12.02.1964
Sameinað þing: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í D-deild Alþingistíðinda. (3325)

134. mál, sjónvarpsmál

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv: menntmrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur hér gefið, og ég lít þannig á, að eftir atvikum hafi ekki verið við því að búast á þessu stigi málsins, að sú skýrsla væri ýtarlegri en nú er fram komið, þar eð vitað er, að þessi mál eru enn á rannsóknar og athugunarstigi. Það er hins vegar svo, að marga fýsir að vita sem allra fyrst, hvaða grundvöllur kann að vera undir rekstri íslenzks sjónvarps, og einnig býst ég við, að ýmsa hafi fýst að vita, hver vera muni afstaða íslenzkra ráðamanna til þeirrar spurningar, sem þá kæmi upp og ég hreyfði í þriðja lið þessara spurninga,— afstaðan til þess að hafa hér í landi samtímís íslenzkt sjónvarp og erlent hermannasjónvarp, það sjónvarp, sem nú er. Ég er sannfærður um, að það mun margur skoða hug sinn um það og athuga sína afstöðu út frá því sjónarmiði, hvort hér er ætlunin að hafa tvenns konar sjónvarp, annað íslenzkt tilraunasjónvarp fyrst um sina með stuttum starfstíma hvern dag og svo hins vegar það erlenda sjónvarp, sem nú er þegar komið. Hæstv. ráðh. lýsti þeirri skoðun sinni, að þetta væru tvö óskyld mál, og það var ekki annað á honum að skilja en hann teldi það algerlega eðlilegt, að leyfið fyrir hinu erlenda hermannasjónvarpi yrði látið standa eftir sem áður, jafnt þó að íslenzkt sjónvarp væri komið upp. En við það er þetta að athuga m.a., að eftir að íslenzkt sjónvarp hefði hafið starfsemi sína og sjónvarpstæki væru á tiltölulega skömmum tíma vafalaust komin á meira en annað hvert heimili í landinu, fer það að skipta afar miklu máli, hvort íslenzka sjónvarpið er eitt á ferð eða ekki.

Hvað sem um sjónvarp almennt má segja, bæði gott og illt, mun enginn neita því, að sjónvarp er ákaflega öflugt og áhrifamikið tæki og það hlýtur að eiga sinn stóra þátt í því að móta þær kynslóðir, sem búa við það, jafnvel allt frá fyrstu bernsku. Og vilji menn ekki beinlínis og með ráðnum hug ameríkanísera íslenzku þjóðina, þá held ég, að það væri ráð að loka fyrir hermannasjónvarpið í Keflavík ekki síðar en þann dag, þegar íslenzkt sjónvarp tæki til starfa. í þessu sambandi dettur mér í hug saga, sem ég heyrði nýlega. Ég sel hana ekki dýrar en ég keypti hana. Hún var af ungri íslenzkri fjölskyldu, sem stundar fast Keflavíkursjónvarpið. Frúin sagði frá því býsna hreykin, hvað barnið í vöggunni væri orðið sólgið í það að horfa á sjónvarpið og njóta þess, sem þar fer fram. Og nú væri hið efnilega barn byrjað að tala og eitt hið fyrsta skiljanlega, sem það sagði, var að biðja um „milk“ í pelann.

Nei, ég held, að menn ættu að hugsa sig nokkuð vel um, áður en þeir sætta sig við það, að íslenzkt sjónvarp á byrjunarstigi a.m.k. yrði eins og einhver lítilfjörleg viðbót við Keflavíkursjónvarpið. Ég býst við, að ýmsir mundu þá segja: Annaðhvort ekkert sjónvarp eða íslenzkt sjónvarp eingöngu.