05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í D-deild Alþingistíðinda. (3319)

114. mál, alúminíumbræðsla og olíuhreinsunarstöð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við áburðarvinnslu og hagnýtingu raforku til áburðarvinnslu. Ég vildi aðeins upplýsa það, að það er í athugun stækkun á áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, og stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur látið slíkar athuganir fara fram, unnið að því núna á undanförnum árum og hefur nú 2 eða jafnvel 3 sérfræðinga til þess að semja ályktun um það, hvernig verði bezt að því unnið, að við Íslendingar getum orðið sjálfum okkur nógir með tilbúinn áburð. Og ég ætla, að það þyki hagkvæmast að stækka áburðarverksmiðjuna í Gufunesi og þá muni nýtast bezt það, sem þar er saman komið, frekar en að byggja áburðarverksmiðju annars staðar á landinu. En ég skildi hv. fyrirspyrjanda þannig áðan, að það hefði vakað fyrir honum, hvort athugað hefði verið, að nýta mætti orkuna við Dettifoss til áburðarvinnslu. Ég hygg, að í sambandi við væntanlega Dettifossvirkjun hafi það ekki verið gert með tilliti til þess að nota aflið úr Dettifossi. Hins vegar liggur það fyrir, að um leið og orka fæst til áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, er fyrir því hugsað, að stækkun áburðarverksmiðjunnar þar gæti farið fram a.m.k. í það stórum stíl, að áburðarnotkun innanlands gæti orðið fullnægt.