19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í D-deild Alþingistíðinda. (3344)

147. mál, herlið, herflugvélar og hernaðarmannvirki

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram fjórar spurningar; sem allar snerta Keflavíkurflugvöli og herstöð Bandaríkjamanna: „1) Hversu margir bandarískir hermenn eru nú hér á landi, og er það rétt, að fækkað hafi verið í herliðinu að undanförnu? 2) Hvaða tegundir flugvéla eru hér staðsettar á vegum Bandaríkjahers, og til hvers eru þær ætlaðar? 3) Hafa flugvélar með kjarnorkuvopn haft aðsetur eða viðdvöl á Íslandi? 4) Hvaða mannvirki á Keflavíkurflugvelli eru eingöngu til hernaðarnota?“

Þessar spurningar þarfnast ekki mikilla skýringa af minni hendi, enda er um einfalt og sjálfsagt mál að ræða. Ef vel væri og ef hæstv. utanrrh. hegðaði sér yfirleitt eins og starfsbræður hans í öðrum löndum gera, mundi hann flytja slíka skýrslu á Alþingi eins og hér er beðið um á hverju einasta ári og það að eigin frumkvæði. En úr því að hæstv. utanrrh. hefur ekki séð ástæðu til að veita slíkar upplýsingar óumbeðinn, er óhjákvæmilegt, að einhver spyrji. Þær upplýsingar, sem hér er beðið um, eru nauðsynlegar hverjum þeim manni, sem vill íhuga gildi herstöðvanna og rökræða um málið á opinberum vettvangi. Bæði þeir, sem telja einhverja vörn í hersetunni, og líka allir hinir, sem telja vernd hersins aðeins ömurlegan skrípaleik, þurfa á þessum upplýsingum að halda.

Þessar spurningar, sem ég hef hér lagt fram, eru allar það almenns eðlis, að þær eiga ekki að geta verið leyndarmál. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita um allar staðreyndir þessa máls, allar almennar staðreyndir, svo að hún geti dæmt um, hvenær eigi að hætta þessum skrípaleik, sem kallaður er varnir landsins. Sú ósvinna hefur lengi tíðkazt hjá hæstv. utanrrh., að farið er með utanríkismál þjóðarinnar eins og einkamál eða fjölskylduleyndarmál ráðh., og einu fréttirnar, sem Íslendingar fá af herstöðvunum, koma yfirleitt úr erlendum blöðum. Loks má minna á, að aldrei ráðfærir hæstv. utanrrh. sig við utanrmn., þegar eitthvað nýtt er á döfinni í hernámsmálunum. Þetta furðulega pukur er að sjálfsögðu óþolandi í lýðræðisríki, enda þekkjast ekki slík vinnubrögð í nokkru nálægu landi. Í von um, að hæstv. utanrrh, sé mér sammála um, að hin fyrri vinnubrögð séu forkastanleg, hef ég leyft mér að bera fram þessar fjórar spurningar.