12.02.1964
Sameinað þing: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í D-deild Alþingistíðinda. (3324)

134. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi spyr um það í fyrsta lagi, hvort gerðar hafi verið athuganir og áætlanir um kostnað íslenzks sjónvarps, stofnkostnað og rekstrarkostnað, og í öðru lagi, hvort það sé tæknilega mögulegt og fjárhagslega kleift, að íslenzkt sjónvarp geti á skömmum tíma náð til allra landshluta.

Á undanförnum árum hafa ýmsar athuganir verið á því gerðar, hvað það mundi kosta að koma á fót sjónvarpi á Íslandi. Hefur annars vegar verið athugað, hver væri lágmarkskostnaður við að koma á fót sjónvarpsstöð, er einvörðungu annaðist nokkurs konar tilraunasjónvarp, sem tæki aðeins til Reykjavíkur og næsta nágrennis, en hins vegar, hvað það mundi kosta, ef því væri ætlað að ná til fleiri landsmanna og landsins alls. Hefur m.a. verið ráðgazt um þessi atriði við erlenda sérfræðinga, og ber þar sérstaklega að nefna yfirverkfræðing Evrópusambands útvarpsstöðva og sjónvarpsstöðva, Belgíumanninn G. Hansen, sem var hér sumarið 1961. Auk áætlana, sem gerðar hafa verið um stofnkostnað sjónvarpsstöðvar í Reykjavík og endurvarpsstöðva víðs vegar um landið, hafa verið gerðar lauslegar áætlanir um kostnað við gerð sjónvarpsdagskrár og þá venjulega miðað við 2—3 stunda sjónvarpstíma á dag. Enn fremur hafa verið gerðar lauslegar áætlanir um væntanlega fjölgun sjónvarpsnotenda, ef til íslenzks sjónvarps kæmi, til þess að unnt sé að gera sér grein fyrir fjárhagsgrundvelli slíks rekstrar.

Allar þær áætlanir, sem hingað til hafa verið gerðar, eru þó svo lauslegar og svo mörg atriði óviss í þessu sambandi, að ég hef ekki talið þær nægilega öruggan grundvöll undir tillögugerð um framkvæmdir í þessum efnum. Þess vegna fól menntmrn. með bréfi, dags. 22. nóv. s.1., útvarpsráði og útvarpsstjóra að gera nákvæmar og sundurliðaðar áætlanir um stofnkostnað og rekstrarkostnað íslenzks sjónvarps. Hafa þessir aðilar undanfarna mánuði unnið að þessum málum með miklum dugnaði, verkefnið er hins vegar vandasamt og flókið, og er starfinu ekki lokið enn. Ég geri mér þó vonir um, að endanlegar niðurstöður liggi fyrir, áður en langt um liður. Mun ríkisstj. þá taka þær til vandlegrar íhugunar og mynda sér skoðun um, fyrir hvaða ráðstöfunum hún vill beita sér í þessum efnum. En ríkisstj. hefur enn að sjálfsögðu ekki tekið neinar ákvarðanir í þessu máli, þar eð þær hljóta að byggjast á niðurstöðum þeirrar rannsóknar, sem nú fer fram í ríkisútvarpinu með aðstoð sérfræðinga landssímans og annarra sérfróðra aðila. Ég skal þó gera grein fyrir lauslegum bráðabirgðaniðurstöðum um kostnað við stofnun sjónvarpsstöðvar í Reykjavík, er nægt gæti borginni og Suðurnesjum, og síðan lauslega áætlun um kostnað við dreifingu sjónvarpsefnis um landið allt. Ég verð þó að taka fram, að hér er um frumáætlanir að ræða og geta þær átt eftir að breytast við endanlega meðferð málsins.

Talið er, að 500 watta sendistöð, sem nægja mundi Reykjavíkurborg og Suðurnesjum, kosti um 3 millj. kr. Nauðsynlegar byggingar mundu kosta um 2 millj. kr. og nauðsynlegur stúdíóbúnaður um 5 millj. kr. Stofnkostnaður sjónvarpsstöðvar, sem nægja mundi Reykjavíkurborg og Suðurnesjum, mundi því verða um 10 millj. kr. Ætti sjónvarpið að taka til Miðvesturlands og Suðurlands, mundu nauðsynlegar endurvarpsstöðvar og stöðvarhús kosta um 24 millj. kr. til viðbótar. Endurvarpsstöðvar og byggingar fyrir Vestfirði mundu kosta aðrar 24 millj. kr. Endurvarpsstöðvar og byggingar fyrir Norðurland mundu kosta um 31 millj. kr., en endurvarpsstöðvar og stöðvarhús fyrir Austfirði og Suðausturland mundu kosta um 48 millj. kr. Mælingar og undirbúningsvinna er talin munu kosta um 3 millj, kr. Heildarstofnkostnaður vegna dreifingar sjónvarpsefnis um allt Ísland mundi því nema samtals um 140 millj. kr. Eru tollar af tækjum taldir í þessari tölu, en þeir munu nema um 50 millj. kr.

