera á næstunni.

Þegar hér var komið málum s.l. haust, frétti ég um það, að hér væri verið að athuga án míns tilverknaðar um samgöngumál landsins í heild sinni, bæði vegakerfi, bílaflutninga og flug, auk þess sem þar fléttuðust náttúrlega inn í strandferðirnar og þeir flutningar, sem við þær eru bundnir. Þetta var maður, sem hingað kom á vegum Efnahagssamvinnustofnunarinnar og á hennar kostnað og gerði þessar athuganir. Ég vildi þá láta koma í ljós, hvað hann hefði að segja, og hef nú fengið frásögn af till. hans og athugunum, en þessar niðurstöður hans eru fyrst í mínar hendur komnar um mánaðamótin síðustu eða aðeins fyrir nokkrum dögum, þannig að ég hef ekki haft tækifæri til að gera mér fulla grein fyrir þeim enn. En efnislega held ég að ég megi fullyrða, að í meginatriðum sé hann sömu skoðunar og hinn norski sérfræðingur var, sem hefur í alllangan tíma kynnt sér rekstur Skipaútgerðarinnar.

Það, sem helzt hefur valdið ágreiningi af þessum till. Norðmannanna, er það, að þeir gera ráð fyrir því, að það sé nauðsynlegt, til þess að komast að hagkvæmum rekstri, að nákvæmt tímaplan sé sett um ferðir allra skipanna, þannig að ekki aðeins komudagur, heldur komutími og burtfarartími verði þar ákveðinn, svo að menn geti gengið að þessu vísu, alveg eins vísu og menn ganga að komutíma og brottfarartíma t.d. áætlunarbíla eða flugvéla eða einhverju þess háttar. Enn annað mál, sem þeir leggja ákaflega mikið upp úr, er það, að afgreiðslutækni Skipaútgerðarinnar verði tekin til rækilegrar endurskoðunar og gerbreytt.

Þetta er sem sagt komið á það stig, að nú liggja fyrir endanlegar till. frá þeim sérfræðingum, sem um málið hafa fjallað, bæði innlendum og erlendum, og geri ég þá ráð fyrir í fyrsta lagi, að tilraunir verði gerðar til þess að fá úr því skorið, hvernig þessar till. reynast í framkvæmd, og yfirleitt, hvort þær eru framkvæmanlegar, og síðar verði skipuð nefnd, sem fái öll þessi plögg til athugunar.