19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í D-deild Alþingistíðinda. (3336)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það má segja, að það hafi orðið bylting í atvinnulífi Íslendinga, þegar síldveiðar hófust hér við Norðurland kringum aldamótin og upp úr þeim, og það voru, eins og vitað er, Norðmenn, sem hófu þær og kenndu Íslendingum þær, og Íslendingar fetuðu síðan í fótspor þeirra og byrjuðu sjálfir að veiða.

Fyrst í stað voru það útlendingar, aðallega Norðmenn, sem áttu síldarsöltunarstöðvar á Norðurlandi og þá fyrst og fremst á Siglufirði og gerðu síldina að markaðshæfri vöru. Það er eftirtektarvert, að núna, 60 árum seinna, er svo að segja öll síld, sem veidd er við Íslandsstrendur og seld er úr landi, flutt út í nákvæmlega sömu umbúðum og var gert 1904 og á árunum þar á eftir, illa þrifnum síldartunnum. Þannig voru umbúðirnar laust eftir aldamótin, og þannig eru þær í dag.

Fjöldamargir Íslendingar hafa skrifað um nauðsyn þess að betrumbæta þetta ástand, og þeir hafa fullyrt það með sanni, að þetta væri eins og hjá nýlendunum, að hráefnið væri flutt út og svo væru það auðugri þjóðirnar, sem gerðu það að enn þá dýrmætari vöru. Þetta hefur alveg sannazt á okkur Íslendingum s.l. hálfa öld. Það var mikið ritað og rætt um það að stofna og starfrækja niðurlagningarverksmiðjur á Íslandi og nokkrir einstaklingar hafa riðið á vaðið og gengið misjafnlega. Það varð almenn gleði allra þeirra, sem eitthvað vilja hugsa um þessi mál, þegar núv. hæstv. ríkisstj. ákvað að hefja rekstur niðursuðuverksmiðju á Siglufirði í tilraunaskyni, og auðvitað varð fögnuðurinn alveg sérstaklega hjá fólki á Siglufirði, eða þeim stað, þar sem verksmiðjuna átti að reisa. En við skulum rifja hér aðeins upp að gefnu tilefni sögu þessarar verksmiðju.

Ríkisstj. ákveður og heimilar stjórn síldarverksmiðja ríkisins að hefja rekstur niðurlagningarverksmiðjunnar, hún skal sjá um framkvæmdir og húsakost. En hæstv. ríkisstj. segir ekki einu orði við verksmiðjustjórn, hvaða fé hún megi nota til þessa. Þess vegna kom það fram strax hjá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, að niðurlagningarverksmiðjan og síldarverksmiðjur ríkisins eru ekki sama fyrirtæki, og það mun að sjálfsögðu alveg réttur skilningur. Það kom fram hjá stjórnarmeðlimum verksmiðjanna, að þeir hefðu tæpast heimild til að ráðstafa nokkru verulegu fé til niðurlagningarverksmiðjunnar. Samt sem áður lagði stjórn síldarverksmiðja ríkisins fram allmikið fé, og á tímabili, held ég, að hún hafi átt 3—4 millj. hjá niðurlagningarverksmiðjunni. En það var þetta andrúmsloft, sem ég tel að hafi verið í fyrstu fjötur um fót þessa fyrirtækis. Fyrirtækin voru tvö, stjórnin var ein, annað fyrirtækið átti engan pening. Það má líkja þessari verksmiðju við lítið barn, sem er verið að koma í fóstur, og þeir, sem komu því fyrir, létu engan framfærslueyri fylgja. Síðan var hafizt handa í verksmiðjunni og framleidd ein sú bezta vara á þessu sviði, eftir því sem kunnugir menn segja. Það er selt þó nokkuð mikið innanlands, og landsmenn taka þessu vel, en erlendis selst ekki neitt, eða eins og hæstv. sjútvmrh. sagði fyrir tæpar 100 þús. kr. Þetta er sama og ekki neitt. Og það er sagt hér, að það var leitað markaða í Ameríku, það var leitað markaða í Englandi, það var leitað markaða í Þýzkalandi og á Norðurlöndum. En ég vil leyfa mér að segja, að eftir því sem ég bezt veit, hefur þessi markaðsleit verið kák. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. taki þetta mál föstum tökum. Ef hún er þeirrar skoðunar, en sú skoðun er fyllilega frambærileg, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins eigi að fara með stjórn verksmiðjunnar, þá lit ég svo á, að það þurfi að sameina Þessar verksmiðjur og niðurlagningarverksmiðjan eigi að vera eign síldarverksmiðja ríkisins, ein deild í síldarverksmiðjum ríkisins, alveg eins og hraðfrystihúsin, því að þótt einhverjir útvegsmenn segi e.t.v. að það sé óskylt að reka niðursuðuverksmiðju og síldarverksmiðju, þá er niðurlagningarverksmiðjan bara nokkurs konar líftryggingarfyrirtæki fyrir síldarverksmiðjur ríkisins til að tryggja sér verkafólk, þegar mest á ríður.