05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í D-deild Alþingistíðinda. (3316)

114. mál, alúminíumbræðsla og olíuhreinsunarstöð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil út af því, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Austf., segja, að það hefur aldrei verið í huga ríkisstj. á nokkurn hátt að fara á bak við Alþingi eða hluta af Alþingi með þessi mál, heldur er ég honum alveg sammála um, að það væri mikið gæfuspor í sambandi við framkvæmd slíkra stórmála, að sem mest samstaða gæti náðst á Alþingi um framkvæmd þeirra, þegar þar að kemur. Fram að þessu hefur ríkisstj. ekki talið, að málin væru af hennar hálfu nægjanlega undirbúin og úr garði gerð til þess að leggja þau beinlínis fyrir Alþingi, og það er því meira hending, sem ræður því að við ræðum þessi mál nú af tilefni fsp. hv. 3. þín. Reykv. En hins vegar hygg ég, að það sé ekki mjög langt í land, eða a.m.k. vona það, að málin verði á því stigi, að hægt sé að gefa þinginu í heild og öllum flokkum þingsins miklu nánari og fullkomnari upplýsingar um þessi mál heldur en verið hefur fram að þessu. En það er mín skoðun, að ég hygg, að ekkert hafi verið gert í þessu máli fram til þessa, sem hefði á nokkurn hátt verið betur farið, að ekki hafi verið gert, vegna þess, eins og ég lagði ríka áherzlu á, að fram til þessa hafa engar skuldbindingar verið gerðar af hálfu hvorugs aðila, heldur aðeins verið lögð rík áherzla á að kanna málin sem bezt, og það er, held ég, einnig farsælast fyrir meðferð málsins á þinginu, þegar þar að kemur, og það er engin ástæða til þess að bera nokkurn kvíðboga fyrir því, að málin verði þá fyrst lögð fyrir Alþingi, þegar ríkisstj. væri búin að ákveða sig í málinu. Hennar markmið er það fyrst og fremst að geta lagt málin fyrir þannig upplýst og þannig könnuð, að þá sé tími til þess og aðstaða til þess fyrir menn að taka ákvarðanir. En það er ómögulegt að neita því að nokkuð hafa þessi mál gengið fram og aftur á þessum undanförnum 3 árum, sem ég hef talað um. Það hefur verið rætt við alúminíumfyrirtæki, bæði svissnesk, amerísk og frönsk, og leitað sérfræðilegrar ráðleggingar frá frændum okkar Norðmönnum í sambandi bæði við alúminíumframleiðslu og virkjanirnar og einnig könnuð nokkuð þeirra reynsla af samvinnu við erlent fjármagn í uppbyggingu þeirra atvinnuvega. En sem sagt, ég tek alveg undir það, að það er mjög æskilegt, að sem bezt samstaða og samvinna geti orðið um þessi mál, þegar til framkvæmda kemur.

Varðandi olíuhreinsunarstöðina og þá áherzlu, sem hv. 1. þm. lagði á það, að hún yrði alíslenzk, vegna neyzlunnar og hagsmuna neytenda hér innanlands, skal ég taka það fram og bæta því við það, sem ég sagði áður, að í sambandi við þær viðræður, sem fram hafa farið við erlenda aðila um það að koma upp þessari olíuhreinsunarstöð, bæði aðstoð þeirra við fjáröflun og tækniþekkingu, þá hefur einnig komið fram, að þeir væru fúsir til þess innan mjög skamms tíma að ganga út úr fyrirtækinu aftur, sem þeir væru frá upphafi alltaf í minni hl, f, og hefur þar t.d. verið talað um ekki lengri tíma en svo sem 7 ár, svo að ég held einnig hvað þessu máli viðvíkur, að það þurfi ekki að bera í brjósti neinn kvíðboga fyrir samstarfi við erlenda aðila og á engan hátt þannig, að ekki muni vera séð af hálfu ríkisvaldsins, sem er alveg réttilegt, nægjanlega fyrir hagsmunum neytendanna í sambandi við aðstöðu til að setja upp slíkt fyrirtæki hér á landi.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði, hvort það væri nokkurt leyndarmál, þessi tvö alúminíumfyrirtæki, sem ég nefndi, og gat þess til, að annað þeirra væri AG, svissneska alúminíumfyrirtækið, sem ég nefndi. Og það er alveg rétt, það fyrirtæki hefur nú breytt um nafn og kallar sig nú Swiss Aluminíum. Hitt fyrirtækið er amerískt, American Metal Climax, og það er í sjálfu sér engin leynd yfir því heldur. Það eru þessi tvö fyrirtæki, sem við nú á síðasta stigi þessa máls höfum verið í viðræðum við.

