12.02.1964
Sameinað þing: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í D-deild Alþingistíðinda. (3327)

134. mál, sjónvarpsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi segja það aðeins að þessu tilefni fyrir mitt leyti um sjónvarp, að það gleður mig að heyra það á þeim tölum eða þeim upplýsingum, sem hér hafa verið nefndar, að það sýnist ekki vera neitt sérstaklega fjárhagslega örðugt að koma sjónvarpinu um allt landið, því að það tel ég ekki fjárhagslega örðugleika, þó að það ætti að kosta 140 millj. og þar af væru 50 millj. tollar til ríkissjóðs. Ég held ég hafi tekið rétt eftir þessum tölum. Þetta gleður mig mjög, og mér finnst þess vegna, að það ætti að leggja mikla áherzlu á, að þegar sjónvarpið kemur, komi það sem allra víðast og þá eins fljótt og mögulegt er. Það ætti að breiða það út um landið með sem allra mestum hraða, og mér skilst á þessu, að það sé ákaflega vel viðráðanlegt fjárhagslega. Annars hef ég persónulega verið fylgjandi sjónvarpi og er það enn og álít, að það ætti að hraða því sem mest, að íslenzkt sjónvarp geti komið, og líka, að það geti þá orðið sameign allra landsmanna. Og ég er sérstaklega ánægður yfir því að heyra, að það virðist ekki vera fjárhagslega neitt í vegi þess.