04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í D-deild Alþingistíðinda. (3309)

803. mál, flóabátaferðir og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það hefur borið hér á góma í þessum umr., að óskir hafi verið uppi um það, að endurskoðað yrði skipulag flóabátaferðanna í landinu. Þetta er rétt. Þessar óskir hafa verið uppi a.m.k. 2 undanfarin ár, og ég held ég muni það rétt, að í samvn. samgm. hafi allir verið sammála um, að þetta bæri að gera. En það strandaði á því, að fylgismenn ríkisstj. vildu ómögulega fallast á, að endurskoðunarnefndin væri þingkjörin n., og fyrir bragðið varð ekki neitt úr neinu.

Á síðasta þingi bar svo meiri hl. samvn. samgm. fram till. í þessa átt. Maður skyldi ætla, að meiri hl. n. hefði getað fengið hana samþykkta, en það var ekki einu sinni svo, að till. kæmist til umr. Þá fluttum við brtt. við hana, nokkrir framsóknarmenn ásamt einum þm. Alþb., að n. skyldi verða þingkjörin, og þá strandaði allt. Það hefur verið alveg óskiljanleg andúð gegn því í stjórnarflokkunum, að þingið kysi slíka n. Ekkert annað hefur borið á milli. En nú fagna ég því, sem hæstv. samgmrh. segir, að hann er því samþykkur og lýsir vilja sínum yfir um það, að slík n. verði nú kosin. Og er það gott, að þá kemst málið á rekspöl. Hitt get ég tekið undir með honum, að það er vafalaust bót að þeim athugunum, sem þegar hafa farið fram af erlendum og innlendum mönnum í þessum efnum. Þessi mál snerta næstum því hvert einasta heimili í landinu, hvernig samgöngunum er hagað. Það er því fyllilega eðlilegt, að allir þingflokkar eigi fulltrúa við þessa endurskoðun, og ég endurtek þakklæti mitt til hæstv. ráðh. um það, að hann fellst á þá skipan.

Um strandferðir Skipaútgerðarinnar vildi ég segja það, að það er alkunna og þarf ekki að hafa um það mörg orð, að þær eru langt frá því að fullnægja þörfum fólksins, — mjög langt frá því. Hvað snertir Vestfirði hafa um margra ára skeið verið uppi kröfur um að fá sérstakt Vestfjarðaskip, og um það hafa verið fluttar till. hér á Alþingi hvað eftir annað. Síðast bar það mál á góma á fjórðungsþingi Vestfirðinga nú í haust, og þar var samþykkt ályktun með öllum atkv. á þeim fundi, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Vestfjarða skorar á alþm. Vestfjarða að vinna að því, að tryggðar verði vikulegar ferðir á sjó milli Vestfjarða og Reykjavíkur með sérstöku Vestfjarðaskipi, eða á annan hátt, ef hentugra þykir.“

Hæstv. ráðh. drap á það í þessu sambandi, að hér væri orðin mikil breyting á frá því, sem áður var, að flugvélar og bifreiðar hafa leyst af hólmi að einhverju leyti skipaferðir. Ég neita því ekki, að það er mikil bót að bifreiðaferðum og flugvélaferðum. En á hitt er að líta hvað Vestfirði snertir, og ég býst við, að það sé eitthvað svipað um Austfirði, að allt þetta hérað er innilokað allan veturinn, og verður, hvað sem liður vegabótum. Þetta hérað er ekki í neinu sambandi á landi við Suðurland, Reykjavík eða aðra hluta landsins vegna náttúruskilyrða, svo að þörfin fyrir strandferðirnar er engu minni en hún hefur verið áður hvað þetta snertir, á þessum tíma árs. Hvað snertir flugsamgöngurnar, þá hafa þær batnað víða á landinu, en þær hafa þó lítið batnað hjá Vestfirðingum, og þeir flytja ekki vörur með flugvélum, ekki einu sinni fólk nema að litlu leyti. Þetta er af þeirri einföldu ástæðu, að flugsamgöngur féllu niður þegar sjóflugvélarmar duttu úr sögunni, en eru nú að þokast af stað aftur vegna endurbóta á flugvöllum, þ.e.a.s. notaðar eru litlar flugvélar, sem flytja 4, 6 menn eða kannske eitthvað meira, en ekki stærri en það, að undanteknu flugi til Ísafjarðar. Þannig er ástandið. En þetta er að þokast í rétta átt, og hæstv. ríkisstj. hefur sýnt í verki vilja á því að halda því áfram að bæta þessar samgöngur. En þetta er aðeins til þess að fullnægja allra brýnustu þörfum manna, aðallega vegna sjúkraflugs og þess háttar. Flug og bifreiðaflutningar geta ekki leyst af hólmi strandferðir hvað Vestfirði snertir.