05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

114. mál, alúminíumbræðsla og olíuhreinsunarstöð

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnmrh. fyrir mjög skýr og góð svör viðvíkjandi þessum tveimur málum, og er greinilegt, að slíkt stórmál er hér á ferðinni, að Alþingi þarf að láta það til sín taka, og mun ég náttúrlega ekki gera neina tilraun til að fara að ræða það mál hér. Það eru aðeins 2–3 atriði, sem ég vildi mega spyrja að í viðbót, þótt skýrslan hafi verið mjög greinileg, ef það væru ekki nein leyndarmál.

Það eru í fyrsta lagi þau tvö félög, svissneskt og amerískt, sem hugsanlegt væri að semja við viðvíkjandi alúminíumvinnslu. Ég hef heyrt, að það svissneska félag væri Aluminium Industri í Sviss, sem líka hefur staðið í nokkrum samningum við Norðmenn, og þætti mér vænt um, ef það er ekki neitt leyndarmál, að fá að vita, hvort það væri rétt. í öðru lagi viðvíkjandi því ameríska félagi langaði mig að vita, hvort um væri að ræða eitt af bandarísku félögunum. Það mundi varla vera um önnur að ræða þá en Reynolds eða Kaiser, því að sá stóri alúminíumhringur Bandaríkjanna, Aluminium Company of America, hefur fyrst og fremst Kanada-alúminíumfélagið sem sinn fulltrúa við erlenda samninga. í öðru lagi þætti mér vænt um að vita, hvort það liggja nú þegar fyrir nokkrar upplýsingar, af því að hæstv. ráðh. sagði, að gert væri ráð fyrir 30 þús. tonnum af alúminíum í upphafi og til þess þarf ein 60 þús. kw., hvort nú þegar lægju einhverjar upplýsingar fyrir um, hvað þessi alúminíumhringur mundi áskilja sér mikla stækkun, þar sem vitað er, að 30 þús. tonna bræðsla mundi þykja frekar lítil á evrópskan mælikvarða núna og almennt talað um milli 50 og 100 þús. tonna, þegar verið er að gera ráð fyrir slíku, enda skilst mér, að þetta mundi þá aðeins eiga að vera byrjun eftir upplýsingum hæstv. ráðh.

Í sambandi við olíuhreinsunarstöðina væri það líka tvennt. Hefur ríkisstj. athugað það í sambandi við olíuhreinsunarstöð eða einstakir aðilar, hvaða áhrif það kynni að hafa í sambandi við okkar viðskipti, þar sem mjög mikið af okkar freðfisksmarkaði byggist sem stendur á hví, að við kaupum svo að segja alla okkar olíu frá Sovétríkjunum, og gæti haft slæmar afleiðingar fyrir okkur upp á að finna vörur í staðinn, ef því væri kippt burt? Hitt vil ég undirstrika, sem hæstv. ráðh. kom með hvað snertir olíuvinnslu, og held ég, að það væri mál, sem við þyrftum mjög alvarlega að athuga, áður en við tækjum nokkra ákvörðun viðvíkjandi alúminíum, að það hráefni, sem að mínu áliti er langþægilegast fyrir Íslendinga að hagnýta, ef þeir vilja koma upp stóriðju með erlendu hráefni, er olían.

Sá efnaiðnaður, sem byggist á því að kljúfa olíuna og hætta að nota hana til brennslu, heldur nota hana sem hráefni til þess að vinna úr plast og nælon og aðra hluti, sem geta komið í staðinn fyrir stál eða hvað sem vera skal, þetta er sá iðnaður, sem nú sem stendur á langmesta framtíð fyrir sér, og sá, sem eykst gífurlegast í heiminum, svo að hvorki stál né alúminíum né neitt annað slíkt kemst í samjöfnuð við hað. En um öll þessi mál held ég, að það gildi, að þetta séu hlutir, sem við þurfum ákaflega vel að athuga og ræða, og þess vegna er mjög gott að hafa fengið þessar ýtarlegu upplýsingar hjá hæstv. ráðh. til þess að byggja á.