Frá tæknilegu sjónarmiði gæti sjónvarpsstöð, sem tæki til Reykjavikur og Suðurnesja verið komin upp í ársbyrjun 1966, en byggingu endurvarpsstöðva og nauðsynlegra stöðvarhúsa fyrir landið allt gæti verið lokið sumarið 1970, ef afráðið væri að verja til þessa nauðsynlegum fjármunum. Ég geri hins vegar ráð fyrir, að margir muni telja, að hér sé um meiri fjárfestingu að ræða en svo, að talið verði unnt að efna til hennar allrar á næstu 5—6 árum. Ég fyrir mitt leyti er hins vegar þeirrar skoðunar, að ekki megi dragast lengur að taka ákvörðun um, að efnt skuli til íslenzks sjónvarps. Ég tel jafnframt sjálfsagt, að stefnt verði að því, að sjónvarpið nái smám saman til allra landsmanna. Spurningin er um það, hversu örar framkvæmdirnar eiga að vera, þ.e. hversu langan tíma það á að taka að koma upp dreifingarkerfi fyrir allt landið. Verður að meta það með hliðsjón af öðrum verkefnum, sem á döfinni eru og einnig eru nauðsynleg. Á þessu stigi treysti ég mér ekki til að mynda mér rökstudda skoðun á þessu atriði. Það verður ekki hægt, fyrr en fullnaðaráætlanir um stofnkostnað liggja fyrir. Þá verður að vega og meta niðurstöður þeirra sem hugsanlegan lið í heildarframkvæmdum þjóðarinnar á næstu árum. Hins vegar tel ég nú þegar orðið ljóst, að stofnkostnaður sjónvarpsstöðvar, er tæki til Reykjavíkur og Suðurnesja og jafnvel Miðvesturlands og Suðurlands, er ekki meiri en svo, að sá kostnaður ætti að teljast vei viðráðanlegur og því ekki ástæða til að fresta ákvörðun um beinar framkvæmdir af þeim sökum.

Áætlanir allar um rekstrarkostnað sjónvarps hljóta að sjálfsögðu að vera miklum mun óvissari, þar eð þær eru ekki einungis háðar því, við hversu langan sjónvarpstíma er miðað, heldur ekki síður hinu, hvers konar sjónvarpsefni gert er ráð fyrir. Miðað við 2—3 stunda sjónvarpstíma á dag mun þó varla vera hægt að gera ráð fyrir lægri rekstrarkostnaði en 10 millj. kr. á ári í byrjun. Er og eflaust ekki óvarlegt að gera ráð fyrir, að hann tvöfaldist á ekki löngu árabili með vaxandi kröfum til sjónvarpsefnis og lengingu sjónvarpstímans. Tekna væri sjálfsagt að afla sumpart með afnotagjöldum og sumpart með auglýsingum og tilkynningum, líkt og ríkisútvarpið gerir nú. Yrði þó án efa að gera ráð fyrir verulegum rekstrarhalla fyrstu árin. Slíkt átti sér einnig stað um ríkisútvarpið á sínum tíma. Sá halli var sumpart jafnaður með aðflutningsgjöldum af útvarpstækjum. Til greina kæmi, að aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum gengju að einhverju leyti til greiðslu á rekstrarhalla sjónvarpsins fyrstu árin auk stofnkostnaðar. Einnig væri hugsanlegt, að ríkisútvarpið léti hluta af tekjum sínum ganga til greiðslu á rekstrarhalla sjónvarpsins, meðan það ætti við byrjunarörðugleika að etja. Fleiri leiðir kæmu og til greina, þótt ekki sé ástæða til að ræða þær nánar að svo vöxnu mál.

Þá er í þriðja lagi spurt, hvort ríkisstj. telji eðlilegt, eins og segir í fsp., að leyfður verði í landinu rekstur erlends hermannasjónvarps, eftir að starfsemi íslenzks sjónvarps yrði hafin. Spurningin um það. hvort það hafi verið rétt á sínum tíma, fyrir rúmum áratug, að leyfa bandaríska varnarliðinu starfrækslu sjónvarpsstöðvar, er í sjálfu sér alveg óviðkomandi spurningunni um það, hvort Íslendingar eigi eða hafi bolmagn til að koma á fót íslenzku sjónvarpi. Sjónvarp Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli var og er ætlað þeim Bandaríkjamönnum, sem hér dveljast, þótt margir Íslendingar horfi einnig nú á það sjónvarp, eftir að sjónvarpsstöðin var stækkuð. Hins vegar er íslenzka sjónvarpið auðvitað ætlað íslenzkum sjónvarpsnotendum og þeim einum. Hafi það verið eðlilegt fyrir rúmum áratug að leyfa varnarliðinu rekstur sjónvarpsstöðvar fyrir þá Bandaríkjamenn, sem hér dveljast, virðist það, að íslenzka ríkið efni til sjónvarps fyrir Íslendinga; varla geta skoðazt rök fyrir því að svipta varnarliðið þeirri heimild, sem það hefur haft í meira en áratug til þess að veita bandarískum mönnum, sem hér dveljast, kost á að sjá og heyra bandarískt sjónvarp.