05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í D-deild Alþingistíðinda. (3313)

114. mál, alúminíumbræðsla og olíuhreinsunarstöð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur borið fram fsp. til ríkisstj. í tveim liðum á þskj. 200 varðandi alúminíumbræðslu og olíuhreinsunarstöð. Fyrri liður þeirrar fsp., sem nú er hér á dagskrá, fjallar um samningaumleitanir við Alþjóðabankann og erlend alúminíumfélög viðvíkjandi raforkuveri og alúminíumbræðslu hér á landi, og skal ég fyrst svara honum.

Eins og áður hefur komið fram hér á Alþingi, hefur ríkisstj. nú um nær þriggja ára skeið beitt sér fyrir athugunum og viðræðum varðandi byggingu stórvirkjunar og alúminíumbræðslu hér á landi. Athuganir þær, sem ríkisstj. hefur látið gera, falla í tvo meginflokka. Annars vegar eru tæknilegar athuganir á möguleikum til stórvirkjunar hér á landi og kostnað við hana og tæknileg atriði varðandi staðsetningu alúminíumbræðslu. Hins vegar eru athuganir á því, hvort unnt verði að semja við erlend alúminíumfyrirtæki um byggingu og rekstur alúminíumbræðslu hér á landi með kjörum, sem Íslendingum væru aðgengileg.

Fyrir hönd ríkisstj. og á hennar vegum hafa tveir aðilar unnið að athugun þessara mála, stóriðjunefnd, sem svo hefur verið kölluð, og raforkumálastjórn ríkisins. Stóriðjunefnd var skipuð af þáv. iðnmrh., Bjarna Benediktssyni, með bréfi dags. 5. maí 1961. Nm. hafa verið dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, formaður, Eiríkur Briem rafmagnsveitustjóri, Pétur Pétursson forstjóri, Sveinn Valfells forstjóri og Jóhann Hafstein, þar til í nóvember s. 1., að hann vék úr n., en Magnús Jónsson bankastjóri var þá skipaður í hans stað.

Unnið hefur verið að því kappsamlega að rannsaka til hlítar möguleika til byggingar hagkvæmrar stórvirkjunar, annaðhvort við Búrfell í Þjórsá eða Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum. Hafa þessar athuganir beinzt að því jöfnum höndum að kanna, hvernig bezt megi leysa úr raforkuþörf til almenningsnotkunar hér á landi á næstu árum og hvar og með hvaða hætti sé hagkvæmast að framleiða það orkumagn, sem alúminíumbræðsla þyrfti til starfsemi sinnar. Hafa þessar virkjanir verið bornar saman við smærri orkuver, svo sem gufuvirkjun í Hveragerði og vatnsvirkjun í Brúará, í því skyni að leiða í ljós, hvaða leiðir séu hagstæðastar frá sjónarmiði neytandans hér á landi. Þær athuganir, sem gerðar hafa verið til þessa, benda til þess, að 105 þús. kw. orkuver við Búrfell í Þjórsá muni vera hagkvæmasta lausnin, bæði frá sjónarmiði raforkuframleiðslu til almenningsnota og til alúminíumbræðslu. Mundi þá helmingur orkunnar verða notaður til alúminíumbræðslu, en helmingur til almenningsþarfa. Slik virkjun mundi kosta rúmar 1100 millj. kr. ásamt háspennulínu til Reykjavíkur. Síðar yrði hægt að auka afl þessarar virkjunar um helming eða upp í 210 þús. kw. á mjög hagkvæman hátt, og mundi kostnaður víð þá stækkun, sem gera mætti í áföngum, ekki vera nema um 600 millj. kr. Með þessu orkuveri væri tryggð næg ódýr raforka hér á landi langt fram í tímann. Orkuver við Búrfell er mjög vel staðsett, þar sem það er nærri meginmarkaðinum fyrir raforku hér á landi, í Reykjavík og á Suðvesturlandi. Jafnframt getur orðið hagkvæmt að leggja háspennulinu frá Búrfelli norður til Akureyrar og tengja þannig saman raforkukerfi Norður- og Suðurlands.

Um staðsetningu alúmíníumverksmiðju er það að segja, að athuganir hafa leitt í ljós, að ódýrast og hagkvæmast sé að staðsetja hana við sunnanverðan Faxaftóa. Hins vegar er einnig verið að athuga möguleika á því, að alúminíumbræðslan yrði staðsett við Eyjafjörð, ef háspennulína yrði lögð frá Búrfelli til Akureyrar. Stækkun verksmiðjunnar í framtíðinni mundi þá byggjast á raforku frá virkjun við Dettifoss.

