19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í D-deild Alþingistíðinda. (3341)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau ummæli hv. 4. Þm. Reykn. o.fl. þm., sem hér hafa talað um þetta mál, að það þarf að leggja fram fé til að bera kostnað við markaðsöflun fyrir þessar nýju vörur frá verksmiðjunni á Siglufirði. Það þarf að senda ötula menn suður og austur og vestur í heim til að kynna vöruna og reyna að selja hana, og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að leggja fram nauðsynlegt fé í þessu skyni. Hún getur vafalaust fengið sérstaka heimild frá Alþingi til þess, ef hún telur þess þörf. Fyrr en þetta hefur verið gert, lagt fram þetta nauðsynlega fjármagn til markaðsöflunar, hefur sú tilraun, sem hér var byrjað á fyrir nokkru, ekki verið gerð nema að nokkru leyti.