Um annað atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. spurðist fyrir um, varðandi stækkun verksmiðjunnar og hvað hinir erlendu aðilar hefðu áskilið sér í því sambandi, liggur ekki neitt ákveðið fyrir um það á þessu stigi málsins annað en þeir hafa ráðgert og í öllum viðræðum hefur það verið ráðgert, að fyrirtækið mundi stækka og þessi 30 þús. tonna alúminíumbræðsla væri byrjunarstigið. En hins vegar er ekki svo langt komið, að talað hafi verið um neinar skuldbindingar í sambandi við stækkanir verksmiðjunnar í framtíðinni.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist einnig á eitt atriði, áhrifin á viðskiptin við Sovétríkin í sambandi við olíuhreinsunarstöð, því að þaðan höfum við keypt alla okkar olíu. Að sjálfsögðu hefur ríkisstj. fyrir sitt leyti og mun hugleiða það mál sérstaklega. Það er ekki enn komið svo langt, að fyrir liggi neitt ákveðið í því sambandi. Hins vegar dylst engum, að það er atriði, sem þarf að taka til athugunar. Það var að vísu ekkert á þetta minnzt, þegar við byggðum hér sementsverksmiðju, en innflutningurinn á sementi til landsins, þegar verksmiðjan tók til starfa, var um 76 þús. tonn flutt frá jafnkeypislöndunum. En hitt er líka, að það er minna atriði og um minni upphæðir að ræða, og að sjálfsögðu fer það ekki dult, að þetta mál þarf að athugast í sambandi við olíuhreinsunarstöðina, og sé hún byggð af íslenzkum einstaklingum, hvort heldur sem er einum eða í samvinnu við erlenda aðila, er það einmitt íslenzkra stjórnarvalda að hafa þessi atriði í huga — við komumst ekki hjá því — og gæta okkar aðstöðu í því. Ég vona hins vegar, að það verði ekki á vegi hagkvæms fyrirtækis fyrir svona litla þjóð eins og Íslendinga, vona, að það komi ekki til þess, að þar verði á vegi miklir erfiðleikar á þessu sviði í sambandi við hina stóru bjóð, Sovétríkin. Í öðru lagi vitum við bað, að eins og straumarnir liggja nú í milliríkjaviðskiptum, eru í sívaxandi mæli að aukast viðskipti og aukast frjáls viðskipti milli hins austræna og vestræna heims, og ef sú þróun heldur áfram, þá mundi hún að sjálfsögðu draga úr erfiðleikum, sem við jafnvel kynnum að mæta af þessum völdum í sambandi við fyrirtæki eins og olíuhreinsunarstöð.

Ég vil aðeins að lokum til frekari fróðleiks og upplýsinga geta þess, að þegar við erum að tala um orkuver við Búrfell eða Dettifoss, erum við að tala um stórvirkjanir, sem eru á 2. hundrað þús. kw. eða rúml. 100 þús, kw., en núna er öll okkar orka frá Soginu, sem er, ef svo má segja, alveg fullvirkjað, tæp 90 þús. kw., svo að það sést, að hér er um mikið átak í einu að ræða af hálfu okkar Íslendinga. Því að þessar aflstöðvar höfum við byggt upp á mörgum undanförnum árum, og jafnframt, eins og ég sagði, verið gert ráð fyrir því, að innan tíðar og á mjög hagkvæman hátt verði hægt að tvöfalda orkuna í slíkri stórvirkjun, eins og hér hefur verið um talað. Það væri kannske einnig nokkur upplýsing í því í sambandi við bað, sem ég gat um gjaldeyrissparnað, í sambandi við olíuhreinsunarstöðina var það víst, að þær tvær stórverksmiðjur, sem við eigum nú fyrir, áburðarverksmiðjan og sementsverksmiðjan, ef við athugum þær til samanburðar, þetta var frá 75 og allt upp í 166 millj. kr. gjaldeyrissparnaður, sem áætlaður var af olíuhreinsunarstöðinni, en það hefur verið gert ráð fyrir því, að gjaldeyrissparnaður af áburðarverksmiðjunni sé nú árlega um 42–43 millj. kr., og ef ætti að byggja nýja slíka verksmiðju, er áætlað, að hún mundi kosta eitthvað á 5. hundrað millj. kr., ný verksmiðja eins og þessi, sem við höfum. Af sementsverksmiðjunni er gjaldeyrissparnaðurinn árlega áætlaður vera nálægt 70 millj. kr. og talið, að ef við ættum að byggja nýja sementsverksmiðju nú eins og þessa, sem við höfum, mundi hún kosta um 350 millj. kr.

Ég hef svo ekki fleira um þetta að segja, en ég lýk máli mínu með því, að ríkisstj. mun að sjálfsögðu gera sitt ýtrasta til þess, að Alþingi fái, þegar tímabært er, sem fyllstar upplýsingar um þetta mál, eins og fram hefur komið og óskað hefur verið eftir.