Ég skal nú víkja að hinu atriðinu, viðræðum við erlend alúminíumfyrirtæki. Eins og kunnugt er, hafa á vegum ríkisstj. átt sér stað síðustu 3 árin viðræður við ýmis alúminíumfyrirtæki um möguleikana á því, að þau settu upp alúminíumbræðslu hér á landi. Hér hefur eingöngu verið um könnunarviðræður að reeða, þar sem skipzt hefur verið á skoðunum um hugsanlegan samningsgrundvöll, en engar skuldbindingar gefnar af hálfu aðila. Viðræður þessar hafa reynzt jákvæðar að því leyti, að nú virðist útlit fyrir, að tvö alúminíumfyrirtæki, annað svissneskt, en hitt amerískt, hafi áhuga á því að reisa hér í sameiningu alúminíumbræðslu. Virðist útlit fyrir, að samningsgrundvöllur geti orðið fyrir hendi, en úr því getur ekki fengizt skorið fyrr en á síðara stigi málsins. Í væntanlegum samningum við alúminíumfyrirtækin skiptir það höfuðmáli fyrir Íslendinga, að unnt reynist að semja um viðunandi tekjur af alúminíumbræðslunni Íslendingum til handa, en þar er raforkuverðið mikilvægast. í öðru lagi er nauðsynlegt, að hægt verði að gera bindandi samning við alúminíumfyrirtæki um það, að þau ábyrgist kaup á tilteknu magni raforku í langan tíma með föstum orkusölusamningi. Slíkur orkusölusamningur er ómetanlegur grundvöllur þess, að Íslendingar geti aflað fjármagns til virkjunarinnar, en um leið taka alúminíumfyrirtækin á sig alla áhættu að því er varðar framleiðslusveiflur í framtíðinni. Margvíslegar fyrirmyndir slíkra samninga má finna í öðrum löndum.

Með tilliti til hins jákvæða árangurs af virkjunarrannsóknunum og viðræðum við alúminíumfyrirtækin þótti ríkisstj. tímabært nú fyrir skömmu að taka upp viðræður við Alþjóðabankann í því skyni að kynna honum málið. Verða nú á næstu mánuðum lögð fyrir bankann öll tæknileg gögn, sem fyrir liggja, svo að hann geti metið málið í heild. Eins og af þessu má sjá, er hér enn eingöngu um könnunarviðræður að ræða, og munu raunverulegir samningar um lánsútvegun ekki hefjast fyrr en á síðara stigi málsins.

Ríkisstj. er eindregið þeirrar skoðunar, að stórvirkjun sú, sem hér hefur verið rædd, ásamt byggingu alúminíumbræðslu, sé framkvæmd, sem geti haft stórkostlega þýðingu fyrir þjóðarbúskap íslendinga. Með þessu móti mundi Íslendingum opnast í fyrsta skipti leið til þess að nýta hinar geysimiklu orkulindir, sem þjóðin á ónotaðar í stórám Íslands: Stórvirkjanir á borð við Búrfellsvirkjun og Dettifossvirkjun eru svo mikil fyrirtæki, að enn mun liða langur tími, þangað til Íslendingar geta ráðizt í þau af eigin rammleik, nema til komi samtímis nýr iðnaður, sem getur orðið kaupandi að miklum hluta orkunnar. Takist okkur hins vegar að komast yfir fyrsta hjallann, má telja víst, að framhaldið verði auðveldara, svo að ódýr orka til iðnaðar og almenningsnota geti orðið einn af hyrningarsteinum bættrar afkomu íslenzku þjóðarinnar.

Auk þeirrar þýðingar, sem alúminíumbræðslan mundi hafa fyrir þróun stórvirkjana hér á landi, mun rekstur hennar gefa þjóðarbúinu drjúgar tekjur í framtíðinni. Ef reiknað er með 30 þús. tonna verksmiðju, eins og gert hefur verið í viðræðum að undanförnu, mundi alúminíumbræðslan skapa 250—300 manns atvinnu, en auk þess er ástæða til þess að ætla, að frekari alúminíumiðnaður mundi vaxa hér upp á grundvelli þess hráefnis, sem frá alúminíumbræðslunni mundi koma.

Vilji Íslendingar nota pá möguleika, sem hér eru fyrir hendi, er ekki um aðrar leiðir að ræða en semja við erlent alúminíumfélag, sem býr yfir þeirri þekkingu, fjármagni og markaðsaðstöðu, sem nauðsynleg er í þessari framleiðslugrein. Um 30 þús. tonna alúminíumbræðsla mundi kosta um 1100 millj. ísl. kr., svo að það er augljóst, að í slíkt fyrirtæki mundu Íslendingar ekki geta lagt af eigin rammleik, jafnvel þótt þeir væru fúsir til að taka á sig þá áhættu, sem í því mundi felast. Sú leið, sem hér hefur verið rætt um að fara, felst hins vegar í því, að alúminíumfyrirtækin leggi fram allt fjármagn til alúminíumbræðslunnar og taki á sig alla áhættu af rekstri hennar. Hins vegar verða hagsmunir Íslendinga tryggðir eins vel og verða má með löngum samningi um orkusölu, er geti orðið undirstaða fjáröflunar til fyrstu stórvirkjunar á Íslandi.

