05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

114. mál, alúminíumbræðsla og olíuhreinsunarstöð

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram fsp. til hæstv. ríkisstj., sem hæstv. iðnmrh. líklega mun svara, og er hún í tvennu. lagi: ,;1) Hvaða samningaumleitanir hafa farið fram við Alþjóðabankann og erlend alúminíumfélög á vegum ríkisstj., um hvað hefur verið rætt viðvíkjandi raforkuveri og alúminíumbræðslu og lánum í því sambandi, og á hvaða stigi eru þessir samningar?“ Það er vitanlegt, að allmörg ár hefur verið af hálfu ýmissa íslenzkra aðila þreifað á því við erlend alúminíumfélög, ekki sízt við eitt af helztu alúminíumfélögum Bandaríkjanna, Reynolds, hvort þeir mundu hafa áhuga á að setja upp alúminíumbræðslu á Íslandi og gera samninga um raforku í því sambandi. Út úr þeim umleitunum mun ekkert hafa komið. Hins vegar hefur nú upp á síðkastið komið mjög greinilega fram, m.a. í skrifum hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsblaða, hve mjög mikil þörf væri á að koma hér upp alúminíumveri og tengja það við stórvirkjun í einhverri af okkar höfuðám. Það er að mínu áliti mjög nauðsynlegt, að áður en nokkrir samningar fari fram eða nokkuð sé gert í þessum málum, sem bindur hendur Íslands á nokkurn máta, fái Alþingi í fyrsta lagi upplýsingar um, hvernig þessir hlutir standa, og gefist síðar í öðru lagi tækifæri til þess að ræða um þessi mál og taka sínar ákvarðanir. Þess vegna er þessi fsp. borin fram, til þess að fá þær upplýsingar, sem hæstv. ríkisstj. á þessu stigi málsins vildi gefa eða teldi sér fært að gefa.

Í öðru lagi er spurt um, hvort það hafi farið fram athuganir eða jafnvel samningaumleitanir á byggingu olíuhreinsunarstöðvar hér, hvaða kosti slík stöð sé talin hafa, hvaða kostnaður sé talinn við hana og hvernig þær athuganir eða samningaumleitanir standa. Viðvíkjandi olíuhreinsunarstöð er mér ekki kunnugt um, að verulega hafi verið rætt um það áður fyrr, en nú upp á síðkastið hefur þetta mál nokkrum sinnum borið á góma í blöðum hæstv. ríkisstj. og jafnvel í greinum hæstv. ráðh., þannig að ég tel heppilegt, að Alþingi fái skýrslu um þetta mál nú. Ég skal fyrir fram ekkert fullyrða, enda er ég þeim málum ekki mikið kunnugur, hvort það mundi vera fyrirtæki, sem mundi borga sig fyrir okkur Íslendinga að setja upp, en ég býst við, að það hljóti að hafa verið vel athugað, og eins væri nauðsynlegt að fá upplýsingar um hitt, hvort gengið sé þá út frá, að þetta sé algerlega íslenzk eign eða hvort, eins og ég býst við að mundi vera með alúminíumbræðslu, að þar mundi vera um að ræða eign erlends félags hér á Íslandi. Ég held, að það sé tími til kominn, að Alþingi fái upplýsingar um þetta, og þá gefist síðar meir, ef ástæða þykir til, tækifæri til þess að ræða þau mál.