Eins og hér hefur komið fram, hafa þær viðræður, sem átt hafa sér stað til þessa, eingöngu beinzt að því að kanna málin, hugsanlega aðstöðu og möguleika. Mjög mikið verk hefur hins vegar verið innt af höndum og margþættar athuganir farið fram, sem allt er mjög mikilsvert og forsenda þess, að stórmál, sem hér um ræðir og á áður ótroðnum slóðum af hálfu Íslendinga, geti orðið farsællega til lykta leitt. Þykir mér rétt, að fram komi, að dr. Jóhannes Nordal, formaður stóriðjunefndar, hefur haft mjög ötula forgöngu í málinu af miklum dugnaði og skarpskyggni.

Enn mun nokkur tími líða, áður en raunverulegar samningsviðræður geti hafizt. Þegar að því kemur, mun Alþingi að sjálfsögðu verða skýrt rækilega frá gangi málsins, svo að það geti tekið afstöðu til mála, eftir því sem framvinda samninganna gefur tilefni til, og í þess höndum yrði að sjálfsögðu að marka framtíðarstefnu Íslendinga í þessum stóriðju- og stórvirkjunarmálum.

Síðari liður fsp., sem hér liggur fyrir, fjallar um olíuhreinsunarstöð, og er spurt um, hvaða samningar muni hafa farið fram í því máli og hvaða kosti það sé talið hafa að byggja slíka stöð hér á landi.

Upphaf þessa máls er það, að ýmsir aðilar hafa undanfarin tvö ár gert sér grein fyrir því, að olíuhreinsunarstöð færi að verða arðbært fyrirtæki hér á landi. Kemur par tvennt til: annara vegar ört vaxandi notkun benzíns og olíu vegna aukinnar vélvæðingar, en hins vegar tækniþróun í olíuhreinsun, sem gert hefur minni hreinsunarstöðvar en áður arðbærar. Er nú svo komið, að olíuhreinsunarstöðvar hafa verið byggðar í öllum löndum Vestur-Evrópu nema á Íslandi og í Lúxembourg, og fjöldi smáþjóða utan Evrópu, sem ekki hafa atærri heimamarkað en Íslendingar, hefur pegar fengíð olíuhreinsunarstöðvar. Alvarlegar athuganir á þessu máli hér á landi hófust vorið 1963, er erlendur aðili lét í ljós áhuga á því að beita sér fyrir stofnun olíuhreinsunarstöðvar á Íslandi. Atti hann viðræður við hóp áhugamanna um petta mál, en ríkisstj. átti á því stigi ekki aðild að þeim viðræðum, sem fram fóru.

Þessar byrjunarviðræður hafa borið sæmilegan árangur, enda leiddu þær til þess, að í ágústmánuði kom hingað til lands fulltrúi frá amerískri fjárfestingarstofnun, J. H. Whitney & Co. í New York, er tjáði sig reiðubúinn til þess að hafa forgöngu um stofnun olíuhreinsunarstöðvar og útvegun fjármagns til hennar. Lagði þessi fulltrúi fyrirtækisins fram byrjunarupplýsingar um áætlaðan stofnkostnað og rekstur olíuhreinsunarstöðvar. Ríkisstj. fékk um þetta leyti málið til meðferðar, og hefur það m.a. verið til athugunar hjá stóriðjunefnd. Leitað var eftir sérfræðilegri aðstoð hjá ensku ráðgjafarfyrirtæki, Cooper Brothers, sem mikla reynslu hefur í þessum efnum, og hefur það skilað skýrslu um málið, sem byggð er á þeim bráðabirgðaupplýsingum, sem fyrir lágu.

Það sem ég hef hér um málið að segja, er byggt á þessum upplýsingum. Það kemur ótvírætt í ljós í skýrslu Cooper Brothers, að olíuhreinsunarstöð hér á landi getur orðið arðbært fyrirtæki. Markaðurinn fyrir olíuvörur hér á landi er hins vegar þannig saman settur, að ekki væri tæknilega hagkvæmt að byggja olíuhreinsunarstöð með Það fyrir augum að fullnægja honum einum. Hefur í áætlununum verið gert ráð fyrir því, að nokkur hluti framleiðslu olíuhreinsunarstöðvarinnar, einkum benzín og brennsluolía, yrði fluttur út, en á hinn bóginn yrði haldíð áfram að flytja inn verulegt magn gasolíu. Gert er ráð fyrir því, að heildarkostnaður við stofnsetningu olíuhreinsunarstöðvar yrði 300–350 millj. kr., og á að vera hægt að fá meginhluta þess fjár að láni erlendis með sæmilegum kjörum. Með í stofnkostnaði fyrirtækisins væru þá taldar allmiklar birgðageymslur fyrir olíuvörur, en það mundi spara íslenzku olíufélögunum mikla fjárfestingu, sem ella þarf að leggja í á því sviði á næstu árum.

Í skýrslu Cooper Brothers er gerð tilraun til þess að meta gjaldeyrissparnað, sem rekstur slíks fyrirtækis hefði í för með sér. Sé gert ráð fyrir því, að allur stofnkostnaður sé endurgreiddur á 10 árum, mundi beinn gjaldeyrissparnaður af rekstri stöðvarinnar nema um 75 millj. kr. fyrsta árið, 88 millj. kr. á 5. ári, 112 millj. kr. á 10. ári og 166 millj. kr. á ári eftir 15 ár. Olíuhreinsunarstöðin mundi þannig hafa í för með sér verulegan gjaldeyrissparnað, og þó sérstaklega ef reiknað er með því, hve lítinn mannafla þarf til starfsemi hennar. Gert er ráð fyrir, að heildarmannaflinn, sem reksturinn útheimtir, verði um 100 menn, en það þýðir, að gjaldeyrissparnaður á mann mundi nema frá 750 þús. kr. fyrsta árið, en mundi smáhækka upp í tæpa 1.7 millj. kr. á ári, ef miðað er við framangreindar tölur.

Auk beins hagnaðar og gjaldeyrissparnaðar, sem olíuhreinsunarstöð hefði í för með sér, er óhætt að fullyrða, að af henni yrði margvíslegur óbeinn hagnaður fyrir íslenzkan þjóðarbúskap, sem erfitt er að meta. Olíuhreinsunarstöð mundi framleiða ýmis hliðarefni, sem mikla þýðingu gætu haft, svo sem asfalt til vegagerðar og vatnsefni, sem gæti orðið mikilvægt í sambandi við stækkun áburðarverksmiðjunnar. Mikilvægasti óbeini hagnaðurinn af rekstri olíuhreinsunarstöðvarinnar er þó að flestra dómi sá, að með henni mundi koma inn í landið margvísleg tæknikunnátta á sviði efnaiðnaðar og ný tækifæri opnast á því sviði. Olía er nú orðin eitt helzta hráefni í margs konar efnaiðnaði, svo að fullyrða má, að olíuhreinsunarstöð og hliðstæð starfsemi er nauðsynleg forsenda fyrir því, að veruleg þróun geti átt sér stað hér á landi í uppbyggingu efnaiðnaðar. Hefur þessi reynsla komið víða fram, þar sem olíuhreinsunarstöðvar hafa verið byggðar. Hér er því á ferðinni mál, sem fyllsta ástæða er til að gefa gaum. Málið er hins vegar ekki komið á það stig, að tilefni hafi gefizt til ákvarðana í því af hálfu ríkisstj. Enn hafa eingöngu verið lagðar fram bráðabirgðaupplýsingar í málinu, en engar endanlegar áætlanir eða tilboð. Hitt er ekki heldur ljóst enn þá, að hve miklu leyti kemur til kasta ríkisstj. um ákvarðanir í málinu. Gert er ráð fyrir því, að í fyrirtækinu verði íslenzkur meiri hl., svo að stofnsetning þess gæti þess vegna farið eftir gildandi lögum. Jafnframt mun hinn erlendi aðili fús til að selja sinn hluta innan tiltölulega fárra ára, ef þá er sýnt, að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar um endurgreiðslu lána, og yrði félagið þá alíslenzkt. Hafa hinir íslenzku aðilar, sem forgöngu hafa haft um málið, rætt um, að félagið yrði byggt upp með almenningsþátttöku og hlutaféð yrði væntanlega nokkrir tugir millj. kr. Ríkið þyrfti ekki að taka á sig fjárskuldbindingar í sambandi við stofnun slíks fyrirtækis. Enn er athugunum ekki svo langt komið, að fullljóst sé, hvort einhverrar fyrirgreiðslu og þá hverrar sé þörf af hálfu ríkisvaldsins.

Með því, sem ég nú hef sagt, hef ég leitazt við að gefa tæmandi svör við þeim fsp., sem hv. 3. Þm. Reykv. beindi til ríkisstj. á þskj. 200.